fbpx
Mánudagur 04.nóvember 2024
Fókus

Birta Blanco opnar sig um misnotkunina, þunglyndið og ástina – ,,Ég var búin að sætta mig við að deyja“

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Sunnudaginn 26. júní 2022 09:00

Birta Blanco Mynd/Sigtryggur Ari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

,,Ég er búin að byggja mig upp í að vera manneskjan sem ég er í dag. Það á enginn að lenda í svona en ég er kannski á einhvern furðulegan hátt jafnvel þakklát fyrir mina lífsreynslu því ég er svo mikið sterkari en fólk heldur vegna hennar. Og það finnst mér geggjað,” segir Birta Blanco.

Margir virðast hafa skoðanir á Birtu og ófeimnir við að tjá sig um þær. Hún er jú klámdrottning en stúlkan sem tekur á móti blaðamanni í gullfallegri íbúð á höfuðborgarsvæðinu með heitt á könnunni er ómáluð í hettupeysu, lágvaxin og tággrönn. Augljóslega svolítið stressuð og lítur út fyrir að vera yngri hún er, en Birta varð 25 ára fyrir nokkrum dögum.

Flakk á milli fósturheimila

Birta Blanco

Hún er fjölþjóðleg blanda með íslenskt, argentínskt, franskt og ítalskt blóð í æðum. ,,Mamma á íslenska hlutann en pabbi á allt hitt en hann flutti hingað þegar hann var lítill krakki.”

Birta segist alin upp hér og þar, hún var um fimm ára aldurinn þegar hún var sett í fóstur.

,,Ég á eftir að sækja skýrslurnar mínar til Barnaverndarnefndar, ég ætlaði að gera það einhvern tíma en það var eitthvað voða vesen. Ég veit ekki alla söguna en mér var sagt að það væri ekki til nægur peningur á heimilinu til að hugsa um okkur. Við fórum tvö elstu í fóstur, ég og albróðir minn, en í dag á ég sex systkini.

Birta og bróðir hennar fengu að vera saman og minnir Birtu að þau hafi farið á þrjú til fjögur fósturheimili næstu árin. ,,En það var sérstaklega eitt sem ég fílaði  ekki því fósturpabbinn var, hvernig skal orða það? Svolítið brenglaður í hausnum skulum við segja.” Birta þagnar og kinkar kolli spurð að því hvort hún eigi þá við kynferðisáreiti. ,,Ég var þá í sjötta bekk,” segir hún aðspurð um aldur.

Fyrsta skiptið fimm ára

Hún sagði aldrei nokkrum manni frá.

,,Ég kunni ekkert á eigin tilfinningar, þekkti þær varla og gat ekki tjáð mig um þær. Ég skammaðist mín fyrir að þetta hefði komið fyrir og taldi þetta mér að kenna því svona hafði komið fyrir mig áður. Mig minnir að fyrsta skiptið hafi verið þegar ég var fimm ára. Allavega er það fyrsta skiptið sem ég man eftir.”

Aðspurð um hvort um einn eða marga gerendur hafi verið að ræða segir Birta þá hafa verið marga og suma hafa síendurtekið brot sín gagnvart henni.

Birta þagði því sem fyrr um áreitni fósturföðurins en krafðist þess í sífellu að fá að fara heim. Svo fór að á endanum var gefist upp, haft samband við mömmu hennar, og hún fékk að fara til hennar. ,,Þetta var mitt síðasta fósturheimili en bróður minn var ári lengur. ”

Birta Blanco

Birta flutti með móður sinni til Danmerkur og fór þar í skóla, nýbúin með sjöunda bekkinn. Hún segir að vissulega hafi það verið strembið að aðlagast í nýju landi en hún hafi verið fljót að ná dönskunni enda með háar einkunnir í málinu að heiman. ,,Ég var mjög góður námsmaður sem krakki og alltaf með góðar einkunnir í öllu. En svo hröpuðu einkunnirnar meira og meira niður eftir hverju atvikinu á fætur öðru. Öllu því sem kom fyrir mig.”

Vinkonan rukkaði inn

Birta segir margt hafa komið fyrir sem hún geti ekki talað um. Mjög margt. Of margt. En hún er engu að síður reiðubúin að opna sig um ýmislegt.

,,Ég gisti hjá vinkonu minni í Danmörku og hún ákvað að halda partý og bauð fullt af strákum. Út af því að ég hafði lent í svo miklum skít var heilinn í mér mjög kynferðislega brenglaður á þessu tíma og því áttaði ég mig ekki á hvað var að gerast. Jú, það var þarna gaur sem vildi sofa hjá mér og ég fór bara með honum inn í herbergi, þannig var það bara, ég hafði engin mörk á þessu tíma og vissi ekki betur. Svo kom næsti. Og svo næsti og hún var alltaf einhvern vegin að láta það gerast .Það var ekki fyrr en viku eða tveimur seinna að ég fattaði hvað hafði gerst. Það var ekki gaman.”

