fbpx
Föstudagur 22.janúar 2021
Fókus

Öllu gríni fylgir einhver afstaða

Auður Ösp
Laugardaginn 25. júlí 2020 07:00

Ljósmynd/Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið 2014 fóru tvær ungar og óreyndar leikkonur á fund með Stöð 2. Þær lögðu þar fram hugmynd að nýjum sketsaþáttum og sýndu stjórnendum stöðvarinnar grínatriði sem þær höfðu tekið upp á símana sína. Þátturinn fékk nafnið Þær tvær og sló í gegn. Þessar tvær leikkonur, Vala Kristín Eiríksdóttir og Júlíana Sara hafa síðan þá skrifað, framleitt og leikið í fjórum sjónvarpsþáttaröðum og er sú fimmta á leiðinni. Þær leiddu blaðamann DV í allan sannleikann um breytt landslag í leiklistarbransanum á Íslandi, vandræðaleg og skondin móment frá ferlinum, lífið, tilveruna, ástina og framtíðina.

Venjulegt fólk

Það er ekki leiðinlegt að umgangast þær Völu og Júlíönu. Þær líta þó ekki á sig sem „fyndu gellurnar“ þó svo að aðrir hafi gert það.

Júlíana: „Mér finnst það alveg frekar óþægilegt stundum. Eins og núna um daginn þá var ég að tala við stelpu sem ég hafði ekki hitt áður og svo allt í einu sagði hún við mig „ég er sko bara að bíða eftir að þú segir eitthvað fyndið“.

Vala: „Mér er alveg sama þó ég sé „þessi fyndna þarna“ fyrir einhverjum úti í bæ. Það er bara fínt, en ég lít ekki á mig þannig.“

Þessa dagana standa yfir tökur á þriðju seríunni af Venjulegu fólki þar sem þær Vala og Júlíana leika aðalhlutverkin og skrifa handritið ásamt Dóra DNA og Fannari Sveinssyni. Glassriver framleiðir og verða þættirnir aðgengilegir í Sjónvarpi Símans Premium í haust. Fyrsta þáttaröðin var frumsýnd hjá Sjónvarpi Símans í október 2018 og sló strax í gegn. Önnur þáttaröð fór síðan í loftið rúmu ári síðar og viðtökurnar voru þær sömu. Í október síðastliðnum var tilkynnt að þættirnir væru á leið vestur um haf en MHz Networks hefur keypt sýningarréttinn á þáttaröðinni sem mun fara í dreifingu í Bandaríkjunum. Það er því ljóst að mikið vatn hefur runnið til sjávar frá árinu 2014.

Í þáttunum leika þær nokkurs konar skáldaða útgáfu af þeim sjálfum. Þættirnir fjalla um hversdagsraunir vinkvennanna Völu og Júlíönu, sem báðar eru leikkonur að reyna að fóta sig í lífinu á meðan þær glíma við venjulega hluti eins og delluóðan eiginmann, stöðugt lífsgæðakapphlaup, ruddalegan yfirmann og svo mætti lengi telja.

Júlíana: „Fólk er alltaf að spyrja hvort við séum að leika okkur sjálfar. Þegar við byrjuðum að tala um hugmyndina þá byrjuðum við nálægt okkur og fórum svo fjær og fjær. Við héldum nokkrum atriðum og hentum burt öðrum. Á þessum tíma var Vala ekki í sambandi á meðan ég var gift og með tvö börn. Síðan skildi ég, og Vala fór í samband.“

Venjulegt fólk er gamanþáttaröð um hversdagslega hluti, aðstæður sem allir þekkja. „Þetta eru oft kómískar aðstæður sem fá fólk til að hlæja en það er líka botn í þessu, það verður að vera alvara líka.“

Vala: „Þetta er eins og trampólín, því dýpra sem þú sekkur í eitthvað sem er satt og sárt, því meira leyfi hefurðu til að gera eitthvað sem er frumlegt eða flippað eða fyndið.“

Venjulegt fólk fjallar meðal annars um sambönd: ný ástarsambönd sem eru að verða til og þróast og eldri sambönd þar sem aðilar þekkja hvorn annan út og inn og þurfa að hafa meira fyrir því en áður að halda neistanum. Rétt eins og persónurnar hafa Vala og Júlíana báðar fundið ást, tapað henni og fundið hana aftur. Þær eru báðar ástfangar upp fyrir haus í dag. Vala er í sambúð með Birki Blæ Ingólfssyni fréttamanni og skáldi og Júlíana fann ástona hjá Andra Jóhannessyni þyrluflugmanni.

