fbpx
Fimmtudagur 01.október 2020
Fókus

Heitt í bíó á nýju ári – Tuttugu 2020-myndir

Tómas Valgeirsson
Laugardaginn 4. janúar 2020 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nú blasir við ekki aðeins nýtt kvikmyndaár heldur nýr áratugur, þar sem eflaust verður nóg um að vera í kvikmyndahúsum og á streymisveitum. Bíógestir halda áfram að flakka á milli þess að skella sér á endurgerðir, framhaldsmyndir og blessunarlega frumsamdar sögur inni á milli. Til að gefa lesendum og íslensku kvikmyndaáhugafólki smjörþefinn af árinu nýja í kvikmyndahúsum, eru hér nefndir tuttugu titlar – en hver og einn ætti að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

 

GULLREGN (janúar)

Leikstjórinn Ragnar Bragason er mættur með kvikmyndaaðlögun á frumraun sinni á sviði í Borgarleikhúsinu. Sýningin sló verulega í gegn, hlaut tvenn Grímuverðlaun, og eru flestir úr upprunalega leikhópnum komnir aftur á stjá.

 

BIRDS OF PREY (febrúar)

Stórleikkonan Margot Robbie er aftur mætt í hlutverki hinnar léttgeggjuðu Harley Quinn. Um er að ræða fyrstu sjálfstæðu kvikmyndina um Harley Quinn, en karakterinn sló í gegn í Suicide Squad. Þarna má búast við kostulegu innliti þar sem Robbie leikur lausum hala, enda varla við öðru að búast þegar fullt heiti myndarinnar er Birds of Prey And the Fantabulous Emancipation of One Harley Quinn. Myndin er annars sögð sækja innblástur í kvikmyndirnar Pulp Fiction og A Clockwork Orange.

 

MULAN (mars)

Disney heldur áfram að dæla út endurgerðum á frægustu teiknimyndum sínum. Nú er komið að stríðshetjunni Mulan, en áhorfendur skulu helst setja sig í stellingar og hafa í huga að upprunalegu lögin verða ekki í leiknu útgáfunni. Engu að síður lítur myndin ótrúlega vel út og mun vonandi kæta eldri aðdáendur sem yngri.

 

SÍÐASTA VEIÐIFERÐIN (mars)

Það er erfitt að kenna gömlum hundum að sitja, en hér er sagt frá vinahópi sem fer í sinn árlega veiðitúr. Brátt þróast mál þannig að allt fer á versta veg, eins og sæmir í góðri framvindu. Síðasta veiðiferðin skartar kunnuglegum andlitum og ættu þau að vekja upp kátínu hjá þeim sem tengja sig við umrædda hrakfallabálka sögunnar. Þess má geta að Bubbi Morthens leikur sjálfan sig í myndinni.

 

NO TIME TO DIE (apríl)

Daniel Craig er mættur til leiks í síðasta sinn sem njósnari hennar hátignar. Þetta er 25. kvikmyndin í röðinni um James Bond en leikstjóri myndarinnar, Cary Fukunaga (True Detective), er fyrsti Bandaríkjamaðurinn sem leikstýrir Bond-mynd og sá fyrsti af asískum uppruna. Sjáum hvað setur.

 

BLACK WIDOW (apríl)

Það var löngu kominn tími á sjálfstæða sögu um eina þekktustu og svölustu persónu Marvel-ofurhetjuheimsins, Svörtu ekkjuna hana Natöshu Romanoff. Nú stígur Scarlett Johansson í forgrunninn og tekur margnotaða spæjaraformúlu upp á nýtt stig – eða þess er vænst að minnsta kosti.

 

ARTEMIS FOWL (maí)

Aðdáendur bókanna um Artemis Fowl II eiga loksins von á síðbundnum glaðningi því nú er fyrsta kvikmyndaaðlögunin væntanleg um írska meistaraglæponinn. Í fyrstu bókinni segir frá því þegar titilpersónan rænir þekktum álfi og krefst lausnargjalds til að fjármagna leit að föður sínum og endurreisn fjölskylduveldisins. Myndin er gefin út af Disney og situr fagmaðurinn Kenneth Branagh í leikstjórastólnum.

