Leik- og söngkonan Olivia Newton-John er látin, 73 ára að aldri. Eiginmaður hennar, John Easterling, greindi frá andlátinu og sagði að Olivia hafi látist friðsamlega á búgarði þeirra í Kaliforníu í morgun, umkringd vinum og fjölskyldu.
Olivia hafði barist við brjóstakrabbamein í rúmlega 30 ár. Dánarorsök hefur ekki verið opinberuð en samkvæmt TMZ segir heimildarmaður úr nærumhverfi Oliviu að hún hafi tapað áratugalangri baráttunni við krabbamein.
Olivia sló í gegn á áttunda áratug síðustu aldar með slögurum á borð við If Not for You og Have You Never Been Mellow.
Hún sló svo rækilega gegn í hlutverki „Sandy“ eða SöndruDee í kvikmyndinni Grease þar sem hún lék á móti John Travolta.
Stærsti slagari hennar kom svo út 1981, en það var lagið Physical sem var í fyrsta sæti topplista í 10 vikur sem á þeim tíma var nýtt met.
Olivia var líka þekkt fyrir aktívisma fyrir bæði dýrum og umhverfinu.
Olivia gaf reglulega út tónlist og brá fyrir í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum á seinni árum ferilsins. Í desember 2019 komu hún og John Travolta saman til að syngja lögin úr Grease söngleiknum á tónleikum í Flórída og í janúar á síðasta ári gaf hún út nýtt lag, Wondow in the Wall með dóttur sinni Chloe Lattanzy.
Árið 2017 greindi hún frá því að hún væri komin með brjóstakrabbamein í þriðja sinn og hafði það að þessu sinni dreift sér í beininn. Hún var töluvert verkjuð vegna meinsins og var mjög opin með það að nota kannabisolíu til að meðhöndla verkina, en dóttir hennar á kannabis-ræktun í Bandaríkjunum.
Olivia lætur eftir sig eiginmann og eina dóttur.