Júlíana: „Ég fann ástina aftur eftir skilnað svo ég veit að það er hægt. Ég er ofboðslega hamingjusöm í dag.“

Vala: „Ég hef komist að því hvað það er mikilvægt að geta staðið ein, verið heil áður en maður fer í samband með ein- hverjum. Það er ekki gott að fara inn í samband með óuppgerð mál. Ég hef til dæmis áður tjáð mig opinberlega um hluti sem ég hef verið að glíma við, eins og átröskun og kvíða. Ég er rosalega fegin að ég var búin að vinna í þessum málum áður en við kynntumst.“

Ljósmynd/Ernir

Réttur staður og réttur tími

Leiðir vinkvennanna lágu fyrst saman í Versló. Júlíana var síðan nýútskrifuð úr leiklistarnámi og Vala var á þriðja ári í leiklistardeild LHÍ þegar þær fóru á fund með stjórnendum Stöðvar 2 og lögðu fram hugmynd að nýjum sketsaþætti.

Vala: „Við ætluðum fyrst að gera leikrit saman en svo sáum við að efnið sem við vorum með var miklu hentugra í sketsaþætti. Við vorum samt ekki með einhverja úthugsaða hugmynd þegar við mættum upp á Stöð 2. „Þetta var meira: „hey, prófum þetta, gerum þetta bara.“ Eins og þegar þú ert krakki og dettur eitthvað í hug eins og að halda tombólu eða finna leynistað eða fara í mömmó. Þetta var svona „Hey, komum í sjónvarpsþáttaleik“stemning hjá okkur.“ Við notuðum svo bara símana okkar til að taka upp skets sem við sýndum á fundinum. Svo bara kom það á daginn að þetta var akkúrat rétti tíminn til að koma með sketsaþátt, það var pláss fyrir okkur, og þetta var kærkomin viðbót.“

Júlíana: „Mér fannst fyrst og fremst vera kominn tími á góða sketsaþætti á þessum tíma, ég hugsaði aldrei: „Ég er stelpa og þess vegna verð ég að gera þetta.“ Þarna voru margar æðislegar gamanleikkonur búnar að koma fram, eins og til dæmis Stelpurnar á Stöð 2. Ég var bara að fókusera á að koma með gott efni, fyrst og fremst.“

Þær eru sammála um að það er langbest að vaða í hlutina, í stað þess að ofhugsa allt.

Júlíana: „Ég pældi aldrei í því að þetta væri ekki nógu gott eða flott eða ekki nógu prófessional. Ég man alltaf eftir viðtali sem ég las við Kristen Wiig leikkonu þar sem hún sagði: „Um leið og ég fer að pæla í því hvernig fólk á eftir taka í hugmyndina mína þá er hugmyndin orðin ónýt.“ Mér finnst þetta frekar góð regla. Ég meina, þú getur hvort sem er aldrei gert öllum til hæfis.“

Vala: „Það er bara bilun að ætla að fara að fullkomna útkomuna áður en þú leggur af stað. Þá ertu aldrei að fara að gera neitt.“

Það eru ekki allir sem hafa kjark til að vaða í hlutina og taka af skarið, óviss um útkomuna. Vala og Júlíana segja það gleðilegt ef að þeirra árangur geti orðið hvatning fyrir annað ungt fólk, ekki síst stelpur, sem eiga oft erfiðara með að trana sér áfram.

Júlíana: „Mér finnst það svo æðislegt ef að við erum fyrirmyndir fyrir einhverja þarna úti, einhverjar svona litlar snúllur, en það er ekki eins og við höfum lagt upp með það.“

Vala: „Ef það eru einhverjar ungar stelpur eða bara krakkar þarna úti sem hugsa: „Vá það er hægt að gera svona“, þá er það auðvitað besta mögulega útkoman. Það er algjör heiður.“

Júlíana: „Mér finnst það hafa  skipt miklu máli fyrir okkur að hafa fyrirmyndir, ótrúlega flottar og fyndar konur eins og til dæmis Eddu Björgvins og Helgu Brögu og svo auðvitað Stelpurnar á Stöð 2.“

Ljósmynd/Ernir

Konur, samkeppni og laun

Talið berst að konunum í leiklistarbransanum og launakjörum.

Júlíana: „Persónulega lít ég ekki á þetta sem einhverja samkeppni við aðrar leikkonur. Það eru auðvitað prufur sem þú ferð í en ég hugsa þetta meira þannig að þetta er týpuval, hvort sem þú færð hlutverkið eða ekki. Leiklist er list og þess vegna er þetta oft huglægt mat hjá hverjum og einum. Þú reynir að vera besta útgáfan af sjálfum þér.“

Vala: „Okkur hefur gengið vel, en við erum auðvitað bara að tala út frá okkur hvað varðar launamismun. Þetta er að breytast, þetta er bara hluti af einhverju gömlu sem er að deyja út.“

Júlíana: „Mér þótti alltaf erfiðast að semja um launin mín, mig langaði ekki að sýnast frek eða merkileg með mig. Núna erum við báðar með umboðsmann sem sér um þau mál fyrir okkur.

Vala: „Ég held að launaviðræður séu erfiðar fyrir alla leikara, og auðvitað mest þá sem eru að byrja í bransanum. Þessi vinna er samofin persónunni þinni; þú ert vinnan. Það er rosalega erfitt að sitja fyrir framan einhvern og segja: „Ég er milljón króna virði.“ Þú ert hræddur um að þú sért ekki nóg. Ég held að þetta sé alveg eins með leikara og leikkonur. Eftir því sem þú færð meiri reynslu þá færðu meira faglegt sjálfsöryggi. Núna er miklu algengara að leikarar á Íslandi séu með umboðsmann og það er auðvitað bara stórkostlegt. Ef þú ert með einhvern sem sér um þessi mál fyrir þig þá hættir þetta að vera persónulegt.“

Ljósmynd/Ernir

Júlíana: „Það var erfitt að semja um laun í fyrstu, fannst mér. Við höfðum eiginlega engin viðmið. Ég bað um það sem mér fannst að ég ætti skilið.“

Vala: „Þegar við vorum að stíga fyrstu skrefin, þá fannst okkur bara svo magnað að vera að gera þetta. Þegar ég lít til baka þá hugsa ég alveg með mér að þetta hafi nú ekki verið mikill peningur sem við báðum um. En samt sé ég ekki eftir neinu. Þetta var eins og fá „masterclass“ í kvikmyndagerð.“ Síðan um leið og við fengum grænt ljós á að gera seríu tvö af Þær tvær þá gátum við sett fram aðeins meiri kröfur, eins og að fá greitt fyrir handritaskrifin líka. Við vorum komnar með aðeins meira sjálfstraust.“

Blaðamanni leikur einnig forvitni á að vita hvernig það sé að vera útivinnandi móðir „í bransanum“, á fullu að reyna að koma sér áfram samhliða því að reka fjölskyldu. Júlíana er tveggja barna móðir og segir það vera mikið púsl.

Júlíana: „Ég kannast sko alveg við mömmusamviskubitið. Sérstaklega þegar við vorum í tökum á annarri seríu og dagarnir voru langir og ég var alltaf á einhverjum bömmer að þurfa að biðja um pössun. Þetta er erfitt, en þetta hefst. Þetta reddast alltaf einhvern veginn.“

#Metoo breytti öllu

Talið berst að #metoo-byltingunni sem setti samfélagið nánast á annan endann. Leikarabransinn var svo sannarlega ekki undanskilinn og fjölmargar konur innan stéttarinnar stigu fram og tjáðu sig um kynferðislegt áreiti, ofbeldi og valdmisbeitingu sem þær höfðu orðið fyrir í námi og/eða starfi. Landsþekktir leikarar og leikstjórar sögðu upp eða var vikið úr starfi og umræðan varð allt í einu mun opnari.

Vala: „Ég man alveg eftir því þegar ég var í Leiklistarskólanum, það var einhver svona stemning í gangi þar, einhver svona hugsunarháttur sem ég tileinkaði mér þó svo að enginn hefði sagt neitt við mig. Mér fannst ég alltaf þurfa að vera rosa flott og kynþokkafull. Þegar ég var að útskrifast úr skólanum þá var metoo byltingin að byrja og það var eins og allir væru að vakna til meðvitundar.

Júlíana: „Ég lærði leiklist úti í Bretlandi og það voru auðvitað æðisleg ár. En ég er alveg sammála Völu með þessa skrítnu stemningu. Það var einhver svona pressa á stelpur, eins og þær þyrftu alltaf að vera kynþokkafullar.“

Vala: „Þetta er að breytast rosalega mikið, ég get alveg sagt það. Það er eitthvað mjög stórt „shift“ í gangi.“

Vandræðalegir feilar

Eigið þið einhverjar sögur um vandræðaleg eða óþægileg atvik á ferlinum?

Júlíana: „Ég tók einu sinni að mér að vera svona leynigestur í veislu hjá vinnustað, úff, ég held að það sé með því óþægilegra sem ég hef gert. Ég átti sem sagt að leika kærustu nýja starfsmannsins og við áttum að gera okkur að fíflum og lyfta partýinu upp. Í lok kvöldsins fengu gestirnir svo að vita þetta hefði bara verið leikur, og allir í salnum voru bara: „Aaaaahh, ókei.“ Verst að það voru alveg nokkrir sem fóru áður en þetta var tilkynnt!“

Vala rifjar einnig upp þegar þær stöllur voru fengnar til að skemmta gestum í partýi sem var haldið í sal Hvalasýningarinnar á Granda.

„Það var alveg skelfilegt, bara eins vont að það gat orðið. Salurinn var þannig að það bergmálaði rosalega mikið og það voru mikil læti. Fólkið var augljóslega ekki að hlusta á okkur og það hló enginn. Ég man bara að þegar þetta var búið þá hugsaði ég með mér: „Ókei, er þetta málið? Er þetta eitthvað sem ég er að fara að vinna við?“ Ég ber alveg rosalega mikla virðingu fyrir þeim sem vinna við uppistand. Þá hefurðu nefnilega ekkert hlutverk til að fela þig á bak við, þú ert bara þú sjálfur og hlátur er eini mælikvarðinn á hversu góður þú ert. Og annað hvort hlær fólk eða ekki.“

Ljósmynd/Ernir

Stelpurnar eru orðnar óhræddari

Það er ekki hjá því komist að ræða aðeins um konur í gríni, enda hafa þær lengi verið í algjörum minnihluta hér á landi. Þær segja ákveðna vitundarvakningu hafa verið í gangi undanfarin misseri, og líklega hafi það byrjað með Stelpunum á Stöð 2. Stelpur eru óhræddari en áður en við að fara alla leið í gríninu.

En öllu gríni fylgir einhver alvara, og líka pólitík. „Ég er ekki bundin neinum flokki eða neitt þannig. En ég meina, öllu gríni fylgir einhver afstaða. Þú getur til dæmis verið að leika manneskju sem er narsissískur fáviti, einhver sem kaupir allt það nýjasta og er ekki vinna fyrir hlutunum. En þú vilt sýna fram á fáránleikann, ekki ýta undir hann,“ segir Vala.

Ljósmynd/Ernir

Ætluðu að verða lögga og læknir

Það er allt opið varðandi framtíðina hjá þeim vinkonum og samstarfskonum. Það er heldur ekkert öruggt, og það er ekki alltaf auðvelt að gera plön þegar kemur að leiklistinni.

Vala: „Þegar ég var í Versló ætlaði ég að verða læknir. Ég skráði mig í lífefnafræði eftir stúdentinn af því að það árið voru ekki haldin inntökupróf í læknadeildina. En svo fékk ég vinnu í Borgarleikhúsinu og ég varð bara heltekin. Þannig að það varð ekkert úr lífefnafræðinni eða læknisfræðinni. En jæja, ég styrkti allavega Háskóla Íslands um 40 þúsund krónur!“

Júlíana: „Á sínum tíma þá skráði ég mig í Lögregluskólann af því að ég sáfram á að vera verkefnalaus um haustið. Ég hugsaði með mér að ég gæti þá alveg eins orðið bara lögga, mér hefur alltaf fundist löggustarfið rosalega spennandi. En svo fóru verkefnin allt í einu að hrúgast inn hjá mér og það varð fullt að gera. En kannski fer ég í lögguna seinna? Það er ágætt að hafa eitthvað plan b. Ég hef aldrei verið með eitthvað svona „fimm ára plan“. En fyrir nokkrum árum skrifaði ég lista yfir það sem ég vildi gera sem leikkona. Eitt af því sem ég skrifaði niður var að vinna með Baldvin Z leikstjóra. Og núna í dag er hann að vinna með okkur að Venjulegu fólki, sem er alveg magnað. En það er alltaf þessi hugsun í gangi hjá manni: Þú veist aldrei hvenær hættir að ganga vel. Eftir hvert verkefni hugsarðu kannski: „Ókei, nú er þetta búið.“ Ég er alltaf bara svo þakklát fyrir að fá að vinna.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Lúxusafmælisveislur áhrifavalda – Sólrún Diego og Tinna Bk fögnuðu með glæsibrag í gær

Lúxusafmælisveislur áhrifavalda – Sólrún Diego og Tinna Bk fögnuðu með glæsibrag í gær
Fókus
Fyrir 2 dögum

Endurnýtir túrtappana sína – „Mér fannst þetta líka smá ógeðslegt fyrst“

Endurnýtir túrtappana sína – „Mér fannst þetta líka smá ógeðslegt fyrst“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Hannes birtir einstakar myndir af Davíð Oddssyni

Hannes birtir einstakar myndir af Davíð Oddssyni
Fókus
Fyrir 4 dögum

Feminísk kvikmyndahátíð – Meðal annars stuttmynd úr undirheimum Reykjavíkur

Feminísk kvikmyndahátíð – Meðal annars stuttmynd úr undirheimum Reykjavíkur
Fókus
Fyrir 5 dögum

Mæðgur naktar saman í Playboy

Mæðgur naktar saman í Playboy
Fókus
Fyrir 5 dögum

Ásmundur fylgdi tengdasyni sínum til grafar í dag – „Við eigum góðar minningar um dugnaðar tengdason“

Ásmundur fylgdi tengdasyni sínum til grafar í dag – „Við eigum góðar minningar um dugnaðar tengdason“