fbpx
Föstudagur 22.október 2021
Fókus

Sakamál: Hin stórfurðulega Matusiewicz-fjölskylda – Lygar mæðginanna leiddu til blóðbaðs

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 31. júlí 2021 20:00

David (t.v.) og Thomas Matusiewicz, Mynd: Lögreglan í New Castle, Delaware.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er snúið fyrir marga að bera fram fjölskyldunafnið Matusiewicz. Það er þó ekkert á við það að botna í þeim stórundarlegu en jafnframt skelfilegu glæpum sem þetta fólk framdi fyrir nokkrum árum. Glæpir Matusewicz-fjölskyldunnar fara klárlega í flokk með sérkennilegustu sakamálum seinni ára. Við erum ekki að tala um skipulagða glæpastarfsemi heldur forræðisdeilu sem fór illilega úr böndunum, stórbrotnar lygar og óhróður ömmu um fyrrverandi tengdadóttur sína og skelfilegt blóðbað fyrir utan dómshús.

Sagan gerist í Delaware, að mestu í borgunum Newark og Middletown, en teygir sig alla leið suður til Nikaragva. Sonur þeirra Lenore og Thomas Matusiewicz, David Matusiewicz, var sjónglerjafræðingur og starfaði í Newark. Þar kynntist hann Christine Belford árið 1993, en hún var móttökuritari hjá sama augnlækni og David starfaði fyrir. David var þá 31 árs og bjó enn í foreldrahúsum. En David og Christine felldu hugi saman, keyptu sér hús saman í Middletown, bjuggu þar saman um árabil og eignuðust þrjár fallegar dætur.

Byrjuðu vandræði þegar tengdó fluttu inn á þau?

Það er alþekkt að ung pör flytja stundum tímabundið inn til foreldra/tengdaforeldra þegar harðnar á dalnum. En það er sjaldgæfara að foreldrarnir/tengdaforeldrarnir flytji inn á börnin. En þetta var kaflinn í sögu Matusiewicz-fjölskyldunnar sem hugsanlega kom öllum ósköpunum af stað. Árið 2006 fluttu Thomas og Lenore tímabundið inn til Davids, Christine og barnanna. Ástæðan var sú að þau höfðu selt húsið sitt í Newark og voru ekki búin að festa kaup á nýju húsnæði.

Christine leist minna en meðalvel á að fá tengdaforeldrana inn á sig enda voru þau ráðrík, sérstaklega tengdamóðirin, Lenore. Hún lét þetta þó yfir sig ganga enda átti þetta bara að standa yfir í nokkrar vikur. En þegar hjónin höfðu búið inni á þeim í marga mánuði og sýndu ekki á sér fararsnið var Christine nóg boðið og hún krafðist þess að þau flyttu út.

Þá loksins tóku Thomas og Lenore við sér og festu kaup á íbúð í næsta nágrenni. Þau héldu áfram að venja komur sínar á heimili sonar sínar og tengdadóttur, skiptu sér þar af stóru og smáu og Christine missti þolinmæðina. Hún krafðist skilnaðar. Sá skilnaður átti eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar.

Lenore Matusiewicz fékk lífstíðarfangelsi. Youtube-skjáskot

Disneyland eða Nikaragva

David flutti aftur til foreldra sinna. Hann og Christine deildu um forræði yfir dætrunum þremur en það var niðurstaða fjölskyldudómstóls að þau skyldu deila forræði, stelpurnar voru til skiptis, viku í senn, hjá David og foreldrum hans annars vegar og hjá móður sinni hins vegar.

David festi kaup á húsbíl og aflaði peninganna til kaupanna með fjársvikum sem ekki verður farið út í hér frekar enda er það bara ein af mörgum hliðarsögum í málinu. David og Lenore móðir hans ákváðu að fara með stelpurnar í tveggja vikna ferðalag í Disneyland. Thomas ákvað að verða eftir heima vegna heilsubrests. Þetta var í ágúst árið 2007.

Christine samþykkti ferðina. En þau skiluðu sér ekki til baka. Tíminn leið og ekkert samband náðist við mæðginin né dæturnar sem voru á þessum tíma fimm, fjögurra og tveggja ára. Viti sínu fjær hafði Christine samband við lögreglu og í kjölfarið hófst leit að fólkinu sem nú var eftirlýst fyrir barnsrán. Vakti leitin og eftirlýsingin þjóðarathygli og var áberandi í bandarískum fjölmiðlum um skeið.

Loks hafðist upp á mæðginunum og börnunum í smábæ í Nigaragva, haustið 2009, rúmum tveimur árum eftir upphaf ferðarinnar. Nú gerist sagan sífellt ljótari því mæðginin höfðu logið því að dætrunum að móðir þeirra hefði framið sjálfsmorð. Fleiri ljótar lygar áttu eftir að koma upp í þessu máli.