Birta hinkrar aðeins og lokar augunum, það er henni augljóslega erfitt að rifja þennan atburð upp. ,,Það var leiðinlegt, mjög leiðinlegt. Hún hafði rukkað inn á mig. Þeir voru fjórir sem ég man eftir.”

Birta var fjórtán ára gömul.

Hálft andlitið lamaðist

Hvernig tekur barn slíkri ítrekaðri misnotkun?

,,Síðustu tvö til þrjú árin hafa verið mín bestu ár, tilfinningalega séð og ég hef fundið fyrir bæði skemmtilegum og góðum tilfinningum. En ég hef verið þunglynd alveg frá því ég man eftir mér og er enn með mjög mikinn kvíða og er að vinna í því. En ég var í alvörunni algjörlega tilfinningalega dauð.”

Birta fermdist og kláraði grunnskólann í Danmörku. ,,Reyndar með ömurlegar einkunnir. Í Danmörku er það þannig að öll prófin eru keyrð áfram á einhverjum tveimur dögum. Og ég er með það mikinn prófkvíða að hálft andlitið á mér lamaðist, líka tungan, og ég gat ekki tjáð mig. Varð mállaus. Svo ældi ég á leiðinni heim.”

Birta Blanco Mynd/Sigrtryggur Ari

Fannst engum ástæða til að kanna hvernig stæði á að telpan hrapaði í einkunnum þrátt fyrir augljósa góða greind og jafnvel lamaðist í prófum? Birta hristir höfuðið. ,,Nei, aldrei. Það var enginn sem kom og talaði við mig.”

Og svo lá leiðin aftur til Íslands.

Allt sem ég fékk aldrei

Birta segir að erfitt hafi verið að festa rætur eftir heimkomuna en rætur hafi hún reyndar varla þekkt eftir rótleysi bernskuáranna. ,,Ég hef alltaf verið mikið ein og flutti á milli mömmu og ömmu. Og svo varð ég ólétt sautján ára, reyndar viljandi.”

Hvað fær sautján ára ungling til að verða viljandi ólétt?

,,Mig langaði í barn til að gefa því allt sem ég fékk aldrei. Það má orða það svo að ég hafi viljað gera betur, ef ég á að vera fullkomlega hreinskilin. Og það er að takast geðveikt vel svo að ég er mjög stolt af mér,” segir Birta hlæjandi.

Samband Birtu við barnsföður sinn gekk ekki upp en hún segir þau vera mjög góða vini í dag. ,,Það tók smá tíma en guði sé lof!” Önnur dóttir fylgdi þremur árum síðar en sambandinu við föður yngri dótturinnar lauk eftir rúmlega eitt ár.

,,Það er leiðinlegt en ég man ekki mikið eftir þessum árum. Ég var mjög þunglynd og ekki að vinna í sjálfri mér eins og ég hefði átt að vera að gera. Ég var ýmist að vinna eða á atvinnuleysisbótum en nei, bætur er ekki eitthvað fyrir mig,” segir Birta og hristir höfuðið.

Drakka rosalega mikið

Árið 2019 byrjaði Birta í nýju sambandi og gifti sig í nóvember sama ár. ,,Ég var gift í svona korter, tók Kim K á þetta,” segir Birta og hlær. ,,Nei, svona í alvöru. Ég náði nokkrum mánuðum. Stelpurnar fluttu til pabbanna því ég var bæði svo ofboðslega langt niðri og líka komin í neyslu sem ég var að fela. Ég var farin að taka amfetamín daglega sem er auðvitað langt frá því að vera í lagi. En svo vaknaði ég einn daginn og hugsaði hvað í fjandanum ég væri að gera. Ég fór inn á Vog 2020, byrjaði í AA, og fór að ganga til sálfræðings.”

Birta kláraði sína meðferð og hefur ekki þurft að leita sér hjálpar við fíknisjúkdómi aftur.

Birta Blanco

Hún segist samt sem áður aldrei hafa verið í harðri neyslu. ,,Ég drakk aftur á móti mjög mikið áður en ég átti stelpurnar og þá meina ég rosalega mikið. Ég drakk alltaf þegar ég gat og átti pening fyrir því.”

