fbpx
Sunnudagur 25.október 2020
Fókus

Hjákonan varð ólétt eftir mig

Fókus
Sunnudaginn 13. september 2020 21:30

Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristín Tómasdóttir hjónabandsráðgjafi svarar spurningum lesenda um málefni er varða fjölskylduna, börnin og ástina í Fjölskylduhorni DV. Að þessu sinni svarar Kristín spurningu lesanda sem hélt framhjá og barnaði hjákonuna.

___________

Blessuð. Ég hélt framhjá konunni minni. Hún veit af því og hefur ákveðið að fyrirgefa mér og vinna með mér í hjónabandinu. Hins vegar kom það á daginn að konan sem ég hélt framhjá með varð ólétt eftir mig. Konan mín vill ekki að ég eigi í samskiptum við hina konuna og barnið. Áætlunin er því að ég gangist við barninu og greiði meðlag en ekkert umfram það. Hins vegar er ég að fá bakþanka. Þetta er jú mitt barn sem bað ekki um að fæðast í þessar aðstæður. Er einhver leið fyrir mig að geta tekið þátt í lífi þessa barns, án þess að það rústi hjónabandinu mínu? Kveðja, Nafnlaus

Sæll, Nafnlaus

Ég skal trúa því að þessi staða taki á tilfinningalífið, kallinn minn. Þarna stangast á tilfinningar af andstæðum toga, annars vegar sterk skilyrðislaus ást til barns og hins vegar samviskubit og djúp ástarsár.

Ef það á að takast vel til að vinna úr framhjáhaldi er paravinna mikilvæg forsenda. Í raun þarf parið að finna sínar leiðir til þess að læra að lifa saman á nýjan leik, nú með erfiða og sára reynslu í bakpokanum. Aftur á móti getur slík vinna skilað parinu jákvæðum árangri svo sem auknu trausti, opinskáum samskiptum og meiri virðingu fyrir sambandinu.

Flest sem ekki hafa upplifað framhjáhald halda því fram að þau myndu ekki „láta bjóða sér“ framhjáhald. Sú yfirlýsing byggir yfirleitt á rökhugsun. Það er þó mín reynsla af vinnu með pörum að fólk sem upplifir framhjáhald leitar í mörgum tilfellum leiða til þess að geta haldið sambandinu áfram. Sú ákvörðun byggir yfirleitt á tilfinningum. Stundum tekst sú vinna vel, stundum endar hún í skilnaði en margir finna hjá sér löngun til þess að láta á sambandið reyna þrátt fyrir svik.

Flóknar tilfinningar

Við skiljum vafalaust bæði að konan þín er gríðarlega sár og bataferlið mun kalla á vinnu og tíma. Þar mæli ég með ytri, faglegri aðstoð fyrir ykkur bæði. Ég get einnig ímyndað mér að barnsmóðir þín sé í erfiðri stöðu, að glíma við flóknar tilfinningar líkt og þú sjálfur. Meðlagsgreiðslur eru vissulega ábyrgðarhluti sem ég heyri að þú ætlar ekki að skorast undan en foreldrahlutverkið kallar á svo margt annað sem ég myndi velta verulega fyrir mér hvort þú sért tilbúinn til að fara á mis við. Þá er það mikilvægasta ósagt, það er, að barnið ykkar á rétt á að kynnast uppruna sínum og það væri mikill missir fyrir bæði þig og það að vegna aðstæðna farið þið á mis við hvort annað, ekki rétt?

Fjölskyldufræðin fjalla um mismunandi fjölskyldukerfi og mikilvægi þess að greina vel á milli kerfa. Hér ert þú að leggja fram spurningu sem tengist annars vegar foreldrakerfi og hins vegar parakerfi. Við tölum um klesst tengsl þegar mörkin milli kerfa eru óskýr og það eru ekki endilega merki um örugg og góð tengsl. Sem dæmi má nefna þegar börnum er blandað inn í rifrildi foreldra sinna. Þá er barnakerfið að blandast inn í mál foreldrakerfisins sem passar illa. Kerfin sem þú tilheyrir skarast að því leyti að parakerfið stendur í vegi fyrir foreldrakerfinu. Þarna þarftu mögulega að skýra mörkin og forgangsraða, hvort er þér mikilvægara og þarf annað endilega að útiloka hitt?

Ást barna er skilyrðislaus

Ég get því miður ekki sagt þér hvað þú eigir að gera en ég mæli með því að þú ræðir þessi mál við einhvern þér nákominn, t.d. vin eða systkini og fáir smá speglun frá aðila sem þekkir vel til þín og þykir vænt um þig. Einnig gæti verið gott að fá aðstoð fagaðila til að velta með þér nokkrum steinum í tengslum við þetta stóra mál. Mögulega hafa þér yfirsést möguleikar sem allir geta verið sáttir við.

Að lokum, nú veit ég ekki hvort þú átt barn fyrir og hafir fengið að kynnast skilyrðislausri ást til barns, en það er mikilvægt að átta sig á því að ást til maka og ást til barns er ólík ást. Barnið þitt á ekki að þurfa að gjalda fyrir það við hvernig aðstæður það kom undir og ást þín til konunnar þinnar þarf ekki að breytast þó þú fáir að kynnast og elska barnið þitt. Ég vona að svarið mitt hafi hjálpað þér og þú endurskoðir málið með hag ykkar allra fyrir brjósti. Það er alveg hægt og ég hef mikla trúa á þér með það!

____________

Við hvetjum lesendur til að senda spurningar og vangaveltur sínar til Kristínar í tölvupósti á: hjonabandssaela@gmail.com. Spurningunum verður svo svarað hér í Fjölskylduhorninu, að sjálfsögðu nafnlaust og í fullum trúnaði.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Læknir og fyrrverandi fótboltamaður selja bjarta íbúð í Vesturbænum

Læknir og fyrrverandi fótboltamaður selja bjarta íbúð í Vesturbænum
Fókus
Í gær

Það varð aftur „vandræðalegt augnablik“ á milli Melaniu og Donald Trump eftir kappræðurnar

Það varð aftur „vandræðalegt augnablik“ á milli Melaniu og Donald Trump eftir kappræðurnar
Fókus
Fyrir 2 dögum

Framkvæmdastjórar selja fallegt raðhús á Seltjarnarnesi

Framkvæmdastjórar selja fallegt raðhús á Seltjarnarnesi
Fókus
Fyrir 2 dögum

Jólabjórinn kemur fyrr í verslanir

Jólabjórinn kemur fyrr í verslanir
Fókus
Fyrir 3 dögum

Húsið hafði ekki verið þrifið árum saman – Ótrúlegar „fyrir og eftir“ myndir

Húsið hafði ekki verið þrifið árum saman – Ótrúlegar „fyrir og eftir“ myndir
Fókus
Fyrir 3 dögum

Táningurinn með lengstu leggi í heimi

Táningurinn með lengstu leggi í heimi
Fókus
Fyrir 4 dögum

Mynd hennar vekur athygli vegna kynfæris – „Ég sá það ekki fyrst en nú get ég ekki hætt að sjá það“

Mynd hennar vekur athygli vegna kynfæris – „Ég sá það ekki fyrst en nú get ég ekki hætt að sjá það“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Ágústa Johnson um þegar mótmælendur stóðu fyrir utan heimili hennar

Ágústa Johnson um þegar mótmælendur stóðu fyrir utan heimili hennar