fbpx
Þriðjudagur 16.apríl 2024
Fókus

Úr jakkafötunum í jogginggallann – Sögðu upp öruggum störfum í heimsfaraldri og hafa ekki litið til baka

Erla Dóra Magnúsdóttir
Sunnudaginn 7. mars 2021 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það var í mars í fyrra, þegar COVID-faraldurinn var kominn á flug hér á landi, að Ingi Torfi Sverrisson og kærasta hans, Linda Rakel Jónsdóttir, ákváðu að skipta alfarið um gír. Þau voru bæði í góðu starfi sem viðskiptafræðingar en ákváðu að stofna sitt eigið fyrirtæki, ITS Transformation, sem aðstoðar fólk við að ná markmiðum sínum með breyttu mataræði.

Ingi ræddi við blaðamann um þessa örlagaríku kúvendingu og macros-aðferðina sem hefur skilað viðskiptavinum hans ótrúlegum árangri og verið þeim heilmikill skóli.

Matarbókhald

Macros-aðferðin eða makrósumataræðið, byggir á því að vigta og skrá allt sem þú lætur ofan í þig til að tryggja að þú sért að fá þá næringu sem þú þarft í réttum hlutföllum. „Með aðferðinni sérðu hvað þú ert að borða, hvort og þá hvað þú ert að gera vitlaust og þú getur þá bætt úr því.“

Að skrá macros getur verið þó nokkur handavinna, en vikta þarf matinn og skrá hann niður í til dæmis smáforrit á borð við MyFitnessPal.

„Þetta er smá vinna og púsluspil, en vinna sem skilar miklu til baka. Við viljum öll ná árangri og leggja fram vinnuna en oft erum við ekki að fara rétt að hlutunum, erum að borða of lítið, svelta okkur, fasta, drekka bara safa þegar í rauninni ættum við að borða mikið meira til að ná þeim árangri sem við stefnum að.

Þetta lærir þú betur þegar þú tekur tímann og skráir það sem þú ert að borða. Síðan ef þú vilt hætta að nota þessa aðferð, eftir kannski tvo, þrjá mánuði, þá býrðu samt að því að hafa mikið betri þekkingu á því hvernig næring er í mat og ert ekki að sveiflast í þyngd eins og jójó. Þú veist mikið meira um mat og að þú getur kannski leyft þér pítsu á föstudagskvöldi en kannski ekki pítsu, nammi og bjór.“

Aðferðin byggir ekki á því að banna neinn mat, aðeins að auka meðvitund um hvaða næring er í matnum og hversu mikið við þurfum af honum.

„Ef þú fylgist ekki með heimilisbókhaldi þínu þá getur þú lent í því að fara yfir á reikningnum. Eins getur þú verið útsjónarsamur og lagt til hliðar til að eiga fyrir einhverju sem þig langar, utanlandsferðinni eða nýjum bíl. Þetta er eins með mataræðið.“

Ása eftir þrjá mánuði hjá ITS

Tölur ljúga ekki

„Þetta er bara útsjónarsemi og tölur. Tölur ljúga ekki – þetta er setningin okkar. Þú ert að vinna með tölur og staðreyndir og þú skráir þínar tölur til að auka meðvitundina og tilfinninguna fyrir því hvað þú lætur ofan í þig. Það er hægt að leyfa sér allan mat, þó að við Linda hvetjum fólk vissulega til að velja holla fæðu. En ástæðan fyrir því að fólk endist í þessum lífsstíl er sú að það er rými fyrir alla fæðu, þetta snýst ekki um að útiloka mat heldur að læra um hann. Þú getur fengið þér það sem þér finnst gott, steik og bernaisesósu, með því að vera útsjónarsamur.“

Macros byggir á næringunni sjálfri en ekki boðum og bönnum. Til að mynda er ekki farið þá leið að forðast sykur eins og heitan eldinn, líkt og margt tísku-mataræði gerir í dag.

„Það tekur enginn sykur út allt lífið. Við viljum hafa sykur í lífinu að einhverju leyti. Við erum ekki megrunarráðgjöf. Við erum ekki að segja fólki hvað það á að borða. Lærdómurinn felst í því að hver og einn byggir sitt mataræði út frá sjálfum sér og sínum þörfum. Þetta snýst um að einstaklingurinn ákveður hvað hann lætur ofan í sig og hann ber ábyrgð á sinni neyslu. Þetta er frjáls aðferð en þú þarft að gæta að ákveðnum tölum. Þetta er rammi fyrir fólk til að miða við.“

Algengt að fólk borði of lítið

Kostirnir við macros-aðferðina eru fjölmargir. Þau geta hjálpað fólki að ná enn betri árangri í hreyfingu og heilsu og aukið orku.

„Þetta hefur sýnt sig og sannað hjá okkur, íþróttafólk hefur komið til okkar úr fremstu röðum í sínum íþróttum en náð enn betri árangri því oft hefur mataræði þess ekki hentað metnaði þess í íþróttum.

Ég hef æft rosalega mikið, CrossFit, í mörg ár. Það var ekki fyrr en ég fór að skrá macros sem ég fann virkilegan mun og fékk betur útborgað fyrir mína vinnu.“

Ingi segir fólk sem leitar til hans gjarnan komast að því að það hafi hreinlega ekki verið að innbyrða næga næringu.

„Merkilegt líka er að það er rosalega algengt að fólk er að borða alltof lítið. Það er algengt að fólk sem byrjar hjá okkur hafi samband og spyrji: Hvernig á ég eiginlega að ná að borða allan þennan mat?“

Eins getur aukin meðvitund fyrir næringu í gegnum macros leitt til þess að fólk léttist, en þetta er engin skyndilausn.

„Þetta gerist ekkert á ógnarhraða heldur á réttum hraða.“

Pepp-camp en ekki bootcamp

Það er þó ekki bara macrosaðferðin sem Ingi og Linda leggja áherslu á heldur einnig andlegi þátturinn.

„Við látum líka fólk gera verkefni sem lúta að hugarfari. Sjálfstraust, þakklæti, hrós, jákvæðni – þetta er allt inni í aðferðafræðinni hjá okkur. Við viljum að fólk hugsi inn á við, þetta er ekki bara spurning um macros-mataræði heldur skiptir andlegi þátturinn miklu. Við viljum að fólki líði vel. Sýni þakklæti fyrir það sem það hefur í kringum sig, hugsi um góða hluti og fái hrós.“

Ingi þekkir sjálfur mikilvægi þess að huga að andlegu hliðinni eftir erfiðan kafla í lífinu. „Það var erfiður kafli í lífi mínu, ég gekk í gegnum skilnað og leið ekki nægilega vel og fór að huga að andlegu hliðinni, reyna að finna eitthvað til að ná jafnvægi.

Þá prófaði ég hugleiðslu sem minnkaði áreiti, gaf betri einbeitingu og slökkti á neikvæðum hugsunum. Ég hef haft mikinn áhuga á þessu síðan, að peppa fólk upp, efla og hvetja áfram. Þetta fyrirtæki varð til út frá hugleiðslu, hún gaf mér sjálfstraustið og trúna á sjálfan mig til að kýla á þetta. Ja, það og líka kærastan mín sem hvatti mig áfram.“

Katrín Edda er meðal ánægðra viðskiptavina

Fórnuðu öruggri vinnu í COVID

Það vakti furðu margra úr nærumhverfi Inga og Lindu þegar þau ákváðu að segja upp störfum sínum og stofna eigið fyrirtæki.

„Ég var búinn að vera í sextán ár í sömu vinnunni og ég er rosalega vanafastur og lítið fyrir breytingar. En þetta er eitthvað sem ég búinn að vera að gera með mínum vinum í nokkurn tíma, að hjálpa með mataræðið.

