Nanna Lovísa Zophoníasdóttir var orðin rígfullorðin þegar að hún gjörbreytti lífi sínu, lærði dýranudd og flutti af Stór-Reykjavíkursvæðinu og á bóndabæ á Vatnsleysuströnd. Þar hefur hún búið ein síðustu átta ár með dýrunum sínum sem í augnablikinu eru 4 hundar, 6 kettir, 7 kettlingar og 33 hænur.
,,Það er ekki gott fyrir fólk að vera alltaf í sama starfinu og á sama staðnum,” segir Nanna.
Nanna hefur alltaf verið dýravinur og dreymdi sem barn um að búa í sveit, umvafin dýrum. Hún fékk aftur á móti ekki að eiga dýr en fékk þó þó gúbbífiska þegar hún var tíu ára, þó ekki fyrr en eftir að rellað lengi um hund eða kött. ,,Um leið og ég flutti að heiman var ég komin með kisu og síðan hef ég ekki verið dýralaus. Stundum eru þau fleiri og stundum færri en það eru alltaf dýr í kringum mig.”
Nanna bjó lengst af í Hafnarfirði, hún er menntaður klæðskeri og rak saumastofu þar í bæ. ,,Ég lifði ósköp venjulegu lífi, var gift og með börn, en svo lauk því og ég varð ein með strákana mína. Og eins ömurlegt og það var á sínum tíma, þá var þetta það besta sem gat komið fyrir. Ég var farin að eiga erfiðara með að sauma, það er álagsvinna, og ég farin að skoða í kringum mig. En ég var með þrjá unglinga á þessum tíma og maður þarf að vinna. Svo datt mér reyndar aldrei í hug að sveit gæti verið í akstursfæri við höfuðborgina.”
Einstaka sinnum einangruð
Það var af algjörri tilviljun að Nanna ók um Vatnsleysuströndina og vissi að þar vildi hún eiga heima. Hún fór að skoða hvað væri til sölu og endaði á að kaupa bæinn þar sem hún býr í dag. ,,Þetta var vel íbúðarhæft þegar ég flutti en hef verið að gera þetta smám saman upp. En ég er ekkert upptekin af því að hafa rosalega smart hérna,” bætir Nanna við.
Aðspurð að því hvort henni finnist aldrei einmanalegt í sveitinni segir hún það af og frá, ,,Mér finnst æðislegt að vera ein, alveg frábært. Það eru auðvitað nágrannar og ég hef kynnst dásamlegu fólki hér sem eru mínir bestu vinir í dag. Svo eru kynlegir kvistir hér í sveitinni,“ segir Nanna og hlær.
Nanna segir að það komi fyrir að hún upplifi sig eina, sérstaklega þegar að hún hefur ekki talaði við neinn nema þá sem hafa fjórar fætur í einhvern tíma. ,,Maður finnur einstaka sinnum fyrir því að vera einangraður, það er til dæmis ekki mokað hér og stundum snjóa ég inni. En það er ekki snjóþungt hérna og það verður bara að hafa það þótt það snjói. Ég vakna við fuglasöng og það er enginn með partý í næstu íbúð.”
Ekkert fyrir hundana
Breytingarnar í lífi Nönnu urðu til þess að hún fór að íhuga að mennta sig með það að að leiðarljósi að vinna með dýr. Svo fór að hún menntaði sig sem dýranuddara.
,,Ég hafði enga möguleika á að fara í langt nám eins og dýralækninn eða dýrahjúkrun með strákana mína. Svo ég fór ég að skoða mig um á netinu og fann þetta nám í Svíþjóð. Það er til dæmis svo mikið fyrir hestana, ef að hestur slasast eða fer í aðgerð þá er allt mögulegt í boði. Nudd, sjúkraþjálfarar, hnykkjarar og fleira. En um um hund var að ræða var ekkert í boði, ekki einu sinni sjúkraþjálfun. Annaðhvort lifði hundurinn eða dó. Það voru auðvitað dýralæknar, það er ekki svo langt síðan, en það voru engin stuðningsúrræði.”
