fbpx
Fimmtudagur 02.apríl 2020
Fókus

Darri Ingólfs elti drauminn til Hollywood: „Margir sjá sækópata í mér“

Íris Hauksdóttir
Laugardaginn 15. febrúar 2020 11:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Snævar Darri Ingólfsson leikari útskrifaðist frá leiklistardeild Arts Ed School of Acting í London árið 2003 og segir verkefnalistann orðinn helvíti langan síðan þá. Darri, eins og hann er alltaf kallaður, hefur nú dvalið í borg englanna í tuttugu ár og unir hag sínum vel enda erfitt að sakna íslenska slabbsins.

Darri ól snemma með sér leikaradraum en hann flutti til London tæplega tvítugur þar sem hann nam leiklist. Stefnan var þó alltaf sett á stóra tjaldið í Hollywood. „Ég var heppinn að landa fyrsta hlutverkinu mínu skömmu eftir útskrift hjá Donmar Warehouse-leikhúsinu í London. Eins gaman og mér fannst að leika á sviði setti ég alltaf stefnuna á kvikmyndaleik – það var ástæðan fyrir því að ég lagði í leiklistina. Mig langar að búa til bíómyndir. Ég setti því snemma stefnuna á Bandaríkin og sjö árum eftir útskrift var ég mættur til Los Angeles með eina ferðatösku og þekkti ekki sálu.

Það var þó ekkert á við þá áskorun að flytjast fyrst til London, því fram að því hafði ég alltaf átti stóran vinahóp á Íslandi og alltaf umkringdur fólki, en þarna var ég skyndilega aleinn. Við leigðum fjögur saman og það var alveg frábær tími, ég eignaðist fljótt góða vini sem ég held í dag enn góðum vinskap við, en ég viðurkenni að það var erfitt að vera svona einn þótt það hafi á sama tíma verið það besta sem kom fyrir mig. Ég lærði fljótt að sjá fegurðina í einverunni og um leið að íhuga allt sem áður hafði gengið á í lífi mínu. Ómeðvitað komst ég svo áfram yfir í næsta kafla í lífi mínu.“

Ósofinn og útataður blóði
Að öðlast landvistarleyfi í Ameríku er fjandanum erfiðara og Darri segir biðina eftir græna kortinu hafa tekið talsvert á taugarnar. Hann hafði þó ekki dvalið lengi við þegar ástin barði að dyrum.

„Ég kynntist konunni minni rétt tæpum sex mánuðum eftir að ég fluttist hingað út en hún starfar sem sálfræðingur og ljósmyndari hér í borg. Við kynntumst á stefnumótaforriti, en á þessum tíma var ég nýfluttur út og hafði ákveðið að eyða jólunum í Los Angeles þrátt fyrir að þekkja varla nokkurn mann. Ég vildi standa með þeirri ákvörðun minni að flytja hingað og vera úti yfir jólin þótt tilhugsunin um það væri ögn ógnvekjandi. Ég endaði á að fara á eitt stefnumót í gegnum þessa netsíðu og það reyndist vera við Michelle. Í dag hef ég búið jafn lengi erlendis og ég hef búið á Íslandi og kynnst mörgu góðu fólki hér úti, bæði af erlendum uppruna og Íslendingum sem búa hér. Ég er heppinn með allt þetta góða fólk í lífi mínu og þakklátur fyrir það.“

Fjölskyldan Darri og Michelle með börnum sínum.

Saman eiga þau Darri og eiginkona hans, Michelle Datuin, börnin Nolan Darra og Köru en rúmt ár er á milli systkinanna. Koma frumburðarins, Nolans, í heiminn var þó með nokkuð dramatískum hætti.

„Ég var staddur í miðjum tökum á Dexter þegar Michelle missti vatnið og í kjölfarið heyrði ég í framleiðenda þáttanna sem gaf mér leyfi til að rjúka upp á fæðingardeild. Tæpum klukkutíma eftir að sonur okkar kom í heiminn hentist ég af stað aftur í tökur, ósofinn og útataður blóði. Þegar ég settist í förðunarstólinn brotnaði ég svo gjörsamlega niður, en þetta var dæmalaust magnaður dagur.“

Framtíðin algjör óvissa
Á fyrsta afmælisdegi Nolans komust hjónin að því að annað barn væri á leiðinni og þótt frekari barneignir hefðu ekki verið formlega settar á stefnuskrána segist Darri gríðarlega glaður og þakklátur enda hafi stefnan alltaf verið að eiga fleiri en eitt barn.

„Daginn sem við komumst að því að Michelle var ófrísk í fyrsta sinn var ég að vinna sem þjónn á bar. Við áttum þrjú hundruð dollara á bankareikningi og þótt við hefðum planað það barn var framtíðin fullkomin óvissa. Tveimur vikum síðar fékk ég svo hlutverk Olivers Saxo í sjónvarpsþáttunum Dexter, ég hef ekki bókað mig í margar prufur af þáttum sem ég þekki eða hef horft á sjálfur, en þarna var ég vel kunnugur. Þess vegna var það enn meiri heiður fyrir mig að vera ráðinn inn í síðustu seríuna og fyndið að hugsa til þess hversu margir leikstjórar sjá einhvern sækópata í mér, eins og ég er nú næs gaur.“

Tveir á setti Darri ásamt aðalleikara Dexter, Michael C. Hall.

Darri lýsir ferlinu fyrir hlutverkið af mikilli innlifun en hann var prófaður í þrjú mismunandi hlutverk.

„Það ríkti mikil leynd yfir þessu öllu saman og umboðsmaður minn mátti ekki einu sinni vita neitt. Daginn eftir prufurnar, þar sem ég hafði prófað þrjú mismunandi hlutverk, fékk ég svo hringingu þar sem mér var sagt að ég yrði vondi karlinn. Ég varð auðvitað rosalega spenntur enda mun stærra hlutverk en ég hafði þorað að vona að hreppa og algjör draumur að ganga inn í þetta sett. Þau voru þarna að skjóta sjöundu seríu og allt eins og vel smurð vél, svo þrátt fyrir langa tökudaga var yndislegt að vinna með öllu þessu fólki. Þetta er óneitanlega það stærsta sem ég hef gert hingað til hér úti og ég hlakka mikið til að ná að festa mig í þáttum sem „series regular“ enda breytast launin talsvert við það, en fyrsta hlutverkið sem ég fékk var einmitt í þáttum þar sem ég átti að vera í einum þætti en leikstjóranum leist svo vel á mig að hann framlengdi minn karakter í sjö af tíu þáttum. Þetta var í sjónvarpsþáttunum Last Resort og hlutverkið opnaði óumdeilanlega margar dyr fyrir mig, sem óbeint komu mér á þann stað að ég endaði á, á fundi með umboðsaðilunum sem voru að leita að leikurunum fyrir Dexter.“

Straujar út íslenska hreiminn
Spurður hvernig Ameríkanar taki í íslenska hreiminn segist Darri strax hafa fundið sér fagmann til að strauja út hljóðin sem hann kunni sjálfur ekki að fást við.

„Auðvitað eru mismunandi hreimar hér í Ameríku og þetta er eflaust barátta sem ég mun alltaf þurfa að eiga í. Hér eru margir sem berjast um sama bitann og þótt ég standi eflaust jafnfætis einhverjum hvað leikræna tilburði varðar hafa innfæddir alltaf tungutakið fram yfir mig. Ég tók samt strax meðvitaða ákvörðun um að láta hreiminn ekki stoppa mig og í kjölfarið af Dexter réð ég til mín tungumálakennara sem fór yfir þessi mál með mér. Mín sérstaða er klárlega sú að hafa farið í nám í Bretlandi því mjög fáir Bandaríkjamenn hafa farið í gegnum stíft leikaranám. Ég grínast samt oft með það þegar ég leik á móti Bandaríkjamönnum hvað uppruninn skín skært í gegn því heima á Íslandi er allt svo hrátt og ekta. Ég fór einhverju sinni heim til Íslands að skjóta bíómynd þar sem partur af handritinu var að bíta í hrátt lambshjarta, ég spurði leikstjórann hvað þeir ætluðu að nota í staðinn og þeir sögðu það einfaldlega vera stöðuna. Það var ekkert verið að búa til neitt súkkulaðihjarta heldur áttum við að tyggja þetta alvöru stöff, en veistu ég kann betur við það. Það er svo margt sem stöðvar mann hér úti vegna laga en það er mun skemmtilegra og í grunninn partur af því að vera leikari að fá að leika þessa lífsreynslu sem fylgir því að vera leikari, en það er oft ekki alveg leyfilegt í Bandaríkjunum.“

Hugurinn leitaði alltaf út
Darri byrjaði fyrst að leika í gagnfræðaskóla og hlaut mikið lof fyrir. Í beinu framhaldi laust þeirri hugmynd niður að kannski væri þetta vettvangur sem hann gæti haft gaman af að starfa við.

„Ég fór svo í Verzló, en skólinn er náttúrlega þekktur fyrir að setja á svið stóra söngleiki og þótt ég hafi persónulega ekki gaman af þeim sem slíkum lét ég mig hafa það. Fyrsta verkefnið var lítið hlutverk í Saturday Night Fever en það næsta var annað aðalhlutverkið í Mambo Kings en þar lék ég á móti Ívari Erni Sverrissyni leikara. Það var í fyrsta skipti sem ég fékk almennilega að kynnast þeirri tilfinningu sem fylgir því að standa á sviði og ég fann strax að þetta væri eitthvað sem ég hefði rosalega gaman af.“

Darri viðurkennir þó að hann hefði verið týndur í nokkur ár og ekki vitað í hvorn fótinn hann ætti að stíga.

„Ég hugleiddi aldrei að sækja um inngöngu í íslenska leiklistarskólanum, mig langaði einfaldlega að koma mér frá Íslandi og hugurinn leitaði alltaf til Bandaríkjanna. Það var svo fyrir einskæra tilviljun að breskur leiklistarskóli hélt prufur á Íslandi og blessunin hún móðir mín hvatti mig til að sækja um, sem ég og gerði og komst inn. Eftir það breyttist allt og öll okkar orka fór í að láta þetta virka. Áður en ég vissi af var ég svo fluttur einn til London og byrjaður í listnámi. Ég vissi ekkert hvað í fjandanum ég væri nú búinn að koma mér út í, þetta var allt svo framandi og allt í einu var ég farinn að kaupa mér sokkabuxur fyrir danstíma – ég skildi ekki neitt í neinu þarna. Við lásum Shakespeare og kynntumst sögu leiklistarinnar. Þá, í fyrsta skipti, fékk ég raunverulega hugmynd um hvað felst í að vera leikari. Eftir þriggja ára nám fékk ég svo fyrsta hlutverkið og það var alveg frábær tilfinning. Það var auðvitað ekki mikill peningur í þessu og við sýndum margar sýningar á skömmum tíma, sjö á viku og alltaf tvær á laugardögum en áttum svo frí á sunnudögum. Ég útskrifaðist árið 2003 og 2009 var ég fluttur til Bandaríkjanna. Hægt og rólega fann ég svo minn stað og fann mjög fljótt að hér ætti ég heima því þrátt fyrir að vera ánægður á sviðinu kviknaði leiklistaráhuginn út frá kvikmyndum. Ég hef verið bíómyndafíkill frá því ég var barn og í Bónusvideo í Garðabæ leigði maður alltaf eina nýja mynd og eina gamla með, ég fór því í gegnum heilan helling af bíómyndum í barnæsku og geri í raun enn í dag.“

Engin ein leið að árangri
Eftir að hafa landað hlutverkinu í Dexter hefur Darri getað séð fjölskyldu sinni farborða með leiklistinni einni og sér. Hann viðurkennir þó að fram að því hafi hver mánuður einkennst af harki.

„Þegar ég kom fyrst hingað út vann ég við allan fjandann. Ég sendist með skyndibita, starfaði sem þjónn og í byggingarvinnu. Auglýsingavinna og myndbönd fleyttu mér þó langt og þótt það hafi oft verið hark kom alltaf eitthvað á síðustu stundu sem bjargaði manni. Eftir Dexter hef ég þó ekki þurft að grípa til neins annars en leiklistarinnar og hef séð fyrir sjálfum mér og fjölskyldunni með eingöngu leiklistina að vopni. Ég hef, síðan ég ákvað að verða leikari, ákveðið að sleppa B-plani því ég hugsa sem svo að þú getir ekki haft neitt B-plan svo A-planið gangi upp. Það er nefnilega engin ein leið til þess að ná árangri, en þessi bransi snýst að miklu leyti um samvinnu og þá er mikilvægt að vera ekki hræddur við að segja já þegar manni er boðið eitthvað, því oft koma góðir hlutir út úr því, ný vinatengsl geta líka leitt mann í ný og óvænt störf. Í dag er ég til að mynda að vinna að verkefni með vini mínum úr leiklistarskólanum. Hann skrifaði bók um ákveðna lífsreynslu sem síðar varð að sjónvarpsþætti, ég er rosalega hrifinn af þessu umfjöllunarefni hans og langar mikið að ganga lengra með þessa hugmynd og leika jafnvel aðalhlutverkið sjálfur, en þetta er allt í byrjunarferli. Ef það myndi takast yrði ég gríðarlega stoltur en við verðum að bíða aðeins og sjá hvernig sú lending verður.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 3 dögum

10 kostulegustu Facebook-hóparnir á Íslandi

10 kostulegustu Facebook-hóparnir á Íslandi
Fókus
Fyrir 3 dögum

Jesús, djöfullinn og Björn – Mikil leynd hvílir yfir kvikmyndinni

Jesús, djöfullinn og Björn – Mikil leynd hvílir yfir kvikmyndinni
Fókus
Fyrir 5 dögum

Yfirmenn Reebok Fitness bornir þungum sökum – „Þetta er ekki spurning um hvort, heldur hvenær slysin gerast“

Yfirmenn Reebok Fitness bornir þungum sökum – „Þetta er ekki spurning um hvort, heldur hvenær slysin gerast“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Þetta er manneskjan sem ber ábyrgð á öllum óþolandi Tik Tok-dönsunum sem barnið þitt elskar

Þetta er manneskjan sem ber ábyrgð á öllum óþolandi Tik Tok-dönsunum sem barnið þitt elskar
Fókus
Fyrir 1 viku

Ráð fyrir fjölkært fólk til að díla við COVID-19 – „Fyrir fólk sem á fleiri en einn maka getur verið mjög erfitt að vera í sóttkví“

Ráð fyrir fjölkært fólk til að díla við COVID-19 – „Fyrir fólk sem á fleiri en einn maka getur verið mjög erfitt að vera í sóttkví“
Fókus
Fyrir 1 viku

Leifur, níu ára, segir slæmt að eiga afmæli í dag og hlakkar til þess að kórónuhelvítinu ljúki – „Eins og hjá frænku minni sem á afmæli 11. september“

Leifur, níu ára, segir slæmt að eiga afmæli í dag og hlakkar til þess að kórónuhelvítinu ljúki – „Eins og hjá frænku minni sem á afmæli 11. september“