Svo eru tveir aðilar sem spyrja mig hvort þeir megi ekki borga mér fyrir að kenna þeim þetta. Það fannst mér fyndið, borga mér fyrir að kenna eitthvað? Þá förum við Linda að ræða þetta og hún hvetur mig til að kýla á þetta, byrja að auglýsa og sjáðu hvað gerist. Þá byrjar boltinn að rúlla.

Þarna er ég með örfáa viðskiptavini og er enn í fullri vinnu, en þeim fjölgar hratt. En svo fer þetta að vinda upp á sig og eftirspurnin var það mikil að í ágúst var ég kominn með biðlista fram í nóvember.

Þá sáum við að þetta væri eitthvað sem væri eftirspurn eftir og væri kannski hægt að lifa á. Ég og Linda veltum því þá fyrir okkur hvort annað okkar myndi hætta í vinnunni og einbeita sér að þessu, en þá hugsaði ég að ef þetta væri að ganga svona vel núna, hvað gætum við gert ef við færum bæði að einbeita okkur að þessu.

Svo við tökum sénsinn, segjum bæði upp vinnunni okkar og kýlum á þetta. Okkur fannst við ekki hafa efni á öðru, svona tækifæri bjóðast ekki oft.

Auðvitað varð fólkið í kringum okkur hissa. Það var COVID og við með örugga vinnu. En við sáum það bara að þetta væri að virka það vel. Umsagnir viðskiptavina voru ótrúlega jákvæðar. Á hverjum degi fáum við skilaboð frá fólki sem er svo ánægt og þakklátt fyrir þessa aðferð og þetta samfélag sem við höfum byggt upp. Þetta er mjög gefandi. Í dag eru níu starfsmenn í þessu fyrirtæki.“

Guðmundur er búinn að vera hjá ITS í 11 mánuði

Jákvætt orðspor

Ingi segir að viðskiptavinirnir hafi að mestu séð um að auglýsa fyrirtækið, sem er enn ekki komið með heimasíðu en fagnar þó mikilli velgengni út frá ótrúlega jákvæðum umsögnum og meðmælum viðskiptavina. Fjölmargir þekktir einstaklingar eru meðal viðskiptavina ITS Transformations, svo sem tónlistarkonan Greta Salóme, knattspyrnukonan Glódís Perla Viggósdóttir, tónlistarmennirnir Friðrik Dór og Aron Can, Ívar Guðmundsson útvarpsmaður, og handboltamaðurinn Arnór Þór Gunnarsson. Síðan er Sveindís Jane Jónsdóttir, knattspyrnukona að byrja hjá þeim.

„Og það er dásamlegt. Þess vegna erum við svona þakklát og glöð og vöndum okkur við þetta.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Tinna er líklega búin að finna móður sína – „Ég þarf að vera tilbúin til að fara út til þegar kallið kemur“

Tinna er líklega búin að finna móður sína – „Ég þarf að vera tilbúin til að fara út til þegar kallið kemur“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Einn dáðasti leikarinn á leið í hnapphelduna eftir að unnustan fór á skeljarnar

Einn dáðasti leikarinn á leið í hnapphelduna eftir að unnustan fór á skeljarnar
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Það var mjög erfitt að horfa upp á ungan mann í dauðastríði“

„Það var mjög erfitt að horfa upp á ungan mann í dauðastríði“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Jón Arnar byrjaði skyndilega að missa hárið – Hefði gert þetta öðruvísi í dag

Jón Arnar byrjaði skyndilega að missa hárið – Hefði gert þetta öðruvísi í dag
Fókus
Fyrir 4 dögum

Læknir segir að þú getir sagt til um typpastærð karlmanns með því að horfa framan í hann

Læknir segir að þú getir sagt til um typpastærð karlmanns með því að horfa framan í hann
Fókus
Fyrir 4 dögum

Prinsinn rýfur þögnina eftir að Katrín greindi frá krabbameinsgreiningunni

Prinsinn rýfur þögnina eftir að Katrín greindi frá krabbameinsgreiningunni