fbpx
Föstudagur 13.desember 2024
Fókus

Kynlíf eldri borgara – Leyfðu líkamanum að hitna – Skítt með staðalímyndir

Erla Hlynsdóttir
Sunnudaginn 14. mars 2021 21:00

Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigga Dögg kynfræðingur er landsmönnum kunn en hún hefur um árabil rætt um kynlíf á hispurslausan hátt. Kynlífshorn Siggu Daggar leysir tímabundið af Fjölskylduhorn Kristínar Tómasdóttur, en Kristín er upptekin við að fjölga mannkyninu. Sigga Dögg svarar hér spurningu frá eldri konu sem finnst hún vera afskrifuð vegna aldurs.

Sigga Dögg kynfræðingur.

Kæra Sigga Dögg.

Mér líður eins og ég sé ósýnileg. Það er eins og samfélagið hafi afskrifað mig. Ég er gamalt krumpað krútt en ekki þroskuð kona með ólgandi ástríðu og ósvalandi lífsþorsta. Það er líkt og nú, á mínum svokölluðu „bestu árum“, sé hlutverk mitt bundið við prjónaskap, göngutúra og pottaspjall í lauginni. Ekki að það sé neitt að því, en hvar er rómansinn og ástalífið? Stunda eldri borgarar einnar nætur gaman? Og ef svo er, talar þá enginn um það? Mér finnst eins og ég tali fyrir daufum eyrum þegar ég reyni að ræða þetta eða jafnvel hneyksli viðstadda! Er þetta bara búið? Þarf ég að finna mér aðra leið til útrásar?

Lausn frá staðalmyndinni

Örvæntu eigi! Lífinu er langt í frá lokið þó kynlífsleysi hrjái þig.

Byrjum á ósýnileikanum. Konur greina gjarnan frá því á ólíkum tímabilum í lífi sínu að vera ósýnilegar, eða kannski er réttara að tala um að kynveran falli í dá. Þetta eru nefnilega tvö ólík mál þó þau séu nátengd. Ósýnileikinn er út á við, hugmyndir samfélagsins um okkur, eins og þú kemur inn á, þessar bannsettu staðalmyndir sem þjóna engum. Og svo innri kynveran og samband okkar við okkur sjálf.

Byrjum á þér út á við. Hvernig þú birtist sjálfri þér, eða sýnir sjálfa þig, og hvernig þú (mögulega) birtist öðrum.

Leyfðu þér að halla þér aftur, loka augunum, slökkva á öllum þessum ærandi röddum um hver þú ert og reyna að hlusta á innri röddina þína – hvað finnst þér? Hvað langar þig að tala um? Hvað langar þig að gera? Hvernig langar þig að klæða þig? Eða klippa þig? Það er ærlegt verkefni að taka pláss og dansa eftir eigin takti. Og það er kannski loksins á þínum efri árum sem þú getur leyft þér að taka það pláss. Það er nefnilega líka rými í staðalmyndinni fyrir „eldri borgara flipp“. Þannig að hvort sem þú fellur inn í staðalmyndina eða ögrar henni, finndu lífsgleðina þína í tjáningunni sem tekur ekki mið af öðrum.

Ef vinkonurnar hneykslast á kynlífstali – spurðu þá út í það, af hverju er þetta málefni svona tabú? Kynlíf er eitthvað sem brennur á flestum, en fæstir þora að tala um af ótta við að verða dæmdir, þú gætir verið sú sem skapar öruggt rými til að ræða um kynlíf, án fordæmingar og skammar. Það er dýrmætt og ber ekki að vanmeta. Og ég hvet þig til að opna á þennan ósýnileika og skoða hann bæði sjálf og jafnvel með vinkonum þínum og vinum.

Hvernig viltu vera séð? Hver viltu að sjái þig?

Svo förum við inn á við, í kynveruna þína.

Þarf ekki alltaf leikfélaga

Það er undir okkur hverju og einu komið að rækta samband okkar við kynveruna sem býr innra með okkur öllum. Það blómstrar ekki í tómarúmi heldur þarf athygli og alúð. Þó er ekki þar með sagt að það þurfi leikfélaga. Gáðu að því. Þó vissulega geti slíkt verið skemmtilegt og gefandi þá er það á okkar eigin ábyrgð að sjá sjálfar um okkar eigin kynferðislegu útrás, eins og mig grunar að margar konur sem giftar hafa verið körlum í mörg ár þekki ansi vel. Nú er ráð að gefa sér rými og tíma til að kortleggja hvað einkennir þína kynveru.

Hvernig lítur píkan þín út? Hefur hún breyst? Hvað kemur þér til? Hvað finnst þér gott og hvað æsandi? Hvernig viltu láta snerta þig? Hvað viltu prófa?

Í leiðangrinum að þessari kortlagningu er um að gera að næla sér í „verkfæri“, kanna fantasíur, og splæsa í kynlífstæki og sleipiefni. Það eru til ógrynni af alls konar erótískum klámskruddum á bókasöfnum landsins – svo ég tali nú ekki um veraldarvefinn! – og kynlífstæki og sleipiefni er hægt að fá sent upp að dyrum! Kynlíf byrjar nefnilega á því að kveikja á heilanum og það gerum við í gegnum fantasíur. Gott er að hafa í huga að hér á siðalöggan og pólitísk réttlætiskennd ekki heima. Leyfðu þér að lesa og finna hvernig líkaminn kveikir á sér og hitnar við sjóðheitar kynlífslýsingar, skítt með staðalmyndir og þess háttar.

Er þetta æsandi? Kveikir þetta bál í lendunum?

Kynveran þróast út ævina

Það gleymist ansi oft kynveran breytist og þróast út ævina, ekki svo ólíkt bragðlaukunum, og það sem okkur áður þótti gott þykir okkur það jafnvel ekki lengur og þar fram eftir götunum. Því er um að gera að leyfa sér að vera svolítið forvitin um þig sjálfa og leyfa þér að setja smá leik inn í kynlífið þitt með sjálfri þér. Já, þú last það rétt. Þú getur átt frábært kynlíf með sjálfri þér og nú er um að gera að taka sér pláss og fróa sér!

Láttu renna í bað, settu notalega tónlist á fóninn, með bók í annarri hendi og sturtuhausinn í hinni.

Nú eða ef þú ert tæknivædd þá er um að gera að hlusta bara á hljóðbók og hafa báðar hendur lausar! Kynlíf er leikur og það má setja gleði inn í hann. Kynlíf er til að njóta, til að láta okkur líða vel. Þetta er gjöf sem þú gefur þér.

Svo ef þú vilt finna þér leikfélaga þá er um að gera að tala opinskátt um kynlíf, ég hugsa að þeir sem ekki kunna að meta það, séu ekki réttir leikfélagar fyrir þig! Gangi þér vel og góða skemmtun!

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram
Fókus
Í gær

Selena Gomez trúlofuð

Selena Gomez trúlofuð
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sagan af Kóngsa geimfara er ný barnabók eftir Laufeyju Arnardóttur

Sagan af Kóngsa geimfara er ný barnabók eftir Laufeyju Arnardóttur
Fókus
Fyrir 2 dögum

Ragnar fékk áfall þegar vaktfélagi hans svipti sig lífi – „Hann bjargaði mörgum mannslífum, af hverju gat ég ekki bjargað hans?“

Ragnar fékk áfall þegar vaktfélagi hans svipti sig lífi – „Hann bjargaði mörgum mannslífum, af hverju gat ég ekki bjargað hans?“