fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fókus

Geir Ólafs segir að stemningin á Íslandi sé grimm og neikvæð – „Það er alltaf einhver að gagnrýna einhvern“

Fókus
Þriðjudaginn 6. desember 2022 08:49

Geir Ólafs í hlaðvarpsþætti Sölva Tryggva. Skjáskot/YouTube

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Geir Ólafsson söngvari er nýjasti gesturinn í Podcasti Sölva Tryggvasonar. Hann hefur glímt við kvíða síðan hann var barn og segir frá þeirri baráttu í þættinum.

„Ég er búinn að vera mikill kvíðasjúklingur síðan ég man eftir mér og auðvitað hefur það háð mér mikið í gegnum tíðina. Ég man eftir fyrstu kvíðaköstunum mínum þegar ég var bara sex ára og hefði líklega átt að fá alvöru aðstoð þá, sem ég fékk ekki. En það sem er kannski erfiðast núna er félagsfælnin. Ég fæ oft vanlíðan og einkenni þegar ég er í margmenni og þarf að passa mig þegar ég kem fram og syng. Þá er ég ekki of nálægt fólkinu og undirbý mig vel og er yfirleitt með einhverjum sem ég treysti. En almennt er ég ekki mikið í margmenni og þegar ég fer í bíó verð ég að vera í sæti nálægt útganginum svo dæmi sé tekið. Það verður auðvitað lýjandi að glíma við svona lagað í langan tíma. En ég er þakklátur fyrir það hvar ég er staddur í dag og hef lært að lifa með þessu,“ segir hann.

Mistök að bjóða sig fram

Geir bauð sig nýlega fram í sveitastjórn fyrir Miðflokkinn. Hann hlær þegar hann er spurður út í það og segir það hafa átt sér stað fyrir mistök sem undu upp á sig.

„Ég fæ reglulega alls konar símtöl frá alls konar fólki og ég svara oftast. Svo er það einn daginn að það er hringt í mig og ég beðinn um að vera á lista fyrir Miðflokkinn í síðustu kosningum. Ég hugsaði með mér að þetta væri enn eitt grínið og ákvað að taka bara þátt og sagðist vera klár í þetta og hlakka til. Svo pældi ég ekkert meira í þessu og hélt að þetta hefði verið símaat. En svo fæ ég símtal skömmu fyrir kosningar þar sem ég er beðinn um að skrifa undir einhver plögg og þá hugsaði ég með mér að ég gæti ekki bakkað út úr þessu. Ég var settur í annað sætið á listann og það var bara mjög gaman að taka þátt í þessu. En almennt er ég ekki hrifinn af hjarðarhegðun og flokkapólitík og mér finnst að það ætti að gefa Íslendingum kost á að kjósa fólk með því að hafa persónukjör,“ segir hann.

Eftirminnileg atvik

Geir fer í þættinum yfir eftirminnileg atvik frá ferlinum. Meðal annars þegar hann söng fyrir Vladimir Pútín og fleiri valdamenn í höll í Moskvu.

„Maður labbar ekkert bara í gegnum venjulega hurð þegar maður hittir svona menn. Ég var leiddur af öryggisvörðum í gegnum einar dyr sem læstust síðan á eftir mér og svo aðrar dyr sem læstust líka og svo koll af kolli. Mér var hætt að lítast á blikuna þegar ég var kominn í gegnum helminginn af dyrunum og kominn með innilokunarkennd á háu stigi. Þegar ég var svo mættur fyrir framan Putín og hina valdamennina voru þeir allir frekar þungir á brún eins og Rússar eru oft og ég var orðinn hálfsmeykur. En svo byrjuðu þeir að brosa og léttast þegar ég byrjaði að syngja „My Way“ og það var mikill léttir. Eftir á að hyggja var þetta mjög skemmtileg reynsla og eins og svo margt í mínu lífi hálf óraunverulegt. En ég er gríðarlega þakklátur fyrir það hvað ég hef fengið að koma fram víða og fyrir marga,“ segir hann.

Endaði í sjúkrabíl eftir tónleika í Bógóta

Aðrir eftirminnilegir tónleikar hjá Geir áttu sér stað í Bógóta í Kólumbíu, þar sem hann endaði í sjúkrabíl:

„Ég var bara nýkominn til Bógóta þegar tónleikarnir áttu sér stað og hafði ekki undirbúið líkamann nægilega vel. Þetta var stór kvikmyndahátíð og mikið tækifæri fyrir mig, en borgin er vel á þriðja þúsund metra yfir sjávarmáli og fann það fljótt eftir að ég byrjaði að syngja að eitthvað var að. Ég varð andstuttur, fékk höfuðverk og sjóntruflanir og svo versnaði það bara og versnaði þar til ég var sendur á spítala með háfjallaveiki. Ég þekki kvíða vel, en þetta var allt öðruvísi og eiginlega bara ömurleg vanlíðan. Það er líklega ekki það sniðugasta sem maður gerir þegar líkaminn er í hæðaaðlögun að fara upp á háa C-ið og það endaði bara í sjúkrabíl. En reynslan sem ég fékk af heilbrigðiskerfinu í Kólumbíu var frábær,“ segir hann.

Auðmýkt og þakklæti

Geir segist með árunum hafa lært að tileinka sér auðmýkt og þakklæti.

„Þegar maður eldist verður maður að nota skynsemina. Maður hefur ekkert leyfi til að setja sig á háan hest og þykjast betri en annað fólk. Besta leiðin til að ná til fólks er að vera hógvær, koma vel fram við fólk og draga úr dómhörku. Það eru allir að gera sitt besta við misjafnar aðstæður. Maður má ekki sofna á verðinum og láta hrokann koma aftan að sér. Ég minni mig alla daga á að vera þakklátur fyrir konuna mína og dóttur mína. Ég væri ekki þar sem ég er í dag ef ég hefði ekki kynnst konunni minni og hún er það besta sem hefur komið fyrir mig. Ég er líka gríðarlega þakklátur fyrir tækifærin sem ég fæ í tónlist og fjölskylduna mína og reyni að jarðtengja mig alla daga og minna mig á að vera auðmjúkur og þakklátur,“ segir hann.

Grimm stemning á Íslandi

Geir segist gera sitt besta alla daga til að koma vel fram við náungann og finnst á köflum stemmningin á Íslandi vera full grimm og neikvæð.

„Það er alltaf einhver að gagnrýna einhvern og svo kemur einhver annar og gagnrýnir þann fyrir að vera að gagnrýna og þetta endar bara eins og hver önnur hringavitleysa. Það leiðir mann ekki neitt að vera stanslaust með neikvæðar skoðanir á öðru fólki. Ég held að eitt það besta sem ég hef lært er að verða betri í að halda kjafti. Það lagar mjög mörg vandamál að vera ekki alltaf með skoðanir á öllu saman og læra að anda í magann áður en maður hefur eitthvað mjög neikvætt til málanna að leggja. Skoðanir og gagnrýni kallar mjög oft bara á fleiri skoðanir og meiri gagnrýni. Þetta er fámennt land sem við búum í og við hljótum að geta gert betur í að koma vel fram við hvort annað og róað okkur í að vera að segja eitthvað neikvætt um náungann,“ segir hann.

Þáttinn með Geir og alla aðra Podcastþætti Sölva Tryggvasonar má nálgast inni á: SölviTryggva.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Hvalur sprakk í tætlur

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Eva Ruza fer í skóför Felix

Eva Ruza fer í skóför Felix
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu
Fókus
Fyrir 3 dögum

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sonur Elísu og Elíss fæddur

Sonur Elísu og Elíss fæddur
Fókus
Fyrir 4 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“