Myndbandsklippa úr morgunþættinum „Today with Hoda & Jenna“ á NBC hefur farið eins og eldur í sinu um netheima.
Í myndbandinu má sjá gestaþáttastjórnandann Justin Sylvester ýta Jennu Bush Hager, þáttastjórnanda Today, tvisvar í burtu frá sér. Independent greinir frá.
Atvikið átti sér stað í matreiðsluhluta þáttarins. Áhorfendur tóku eftir því að Sylvester reyndi að ýta Bush, sem stóð þétt upp við hann, í burtu, en hún hló og færði sig nær. Hann ýtti við henni aftur og færði hún sig þá í burtu.
Áhorfendur NBC gagnrýndu hegðun Bush á Instagram-síðu sjónvarpsstöðvarinnar. Netverjar sögðu hana of nærgöngula og að hún ætti að virða persónulegt rými annarra.
„Honum leið greinilega óþægilega og var að reyna að ýta henni kurteisislega í burtu,“ sagði einn netverji.
Sylvester, sem kemur reglulega fram í þættinum ásamt aðalþáttastjórnendunum Jennu Bush og Hodu Kotb, tjáði sig um málið í Story á Instagram um helgina. Hann tók fyrir að Bush hafi „ráðist“ inn í persónulegt rými hans.
„Það er ekki sannleikurinn,“ sagði hann og lýsti Bush sem mjög vingjarnlegri manneskju.
„Það sem við vorum að gera var að daðra. Eða ég var að daðra við kokkinn því hann var sætur, og ég var að ýta henni í burtu svo ég gæti fengið meiri tíma einn með honum.“