fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

Stórstjörnurnar hneyksluðu á árinu – Stærstu skandalar 2020

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Föstudaginn 1. janúar 2021 12:30

Samsett mynd.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið var sannkölluð rússíbanareið fyrir alla, en fyrir Ellen DeGeneres, Harry og Meghan, Britney Spears, Andrew prins og Kanye West, var árið sérlega erfitt. Þau voru á milli tannanna á fólki allt árið og er óhætt að segja að þau séu flækt í stærstu stjörnuskandala ársins.

Ellen DeGeneres. Mynd/Getty

Ellen DeGeneres

Grínistinn Ellen DeGeneres hefur undanfarin sautján ár stjórnað þættinum The Ellen DeGeneres Show. Þátturinn hefur verið gríðarlega vinsæll, en þegar fór að líða á árið var áhorf þáttarins í frjálsu fjalli í kjölfar harðrar gagnrýni. Ellen var sökuð um rasisma, einelti og að stuðla að neikvæðu vinnuumhverfi bak við tjöld þáttarins.

Það mætti segja að upphafspunkturinn hafi verið í mars, þegar samfélagsmiðlastjarnan Nikkie de Jager lýsti upplifun sinni sem gestur í The Ellen DeGeneres Show. Hún sagði að Ellen hefði ekki heilsað sér fyrir þáttinn og að allir gestir þáttarins hefðu fengið eigið klósett, en ekki hún.

Ellen og Nikkie.

Nikkie kom í þáttinn til að ræða um opinberun sína sem transkona, en þar til hún greindi frá því hafði það verið leyndarmál. Eftir þetta fór boltinn að rúlla. Sögur um starfshætti hennar og karakter fóru á flug um Twitter. Fyrrum starfsmenn þáttarins fóru ófögrum orðum um hegðun hennar. Margir sögðu hana taka einhvern einn starfsmann fyrir á degi hverjum og nýju starfsfólki var ráðlagt að „láta sig hafa það, því að á morgun verði það einhver annar.“

Með hverri vikunni virtist sífellt bætast í hóp þeirra sem voru ósáttir við Ellen. Meðal þeirra var fyrrum lífvörður hennar, Tom Majerack, sem sagði hegðun hennar hafa verið „niðrandi“ í garð hans.

Í júlí ræddi BuzzFeed News við tíu fyrrverandi starfsmenn og einn sem vann enn hjá þættinum og sögðust þeir hafa upplifað kynþáttafordóma á tökustað, ekki fengið veikindadaga greidda og ekki þorað að kvarta undan aðstæðum.

Í ágúst voru þrír háttsettir framleiðendur reknir frá þættinum og sett var af stað rannsókn til að komast til botns í málinu. Í kjölfarið bað Ellen starfsfólk sitt afsökunar og kjör starfsmanna voru bætt.

Frægt viðtal Ellen við Mariuh kom aftur upp á yfirborðið.

Margt úr fortíð Ellenar kom einnig aftur upp á yfirborðið, meðal annars frægt viðtal hennar við stórsöngkonuna Mariuh Carey árið 2008. Ellen hálfpartinn neyddi söngkonuna til að staðfesta að hún væri ólétt, eitthvað sem hún vildi ekki opinbera og viku seinna missti Mariah fóstrið og þurfti að tilkynna það í kjölfarið.

Mariah opnaði sig um viðtalið alræmda við Vulture í september. „Mér fannst þetta ótrúlega óþægilegt. Það er það eina sem ég get sagt. Og ég átti mjög erfitt með að glíma við það sem kom á eftir,“ sagði hún.

Nokkrar stjörnur stigu fram Ellen til varnar og lýstu stuðningi við hana. Þar á meðal Kevin Hart, Katy Perry og Steve Harvey. Ellen sneri til baka á skjáinn í september og byrjaði á því að biðjast afsökunar. Það var í fyrsta og eina skiptið sem hún hefur tjáð sig opinberlega um málið. Hún greindist með COVID í byrjun desember.

Kim Kardashian og Kanye West.

Kanye West

Það var erfitt ár fyrir rapparann Kanye West. Slúðurmiðlar sögðu hjónaband hans og raunveruleikastjörnunnar Kim Kardashian vera á hálum ís, hann bauð sig fram til forseta Bandaríkjana, en hlaut aðeins um 60 þúsund atkvæði og svo olli hann fjaðrafoki á Twitter. Hann sakaði meðal annars eiginkonu sína um að hafa reynt að læsa hann inni.

Fjölmiðlar drógu þá ályktun frá Twitter-færslum hans að hann væri að upplifa maníu á háu stigi. Rapparinn hefur verið opinn um geðræn vandamál sín og að hann sé með geðhvarfasýki. Kim birti í kjölfarið yfirlýsingu á Instagram þar sem hún bað fólk um að sýna Kanye og fjölskyldu þeirra skilning á þessum erfiðu tímum. Samkvæmt slúðurmiðlum vestanhafs lifa nú hjónin „sitthvoru lífinu.

Andrew Bretaprins og Jeffrey Epstein.

Andrew Bretaprins

Andrew Bretaprins hefur verið talsvert í kastljósinu í ár vegna tengsla sinna við bandaríska auðkýfinginn og barnaníðinginn Jeffrey Epstein. Hann hefur verið sakaður um að hafa nýtt þjónustu Jeffreys til að fá aðgang að ungum stúlkum, jafnvel barnungum, til að misnota.

Prinsinn hefur neitað þessu, en undanfarin misseri hafa sífellt komið fram nýjar frásagnir og gögn renna stoðum undir ásakanirnar og hafa dregið úr trúverðugleika hans.

Virginia Roberts Giuffre steig fram í sumar og lýsti kynferðisofbeldi sem hún segist hafa orðið fyrir af hálfu Andrew Bretaprins þegar hún var 17 ára. Hún sagði Jeffrey hafa leigt hana út til Andrew svo hann gæti misnotað hana. Hún hefur sagt að hún vonist til að Andrew verði stungið í steininn og fái klefa við hliðina á Ghislaine Maxwell.

Ghislaine Maxwell, unnusta Jeffrey Epstein, var í felum þegar bandaríska alríkislögreglan FBI handtók hana í byrjun júlí. Hún er grunuð um að hafa útvegað Epstein fjölda ungra stúlka sem hann nauðgaði og beitti kynferðislegu ofbeldi. Hún er einnig grunuð um að hafa sjálf tekið þátt í kynferðisofbeldinu.

Í 417 blaðsíðna yfirheyrslu yfir Ghislaine komu fram nýjar og áður óbirtar upplýsingar um meint kynferðisofbeldi Andrew gegn Virginiu.

Britney Spears.

Frelsisbarátta Britney Spears

Það eru tólf ár síðan söngkonan Britney Spears var nauðungarvistuð á geðdeild og svipt sjálfræði eftir taugaáfall, sem var fjallað grimmt um í slúðurmiðlum um heim allan. Britney hefur hvorki sjálfræði né fjárræði og hafa faðir hennar og lögfræðingur verið lögráðamenn hennar síðustu 12 ár. Britney reyndi að komast undan klóm föður síns í ár og aðdáendur hennar hófu #FreeBritney herferðina á samfélagsmiðlum.

Herferðin var afar áberandi á samfélagsmiðlum í ár og héldu aðdáendur stjörnunnar því fram að henni væri haldið fanginni gegn vilja sínum.

Myndbönd Britney á samfélagsmiðlum hafa verið miðpunktur í herferðinni og töldu margir að þar væri að finna dulin skilaboð. Þekktasta dæmið var þegar Britney ákvað að klæðast gulum bol í myndbandi á Instagram. Í myndbandinu lagði hún sérstaka áherslu á bolinn. „Ég var svo spennt að fara í uppáhalds gula bolinn minn að ég varð bara að deila því.“

Aðdáendur Britney hafa mótmælt að faðir hennar sé lögráðamaður hennar.

Seinna kom í ljós að aðdáandi hafði sent henni skilaboð um að klæðast gulum bol í næsta myndbandi væri hún í einhverri hættu. Þetta og fleiri svipuð atvik blésu samsæriskenningum og #FreeBritneyherferðinni byr undir báða vængi.

Faðir Britney, Jamie Spears, var lögráðamaður hennar frá 2008 til 2019, hann þurfti að stíga til hliðar vegna veikinda og tók umboðsmaður Britney, Jodi Montgomery, við keflinu. Í ágúst 2020 óskaði Britney eftir því að faðir hennar myndi ekki fá að taka aftur við sem lögráðamaður hennar, hún sagðist frekar vilja að Jodi myndi halda áfram. Britney segist ekki tala við föður sinn og lögmenn hennar sögðu fyrir rétti að hún væri hrædd við hann. Dómstóll í Bandaríkjunum vísaði kröfu hennar frá í nóvember og fékk faðir hennar aftur lögræði yfir henni.

Brottför Harry og Meghan úr konungsfjölskyldunni fékk nafnið Megxit.

Megxit

Fjölmiðlar víða um heim töluðu um lítið annað í byrjun árs en að hertogahjónin, prins Harry og Meghan Markle, ætluðu að stíga til hliðar frá konunglegum skyldum sínum og flytja til Kanada. Sagt var að konungsfjölskyldan væri í sárum, en hertogahjónin tilkynntu skyndilega um brottför sína, án þess að bera hana undir neinn.

Það var afar þungt yfir höllinni í byrjun árs og er óhætt að segja að ákvörðun þeirra olli fjaðrafoki. Samkvæmt breskum fjölmiðlum var Elísabet Bretlandsdrottning verulega vonsvikin með ákvörðun þeirra.

Sögur segja að hjónin hafi ætlað sér að stíga fram í viðtali og útskýra ákvörðun sína og óttuðust margir að Meghan myndi ljóstra upp fordómum sem hún hefði orðið fyrir innan fjölskyldunnar vegna húðlitar síns. Það varð ekkert úr því viðtali.

Harry og Meghan sögðust vilja eiga meira einkalíf og þess vegna hefðu þau tekið þessa ákvörðun. En hvort það hefur gengið eftir er erfitt að meta. Þau voru stöðugt á milli tannanna á fólki allt árið og vildi stór hluti Breta að hjónin yrðu svipt titlunum hertogi og hertogaynja af Sussex.

Hjónin fengu slæma útreið í breskum fjölmiðlum.

Í september var tilkynnt að Harry og Meghan hefðu gert samning við streymisveituna Netflix um að gera mismunandi þætti, meðal annars heimildarmyndir, kvikmyndir, þætti og barnaefni.

„Okkar markmið verður að skapa fræðandi efni sem veitir fólki líka von. Sem foreldrum þykir okkur mikilvægt að gera efni fyrir alla fjölskylduna,“ sögðu þau í tilkynningu um samstarf sitt við Netflix.

Fjölskyldan dvaldi á árinu í Kanada, Beverly Hills, Santa Barbara og á einnig heimilið Frogmore Cottage í Windsor.

Harry og Meghan notuðu nýfundið frelsi sitt til að tala um málefni sem þau brenna fyrir. Meghan talaði um morðið á George Floyd og þau ræddu saman um mikilvægi þess að nýta kosningarétt sinn fyrir forsetakosningar Bandaríkjanna í byrjun nóvember.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Eiginmaður Katrínar segir þau hafa farið að rífast þegar þau hittust fyrst

Eiginmaður Katrínar segir þau hafa farið að rífast þegar þau hittust fyrst
Fókus
Í gær

Gunnar sat 12 spora fund í morgun þegar eitt vakti áhuga hans – „Ég er sjálfur sekur“

Gunnar sat 12 spora fund í morgun þegar eitt vakti áhuga hans – „Ég er sjálfur sekur“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Uppnám á tónleikum Laufeyjar – Hundruð falsaðra miða í umferð og sviknir aðdáendur grétu

Uppnám á tónleikum Laufeyjar – Hundruð falsaðra miða í umferð og sviknir aðdáendur grétu
Fókus
Fyrir 2 dögum

8 ára drengur með heilaæxli steig á svið – Sjáðu atriðið sem hreyfði við Simon Cowell

8 ára drengur með heilaæxli steig á svið – Sjáðu atriðið sem hreyfði við Simon Cowell
Fókus
Fyrir 3 dögum

Snýst ekki um að taka sviðsljósið frá körlum heldur beina því einnig að konum – „Þetta er mjög karllægur bransi og hefur alltaf verið“

Snýst ekki um að taka sviðsljósið frá körlum heldur beina því einnig að konum – „Þetta er mjög karllægur bransi og hefur alltaf verið“
Pressan
Fyrir 3 dögum

47 ár frá upphafi tveggja tímamótageimferða

47 ár frá upphafi tveggja tímamótageimferða