fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fókus

Tímavélin: Íslenskar útihátíðir sem heyra sögunni til

Auður Ösp
Fimmtudaginn 28. maí 2020 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ef þú ert Íslendingur þá má leiða líkur á því að þú hafir komið á, komið undir eða að minnsta kosti heyrt af útihátíð um verslunarmannahelgina. Ófáar hátíðir hafa verið haldnar hér á landi undanfarna áratugi og þó svo að sumar þeirra heyri sögunni til þá lifa þær lifa enn góðu lífi
í þjóðarsálinni. Fjölmargar útihátíðir voru haldnar hér á landi á níunda og tíunda áratugnum og veittu Þjóðhátíð í Eyjum harða samkeppni.
 Bregðum okkur aftur til fortíðar og rifjum upp nokkrar af eftirminnilegustu íslensku útihátíðunum.

Húnaver 

„Stanslaus tónlist í þrjá og hálfan sólarhring. Drukknir unglingar, sofandi, dansandi, hlæjandi, í faðmlögum; skríðandi, vafrandi, grátandi, leitandi. Rusl, endalaust rusl, fjúkandi pappír, bjórdósir, gosdósir, gosflöskur, vínflöskur. Húnaver, átta þúsund manns, ein- hver þúsund af tjöldum og nokkur þúsund bílar.“

Blaðamaður Tímans lýsti þannig upplifun sinni af útihátíðinni sem Stuðmenn stóðu fyrir í Húnaveri um verslunarmannahelgina 1989, eftir 16 ára hlé. Hátíðin var haldin aftur næstu tvö ár á eftir en Húnaver ́89 hlýtur þó að teljast eftirminnilegust.

Blaðamaður Tímans rifjaði upp að áin á svæðinu hefði verið mikið notuð af samkomugestum þessa helgi, bæði til að vaða í henni og þrífa sig, svo og til annarra hluta. Í greininni kom einnig fram allir smokkar sem til voru í apótekinu á Blönduósi voru keyptir upp af forsvarsmönnum útihátíðarinnar og seldust þeir upp á augabragði.

Ljósmynd/Tímarit.is

„Það var oft á tíðum spaugileg sjón að sjá til fólks þar sem það gekk að ánni eftir misjafnlega langan og góðan nætursvefn til að bursta í sér tennur, eða slökkva þorsta sínum; og tók ekki eftir þeim er stóð skammt fyrir ofan hann á bakkanum og mé, né heldur notuðum klósettpappírnum sem flaut niður ána.“

Uxi 95

Þeir sem ætluðu að skemmta sér um verslunarmannahelgina árið 1995 skiptust í tvo hópa; fóru á Uxa eða á Þjóðhátíð í Eyjum. Uxa hátíðin var haldin á Kirkjubæjarklaustri og telst eftirminnileg af nokkrum ástæðum. Uxi var metnaðarfull tilraun til að halda „alvöru“ tónlistarhátíð að erlendum sið. Tónlistardagskráin var óvenju metnaðarfull og skartaði meðal annars Björk, The Prodigy, Bobby Gillespie og Andrew Innes úr Primal Scream ásamt rjómanum úr íslensku tónlistarlífi.

Ljósmynd/Tímarit.is

Heldur færri mættu en búist var við, gert hafði verið ráð fyrir allt að 15 þúsund manns en rúmlega 3500 manns létu sjá sig. Blaðamaður Skinfaxa sem fór á hátíðina sagði gestina hafa verið allt niður í 15 ára unglinga, þrátt fyrir að aldurstakmarkið væri 16 ár.

Það var alltaf eitthvað að gerast á sviðinu frá hádegi og al- veg fram undir fjögur á nóttunni. Veðrið spillti heldur ekki fyrir og fólk brá sér frá að fossinum sem var þarna í hæfilegri fjarlægð og baðaði sig eða fór í röðina til að komast í sund á „Hótel Eddu”.

Þrátt fyrir glæsilega dagskrá var hátíðin mikið gagnrýnd fyrir óhóflega dópneyslu og hefur meðal annars verið kölluð „E- pillu hátíðin.“ Uxi var ekki haldin aftur, af skiljanlegum ástæðum

Eldborg

Útihátíðin Eldborg var fyrst haldin um verslunarmannahelgina árið 1992, á Kaldármelum á Snæfellsnesi. Hátíðin vakti þó ekki mikla lukku: mikið var um drykkju og eiturlyf og var hún því ekki haldin aftur að ári.

Frétt DV um fyrstu Eldborgarhátíðina sem haldin var sumarið 1992. Ljósmynd/Tímarit.is

Það var ekki fyrr en níu árum síðar, árið 2001 að ákveðið var að endurlífga Eldborg og var hátíðin helsti keppinautur Þjóðhátíðar í Eyjum það árið.

Óhætt er að fullyrða að hátíðin sé ein sú alræmdasta sem haldin hefur verið hér á landi. „Stjórnlaus hryllingur“ og „Mikil grimmd og ofbeldi“ var meðal annars notað til að lýsa upplifuninni og þá var talað um „smjörsýruhátíðina.“

                 

Átta þúsund manns voru á svæðinu, langmest unglingar og ungt fólk. Dópneysla var áberandi mikil og þá vakti það mikinn óhug að tilkynnt var um tíu nauðganir á hátíðinni.

En þrátt fyrir neikvæðan fréttaflutning og mikla gagnrýni skemmtu margir sér konunglega á Eldborg og eitt af því jákvæða við hátíðina var að rokksveitin Jet Black Joe átti þar endurkomu eftir margra ára hlé. Jón Atli Jónasson var einn af þeim sem komu að gerð heimildarmyndar um hátíðina og í samtali við DV á sínum tíma sagði hann stemninguna hafa minnt á Woodstock hátíðina forðum daga. Einhver tryllingur hefði verið í loftinu.

„Fólk var auðvitað á geðveiku fylliríi þarna og það voru ábyggilega einhver efni í gangi sem ég kann ekki að nefna lengur þannig að þetta var mikil upplifun.“

Atlavík

Þeir sem voru upp á sitt besta á „eitís“ tímanum muna eflaust eftir Atlavík í Hallormstaðaskógi þar sem efnt var til útihátíðar nokkur sumur í röð. Árið 1984 fréttist að Bítlagoðið Ringo Starr myndi koma fram á hátíðinni og það var eins og við manninn mælt, Íslendingar flykktust á hátíðina til að berja goðið augum.

Ljósmynd/Tímarit.is
Ljósmynd/Tímarit.is

Dr. Gunni rifjaði hátíðina upp í samtali við DV árið 2004.

„Ég kom við í Atlavík fyrir austan þar sem Ringo Starr var að spila með Stuðmönnum. Það var reyndar allt búið þegar ég mætti um hádegi á mánudegi þannig að þetta var eins og að koma til Íraks. Ég man sérstaklega eftir manni sem dró á eft- ir sér brunnið tjald og sagði í sífellu: „Komdu hvutti, komdu hvutti.“ Hann hefur greinilega skemmt sér vel.“

Ljósmynd/Tímarit.is

Halló Akureyri

„Fylleríið á Halló Akureyri var hrikalegt, um það þarf ekki að hafa annað orð,“ ritaði Ólafur H. Oddson héraðslæknir á Akureyri í héraðsblaðið Dag í ágúst 1996.

Halló Akureyri hafði þá verið haldin tvisvar sinnum áður en í þriðja skiptið fóru kynferðisbrot, eiturlyfjaneysla og skemmdar verk að vera sífellt meira áberandi. Þó svo að hátíðahöldin færðu Akureyrarbæ umtalsverðar tekjur þá voru bæjarbúar allt annað en sáttir við óþrifnaðinn sem fylgdi, og skömmuðust út í ólætin og drykkjuskapinn  hjá aðkomumönnum.

Ljósmynd/Tímarit.is

Margir líktu bænum við stríðsvæði í lok hverrar verslunarmannahelgi. Halló Akureyri var seinast haldin árið 1999 en var síðan breytt í fjölskylduhátíðina Ein með öllu.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Hún segir þetta vera „náttúrulegt Ozempic“ og margir eiga það nú þegar í eldhússkápnum

Hún segir þetta vera „náttúrulegt Ozempic“ og margir eiga það nú þegar í eldhússkápnum
Fókus
Fyrir 2 dögum

„Ég er í dag ekki vitund hrædd við dauðann. Það kom eftir þessa lífsreynslu.“

„Ég er í dag ekki vitund hrædd við dauðann. Það kom eftir þessa lífsreynslu.“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Snýst ekki um að taka sviðsljósið frá körlum heldur beina því einnig að konum – „Þetta er mjög karllægur bransi og hefur alltaf verið“

Snýst ekki um að taka sviðsljósið frá körlum heldur beina því einnig að konum – „Þetta er mjög karllægur bransi og hefur alltaf verið“
Pressan
Fyrir 2 dögum

47 ár frá upphafi tveggja tímamótageimferða

47 ár frá upphafi tveggja tímamótageimferða
Fókus
Fyrir 3 dögum

Snorri vissi varla hvaðan á sig stóð veðrið þegar Sigmundur Davíð og Bergþór bönkuðu upp á

Snorri vissi varla hvaðan á sig stóð veðrið þegar Sigmundur Davíð og Bergþór bönkuðu upp á
Fókus
Fyrir 4 dögum

Álfrúnu blöskrar ljótar athugasemdir um pabba sinn og Felix á samfélagsmiðlum

Álfrúnu blöskrar ljótar athugasemdir um pabba sinn og Felix á samfélagsmiðlum