fbpx
Fimmtudagur 20.janúar 2022
Fókus

Guðlaugu var byrlað – Ósátt við viðbrögð heilbrigðisstarfsmanna – „Í miðju samtali datt ég fram á borðið og var bara alveg meðvitundarlaus“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Þriðjudaginn 26. október 2021 21:05

Guðlaug Ásrún var í viku að jafna sig eftir að hafa verið byrlað ólyfjan. Aðsendar myndir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðlaug Ásrún Grétarsdóttir var að skemmta sér með vinum sínum í miðbæ Reykjavíkur um þarsíðustu helgi þegar henni var byrluð ólyfjan. Hún man síðast eftir sér úti á reykingasvæði staðarins og næst í sjúkrahúsrúmi fjórum tímum síðar. Eins ógnvekjandi og skelfileg þessi reynsla var þá segir Guðlaug að verst hafi henni þótt viðmótið sem hún fékk á sjúkrahúsinu. Hún segir að hvorki hafi verið tekin blóðprufa né þvagsýni þrátt fyrir grun væri um byrlun, og var hún send heim enn ælandi og máttlítil.

Nýverið hefur umræða um byrlun svokallaðra naðugunarlyfja stóraukist á samfélagsmiðlum.

Sjá einnig: Opna sig um byrlanir eftir fullyrðingu Birgittu Lífar um faraldur á Íslandi – „Það er fokking HEPPNI að ég vaknaði daginn eftir“

Guðlaug Ásrún stígur fram með sína sögu í viðtali við DV til að vekja athygli á áhrifum byrlana og hvetur alla til að hringja strax á sjúkrabíl ef grunur er um byrlun, en eins og hún komst að þá getur ástandið orðið alvarlegt mjög hratt.

Það síðasta sem hún man

Guðlaug byrjaði kvöldið með vinum sínum í MiniGarðinum. Þar drakk hún einn drykk á einum og hálfum tíma. Síðan fóru þau niður í miðbæ á Bankastræti Club. „Við fórum beint á flöskuborð, borðið næst útidyrahurðinni. Þar vorum við allt kvöldið, ég fór bara á klósettið, annars sat ég bara við flöskuborðið,“ segir hún.

„Þar sem mér finnst áfengi mjög vont og er ekki mikill djammari þá blandaði ég mér mjög vægan drykk,“ segir Guðlaug sem blandaði sér hálfan einfaldan og drakk hann rólega þar til hún kláraði hann. „Svo var ég nýbúin að blanda mér nýjan drykk sem var jafn vægur. Þegar ég var hálfnuð með hann fór ég út með vinkonu minni sem var að reykja. Vinur okkar kemur út stuttu seinna og við stöndum þrjú að tala við einhverja fjóra stráka sem ég held að þau könnuðust við. Ég bað vin minn um að halda á glasinu mínu vegna þess að ég ætlaði eitthvað að laga mig til og hann sagðist ekki geta gert það þar sem honum væri svo kalt og ætlaði inn. Það er það síðasta sem ég man. Ég man ekki hvort ég hafi lagt glasið frá mér eða látið einhvern halda á því. Næsta sem ég man er að ég vakna á spítalagangi og hafði ekki hugmynd um hvað hefði skeð.“

Vitnisburður vinanna

Guðlaug hefur rætt við vini sína sem voru með henni um kvöldið.

„Vinir mínir segja að eftir að vinur minn fór inn stóð ég úti ásamt vinkonu minni í sirka tíu mínútur í viðbót. Ég fann ekkert á mér allt kvöldið. Enda búin að drekka lítið og var að mínu mati hálf edrú ennþá. Svo komum við inn og ég kom að flöskuborðinu og byrjaði að dansa mjög skringilega, en ég dansa aldrei. Vinur minn tók myndband af mér því honum fannst ég allt í einu svo furðuleg. Ég vaggaði og átti erfitt með að standa svo vinur minn bað mig um að koma og setjast hjá honum. Hann talaði aðeins við mig og ég talaði mjög hægt,“ segir Guðlaug og heldur áfram.

„Svo skyndilega í miðju samtali datt ég fram á borðið og var bara alveg meðvitundarlaus. Ég sýndi engin viðbrögð og svaraði engu. Ég andaði mjög lítið. Þá kom stelpa sem ég þekki ekki og náði í vinkonu mína sem var að tala við aðra manneskju og bað hana um að hringja á sjúkrabíl því ég var alveg „out.““

Sjúkrabíll kom á staðinn og fór með Guðlaugu upp á bráðamóttöku um klukkan 01:25.

Sjúkraflutningamenn bera út Guðlaugu. Aðsend mynd.

„Mig rámar ekki einu sinni smá í þetta. Ég man ekkert en ég fékk að sjá myndir frá vinum mínum af þeim keyra mig út af staðnum. Ég veit ekkert hvað tók við á sjúkrahúsinu þar sem ég var ein. Ég vaknaði um klukkan 05:10 á ganginum á sjúkrahúsinu. Það voru fullt af hjúkrunarfræðingum og læknum að ganga framhjá en enginn talaði við mig. Ég barðist við að lyfta hendinni minni upp sem var mjög erfitt og teygði mig í símann minn. Þá sá ég að fötin mín voru öll úti í ælu,“ segir Guðlaug.

Hún náði loks símanum sínum og sá þar skilaboð frá vini hennar þar sem kom fram að það hefði „slökknað“ á henni í bænum og vinirnir hefðu hringt á sjúkrabíl og þess vegna væri hún að vakna á sjúkrahúsi. Vinur hennar sagði henni einnig að heyra í sér eða vinkonu þeirra þegar hún myndi vakna og þau myndu sækja hana.

„Það var þá sem ég fattaði af hverju ég var þarna. Svo sirka fimmtán mínútum seinna kemur til mín hjúkrunarfræðingur og mælir blóðþrýstinginn hjá mér. Ég treysti mér ekki til að tala en henni datt ekki í hug að segja mér neitt. Svo fór ég bara aftur að sofa nema ég vaknaði klukkustund síðar því ég þurfti að pissa. Ég manaði mig upp í að spyrja hvort ég mætti fara á klósettið, þar sem ég er mjög feimin. Hjúkrunarfræðingurinn sýndi mér hvar klósettið var og fór svo. Þannig ég þurfti ein að standa upp sem var mjög erfitt, gekk ein þangað inn og gat varla beygt mig niður til að setjast á klósettið,“ segir Guðlaug og bætir við að ef hún hefði verið hjúkrunarfræðingurinn hefði hún alltaf farið með sjúklingnum á klósettið.

Myndir sem Guðlaug tók á sjúkrahúsinu.

„Ég var í engu standi til að gera þetta ein. Svo fór ég bara aftur að sofa, svaf í sirka klukkustund og svo var aftur mældur blóðþrýstingurinn hjá mér. Eftir það var ég vakandi í sirka hálftíma og þá kom mjög ljúf ung stelpa og spurði mig hvort ég myndi eftir einhverju. Ég sagði nei, að ég mundi ekki neitt. Þá sagði hún að starfsfólkinu grunaði að það hefði verið sett eitthvað í drykkinn minn og þess vegna væri ég þarna. Ég sagði bara ókei, enda hálf „out“ ennþá. Svo spurði hún mig hvort ég væri með einhvern sem gæti sótt mig. Ég var varla vöknuð og alls ekki búin að ná mér en ég sagðist ætla skoða það svo fór hún.“

Guðlaug reyndi að hafa samband við vini sína og fjölskyldu en enginn svaraði enda flestir sofandi svona snemma morguns.  „Þannig ég fór bara aftur að sofa og var síðan vakin klukkan hálf 9 og spurð hvort einhver gæti ekki sótt mig vegna þess þau vantaði rúmið fyrir annan sjúkling. Ég treysti mér engan veginn til að standa upp en ég kinkaði bara kolli, stóð upp og fór fram á biðstofu án þess að vera búin að redda fari.“

Ældi margsinnis og lá máttlaus á gólfinu

Guðlaug hringdi í vin sinn sem kom að sækja hana. „Ég ældi fjórum sinnum á leiðinni heim. Fór beint í sturtu þar sem ég lá á gólfinu og gat varla hreyft mig. Ég lagðist svo upp í rúm og reyndi að pína ofan í mig Gatorade og vatn sem ég ældi strax upp aftur. Ég var varla með orku til að lyfta upp höfðinu til að æla.“ Við tók slitróttur svefn þar sem hún svaf í smá tíma í senn en vaknaði til að æla. Það endurtók sig nokkrum sinnum þar til hún vaknaði um hálf tvö um daginn.

„Mér leið svo illa, mig verkjaði alls staðar í líkamanum, höfðinu, maganum, bakinu og var mjög flökurt,“ segir hún.

„Mér tókst að standa upp og fá mér vatnsglas sem ég loksins hélt niðri. Ég fór svo fram til vina minna sem útskýrðu fyrir mér hvað hefði skeð.“

Engin blóðprufa né þvagsýni

Guðlaug veltir því fyrir sér af hverju það hefði ekki verið tekin blóðprufa á sjúkrahúsinu né þvagsýni þrátt fyrir grun um byrlun. „Engar rannsóknir voru gerðar, bara mældur blóðþrýstingur frá klukkan 01:30 til 09:00. En samt sagði hjúkrunarfræðingurinn að þau héldu að það hefði verið sett eitthvað í glasið mitt,“ segir hún og bætir við að það hefði verið hægt að taka þvagsýni þegar hún fór að pissa um nóttina. „Þá væri það að minnsta kosti til sýni úr mér frá þessum degi en það er ekki til neitt. Mér finnst þetta mjög skrýtin vinnubrögð.“

Guðlaug segir að hana hefði strax langað að tilkynna vinnubrögðin til Landlæknis. „Því mér fannst mér bara hent út áður en ég náði almennilega áttum og skildi hvað hefði skeð,“ segir hún en bætir við að hún sé óviss um hvort hún ætli enn að gera það. „Ég ætla allavega að byrja á því að skoða sjúkraskýrslur.“

Guðlaug á sjúkrahúsinu. Aðsend mynd.

Skoðaði myndavélar

Guðlaug segir að hún hafi ekki hugsað sér að kæra í málinu þar sem það virðist vera ómögulegt fyrir hana að finna gerandann.

„Ég fékk sjálf að skoða upptökurnar með einum eiganda staðarins og það sést ekkert á þeim. Myndavélarnar hjá barnum eru mjög óskýrar, það sést ekki einu sinni í andlitið á manneskjunni sem er næst barnum og ég sat við hliðina á útidyrahurðinni, sem sagt lengst frá myndavélinni. Þannig ég hef ekkert í höndunum. En ég ætla að sækja um að fá bæði sjúkra- og lögregluskýrslur vegna málsins,“ segir hún.

Erfitt að sjá hvað margar verða fyrir byrlun ólyfjan

Guðlaug var í viku að jafna sig líkamlega eftir byrlunina. „En andlega hliðin er mjög skrýtin eftir þetta. Mér finnst erfiðast af öllu hvað ég fékk lélega þjónustu á sjúkrahúsinu. Þau tóku engar rannsóknir. Þeim vantaði bara rúmið og mér fannst það vera það eina í þeirra huga. Frekar en hvort mér liði vel og hvað þá að segja þetta svona beint við sjúkling,“ segir hún.

„Það er mjög erfitt að sjá hvað ótrúlega margar stelpur eru að lenda í þessu í dag. Þetta var mér svo fjarri og ég hélt ég myndi aldrei lenda í þessu. Ég hef aldrei verið eins varnarlaus áður og mjög erfitt að muna eftir engu. Ég vil minna alla á að passa upp á vini sína sama hvort það sé byrlun eða annað. Ef þú heldur að vini þínum hafi verið byrlað, hringdu strax á sjúkrabíl. Ekki reyna að fara með hann heim því það er svo ótrúlega margt sem getur gerst sem þú ræður ekki við,“ segir Guðlaug og útskýrir nánar.

„Ég til dæmis andaði varla, gat ekki kyngt munnvatni og kafnaði næstum í ælu. Ókunnuga stelpan sem kom til okkar og hjálpaði mér tók strax eftir því að ég gat ekki andað. Hún lyfti upp höfðinu mínu og þá komst ælan upp úr mér, annars hefði ég líklegast kafnað því öndunarvegurinn var alveg lokaður. Ég er svo þakklát henni, vinum mínum, sjúkraflutningamönnunum og lögreglu fyrir að koma mér á öruggan stað og að ekki fór verra.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 5 dögum

Sýndi á sér brjóstin í stúkunni og allt varð snælduvitlaust – „Það eru börn hérna!“ – „Sestu aftur niður tíkin þín“

Sýndi á sér brjóstin í stúkunni og allt varð snælduvitlaust – „Það eru börn hérna!“ – „Sestu aftur niður tíkin þín“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Þessi einfalda spurning gæti komið í veg fyrir næsta rifrildi við makann

Þessi einfalda spurning gæti komið í veg fyrir næsta rifrildi við makann