fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fókus

Brosandi svamparnir komnir til Íslands – „Þau hjá Scrub Daddy úti höfðu heyrt að Íslendingar væru kaupóðir“

Erla Hlynsdóttir
Fimmtudaginn 30. júní 2022 13:23

Jón Rúnar Jónsson elskar að þrífa með Scrub Daddy. Mynd/Sigtryggur Ari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þeir sem fylgjast með samfélagsmiðlum á borð við TikTok og Instagram hafa vafalaust rekist á myndbönd þar sem svampurinn Scrub Daddy er í aðalhlutverki.

Scrub Daddy er þó ekki nýr af nálinni heldur sló hann upphaflega í gegn fyrir áratug í bandarísku þáttunum Shark Tank þar sem fólk kynnir viðskiptahugmyndir sínar fyrir mögulegum fjárfestum og er Scrub Daddy vinsælasta varan sem hefur komið út úr þessum þáttum.  Ekki nóg með það heldur er hann auglýstur sem „America´s Favorite Sponge“.

Nú er svo komið að Íslendingar geta keypt svampinn og ýmsar aðrar vörur fyrirtækisins hér á landi því Jón Rúnar Jónsson, eigandi Hreinn Jónsson ehf., er orðinn samstarfsaðili Scrub Daddy í Bandaríkjunum og farinn að flytja vörurnar inn.

Harður í köldu, mjúkur í heitu

„Ég sá svampinn fyrst á TikTok. Vinkona mín og konunnar var svo að benda okkur á að kaupa svona svamp en ég var ekkert sérlega spenntur. En síðan prófaði ég Scrub Daddy og þá var ekki aftur snúið. Þetta er ekki eins og neinn annar svampur sem maður hefur prófað,“ segir Jón Rúnar.

Maðurinn á bak við Scrub Daddy heitir Aaron Krause og kynnti hann svampinn sjálfur í Shark Tank.  Krause hafði þróað svamp sem hefur þá sérstöðu að harðna í köldu vatni en mýkjast í heitu vatni. Þannig er hægt að nota hann harðan á erfiðari bletti og mýkri í önnur verk.

Í gegn um árin hafa síðan bæst við fleiri vörur, svo sem Scrub Mommy, Sponge Daddy og ýmis hreinsiefni.

Aaron Krause er óhræddur við að bregða á leik með svampana. Mynd/Twitter

Aðhald að utan

Jón Rúnar segist lengi hafa haft augastað á vörumerkinu, hann hafi fengið fyrstu svampana til sín seint á síðasta ári og byrjað að selja þá nú í febrúar.

„Þau hjá Scrub Daddy úti höfðu heyrt að Íslendingar væru kaupóðir og fannst þetta spennandi markaður. Þau höfðu talað við einhverjar verslanir en voru að leita að einhverjum sem áttaði sig á að þetta væri meira en einhver vara, þetta er ákveðið vörumerki sem hefur verið að byggjast upp árum saman. Það er ákveðið ferli sem þarf að fara í gegn um til að fá að selja þessar vörur og uppfylla ákveðin skilyrði,“ segir hann og bætir við að þau fylgist vel með: „Jafnvel þó vörurnar séu seldar um allan heim þá pikkuðu þau einu sinni í mig þegar ég var ekki búinn að setja neitt á samfélagsmiðla í nokkra daga. Þetta er bara frábært aðhald.“

Þetta byrjaði með einum svampi en fleiri vörur hafa síðan bæst við. Mynd/Sigtryggur Ari

Byrjaði í sælgætinu

Jón Rúnar segist einnig hafa hrifist af því að Scrub Daddy hefur sett sér það markmið að verða næsta bylting þegar kemur að umhverfisvænum þrifavörum. Svamparnir séu umhverfisvænir, umbúðirnar umhverfisvænar og hreinsispreyið sé eiturefnalaust.

Nú er hægt að kaupa vörurnar í gegn um vefsíðuna scrubdaddyisland.is en hann segist vera í viðræðum við nokkrar verslanir og stefnan sé tekin á að vörurnar verði aðgengilegar í búðum á næstu mánuðum.

En þetta er ekki fyrsta varan sem Jón Rúnar flytur inn. Hann var áður að flytja inn sælgætið Sour Strips sem var framleitt af bandarískum áhrifavaldi. Sá hafi síðan fundið fyrir miklum vaxtarverkjum þegar hann var að stækka í Bandaríkjunum og ákvað að setja Evrópumarkað á ís.

„Ég er spenntur fyrir því að koma með nýjar og ferskar vörur til Íslendinga. Það er mikill lærdómur fólginn í þessu. Ég finn mikinn mun á því að vera að flytja inn sælgæti eða þessa svampa. Það er mikill meðbyr, bæði því fólk þekkir vöruna af samfélagsmiðlum og margir hafa líka prófað þær,“ segir hann.

Jón Rúnar Jónsson þrífur eins og vindurinn. Mynd/Sigtryggur Ari

„Ég er draslari“

Og Jón Rúnar svarar hreinskilnislega þegar hann er spurður hvort honum finnist gaman að þrífa. „Ég er draslari. Konan er alveg í því að taka upp hluti eftir mig. En það er fátt sem ég elska meira en að setja gott podcast í eyrun og djúphreinsa, taka kannski baðkarið eða vaskinn. Mér finnst minna gaman að taka til. Ef við skiptum með okkur laugardagsverkunum þá myndi ég djúphreinsa ofninn og ísskápinn en hún öll þessi hefðbundnu þrif. Ég hef lúmskt gaman af þessu. Sérstaklega eftir að ég fór að nota almennilegan svamp,“ segir hann kankvís.

En hvaða vörur frá Scrub Daddy skyldu vera í mestu uppáhaldi hjá manninum sem vinnur við að selja þær? „Það er svampurinn, Scrub Daddy sjálfur. Ég er hrifnari af honum en Scrub Mommy en margir vilja hana frekar,“ segir hann en Scrub Mommy er tvískiptur svampur með rakadrægri hlið öðru megin. „Síðan vorum við að fá þvottabursta úr eins efni og Scrub Daddy þannig að hann verður harður í köldu vatni en mjúkur í heitu, og það er frábært að nota hann til dæmis á sturtuglerið eða baðkarið. Skaftið á burstanum er holt að innan og það er fyllt með uppþvottaleginum sem síðan er bara sprautað út. Við vorum líka á fá alhliða hreinsiefni. Þetta þrennt er klárlega málið og hægt að gera mikið með bara þessum vörum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Sonur Elísu og Elíss fæddur

Sonur Elísu og Elíss fæddur
Fókus
Fyrir 2 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Bjútífilterar á samfélagsmiðlum orðnir svo lúmskir – „Þetta er ekki raunveruleikinn“

Bjútífilterar á samfélagsmiðlum orðnir svo lúmskir – „Þetta er ekki raunveruleikinn“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Faðir Olgu var einn þekktasti læknamiðill landsins – „Hann vissi allt“

Faðir Olgu var einn þekktasti læknamiðill landsins – „Hann vissi allt“