Birta segir að með dvölinni á Vogi hafi verið um ákveðinn vendipunkt að ræða. ,,Mig langaði líka mikið til að komast í burtu frá þessu sambandi því það var ekki gott. Ekki á neinn hátt.”  Aðspurð um hvort um ofbeldissamband hafi verið að ræða játar Birta því. ,,Þetta samband var litað af andlega og fjárhagslegu ofbeldi. Ég hef oftast lent í andlegu og kynferðislegu ofbeldi en einn fyrrverandi reyndi einnig að kyrkja mig, tvisvar meira að segja. Ég man eftir því að hafa horft í augun á honum og verið búin að sætta mig við að deyja. Þetta var ógeðslegt.”

Birta bendir á hálsinn á sér. ,,Ég fékk mér tattú á hálsinn eftir það. Ég var með svo rosalega marbletti eftir hvern einasta fingur og leið svo illa, fannst eins og þessir marblettir myndu aldrei hverfa af mér. Svo ég lét tattóvera yfir allt svæðið.”

Er óttalegt blóm

Talið berst að þeim fjölmörgu húðflúrum og götum sem Birta skartar. ,,Það er fyndið en útlit mitt gefur til kynna að ég sé rosalega hörð týpa sem ég er ekki. Ég held að miklu leyti sé þetta til að halda karlmönnum í burtu frá mér, sérstaklega gömlum körlum af því þeir fíla ekki tattó og göt. Ég vil að fólk hugsi sig tvisvar, og helst þrisvar, um áður en það talar við mig. Ekki til að vera leiðinleg, alls ekki, heldur til að vernda sjálfa mig því ég er óttalegt blóm. Kannski er það einmitt þess vegna sem ég hef verið misnotuð þetta mikið.  Ég hef mikið pælt í þessu og rætt þetta við sálfræðinginn minn sem hefur sagt að ég þurfi að skoða þetta betur, þekkja sjálfa mig og mín mörk. Sem ég er að gera núna og gengur mjög vel.”

Birta segir mörk vera fremur nýtilkomin í sitt líf. ,,Ég hafði aldrei nein mörk, ég vissi ekki einu sinni hvað hugtakið þýddi, það leiðbeindi mér enginn. En það gengur mjög vel í minni sjálfsvinnu.”

Ljóta ruglið

Talið berst að dætrunum og Birta lýsist hreinlega upp. Eldri dóttir Birtu býr á Eyrarbakka hjá pabba sínum en flytur til mömmu sinnar í ágúst. ,,Sú yngri býr hjá pabba sínum í Danmörku og er á geggjuðum leikskóla, staðsettum úti í skógi með fullt af dýrum. Ég er að fá hana heim núna í júlí og ég verð með þær báðar hérna. Ég get ekki beðið. Ég ætla að gera svo margt með þeim. Ég er að deyja, ég hlakka svo til.”

Birta var tilkynnt til Barnaverndar eftir að hún byrjaði á OnlyFans, einhverjum fannst hún ekki geta verið boðleg móðir verandi nakin á netinu ,,Þeir komu einu sinni og þeir koma ekki aftur. Það var nú ljóta ruglið,” segir Birta og hristir höfuðið.

Finnst þetta augljóslega of vitlaust til að ræða frekar.

Úr vændi á OnlyFans

Og talandi um OnlyFans, hvernig kom það til að Birta byrjaði þar?

,,Ég var mjög kynferðislega brengluð og vissi að það væri slæmt. Áður en ég byrjaði að ganga til sálfræðings var ég byrjuð að vinna í sjálfri mér því ég vissi hvað þetta var brenglað, að sofa hjá einhverjum sem ég vildi ekki sofa hjá og gera hluti sem ég vildi ekki gera. Mig hafði alltaf langaði til að gera eitthvað svipað svo ég hugsaði að ég skyldi bara láta vaða en gera þetta á minn hátt og á mínum forsendum. Sjálf með fulla stjórn á þessum hluta lífs míns sem átti stærsta partinn í að brjóta mig niður. Og það hefur hjálpað mér sjúklega mikið.”

Birta Blanco

Birta hafði stundað vændi áður en hún fór á OnlyFans. Hún segir gríðarlega eftirspurn eftir vændi hér á landi. Sjálf notaði hún einkamal.is til að auglýsa ,,þjónustu” sína. ,,Ég gerði karlmönnum þetta auðvelt. Ég var með notendanafnið ,,veskið þitt” sem segir allt sem segja þarf. Svo spjallaði ég við karlmenn og hitti þá sem mér leist vel á. Sumir þeirra urðu ,,fastakúnnar”.

