fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

Sævar Þór opnar sig upp á gátt – Varð fyrir kynferðisofbeldi aðeins 8 ára gamall – „Það er upphafið á að ég glata minni barnæsku“

Máni Snær Þorláksson
Miðvikudaginn 7. apríl 2021 18:00

Sævar Þór Jónsson - Mynd: Sævar Þór/Aðsend

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bókin Barnið í garðinum kemur í verslanir á morgun en um er að ræða sjálfsævisögulega bók eftir lögmanninn Sævar Þór Jónsson. Sævar opnar sig upp á gátt í bókinni og fer þar yfir erfiða æsku, áföll, fíkn og misnotkun. Sævar ræddi um bókina í útvarpsþættinum Morgunútvarpið á Rás 2 en þar segist hann ekki draga neitt undan og að engum sé hlíft, hvorki honum sjálfum né öðrum.

„Fyrst og fremst er þetta saga sem ég er að segja, bæði fyrir fólk sem ég hef kynnst og hefur orðið fyrir áföllum og til að hjálpa mér í gegnum eigin áföll svo ég geti verið til staðar fyrir son minn sem hefur líka orðið fyrir áfalli,“ segir Sævar í þættinum. Sem lögmaður hefur Sævar unnið með fullt af fólki sem hefur orðið fyrir áföllum á sinni ævi. Hann segir mikilvægt að opna á umræðuna um áföll og afleiðingar þeirra.

Á meðal þess sem Sævar talar um í bókinni er gróft kynferðisofbeldi sem hann varð fyrir þegar hann var aðeins 8 ára gamall. „Ég dó árið 1986,“ segir Sævar í fyrstu línu bókarinnar og á þar við ofbeldið sem hann varð fyrir. „Ég man það enn í dag þó það séu 35 ár síðan. Ég tengi við margt við þetta tímabil og það er upphafið á að ég glata minni barnæsku. Þá hefst annað tímabil sem fæst börn, vona ég, þurfa að fara í gegnum.“

Fannst viðeigandi að eiginmaðurinn tæki við

Sævar byrjaði að skrifa bókina fyrir þremur árum síðan en þegar fyrsta uppkastið var tilbúið treysti hann sér ekki til að klára hana alveg. Lárus Sigurður Lárusson, eiginmaður Sævars, hjálpaði honum þá með að klára bókina. „Þá voru ákveðnir hlutir í mínu lífi sem ég þurfti að takast á við. Og til að bókin kæmist á endastöð fannst mér viðeigandi að sá sem stæði mér næst, sem er minn eiginmaður, hann tæki við,“ segir hann.

„Það hjálpaði mér að geta sagt söguna eins og hún er í dag. Án hans og hans aðkomu er ég ekki viss um að það hefði tekist því ég hefði ekki treyst einhverjum manni eða konu úti í bæ til að gera það.“

Hjónin Lárus og Sævar í fertugsafmæli þess síðarnefnda.

Þurfti að horfast í augu við sjálfan sig

Í þættinum talar Sævar um áhrif kynferðisofbeldisins en hann tókst á við fíkn og átti erfitt með að sætta sig við kynhneigð sína í kjölfarið. „Það er mjög lýsandi fyrir einstaklinga sem hafa orðið fyrir áföllum. Ég er nýlega búinn að læra orðið áfallastreituröskun og er búinn að vinna í gegnum það,“ segir hann.

„Ég skrifa mig í gegnum þessar tilfinningar sem ég upplifi eftir að ég verð réttargæslumaður í einu máli, sem er eitt af þekktari málum í þeim efnum,“ segir Sævar en hann fann að hann þurfti að vinna í sínum áföllum þegar hann var réttargæslumaður í þessu máli. „Í kjölfarið þurfi ég svolítið að horfast í augu við sjálfan mig og mínar tilfinningar og gjörðir, hvað hefur gerst í mínu lífi. Þá fatta ég að ég þurfi að fara í dýpri vinnu og ég lýsi því ég þessari bók.“

 „Það hefur hjálpað fólki og ég hef séð það“

Sævar segir að lokum að hann sé á góðum stað í dag en hann vonast til þess að bókin geti hjálpað öðrum að opna sig með áföllin sín eins og hann er að gera. „Við þurfum öll að vinna í okkur og ég segi við alla þá sem hafa lent í áföllum, hvort sem það eru konur eða karlar, við eigum aldrei að hætta að vinna í okkur. Lífið gefur okkur ákveðin verkefni, hvort sem það eru svona áföll, sjúkdómar eða hvað sem er,“ segir hann.

„Það hefur hjálpað fólki og ég hef séð það, ég hef séð kraftaverk þegar fólk heyrir sögu annarra sem það getur tengt sig við. Þetta er mitt framlag í þá umræðu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki