fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fókus

Sakamál: Morð í hamingjusamri fjölskyldu – Skelfileg sjón mætti föður og dóttur

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 15. janúar 2022 20:00

Pyne-fjölskyldan. Youtube-skjáskot.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Pyne-fjölskyldan, sem bjó í bænum Milford í Michigan-fylki í Bandaríkjunum, virtist hamingjusöm. Heimilisföðurnum Bernie Pyne gekk vel í viðskiptum og börnunum tveimur gekk vel í skóla. Þegar sagan gerist var sonur hjónanna, Jeffrey Pyne, í háskólanámi í líffræði við góðan orðstír.

Móðirin, Ruth Pyne, átti þó við geðræn vandamál að stríða og þegar Jeffrey var átta ára var hún greind með geðhvarfasýki (bi polar). Því miður neitaði hún að taka geðlyfin sín sem olli henni miklum þjáningum. Hún varð ofstopafull og beitti soninn Jeffrey ítrekað ofbeldi.

Þessir síendurteknu árekstrar mynduðu gjá milli hjónanna, Bernie tók upp samband við aðra konu og bað Ruth um skilnað. Hún brást með því að lofa bót og betrun, fór að taka lyfin sín, fékk nokkurn bata og friður tók að ríkja á heimilinu eftir róstursama tíma.

Móðirin fannst myrt

Friðurinn reyndist þó bara svikalogn og tók enda með miklu og óvæntu áfalli. Í eftirmiðdaginn þann 27. maí, árið 2011, kom Bernie heim með dótturinni Júlíu, sem var tíu ára, og fundu þau Ruth látna úti í bílskúr. Hún hafði verið sleginn og stungin.

Krufning leiddi í ljós að Ruth hafði verið barin 12 sinnum í höfuðið með spýtu og stungin með hníf 16 sinnum í hálsinn. Engu hafði verið stolið og henni hafði ekki verið nauðgað. Ennfremur voru engin ummerki um innbrot og taldi lögreglan því nær útilokað að morðinginn væri einhver ókunnugur.

Grunur lögreglu beindist lengi vel að eiginmanninum, Bernie, ekki síst þar sem erfiðleikar voru í hjónabandinu og hann hafði tekið upp samband við aðra konu. En fjarvistarsönnun Bernies reyndist vera fullkomlega skotheld og smám saman gufuðu grunsemdir lögreglu gagnvart honum upp.

Lögreglan fór þá að beina athyglinni að syninum Jeffrey Pyne. Það vakti raunar þegar grunsemdir að daginn sem Ruth fannst látin var Jeffrey með miklar blöðrur á höndunum, svona svipað og einhver gæti fengið af því að berja mjög fast og lengi með spýtu, en lögreglan taldi árásarmanninn hafa beitt slíku barefli gegn Ruth. Jeffrey sagðist hins vegar hafa fengið blöðrurnar við að gróðursetja liljur í garði konu sem hann var að vinna fyrir. Sú kona sagði lögreglu hins vegar að Jeffrey hefði gróðursett blómin hjá sér fjórum dögum fyrr en ekki daginn sem Ruth var myrt. Þessi vitnisburður vann mjög gegn Jeffrey enda benti hann til þess að hann hefði logið að lögreglunni.

Trúir á sakleysi sonar síns

Þrátt fyrir að engin lífsýni eða önnur áþreifanleg sönnunargögn sem tengt gætu Jeffrey við morðið fyndust var hann engu að síður ákærður fyrir morðið. Svo virðist vera að saksóknarinn hafi beitt ákveðinni útilokunaraðferð. Ókunnugur virtist ekki geta hafa framið morðið og því voru feðgarnir þeir einu sem komu til greina. Og faðirinn hafði verið hreinsaður af grun.

Svo fór að Jeffrey var árið 2012 fundinn sekur um annarrar gráðu morð á móður sinni. Var hann dæmdur í 20 til 60 ára fangelsi. Hann situr enn í fangelsi í dag en hefur ávallt haldið fram sakleysi sínu. Faðir hans, Bernie Pyne, trúir á sakleysi sonar síns. Margir hafa orðið til að gagnrýna dóminn gegn Jeffrey Pyne og telja hann hafa verið sakfelldan á veikum forsendum.

En ef hvorki Bernie Pyne né Jeffrey Pyne myrtu Ruth Pyne, hver gerði það þá? Enginn fyrir utan þá feðga hefur verið nefndur í málinu sem mögulegur morðingi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður
Fókus
Í gær

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta