fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fókus

Hvað þýðir að vera hán, trans og intersex?

Tobba Marinósdóttir
Sunnudaginn 21. febrúar 2021 17:00

Tótla er fræðslustýra Samtakanna 78. Mynd: DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ástin og fólkið er alls konar og því fylgja hin ýmu hugtök sem oft er ekki auðvelt að átta sig á. Hvað þýðir að vera hán, trans eða intersex? Tótla I. Sæmundsdóttir, fræðslustýra Samtakanna ́78, útskýrir hin ýmsu hugtök og segir að það sé ekkert hættulegt að gera mistök.

„Það versta er að forðast fólk af ótta við að segja eitthvað vitlaust,“ segir Tótla, sem tekur öllum fyrirspurnum fagnandi. Aðspurð um hver sé algengasti misskilningurinn í hugtakanotkun tengdri kynhneigð fólks, segir hún að persónufornafnið hán sé oft misskilið.
„Hán er persónufornafn eins og hann og hún. Það er hins vegar oft notað sem nafnorð til að lýsa manneskju, sem er misskilningur. Til dæmis er ekki hægt að segja að sumt fólk sé hán. Það er hins vegar hægt að segja, ég hitti hán, líkt og ég hitti hann eða hana.“
Tótla segir fínt að byrja á að skilgreina hugtakið Hinsegin sem margir kannast við. „Hinsegin er regnhlífarhugtak yfir mjög marga hópa en kynsegin er yfir fólk sem skilgreinir sig ekki sem mann eða konu eða utan flokka. Kynsegin manneskja notar þannig oft fornafnið hán.“  Hún tekur dæmi. „Blær er kynsegin manneskja. Um hán mætti segja – hán er seint í dag, hán svaf yfir sig.“ Hán virkar í raun eins og hvorugkynsorðið það, sem þótti ólýsandi og ómanneskjulegt. Því kom hán til sögunnar.
Mynd eftir Öldu Villiljós
Aðstendur með spurningar
Tótla segir fjölda aðstandenda hinsegin fólks leita til samtakanna. „Við bjóðum upp á fría fyrstu tíma fyrir aðstandendur hinsegin fólks og erum einnig með stuðningshópa fyrir aðstandendur. Oft verður fólk hrætt við að gera mistök, reynir því ekki að tileinka sér ný nöfn fólks eða fornöfn eða forðast að tala við viðkomandi. Það er ekkert hættulegt við að gera mistök. Við erum öll að reyna okkar besta og ef fólk gerir mistök þá er best að leiðrétta sig og halda áfram.“
Hún segir sumt fólk vera tilbúið til að útskýra allt sem snýr að hinseginleikanum fyrir öðru fólki en aðrir ekki. Þá eigi enginn heimtingu á útskýringum frá manneskju sem hefur ekki áhuga á að ræða það. „Hinseginleikinn er hluti af því sem fólk er en alls ekki það eina við það. Það er alltaf hægt að hafa samband við Samtökin ’78 ef fólk vill fá skýringar á einhverju.“
Tótla hvetur fólk sem hefur spurningar og jafnvel hefur ekki þorað að opna sig varðandi eigin fjölbreytileika að leita til samtakanna. „Oft virkar þetta erfiðara og stærra skref en það er svo í raunveruleikanum. Það er ekkert endanlegt, það þarf ekki að vera viss, það má skipta um skoðun og það má fara fram og til baka. Það er til svo mikið af fólki sem hefur liðið eins og ykkur. Við erum til staðar og það má alltaf hafa samband við samtökin ef einhver vill spjalla. Við erum svo heppin að við höfum safnað að okkur fagfólki sem er hægt að bóka tíma hjá í ráðgjöf. Það er líka hægt að hringja eða senda okkur línu.“
Ólíkt val
Tótla segir margar hliðar vera á hinsegin fólki og ekki allir kjósi sömu leið. Þannig séu til dæmis ekki allir sem eru trans á sömu vegferð og því verði að varast að flokka fólk. Einstaklingurinn sé alltaf ráðandi. „Það eru til dæmis alls ekki allir sem eru trans sem ákveða að fara í gegnum líkamlegt ferli. Það eru alls ekki allir sem velja það. Sumir skipta um nafn, fara kannski í klippingu en ætla ekki að fara í gegnum líkamlegar breytingar, svo sem aðgerðir eða að taka inn hormón. Þetta er ekki ferli sem fólk velur að gera eins, upphaf og endir. Þú útskrifast ekki sem trans eftir ákveðið ferli,“ segir Tótla og bendir einnig á að mikið af upplýsingum megi finna á otila.is, en þar má einnig finna reynslusögur úr öllu litrófinu.