Ekki orð í sænsku
Námið í dýranuddinu var í lotum, Nanna tók nokkra daga úti í námi og fór svo heim með verkefni, eins og að nudda hundrað hunda, skila pappírum og taka próf áður en næsta lota hófst ,,Ég var tengd inn í þennan dýraheim og þekkti mikið af hundafólki og hafði því nóg af verkefnum svo þetta gekk hratt hér heima.” Nanna segir námið hafa hentað sér mjög vel þrátt fyrir að tala enga sænsku. ,,Ég fékk að skila pappírunum á ensku en prófin voru öll á sænsku. Ég bara skil ekki hvernig mér tókst þetta! Og ég var svo hrædd um að misskilja spurningarnar að ég pantaði bækurnar líka á ensku til að lesa yfir aftur því það hefði verið mjög vandræðalegt ef spurt hefði verið um eitthvað sem alls ekki mætti gera og ég hefði skilið það öfugt. Ég var pínu stressuð og þetta var brjálæðislega erfitt en rosalega gaman. Ég tók þetta á tveimur og hálfu ári, það er hægt að gera þetta þéttar, en þetta kostar sitt og ég þurfti að safna á milli.”
Nanna nuddar hunda og ketti og koma dýrin víða að, mörg í gegnum dýralækna, en einnig kemur fjöldi fólks með áhyggjur af dýrinu sínu. ,,Við þekkjum eigin dýr manna best og fólk kemur þegar að dýrin hætta að haga sér eðlilega. Ég fékk til dæmis einu sinni til mín konu með kött sem vissi að eitthvað var að þegar að fótatak kisunnar hennar var farið að breytast á parketinu.“ Nanna segist náttúrulega ekki geta sagt til um ef að eitthvað annað er að dýrinu en hún finni ef það er um vöðvabólgu og annað slíkt að ræða. ,,Það koma mikið af dýrum sem hafa lent í einhverju, eru til dæmis tognuð eða hafa farið í aðgerð. Þetta er eins og sjúkranudd.” Aðspurð um hvað helst ami að þeir dýrum sem hún fær til sín segir Nanna það vera ýmislegt. ,,Ég er til dæmis með ketti sem eru þrífættir og þá riðlast allt jafnvægi svo þeir fá örugglega vöðvabólgu. Svo er það streita, dýrin fara herpa sig saman svo að blóðflæðið fer ekki í alla vöðva.
En hvað stressar hunda og ketti? Nanna segir margt koma til, ,,Oft er börnum leyft að nota dýr fyrir leikföng, stundum eru mörg dýr á heimilinu og stundum er dýrið of mikið eitt. Eða að heimilislífið er bara stressandi. Við værum fyrir löngu búin að fá okkur ibufen en dýrin eru ekki að kvarta og væla. Þau herpa sig aftur á móti meira og meira saman og þá fer jafnvægið úr líkamanum, þau hreyfa þeir sig ekki eðlilega og blóðflæðið í líkamanum versnar.”
Krumpaðir hundar í tösku
Talið berst að hundum í búrum og Nönnu hitnar í hamsi. ,,Það er skelfilegt að hafa þá mikið í búrum og ég gæti bara ekki verið meira á móti því. Það á aldrei að setja dýr í búr nema það geti staðið og legið í búrinu og þá með alla fætur beinar. Og hvers vegna að hafa hund í búri?” Nanna hristir höfuðið og segir að sennilega sé um tískubylgju að ræða. ,,Það eru alltaf að koma svona bylgjur. Einu sinni átti að að gefa öllum hundum hráfæði og svo var önnur sveifla um að ekki mætti gefa þeim mannamat. Og einhvers staðar frá kom þessi búratíska, bara eins og þetta sé staðalbúnaður með hundum. Fólk er með þetta heima hjá sér, kannski til að dýrið fari ekki út um allt eða pissi ekki á gólfið. En ég veit það bara ekki og skil þetta ekki. Ég segi við fólk að hugsa um sjálft sig og hvernig væri að sofa í alltof litlu rúmi og vakna oft á nóttu, kreppt með ónóg blóðflæði. Alveg eins og við fólkið þurfa dýrin að teygja úr sér en þau geta það ekki í of litlum búrum. En dýrin kvarta ekki fyrr en þau fara að finna til.”
Fyrir nokkrum árum var fólk með smáhunda i töskum og segir Nanna að nú séu þeir hundar orðnir gamlir og algjörlega undirlagðir af því sem hún kallar stoðkerfavitleysu. ,,Þeir fengu aldrei að vera hundar heldur voru þeir krumpaðir ofan í tösku og jafnvel með eitthvað dingl um hálsinn sem að vöðvarnir í hálsinum réðu ekki við. Það þarf að leyfa hundum að vera hundum, þeir eiga ekki undir nokkrum kringumstæðum að vera skrautmunir.”
Fæ sting í hjartað
Þegar Nanna er spurð um hvort hún hafi ráð til gæludýraeigenda á hún nóg í pokahorninu. ,,Ef þú ert með innikött verður hann að geta klifrað og það þarf að leika við hann. Kötturinn þarf alltaf að hreyfa sig. Það er svo margt hægt að gera til að fá hann til hreyfa sig, eitt dæmi er að setja matinn í litlar skálar út um allt. Reyndar þarf að gera allt til að líf hans sé ekki þannig að hann opni augun, éti og leggi sig aftur. Dýrin eru alveg eins og við, með vöðva og sinar og allan pakkann, og að huga ekki að þessu er ávísun á alls konar sjúkdóma.”
Hvað hundana varðar segir Nanna að enn sé mikið af fólki sem haldi litlir hundar þurfi ekki að hreyfa sig. ,,Þeir þurfa líka að hreyfa sig, fara út og upplifa. Fólk kemur oft til mín og segir að dýrið þeirra sé innihundur. Þá fæ ég svolítið í hjartað því hundar þurfa að hreyfa sig. Ég segi oft við fólk að fara með hundinn í alls kyns umhverfi, fara til dæmis með hann í hátt gras þar sem hann lyftir hærra og í sand þar sem hann beitir sér öðruvísi en á malbiki. Kettir gera þetta oftast sjálfir og stökkva út um allt en hundar gera það ekki. Og ef þeir fara alltaf á malbik þá verður það svolítið eins og hjá hlaupara sem er ekki á nógu góðum skóm. Og annað er að láta ekki hunda dansa á afturfótunum eða þjálfa þá upp til að stökka upp til að sníkja. Þeir eru ekki búnir til fyrir svoleiðis, þeir eru búnir til þess að vera á fjórum fótum. Annars kemur þetta í bakið á fólki. Því miður sé ég alltof mikið af lífsstílssjúkdómum í dýrunum,” segir Nanna.
Enginn dýrahvíslari
Nanna segist tengist dýrunum enda sé mikil nánd í nuddinu. Sumir hafa sagt að Nanna sé ,,dýrahvíslari” en hún hlær og segir það nú ekki rétt. ,,Ég get ekki lesið hugsanir þeirra en ef ég er til dæmis búin að nudda hund í nokkurn tíma þá fer okkur að þykja vænt um hvort annað. Það er rosalega erfitt að nudda hund sem vill það ekki en ég hef aldrei verið bitinn, sem er merkilegt því sumir eru verulega þjáðir. En þeir virðast vita að þetta komi til að gera þeim gott. Og svo er ég alltaf með rosa gott nammi,” bætir hún við.
Eins og fyrr segir á Nanna 4 hunda, 6 ketti, 7 kettlinga og 33 hænur. Það hlýtur að vera tímafrekt að sinna öllum dýrunum? ,,Jú jú, þetta er brjáluð vinna. Og þegar það er got fer allt í trylling. Ég þarf þá að vakna fimm á morgnana til að gefa öllum, hreinsa kassana og fara út með hundana áður en ég fer í vinnuna, segir Nanna en hún vinnur í hlutastarfi hjá tölvufyrirtæki. ,,Svo er ég útbúa kisuhótel, það er ekki alveg komið samt. Eitt skref í einu.”
Hamingjusöm til æviloka
Dýrin hennar Nönnu hafa verið næm á breytingar hjá náttúruöflunum, sérstaklega jarðskjálfta. ,,Það að risu hárin á þeim, það byrjaði nokkrum dögum fyrr og ágerðist. Nú veit ég ekki hvort það voru jarðskjálftarnir eða gosið. Hænurnar vildu ekki fara út og hættu að verpa, það varð eiginlega allsherjar verkfall. Og hundurinn minn sálugi starði út og vissi greinilega alveg hvað var á seyði því hann starði alltaf upp að fjallinu. Það voru minni breytingar á kisunum en þær földu sig, fóru undir sófa eða inn í eitthvað þar sem þær gátu lokað sig af.
Nanna segir lífið í sveitinni vera sína hamingju. ,,Sumir flytja til útlanda eða gera eitthvað annað og það er bara svo geggjað þegar fólk þorir að fylgja sínum draumum. Það er örugglega ekki fyrir alla að búa einir út í sveit en ég gæti ekki verið ánægðari. Hér verð ég hamingjusöm til æviloka, ég er komin á minn stað, segir Nanna Lovísa Zophoníasdóttir dýranuddari.