Er ekki mikla peninga fyrir unga og fallega konu að hafa upp úr vændi á Íslandi? ,,Jú, ef þú ert dugleg þá er hægt að hafa gott upp úr þessu. Þetta var ekki beinlínis leiðinlegt en ekki það sem ég vildi gera í mínu lífi. Og svo var ég kynnt fyrir OnlyFans, byrjaði að taka videó og myndir, og þetta fór að rúlla.”

Typpi eru allskonar

Birta byrjaði á OnlyFans í apríl 2020 og hafa vinsældir hennar aukist stöðugt. Hún er bæði með innlenda og erlenda áskrifendur og á öllum aldri. Mikil samkeppni er á síðunni og spurð að því hvað hennar leyndarmál að baki vinsældunum er Birta fljót til svars. ,,Það er persónuleikinn. Ég er bara ég sjálf, ekki að búa til nýja persónu eða leikrit sérstaklega fyrir OnlyFans. Það held ég að hafi helst komið mér áfram.”

Birta segist algjörlega hafa vanmetið vinnuna við OnlyFans, hafa haldið að það þyrfti lítið annað en að kveikja á upptöku. ,,En ég er oft í fleiri klukkutíma með eitt videó og það fer rosalegur tími að tala við hvern einn og einasta sem talar við mig inni á þessari síðu. Ég svara öllum.” Á fríhluta síðunnar kostar það að tala við Birtu en það fylgir í áskrift. ,,Og svo kostar aukalega ef karlmenn vilja tala dónalega. Það reyna margir reyndar að tala dónalega án þess að borga. Eða senda mynd af typpinu á sér.”

Slík er ásóknin í að senda myndir af fermingarbróðirinum að Birta er með sérstaka verðskrá fyrir það eitt að taka á móti slíkum. ,,Ég er til dæmis með ,,dick rating” en þá tala ég við þá um kosti og galla þessa ákveðna typpis og gef því einkunn.”

Einkunn? Á hverju byggist hún? Eru ,,fegurðarstaðlar”? Birta skellihlær. ,,Þetta er auðvitað persónubundið og ég byrja alltaf á að segja það. Typpi eru reyndar allskonar. Svo býð ég upp á þann möguleika að dæma typpi á neikvæðan hátt fyrir þá sem það vilja. Það eru mjög margir að ég sé virkilega leiðinleg við þá, vilja vera niðurlægðir.”

Verð stundum mjög einmana

Hún hefur  aldrei litið um öxl eftir að hún byrjaði á OnlyFans. ,,Ég ætla að vera í þessu eins lengi og það veitir mér hamingju. Og um leið og ég finn ekki til hamingju hætti ég. En það eru líka aðrir hlutir sem mig langar til að gera og þótt ég sé að fara að gera annað sem kannski mun ná langt, ætla ég ekki að hætta. En það er leyndarmál hvað ég er að fara að gera.”

Hvað finnst Birtu gaman að gera í tómstundum og fjarri myndavélunum? Hún hugsar málið. ,,Ég fer aldrei í ræktina, hef reynt það, en það er ekki fyrir mig. Ég les ekki, fer ekki í tölvuleiki, ég á reyndar sjónvarp en það er ekki tengt. Ég er mjög skrítin og finnst þægilegt að vera ein jafnvel þótt ég verði stundum mjög einmana. Ég er samt alltaf að gera eitthvað og ef ég er ekki að vinna er ég með krökkunum, vinum mínum eða bróður.  Annars er ég mjög mikil listakona. Ég teikna mikið og lita en gef mér ekki nógu mikinn tíma í það sem mig langar að gera. Sem er eitthvað sem ég þarf að vinna í.”

Elska svo harkalega

Birta er fjölkær og á fimm maka. ,,Ég á einn maka sem ég hitti stöku sinnum annaðhvort hér heima eða útlöndum. Svo er ég að deita par sem býr hérna mjög nálægt, ég hitti þau mest, og svo eru það Ingibjörg og Tryggvi sem eru í Mývatnssveit.

Málið með svona fjölkæri er að það er öðruvísi en samt ekkert öðruvísi. Í stað þess að vera með einn maka sem þú setur þá pressu á að gefa þér allt sem þú þarft, ertu með nokkra og færð kannski allt sem að þig vantar en það deilist niður á nokkra aðila. Þá er minni pressa á fólki og mér finnst þetta geðveikt fallegt.

Ég elska líka svo rosalega harkalega og á nóga ást til að gefa fimm einstaklingum. Og ég mun bæta í, ég hef meiri ást að gefa. Það eru nefnilega hellings tilfinningar og þær geta alveg farið út í afbrýðisemi. Ég þurfti að vinna mikið í sjálfri mér til að gera verið með þetta marga maka. Ég var ógeðslega afbrýðisöm og það mátti enginn horfa á makana mína í denn en í dag er ég fullkomlega sátt.”