HUGTAKALYKILL

KYNSEGIN er hugtak sem nær yfir fólk sem skilgreinir kyn sitt utan tvíhyggju kynjakerfisins (og er því einnig trans). Sumt kynsegin fólk er t.d. karlkyns og kvenkyns, hvorki karlkyns né kvenkyns eða skilgreinir ekki kyn sitt. Kynsegin er því í raun regnhlífarhugtak undir regnhlífar-hugtakinu trans.
HÁN Sumt kynsegin fólk kýs að nota kynhlutlaus persónufornöfn. Íslensk persónufornöfn sem notuð eru um fólk vísa alltaf til karlkyns (hann) eða kvenkyns (hún). Hán er persónufor-nafn eins og hann og hún. Beygist eins og lán. Hán / hán / háni / háns. Það tekur með sér hvorugkyn. Hán er glatt / svangt / þreytt.
TRANS er regnhlífarheiti yfir fólk sem er með kynvitund sem sam-ræmist ekki því kyni sem því var úthlutað við fæðingu. Þegar við fæðumst er í langflestum tilfellum tilkynnt um kyn okkar, hér er fæddur lítill drengur eða lítil stúlka. Það að vera trans vísar til kynvitundar en ekki kynhneigðar. Trans fólk getur haft hvaða kynhneigð sem er. Á Íslandi eru í dag fjölmörg dæmi um börn á grunnskólaaldri og jafnvel á leikskólaaldri sem eru trans og lifa í samræmi við það kyn sem þau upplifa að passi þeim best.
INTERSEX er hugtak sem, eins og kemur fram á vef samtakanna Intersex Ísland: „nær yfir breitt svið af meðfæddum líkamlegum einkenn-um eða breytileika sem liggja á milli okkar stöðluðu hugmynda um karl- og kvenkyn. Intersex einstaklingar fæðast með einkenni sem eru ekki algjörlega karl- eða kvenkyns; sem eru sambland af karl- og kvenkyns; eða sem eru hvorki karl- né kvenkyns.
PANKYNHNEIGÐ manneskja hrífst af fólki af öllum kynjum, konum, körlum og fólki af öðrum kynjum. Pankynhneigt fólk getur haft sterkari tilhneigingu til að hrífast af fólki af tilteknu kyni fremur en öðru. Sumir kjósa að skilgreina pankynhneigð sem svo að fólk hrífist af persónuleika fólks óháð kyni. Til marks um það er pankynhneigð stundum kölluð persónuhrifning.
TVÍKYNHNEIGÐ þýðir að laðast að tveimur kynjum. Hugtakið á oftast við um fólk sem laðast að konum og körlum en getur einnig átt við um til dæmis karla sem laðast bæði að konum og trans fólki utan kynjatvíhyggjunnar. Algengur misskilningur varðandi tvíkynhneigð er að tvíkynhneigt fólk hrífist nákvæmlega jafn mikið af konum og körlum. Vissulega getur það verið raunin en margt tvíkynhneigt fólk hrífst oftar, og jafnvel aðallega, að annaðhvort konum eða körlum en er samt tvíkynhneigt.
ÚRELD ORР
KYNSKIPTINGUR
Kynskiptingur vísar til þess að fólk skipti um kyn en upplifun trans fólks er sú að það leiðrétti kyn sitt fremur en skipti um það. Kynleiðrétting er rétt orð.
TRANSI/TRANSA
Trans einstaklingur eða manneskja. Trans kona og trans karl.
HOMMALEGT / TRANSLEGT
Trans einstaklingar og samkynhneigðir einstaklingar eru jafn mismunandi og þeir eru margir. Að bæta við -legt ýtir undir staðalímyndir.
KYNVILLA
Það er enginn að villast á kyni. Samkynhneigð er rétt orð.
TVÍTÓLA/MILLIKYNJA/HERMAFRÓDÍT
Allt orð sem hefur verið notað yfir intersex einstaklinga. Intersex fólk kýs hins vegar að nota Intersex.
FÆÐAST Í RÖNGUM LÍKAMA
Ég myndi forðast þessi orð þar sem það gefur til kynna að eitthvað sé rangt við líkama viðkomandi. Ég veit að sumir nota þetta til að lýsa sjálfum sér sem er gott og blessað en ég myndi forðast að setja þetta orðalag á annan einstakling. Sumir strákar fæðast með typpi og sumir með píkur. Sumar stelpur fæðast með typpi og sumar með píkur. Við erum alls konar.
FAGGI
Niðrandi og ljótt orð um samkynhneigða menn
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Eva Ruza fer í skóför Felix

Eva Ruza fer í skóför Felix
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu
Fókus
Fyrir 3 dögum

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sonur Elísu og Elíss fæddur

Sonur Elísu og Elíss fæddur
Fókus
Fyrir 4 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“