fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fókus

„Eigum við ekki frekar að fræða strákana okkar um hvaða hegðun er viðeigandi gagnvart konum?“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Miðvikudaginn 17. mars 2021 13:45

Ragga Nagli. Mynd/Helgi Ómars

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ragnhildur Þórðardóttir, eða Ragga Nagli eins og við þekkjum hana öll, er þekkt fyrir að tala um heilsu á mannamáli. Hún er klínískur heilsusálfræðingur og einkaþjálfari og er einnig virk á samfélagsmiðlum.

Ragga skrifar nýjasta pistillinn sinn í kjölfar frétta um morðið á Söru Everard sem hefur vakið mikinn óhug í Bretlandi.

Sara var að ganga heim til sín þann 3. mars síðastliðinn. Hún hafði verið í heimsókn hjá vinafólki í suðurhluta Lundúna. Ekki er vitað hvort hún náði til heimilis síns en ekkert heyrðist til hennar í tvo daga. Lík hennar fannst í síðustu viku og var lögreglumaður handtekinn grunaður um að hafa rænt Söru og myrt hana.

Það vakti mikla reiði í Bretlandi eftir að lögreglan sagði konum að „fara ekki einar út“ eftir hvarf Söru. Netverjar tjáðu skoðun sína á samfélagsmiðlum og sögðu að með þessu væri lögreglan að varpa ábyrgðinni yfir á konur.

„Hvernig væri að við myndum hvetja karlmenn til að fara ekki út í staðinn? Gefa þeim útivistartíma? Þá kannski yrðu göturnar öruggari ef karlmenn myndu missa frelsi sitt, ekki konur,“ sagði einn netverji.

Pistill Röggu

Ragga tekur undir sama streng og segir að ofbeldi sé ekki á ábyrgð þolandans, heldur alltaf gerandans.

„Einfaldur hlaupatúr hjá konu krefst meiri undirbúnings og skipulagningar en að slá upp indversku þriggja daga brúðkaupi,“ segir hún.

„Skilaboð til kvenna eru að vera alltaf á varðbergi, með augu í hnakkanum og jaðarsjónina virkjaða. Ávallt viðbúnar að verða fyrir og taka á móti árás. Ef kona lendir í áreitni eru heykvíslarnar fljótar á loft og fórnarlambsskömmin dælist á lyklaborðið. „Hún hefði ekki átt að fara ein á ferð að hlaupa!“ „Hver hleypur á skógarstíg í myrkri?““

Ragga bendir á að 97 prósent kvenna á aldrinum 18-24 ára í Bretlandi hafa orðið fyrir áreitni. „Í staðinn fyrir að brýna fyrir konum hvernig þær eigi að hegða sér, eigum við ekki frekar að fræða strákana okkar um hvaða hegðun er viðeigandi gagnvart konum?“

Pistill Röggu má lesa í heild sinni hér að neðan.

Ekki hlaupa ein. Alltaf í hóp eða með vinkonu.

Helst ekki hlaupa í myrkri.

Ekki hlaupa í skógi. Ekki hlaupa á fjalli.

Hlauptu bara á vel upplýstum göngustígum.

Reyndu að hlaupa í dagsbirtu.

Hlauptu meðfram götunni svo einhver sjái ef þú verður fyrir árás.

Vertu með tónlist bara í öðru eyranu svo þú heyrir ef einhver kemur aftan að þér.

Vertu með hælaljós, höfuðljós, endurskinsmerki og helst í neonlituðum spandex.

Vertu með lyklana milli fingranna meðan þú hleypur.

Eða stein í hendinni.

Vertu jafnvel með piparsprey í vasanum.

Láttu vini og fjölskyldu vita hvert þú ætlar að hlaupa.

Vertu með GPS og appið ‘Track my Iphone’ í gangi.

Lærðu sjálfsvarnartækni á rándýru helgarnámskeiði.

Einfaldur hlaupatúr hjá konu krefst þannig meiri undirbúnings og skipulagningar en að slá upp indversku þriggja daga brúðkaupi.

Aldrei örugg

Alltaf berskjölduð.

Hrædd

Kvíðin

Áhyggjufull

Óttaslegin

Skilaboð til kvenna eru að vera alltaf á varðbergi, með augu í hnakkanum og jaðarsjónina virkjaða.

Ávallt viðbúnar að verða fyrir og taka á móti árás.

Ef kona lendir í áreitni eru heykvíslarnar fljótar á loft og fórnarlambsskömmin dælist á lyklaborðið.

„Hún hefði nú ekki átt að vera ein á ferð að hlaupa!!“

„Hver hleypur á skógarstíg í myrkri??“

„Hvernig dettur henni í hug að spranga um í níðþröngri brók sem æsir hitt kynið.“

Morðið á Söru Everard hefur vakið óhug allra en 97% kvenna á aldrinum 18 – 24 í Bretlandi hafa orðið fyrir áreitni.

Halló…..það þýðir næstum hver einasta kvensa.

Kona getur sinnt öllum varúðarráðstöfunum en ef 90 kílóa kjötaður karlmaður kemur askvaðandi meðkreppta hnefa og árásarglampa í auga þá eru lyklarnir að Mözdunni og sjálfsvarnartækni frá námskeiði í Ármúlanum jafn gagnleg og regnhlíf í íslensku skítaveðri.

Í staðinn fyrir að brýna fyrir konum hvernig þær eigi að hegða sér, eigum við ekki frekar að fræða strákana okkar um hvaða hegðun er viðeigandi gagnvart konum?

Meðvitund um eigin hegðun, samhyggð og skilningur frá karlmönnum er líklegra til að stuðla að breytingum og betri veröld fyrir konur en heil blaðsíða af leitarniðurstöðum Google um hvernig eigi að vera örugg á gangstétt.

Þannig stuðlum við að valfrelsi fyrir stelpur og konur um hvar, hvenær og hvernig þær labba heim eftir djammið, í hlaupatúra, göngutúra, ferðast í skóla, vinnu eða rækt.

Þegar land verður fyrir hryðjuverkaárás er íbúum annarra landa ekki sagt að breyta hegðun sinni til að verða ekki líka fyrir árás.

En konum er sagt að breyta hegðun sinni til að verða ekki fyrir árás.

Níðþröng hlaupabrók nauðgar engum.

Hátalari í eyra lúber ekki konu.

Myrkir göngustígar sparka ekki í stúlku.

Fórnarlambsvæðing í hnotskurn.

Ofbeldi er ekki á ábyrgð þolandans. Það er alltaf gerandans.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður
Fókus
Í gær

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta