fbpx
Laugardagur 03.desember 2022
Fókus

„Maðurinn sem veit allt og deyr aldrei“ – Sagan af dularfulla greifanum sem engin vissi hver var en allir þekktu

Fókus
Laugardaginn 17. september 2022 22:07

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hverjum dreymir ekki um að vera ódauðlegur? Þó svo að í frægu lagi hafi verið spurt hverjum langi eiginlega að lifa að eilífu þá er það gjarnan svo að okkur finnst við hafa fengið styttri tíma úthlutað í þessu jarðlífi en við vildum. Lengi hafa því allskonar sögur gengið um fólk sem talið er hafa fundið lausnina að því hvernig hægt sé að svíkja dauðann.

Ein slík saga er sagan um ævintýralega dularfulla greifann af Saint Germain.

Dularfullur greifi handtekinn í Englandi

Árið 1745 var dularfullur maður handtekinn í London og ákærður fyrir njósnir. Hann kallaði sig greifann af Saint Germain og í næstum 200 ár átti greifi þessi eftir að vera viðstaddur marga af stærstu pólitísku viðburðum í heiminum og alltaf leit hann út fyrir að vera á fimmtugsaldri. Sumir héldu að hann hefði jafnvel verið uppi á sama tíma og Kristur og aðrir halda því fram að greifinn sé enn þarna úti jafnvel daginn í dag.

Greifinn var handtekinn á kaffihúsi grunaður um njósnir og hann var færður til yfirheyrslu. Þar lærðu menn hratt að greifinn var reiprennandi í mörgum tungumálum. svo sem frönsku, þýsku, hollensku, spænsku, rússnesku og ensku en svo var hann einnig vel fær í kínversku, latínu, arabísku og jafnvel grísku og í sanskrít.

Greifinn harðneitaði að gefa upp hvaðan hann var eða hvað hann héti.

Hann reyndist hæfileikaríkur á fleiri sviðum en tungumálum. Hann var sagður með fallega söngrödd, hann gæti samið tónverk og spilaði á fiðlu svo vel að fólk gæti hafa haldið að hann væri frægur tónlistarmaður. Hann virtist vera 45 ára að aldri en enginn kannaðist þó við hann. Í haldi gat hann upplýst um smáatriði frá sögulegum viðburðum sem aðeins vitni á staðnum hefðu átt að vita. Á þessum tíma ríkti mikil tortryggni í ensku samfélagi, sérstaklega í garð útlendinga, en engu að síður tókst greifanum að töfra fangaverði og var sleppt úr haldi.

Fljótlega spurðist það út að greifinn væri til og að hann væri verulega dularfullur og mörgum kostum gæddur. Þar krónprinsinn frétti af þessu vildi hann berja þennan mann augum. En þá var greifinn horfinn.

Dularfullur greifi birtist í Frakklandi

Árið 1748 birtist dularfullur maður í París, klæddur í einfaldan en glæsilegan fatnað, þakinn demöntum, með hring á hverjum fingri og jafnvel demants sylgjur á skónum sínum. Hann virtist vera um 45 ára gamall og kallaði sig greifann af Saint Germain. Hann virtist birtast úr þurru lofti en var fljótur að vekja mikla athygli meðal hirðarinnar enda virtist hann vera auðmaður þó enginn vissi hvaðan hann kæmi eða hvaðan hann hafði fengið alla þessa peninga.

Fljótt varð vinsælt að fá greifann til að mæta á allar heldri samkomur. Hann var hæfileikaríkur píanóleikari, söngvari og gat spilað svo fallega á fiðlu að fólki átti það til að tárast. Hann var frábær í samræðum og gat heillað alla saman hvaðan þeir komu. Hann virtist vita allt hvað varðaði sögu og vísindi, sögu listarinnar, heimspeki og stjórnmál. Hann gat sagt frá sögulegum viðburðum eins og hann hefði sjálfur verið á svæðinu og ef einhver spurði hann hvernig hann vissi svona mikið þá brosti hann og svaraði – Ég var þar.

Hann var málkunnugur mörgum af þekktum nöfnum sögunnar þar á meðal hinum heillandi Casanova, hinum ljóðræna Voltaire, hinum ástkæra Loðvík IV Frakklandskonung og ástkonu hans, hinni listelskandi Madame de Pompadour, og þar eru aðeins fáein dæmi tekin.

