Bretar eru byrjaðir að djamma eftir erfitt eitt og hálft ár af Covid. Skemmtistaðir virðast vera troðfullir allar helgar og lítið er pælt í veirunni sem hefur verið að herja heimsbyggðina.
Rhia Adams er ein þeirra sem hefur kíkt á djammið en hún fór á skemmtistað í Lancaster í Bretlandi með vinkonum sínum að djamma. Hún var klædd í kjól og hafði ákveðið að vera í svokallaðri „ömmubrók“ undir kjólnum. The Mirror greinir frá.
Á skemmtistaðnum voru útfjólubláljós sem lýstu einungis upp brókina en ekki kjólinn. Því gátu allir gestir skemmtistaðarins séð brókina hennar.
„Mér leið svo vandræðalega og vildi yfirgefa staðinn undir eins en stuttu seinna sá ég skondnu hliðina á þessu og ákvað að gera TikTok um þetta,“ sagði Rhia í samtali við The Mirror.
Hún segist hafa ákveðið að vera í þessari brók frekar en g-streng vegna meiri þæginda.