Christine Belford sá líklega eftir því að hafa gifst inn í þessa fjölskyldu. Youtube-skjáskot

Netníð úr fangelsinu

David Matusiewicz var dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir ránið á stúlkunum en móðir hans, Lenore, fékk eins og hálfs árs fangelsi. Mæðginin höfðu töluvert frelsi innan fangelsisveggjanna, að minnsta kosti nægilega mikið til að hefja fáheyrða rógsherferð á hendur Christine, herferð sem hélt áfram eftir að móðirin losnaði úr fangelsi.

Thomas Matusiewicz var ekki sóttur til saka í málinu, en sem fyrr segir hafði hann haldið kyrru fyrir í Middletown Delaware á meðan eiginkona hans og sonur fóru til Nikaragva.

Christine Belford fékk fullt forræði yfir dætrunum árið 2011 en það sættu mæðginin sig ekki við. Þau dældu inn kærum til barnaverndar með fáránlegum ásökunum á hendur Christine, meðal annars að hún misnotaði stelpurnar kynferðislega og hefði í hyggju að selja þær barnaníðingi. Málsvörn þeirra fyrir rétti í barnsránsmálinu var sú að þau hefði verið að forða stelpunum frá ofbeldi móðurinnar.

Lenore setti upp vefsíðu þar sem hún hélt uppi linnulausum lygaáróðri um tengdadóttur sína og sakaði hana um hina verstu glæpi.

Fyrir utan þetta var stöðugt sendur haturspóstur á netfang Christine og David fékk fyrrverandi kærustur sínar frá unglingsárum til að njósna um hana. Þannig var Christine ofsótt árum saman.

Blóðbaðið við dómshúsið

Ásakanirnar leiddu til þess að vitnaleiðslur voru haldnar vegna þeirra í dómshúsinu í Wilmington í Delaware, 11. febrúar 2013. Þar framdi fjölskyldufaðirinn Thomas Matusiewicz voðaverk er hann skaut til bana Christine Belford og vinkonu hennar Beth. Hann særði tvo lögregluþjóna skotsárum og skaut loks sjálfan sig til bana.

Thomas hafði trúað hverju einasta orði af lygaþvælu eiginkonu sinnar og sonar og var knúinn áfram af heift og hatri.

David og Leonore voru bæði sótt sig saka vegna morðanna við dómshúsið á grundvelli nýrra laga um netníð og netofsóknir. Voru þau bæði dæmd í lífstíðarfangelsi fyrir netníð og netofsóknir sem leiddu til dauða. Var þetta í fyrsta skipti í sögunni sem slíkur dómur er kveðinn upp.

David situr enn í fangelsi en móðir hans, Lenore, lést í fangelsi vorið 2016, þá 71 árs að aldri.

Systir Davids, Amy, sótti um forræði yfir systrunum en því var hafnað. Var þeim komið fyrir á fósturheimili.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 15 klukkutímum

Bæjarfulltrúi kvaddi vini og vandamenn með færslu frá Leifsstöð – Átti flug daginn eftir

Bæjarfulltrúi kvaddi vini og vandamenn með færslu frá Leifsstöð – Átti flug daginn eftir
Fókus
Fyrir 16 klukkutímum

Hanna Björg um KSÍ-málið – „Ég vissi að þau voru að ljúga og fannst þau ekkert lítið ómerkileg að halda þessu fram“

Hanna Björg um KSÍ-málið – „Ég vissi að þau voru að ljúga og fannst þau ekkert lítið ómerkileg að halda þessu fram“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Matur og heimili: Bragðlaukar kitlaðir í gamalli stálsmiðju og matarmenning frá Ísrael

Matur og heimili: Bragðlaukar kitlaðir í gamalli stálsmiðju og matarmenning frá Ísrael
Fókus
Fyrir 2 dögum

Útvarpsstjarna og útgáfustjóri selja glæsilegt sumarhús við Skorradalsvatn

Útvarpsstjarna og útgáfustjóri selja glæsilegt sumarhús við Skorradalsvatn
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir þetta ástæðuna fyrir því að það sé bráðnauðsynlegt stunda kynlíf á fyrsta stefnumóti

Segir þetta ástæðuna fyrir því að það sé bráðnauðsynlegt stunda kynlíf á fyrsta stefnumóti
Fókus
Fyrir 3 dögum

Verðmiðinn á kaffibolla á veitingastað SaltBae það nýjasta til að vekja reiði

Verðmiðinn á kaffibolla á veitingastað SaltBae það nýjasta til að vekja reiði