Voltaire kallaði hann manninn sem aldrei deyr

Maðurinn sem veit allt og deyr aldrei

Greifinn var einnig talinn búa yfir einstökum hæfileikum á sviði alkemíu, þeim dularfullu fræðum þar sem reynt er að stjórna frumefnunum. Fyrst og fremst var markmiðið þeirra fræða að finna leið til að skapa svokallaðan viskustein sem átti að geta breytt málmum á borð við blý í silfur eða gull. Eins leituðu margir í alkemíu til að reyna að búa til lífs-elixír sem gæti tryggt þeim sem drykki hann eilíft líf.

Greifinn hélt því fram að hann hefði uppgötvað leyndarmál viskusteinsins og eins leyndarmál hins elífa lífs.

Voltaire mun hafa sagt um greifann: „Hann er maðurinn sem veit allt og deyr aldrei“.

Í veislu einni mun greifynja nokkur hafa kannast svo við Saint Germain að hún gat svo svarið það að hún hafi hitt föður hans fimmtíu árum fyrr í Feneyjum. Hún hafi ekki getað setið á sér og vikið sér að Saint Germain og spurt hvor það gæti verið að faðir hans hafi verið í Feneyjum á þeim tíma. Hann svaraði: Nei frú, það var ég sem var þess heiðurs aðnjótandi að hitta þig á þeim tíma. Saint Germain gat svo rifjað upp þá fundi niður í minnstu smáatriði, greifynjunni til mikillar furðu, enda hafði sá maður sem hún hitti fimmtíu árum fyrr litið út fyrir að vera 45 ára, alveg eins og greifinn var þarna í veislunni.

Madame, Ég er mjög gamall,“ hafi greifinn þá svarað sposkur á svip.

„En þú ert þá næstum 100 ára gamall,“ hafi greifynjan þá stunið upp í furðu sinni.

„Það er ekki ómögulegt,“ sagði greifinn þá.

Loðvík 15 heillaðist af greifanum

Viskusteinn og lykillinn að eilífu lífi

Fljótlega frétti Loðvík 15  Frakklandskonungur af greifanum og sögunum sem af honum gengu. Það sem vakti athygli hans var þó sú saga að greifinn kynni að fjarlægja galla úr demöntum, en slíkt gæti aukið virði gimsteinanna gífurlega. Hann ákvað því að bjóða greifanum til sín í Versali.

Þar sló greifinn í gegn hjá hirðinni líkt og annars staðar. Casanova er sagður hafa sagt um fyrstu kynni þeirra. „Hann var fræðimaður, tungumálasérfræðingur, tónlistarmaður og efnafræðingur. Og snilli hans í samræðum var í sérflokki. Casanova tók fram að greifinn borðaði aldrei, hann drakk ölkelduvatn og fékk sér einstaka sinnum jurtate, en aldrei sást hann borða mat af nokkurri gerð.

Þarna var greifinn kominn til Versala með allan þann búnað sem hann þurfti til að gera alkemíutilraunir sínar. Hann bjóð til andlitsfarða og farðahreinsi fyrir dömurnar við hirðina sem þær héldu fram að hefðu yngt þær um nokkur ár. Hann sagði konungi frá aðferðum sínum við að lita efni í fatnað sem myndi auka virði þeirra. Greifinn sagði konungi að hann hefði nýlega varið fimm árum í Persíu þar sem hann hefði lært gimsteinafræði og lært þar forna leynda aðferð til að fjarlægja galla úr gimsteinum. Jafnvel hélt hann því fram að hann gæti stækkað steina með því að bræða nokkra saman. Konungurinn hafi þó verkið skeptískur en þá hafi greifinn sagt – Yðar hátign ég horfði á Krist breyta vatni í vín og demantar eru bara lítið mál í samanburðinum.

Konungurinn lagði þá fyrir greifann próf. Hann afhenti honum gallaðan stein og fól honum að laga hann. Mánuði síðar hafi gallinn verið farinn úr steininum.

Eftir þetta hafi greifinn verið tíður gestur meðal hirðarinnar í höllinni næstu árin og svo unnið á daginn í tilraunastofunni sem konungurinn hafði orðið honum út um.

Dag einn hafi svo konungur ætlað að heimsækja greifann. En hann var þá horfinn sporlaust.