 

FAST & FURIOUS 9 (maí)

Götukappakstur, testósterónkeppni og bikiníklæddar dömur tilheyra liðinni tíð, að minnsta kosti hvað þetta vörumerki varðar. Með hverju innslagi hefur Fast & Furious-myndabálkurinn vinsæli hægt og rólega breyst í ofurhetjuseríu. Sögur herma að persónur myndarinnar spreyti sig í geimnum í níundu myndinni. Við tökum þeim fáránleika fagnandi.

 

WONDER WOMAN 1984 (júní)

Níundi áratugurinn selur. Það er eitthvað sem hefur sannað sig á undanförnum árum og því kemur lítið á óvart að Undrakonan fái að spreyta sig á þeim áratug. Í glænýrri, sjálfstæðri sögu stígur Gal Gadot í sviðsljósið með vonir um að hasarblaðamerkið DC eigi roð í það sem Marvel hefur áreynslulaust gert með sínu færibandi. En töffarataktar, fantasía og bullandi „eitís“ tónlist hljómar ekki eins og amaleg blanda.

 

TOP GUN: MAVERICK (júní)

Það tók ekki nema 34 ár en loksins er hjartaknúsarinn Tom Cruise mættur á ný sem rokkstjörnuflugmaðurinn Pete Maverick. Krúsarinn er umkringdur nýjum andlitum og nokkrum kunnuglegum og búast áhorfendur að sjálfsögðu við æsispennandi flugsenum og dúndrandi góðri tónlist. Einnig má reikna með að Cruise sjáist á flottu mótorhjóli, í blaki eða fljúgandi um háloftin eins og ekkert sé eðlilegra.

 

GHOSTBUSTERS: AFTERLIFE (júlí)

Er enn líf eftir í Draugabönum? Þetta er spurning sem leikstjórinn Jason Reitman verður að svara en hann er sonur Ivans Reitman, mannsins sem færði okkur upprunalegu tvær kvikmyndirnar um Draugabanana. Gerð var tilraun til þess að endurræsa vörumerkið árið 2016 en sú tilraun stóð ekki undir væntingum aðdáenda og áhorfenda. Ghostbusters: Afterlife tekur nýjan vinkil á hráefnið í anda Stranger Things og er gert ráð fyrir að gamli hópurinn snúi aftur að þessu sinni, fyrir utan Harold Ramis, vissulega.

 

TENET (júlí)

Kvikmyndaunnendur telja það yfirleitt vera tilhlökkunarefni þegar hinn virti leikstjóri Christopher Nolan sendir frá sér nýtt verk. Lítið hefur verið gefið upp um söguþráð kvikmyndarinnar Tenet en ljóst er að gæðaleikara vantar ekki frekar en dulúðina sem hefur fylgt stiklunum. Stundum er gott að vita sem minnst og treysta góðu fagfólki.

 

FREE GUY (júlí)

Hvernig myndir þú meðhöndla tilveruna ef þú ættir heima í tölvuleik? Grínarinn Ryan Reynolds leitar góðra ráða í kómískri ævintýramynd sem fjallar um einmana gjaldkera sem kemst að því að hann er í raun og veru aukapersóna í tölvuleiknum Free City. Umræddur leikur er lauslega í stíl við tölvuleikina Grand Theft Auto og Fortnite og verður forvitnilegt að sjá hvort áhorfendur fylgi persónunni alla leið eða gefist upp í miðjum leik.

 

BILL AND TED FACE THE MUSIC (ágúst)

Félagarnir og tímaflakkararnir Bill Preston og Theodore Logan snúa aftur á hvíta tjaldið eftir tæplega þrjátíu ára fjarveru, aðdáendum sínum til mikillar ánægju. Hér segir frá því hvernig slugsarnir tveir glíma við gráa fiðringinn. Þrátt fyrir þúsundir laga sem þeir hafa samið hefur lítið ræst úr rokkhljómsveit þeirra, Wyld Stallyns, frekar en viðleitni þeirra til að semja lagið sem mun einn daginn bjarga öllum heiminum. En betra er seint en aldrei.

 

INFINITE (ágúst)

Leikarinn Jóhannes Haukur Jóhannesson heldur áfram að safna stjörnum til að deila hvíta tjaldinu með. Að þessu sinni mætir hann Mark Wahlberg í vísindaskáldsögutrylli sem byggður er á skáldsögunni The Reincarnationist Papers.

 

THE TRIAL OF THE CHICAGO 7 (september)

Nýjasta verk stjörnuhöfundarins Aarons Sorkin er tilhlökkunarefni fyrir ófáa. Sorkin hefur í áraraðir verið einn eftirsóttasti handritshöfundur Bandaríkjanna og á að baki þætti eins og The West Wing og The Newsroom ásamt kvikmyndunum A Few Good Men, The Social Network og Molly’s Game. Sorkin sest hér aftur í leikstjórastólinn og fjallar myndin um fræg réttarhöld í Bandaríkjunum yfir sjö ungmennum sem ásökuð voru um að hafa skipulagt byltingu á meðan alræmt flokksþing demókrata stóð yfir í Chicago árið 1968.

LAST NIGHT IN SOHO (september)

Hér er um að ræða sálfræðitrylli frá hinum virta kvikmyndagerðarmanni Edgar Wright (Shaun of the Dead o.fl.). Mikil leynd hefur hvílt yfir framleiðslu myndarinnar en hermt er að sagan gerist á sjöunda áratugnum og snúist á einhvern veg um tímaflakk. Leikstjóri myndarinnar hefur gefið upp að myndin sæki innblástur í eldri verk Romans Polanski. Verra gæti það nú verið.

THE WITCHES (október)

Hin fræga bók rithöfundarins Roalds Dahl er sett í nýjan búning. Bókin var eftirminnilega kvikmynduð við upphaf tíunda áratugarins þar sem Anjelica Huston stóð sig með glæsibrag í hlutverki æðstu aðalnornarinnar. Nú er komið að leikkonunni Anne Hathaway að sjá um þá túlkun, vonandi undir góðri leiðsögn leikstjóra Forrest Gump og The Polar Express.

 

GODZILLA VS. KONG (nóvember)

Tvær af þekktari skepnum kvikmyndasögunnar takast á og að sjálfsögðu verður öllu tjaldað til. Þá þýðir ekkert annað en að veðja um hvor stendur uppi sem sigurvegari. Mun Godzilla rústa þessum slag með léttum leik eða leynir kóngurinn Kong á sér? Þessu verður svarað næsta vetur.

 

DUNE (desember)

Heimsfræg vísindaskáldsaga Franks Herbert öðlast nýtt líf þar sem einvalalið leikara ræður ríkjum. Áform eru um að framleiða tvær myndir upp úr doðranti Herbert og lendir sú fyrri í kvikmyndahúsum rétt fyrir jól. Það er fransk-kanadíski fagmaðurinn Denis Villeneuve sem situr við stjórnvölinn, en hann hefur gert garðinn frægan með kvikmyndunum Prisoners, Sicario, Arrival og Blade Runner 2049. Þetta ætti að vera í fínum höndum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Hæðir og lægðir Pamelu Anderson

Hæðir og lægðir Pamelu Anderson
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þetta fannst Ráðherrunum um Ráðherrann – „Ég neyðist hins vegar til að valda lesendum vonbrigðum“

Þetta fannst Ráðherrunum um Ráðherrann – „Ég neyðist hins vegar til að valda lesendum vonbrigðum“
Fókus
Fyrir 4 dögum

María Krista útbjó draumkennt barnaherbergi

María Krista útbjó draumkennt barnaherbergi
Fókus
Fyrir 4 dögum

Karl Sigurbjörnsson berst við krabbamein – „Ég hræðist ekki dauðann“

Karl Sigurbjörnsson berst við krabbamein – „Ég hræðist ekki dauðann“