fbpx
Þriðjudagur 24.nóvember 2020
Fókus

Barnið mitt er bústið – Er það endilega vandamál?

Fókus
Sunnudaginn 25. október 2020 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristín Tómasdóttir hjónabandsráðgjafi svarar spurningum lesenda um málefni er varða fjölskylduna, börnin og ástina í Fjölskylduhorni DV. Að þessu sinni svarar Kristín spurningu lesanda sem hefur áhyggjur af þyngd barnsins síns.

_ _ _ _ _ _ _ _ _ _

Halló, halló. Barnið mitt er hamingjusamt og góðhjartað, en hins vegar hefur skóli þess og heilsugæsla gert athugasemdir við holdafar þess. Líklega er barnið mitt í bústnari kantinum, en það erum við foreldrarnir líka. Hins vegar hafa skólinn og heilsugæslan lýst yfir áhyggjum vegna þess og vilja að við gerum eitthvað í þeim málum. Barnið hefur ekki mikinn áhuga á hreyfingu og höfum við foreldrarnir hingað til ekki viljað neyða það út í íþróttaiðkun sem það hefur ekki áhuga á. Barnið er heimakært og finnst best að vera í tölvuleikjum og finnst ægilega gott að borða. Við erum hrædd um að ef við förum að ráðum heilsugæslunnar fari barnið að upplifa neikvæðar tilfinningar og þrói með sér neikvæða líkams- og sjálfsmynd. Við foreldrarnir erum sátt í okkar eigin líkama, en við viljum ekki stefna heilsu barnsins í hættu bara vegna þess að við kjósum að vera „large and in charge“. Er einhver leið til að „grenna“ barnið (guð ég hata meira að segja að skrifa þetta) eða bæta heilsu þess án þess að stofna sjálfsmyndinni í hættu? Ég vil ekki gefa upp kyn barns míns eða aldur, enda finnst mér það ekki skipta öllu máli, en get þó sagt að það er á grunnskólaaldri.

_ _ _ _ _ _ _ _ _ _

Afar viðkvæmt mál

Sæl. Takk fyrir spurninguna. Ég viðurkenni að ég hef veigrað mér við að svara henni, fyrst og fremst vegna þess að ég vildi gera það vel, þetta er vandmeðfarið og það er gríðarlega erfitt að finna „rétta“ svarið. Það sem ég þó veit er að þið eruð á góðri leið, þið eruð að meta stöðuna, skoða og spyrjast fyrir og ykkur er annt um að gera vel. Er það ekki nákvæmlega þannig sem við viljum að foreldrar geri?

Hér er um viðkvæmt mál að ræða því við vitum að óraunhæfar útlitskröfur og stöðug umræða um holdafar hefur skaðleg áhrif á börn og ungmenni. Sömuleiðis vitum við að ofþyngd í sumum tilfellum getur haft heilsuspillandi áhrif. Það er þó löngu sannað að það er hægt að vera hraustur í þungum líkama. Þá eru uppi afar mismunandi kenningar um heilbrigt holdafar og hvernig það reiknast, margt mælir gegn BMI-þyngdarstuðlinum og annað bendir til þess að þarna spili inn í þörf samfélagsins til þess að steypa öllum í sama form. Þetta fer s.s. allt í hringi og við getum lítið sagt nema út frá mynstri og meðaltölum. Að þessum formála sögðum vil ég leggja áherslu á að þið takið einstaklingsmiðaða nálgun á ykkar barn, metið hvað vegur þyngst hverju sinni og mætið ykkar barni sem best hvað það varðar

Hræðsluáróður um holdafar

Ég hjó eftir því í spurningu þinni að heilsugæslan og skólinn hafa lýst yfir áhyggjum, en það eruð þið sem þekkið ykkar barn best og því velti ég fyrir mér hvort áhyggjurnar hafi aldrei kviknað hjá ykkur í þessu sambandi? Ef ekki, þá finnst mér það mikilvæg breyta sem taka þarf með í reikninginn. Þið eruð augljóslega meðvitaðir foreldrar sem setjið líðan barnanna ykkar í forgrunn sem gefur mér ástæðu til þess að velta fyrir mér hvort það sé verið að kveikja áhyggjur og umræðu sem gæti verið ástæðulaus. Ef þið aftur á móti hafið haft áhyggjur af holdafari og líðan barnsins þá er kannski ástæða til þess að þiggja faglegt samtal og aðstoð við því.

Hér vil ég þó benda á að það hefur ákveðinn hræðsluáróður einkennt umræðu um holdafar á undanförnum áratugum sem hefur leitt til rörsýnar sem hefur líka náð til fagfólks. Þarna vantar helst upp á mat á ávinningi af inngripum þegar kemur að holdarfari. Afleiðingar af slíku geta nefnilega verið skaðlegar og jafnvel skaðlegri en holdafarið sjálft. Þar ber helst að nefna áhættuna á hvers konar átröskunum sem hafa svo aftur í för með sér óheilbrigðar matarvenjur, kvíða, laka sjálfsmynd og svona mætti lengi telja.

Heilbrigðar lífsvenjur

Nú vil ég alls ekki gera lítið úr starfi heilsugæslu og skóla og tel að ábendingar þaðan séu yfirleitt af hinu góða og það ýtir undir trúverðugleika að athugasemdirnar koma frá báðum aðilum í ykkar tilfelli. Aftur á móti tel ég mikilvægt að ef skóli og heilsugæsla hafa komið með svona ábendingar að benda á úrræði og lausnir fyrir ykkur. Bauðst ykkur eitthvað slíkt? Og ef svo er, hvernig er árangurinn metinn og er stillt af fyrir aðra þætti sem geta komið upp í kjölfarið?

Þú nefnir hvort það séu einhverjar aðrar leiðir til þess að „grenna“ barnið og ég skil afar vel hvað þér er illa við orðið, en orð eru einmitt mikilvæg í þessu samhengi. Orðræða um mataræði og holdafar og umræða um slíkt á heimilinu getur verið lykillinn að heilbrigðri líkamsmynd barns. Megrun er margrannsakað mein, en heilbrigð umræða um heilbrigðar lífsvenjur er allt annað. Barnið þitt mótar sínar fyrstu hugmyndir um mat og líkama með því að líta til þín. Það væri því ágætt í þessu samhengi að skoða hvernig umræða og samband ykkar foreldra er við mat og heilbrigðar lífsvenjur og hvort þar megi gera breytingar. Börn læra það sem er gert fremur en það sem er sagt, svo mögulega þarf bara að stramma af nokkrar einfaldar skrúfur í heimilishaldinu og barnið mun fylgja með.

Sjálfsmyndarvinna

Að lokum vil ég árétta að sjálfsmynd barna samanstendur af mörgum áhrifaþáttum. Sem dæmi má nefna fjölskyldan, vinátta, áhugamál og nám geta spilað þar stóra rullu. Við getum æft okkur að verða betri vinkonur, við getum æft okkur að vera góð í fótbolta og við getum lagt mikið á okkur til þess að læra erfiða algebru. Útlitinu breytum við ekki svo glatt og það fær að vega allt of þungt þegar kemur að sjálfsmynd barna og unglinga. Getur verið að nýtt áhugamál eða að bjóða vinum í heimsókn eftir skóla geti styrkt sjálfsmynd barnsins þíns meira en vigtin hjá skólahjúkrunarfræðingnum? Ef svo er, nú þá væri ráð að setja fókusinn á eitthvað slíkt.

Ég þakka þér fyrir ögrandi og góða spurningu sem við öll, sem komum að starfi og uppeldi barna, höfum gott af því að velta fyrir okkur.

_ _ _ _ _ _ _ _ _ _

Við hvetjum lesendur til að senda spurningar og vangaveltur sínar til Kristínar í tölvupósti á: hjonabandssaela@gmail.com. Spurningunum verður svo svarað hér í Fjölskylduhorninu, að sjálfsögðu nafnlaust og í fullum trúnaði.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Gekk í gegnum sáran missi -„Mér finnst ég sjálf hafa verið að koma upp úr kafinu“

Gekk í gegnum sáran missi -„Mér finnst ég sjálf hafa verið að koma upp úr kafinu“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sakamál: Lifði tvöföldu lífi eftir skilnaðinn – Kynlífsvinna, karlmannshárkollur og stinningarlyf

Sakamál: Lifði tvöföldu lífi eftir skilnaðinn – Kynlífsvinna, karlmannshárkollur og stinningarlyf
Fókus
Fyrir 4 dögum

Segir föðurmissinn hafa mótað og styrkt sig – „En ég er líka kvíðnari“

Segir föðurmissinn hafa mótað og styrkt sig – „En ég er líka kvíðnari“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Sendi myndarlegan tvífara að hitta gamla skólafélaga

Sendi myndarlegan tvífara að hitta gamla skólafélaga