Casanova þekkti greifann

Greifinn skýtur aftur upp kollinum

Casanova sagði líka um greifann: „Þessi ótrúlegi maður.. átti til að segja afslappaður og viss með sig að hann væri 300 ára gamall og hann vissi leyndarmál alheims læknisfræðinnar, að hann hefði vald yfir náttúrunni, hann gæti brætt demanta og að allt þetta væru hversdagsleg verkefni fyrir honum.“

Í gegnum 18. öldina átti greifinn eftir að skjóta upp kollinum víða. Í Indlandi, í Haag þar sem hann reyndi að stilla til friðar milli Prússa og Austurríkis, í Þýskalandi, í Rússlandi þar sem hann tók þátt í að koma Katrínu miklu til valda, í Hollandi að reyna að binda endi á sjö ára stríðið. Alltaf leit greifinn út fyrir að vera 45 ára samkvæmt þeim sögum.

1774 er hann sagður hafa snúið aftur til Frakklands og varað Loðvík 16 og Marie Antoinette við frönsku byltingunni – 15 árum áður en hún átti sér stað.

1776 þegar sjálfstæðisyfirlýsing Bandaríkjanna var undirrituð er sagt að í salnum hafi verið dularfullur maður sem hvatti þá sem voru hikandi við að skrifa undir yfirlýsinguna til að sýna hugrekki. Sá maður hafi verið um 45 ára gamall og horfið jafn skyndilega og hann birtist.

Árið 1779 vingaðist Saint Germain við Karl Þýskalandsprins og varði næstu fimm árunum sem gestur í kastala prinsins. Síðan þann 27. febrúar 1784 lét greifinn lífið úr lungnabólgu og varð lagður til hinstu hvílu í kirkjugarði á svæðinu.

Greifinn af Saint Germain

Greifinn gengur aftur

En sagan er þar ekki búin. Greifinn átti eftir að skjóta upp höfði í sögunni í gegnum 19 og 20 öldina.

Árið 1785 hafi hann sést í Þýskalandi með dáleiðslumeistaranum Anton Mesmer. Skömmu síðar hafi frímúrarnir í Frakklandi valið greifann sem fulltrúa sinn.

Hann hafi átti samtal við Greifynjuna dAdhémar árið 1789 eftir frönsku byltinguna. Hann hafi sagt henni framtíð Frakklands, eins og hann vissi nákvæmlega hvað væri að fara að gerast. Árið 1821 skrifaði hún: „Ég hitti SaintGermain aftur, í hvert sinn mér til undrunar. Ég sá hann þegar drottningin var myrt, á þann 18 af Brumaire, á deginum eftir andlát hertogans af dEnghien í janúar, 1815, og á kvöldinu þegar hertoginn af Berry var myrtur.“ síðasta skiptið sem hún sá hann hafi verið árið 1820 og alltaf hafi hann litið út fyrir að vera á fimmtugsaldri.

1821 gæti SaintGermain hafa tekið sér annað nafn. Í endurminningum Albert Vandam skrifar hann um að hitta mann sem hljómar mjög svipaður Saint Germain en notaðist við nafnið Major Fraser.

„Hann kallaði sig Major Fraser, bjó einn og talaði aldrei um fjölskyldu sína. Hann var loðinn um lófanna þó að uppspretta auðæfanna væri öllum hulin ráðgáta. Hann bjó yfir ótrúlegri þekkingu um öll lönd í Evrópu á öllum tímabilum. Minnið hans var ótrúlegt og forvitilegt nóg, þá gaf hann oft til kynna við þá sem á hann hlýddu að hann hefði fengið þessa vitneskju annars staðar frá en úr bókum. Mörgum sinnum sagði hann mér, með furðulegu brosi, að hann væri viss um að hann hefði þekkt Neró, hefði rætt við Dante og svo framvegis.“

Major Fraser hvarf svo sporlaust.

Aftur skaut hann upp kollinum árið 1897, en þá mun fræga franska söngkonan Emma Calve hafa tileinkað áritaðri mynd sér sér greifanum.

Í fyrri heimsstyrjöldinni , árið 1914, var greifinn handsamaður. Bavarískir hermenn sögðu að hann hafi talað fjölda tungumála og ekki viljað gefa upp hvaðan hann kæmi. En hann sagði þeim hins vegar að stríðinu myndi ljúka árið 1918.  Hann hafi líka sagt að einræðisherra úr lægri stéttunum myndi notast við fornt merki og leiða Þýskaland inn í aðra heimsstyrjöld árið 1939 og það myndi taka sex ár að sigra Þýskaland. Hermennirnir eru sagðir hafa fundist greifinn svo óþægilegir að þeir slepptu honum.

Árið 1972 sagði maður að nafni Richard Chanfrey í París að hann væri sjálfur greifinn. Hann mætti í sjónvarpið og til að sanna mál sitt virtust hann breyta blý í gull á eldavél fyrir framan myndavélar. Sá maður tók eigið líf árið 1983.

Og þetta eru aðeins fáein dæmi um skiptin sem greifinn á að hafa sést eftir að hann lét lífið.

Greifinn og Richard
Richard sagðist vera greifinn

Maður með ekkert nafn og engan uppruna

Það er nokkuð ljóst að greifinn var vissulega til. Þó veit enginn fyrir víst hvað hann hét eða hvaðan hann kom. Líklega hafa sannar sögur af honum tekið stakkaskiptum og farið að minna meira á goðsögn heldur en raunverulegar frásagnir.

Því er jafnvel haldið fram að greifinn hafi verið óskilgetinn sonur Francis II Rákósziv, prinsins af Transylvaníu. Það gæti skýrt hvaðan peningar hans komu og hvers vegna hann var svona vel menntaður og vildi ekki segja til nafns.

Saint Germain er sagður hafa sagt Karli Þýskalandsprins að hann væri 88 ára þegar þeir kynntust sem þýðir að hann hafi fæðst einhvern tímann árið 1691. Hann virðist hafa byrjað að kalla sig greifann af Saint Germain einhvern tímann á fimmta áratug 18. aldar.

Eins hefur verið bent á að tilvitnanir frá aðilum á borð við Voltaire og Casanova hafi verið slitin úr samhengi. Þeir hafi í raun verið að hæða þennan dularfulla greifann og furðulegu sögurnar sem hann hélt fram. Loðvík konungur hafi trúað greifanum því hann var ekkert rosalega góðum gáfum gæddur og Saint Germain hafi haft lag á því að nýta sér slíkar aðstæður.

Líklega er sannleikurinn því sá að hér hafi verið á ferðinni loddari með góðan og fjárhagslega sterkan bakgrunn sem kunni að blekkja fólkið í kringum sig, nógu mikið til að hann lifir enn góðu lífi í dag – sem goðsögn.

En eins og sagt hefur verið – Deyr fé, deyja frændur, deyr sjálfur ið sama. En orðstír deyr aldregi hveim er sér góðan getur. Eða í hans tilviki þeim sem býr sér til orðstírinn sjálfur.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Aðdáendur áhyggjufullir – Simon Cowell nær óþekkjanlegur

Aðdáendur áhyggjufullir – Simon Cowell nær óþekkjanlegur
Fókus
Í gær

Fyrrverandi klámstjarna sakar eiginmanninn um framhjáhald – Gerði það sama við Söndru Bullock

Fyrrverandi klámstjarna sakar eiginmanninn um framhjáhald – Gerði það sama við Söndru Bullock
Fókus
Fyrir 2 dögum

„Mannabörn“ fá minna á broddinn

„Mannabörn“ fá minna á broddinn
Fókus
Fyrir 2 dögum

Ari Eldjárn og Linda hætt saman

Ari Eldjárn og Linda hætt saman
Fókus
Fyrir 3 dögum

5 hlutir sem rannsóknarlögreglukona bannar börnunum sínum til að vernda þau

5 hlutir sem rannsóknarlögreglukona bannar börnunum sínum til að vernda þau
Fókus
Fyrir 3 dögum

The Rock gerði upp skammarstrik úr æsku sem hafði nagað samvisku hans

The Rock gerði upp skammarstrik úr æsku sem hafði nagað samvisku hans
Fókus
Fyrir 3 dögum

Skilnaðurinn genginn í gegn – Þarf að borga 28,6 milljónir á mánuði í meðlag

Skilnaðurinn genginn í gegn – Þarf að borga 28,6 milljónir á mánuði í meðlag
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Við verðum líka að muna að þessir strákar sem eru mættir þarna til að spila fótbolta hafa ekkert gert af sér“

„Við verðum líka að muna að þessir strákar sem eru mættir þarna til að spila fótbolta hafa ekkert gert af sér“