Píkusafnið í London, (e. Vagina Museum) hefur lokað dyrum sínum í hinsta sinn en viðskiptamiðillinn Forbes greinir frá þessu. Safnið hafði verið á hrakhólum með húsnæði um skeið en hafði verið í rúmt ár í húsnæði nærri Victoria Square Park í London. Óvíst er hvort að safnið muni opna að nýju en á vefsíðu þess kom fram að innblásturinn að safninu hefðu aðstandendur þess fengið frá Hinu íslenzka reðursafni hér á landi.
„Það er til reðursafn í Íslandi. Sem er mjög töff. En það var ekki til neitt píkusafn neinsstaðar í heiminum. Við vorum undrandi þegar við áttuðum okkur á þessu en það var bara ein leið til að laga þetta. Að stofna slíkt safn sjálf,“ sagði á heimasíðu safnsins.
Píkusafnið naut nokkurra vinsælda en í fyrra heimsóttu um 40 þúsund manns safnið. Húmor einkenndi framsetningu safnsins en þó var fræðsla um kynfæri kvenna í forgrunni.
Í umfjöllun Forbes er eytt smá púðri í umfjöllun um reðursafnið og klikkt út með þeim orðum að þrátt fyrir sorgarsögu píkusafnsins þá njóti limirnir vinsælda á Íslandi.