Hún segir engan þeirra maka sem hún sé með í dag vera einhvern sem hún væri til í að giftast eða búa með. ,,Ég væri alveg til í að eiga einn ,,aðalmaka” til að búa með en ég held að ég sé ekki alveg hundrað prósent til í það núna.”

Birta segir útilokað að hún geti farið í einkvænissamband. ,,Ég er virkilega búin að láta á það reyna og það bara virkar ekki. Það er ekki hægt, ekki fyrir mig.”

Birta byrjar allt í einu að hlæja. ,,Á ég að segja þér svolítið fyndið? Ég fór í afmæli til mömmu um daginn og amma mín var þar. Amma veit ekki að ég er í fjölkærissamböndum og spurði hvar kærastinn hennar Birtu væri. Og mamma sagði þá: ,,Þau komust örugglega ekki öll í bílinn.” Þetta er það besta sem hún hefði nokkurn tíma getað sagt! Birta hlær. ,,Hún negldi það. En amma fattaði það ekki”


Með skyggnigáfu frá barnæsku

Birta er skyggn.

,,Það eru ekki margir sem vita það. Ég heyri og sé hluti og get lesið í árur.” Hún segist hafa verið með þessa gáfu frá því hún var barn. ,,Ég man að þegar ég var á leikskóla var alltaf einhver skuggavera með mér sem var mjög furðulegt.” Hún nefnir annað dæmi um fósturforeldrana fyrrnefndu. ,,Þau gátu ekki eignast börn en í eitt skiptið þegar ég var að fara að sofa heyrði ég fótspor og heyrði krakka hlaupa fram hjá herberginu mínu. Ég fór á fætur en það var enginn þar og allir sofandi. En eftir að ég fór frá þessum hjónum eignuðust þau þrjá krakka.

Birta segir nærveruna misgóða eftir því hver vilji komast í gegn. ,,Ég er ekki það góð í þessu að geta ráðið hver kemur í gegn. Þetta kemur þegar það vill koma. Ég er líka berdreymin og hef séð fyrir ýmsa hluti. Ég er svo margt og allskonar.

Fólk hefur spurt Birtu hvort hún vilji loka á þetta en það vill hún alls ekki. Það kemur stundum eitthvað sem er ekki gott en það er svo mikið meira gott, af góðum verum, ljósverum.

Birta á einnig verndarverur. ,,Ég á tvo álfa sem eru hoppandi og skoppandi í kringum mig og líka hana langömmu mína. Ég finn að ég fæ leiðbeiningar og líka undirbúning fyrir erfiða tíma.

Það er nefnilega eitthvað til sem ekki tilheyrir þessari plánetu, einhver vera sem stendur að baki mér. En ég veit ekki hvað á að kalla það.

 Sennilega er ég skrítin en bara á góðan hátt,” bætir hún við.

Klámstimpillinn of fastur

Birta veit ekki hvaðan styrkur sinn komi, sami styrkur og hefur fleytt henni í gegnum lífið og telur ekki ósennilegt að hann komi úr öðru lífi. ,,Mig langar til að nýta minn styrk til að hjálpa fólki og mun gera það á öðruvísi hátt með leyndarmálinu mínu. Mig langaði alltaf til að verða sálfræðingur en veit ekki hvort ég mun nokkurn tíma geta gert það, ekki eftir að hafa verið í klámbransanum. Stimpillinn er of fastur í hausnum á mér. Skólaganga er reyndar ekki fyrir mig svo ég efast um að ég eigi eftir að fara í sálfræðinám.

En kannski get ég hjálpað á annan hátt, maður veit aldrei hvað gerist, en ég ætla að gera mitt besta, segir Birta Blanco.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Þorvaldur missti föður og tengdaföður með nokkurra mánaða millibili – „Ekki enn búinn að ná að fara í gegnum sorgina almennilega“

Þorvaldur missti föður og tengdaföður með nokkurra mánaða millibili – „Ekki enn búinn að ná að fara í gegnum sorgina almennilega“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Stjörnuparið skilið eftir þriggja ára samband – Hver er ástæðan?

Stjörnuparið skilið eftir þriggja ára samband – Hver er ástæðan?
Fókus
Fyrir 5 dögum

Sonur Alexöndru og Gylfa Þórs fæddur og nefndur

Sonur Alexöndru og Gylfa Þórs fæddur og nefndur
Fókus
Fyrir 5 dögum

Jódís hættir í pólitík og setur húsið á sölu

Jódís hættir í pólitík og setur húsið á sölu