fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

Segir kynþóttafordóma grassera á Íslandi – Óhugnalegt atvik á veitingastað í Reykjavík: „Ég er hvítur, þú segir mér ekki fyrir verkum“

Auður Ösp
Laugardaginn 7. mars 2020 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Olufela Teddy Owolabi segist hafa orðið fyrir hópárás af hálfu íslenskra unglingspilta fyrir rúmlega 19 árum og í kjölfarið mátt þola kynþáttafordóma og ofbeldi af hálfu lögreglu. Hann segir ástandið nákvæmlega ekkert hafa batnað síðan þá: kynþáttafordómar séu staðreynd á Íslandi og það megi ekki stinga höfðinu í sandinn.

Olufela, eða Teddy eins og hann er kallaður, er íslenskur ríkisborgari og hefur verið búsettur hér á landi í 22 ár. Hann er í dag orðinn fimm barna faðir. „Ég kynntist þáverandi kærustunni minni í Nígeríu, en hún er íslensk. Hún bauð mér í heimsókn til Íslands og ég hef verið hér síðan.“

Hann hefur meðal annars unnið sem plötusnúður og tónlistarmaður og gefið út fimm plötur. Árið 2003 tók hann þátt í vinsælli sýningu á Broadway þar sem Motown-tónlist var í aðalhlutverki. Þá hefur hann unnið með mörgum af þekktustu tónlistarmönnum Íslands; Páli Óskari, Ragnheiði Gröndal, Friðriki Ómari og hljómsveitinni Jagúar. Hann rekur eigið útgáfufyrirtæki og vonast til að opna veitingastað hér á landi í nánustu framtíð. Teddy segir að það sé ekkert annað í stöðunni en að skapa sér sín eigin tækifæri og koma sjálfum sér á framfæri: hér á landi bjóðast útlendingum nær eingöngu láglaunastörf, svo sem uppvask, þrif eða afgreiðslustörf.

Sagt að „fara aftur til Afríku“

„Fyrir nokkrum árum var ég yfirmaður á veitingastað. Inn kom drukkinn maður og ég reyndi að biðja hann um að yfirgefa staðinn. Það fyrsta sem hann sagði var: „Ég er hvítur, þú segir mér ekki fyrir verkum“,“ segir Teddy þegar hann rifjar upp eitt af þeim fjölmörgu skiptum sem hann hefur orðið fyrir aðkasti vegna húðlitar síns. Honum er sérstaklega minnistætt eitt atvik frá því í ágúst 2001.

„Ég var að koma úr vinnunni, ég var plötusnúður á bar í miðbænum. Ég var staddur með sex vinkonum mínum fyrir utan Þjóðleikhúsið þegar hópur af ungum strákum á aldrinum 18–19 ára nálgaðist. Einn þeirra byrjaði að áreita eina vinkonu mína og kallaði að henni alls kyns ókvæðisorðum. Þegar ég reyndi að koma henni til varnar þá kom einn úr hópnum upp að mér og kýldi mig.“

Teddy segir strákahópinn hafa ráðist á hann í kjölfarið og upphófust mikil slagsmál. Teddy bætir við að hann sé alinn upp „á götunni“, og hann sé því ekki óvanur því að þurfa að verja sig.

„Ég var svo heppin að nokkrir vinir mínir frá Nígeríu voru ekki langt frá og þeir komu mér til hjálpar. Ein af vinkonum mínum hringdi á lögregluna.“

Teddy segir að þegar lögreglan mætti á staðinn hefðu hann og vinir hans verið handjárnaðir og síðan ekið með þá niður á lögreglustöð þar sem þeir þurftu að dúsa í fangageymslu í dágóðan tíma. Íslensku piltarnir hafi verið látnir algjörlega í friði. „Þeir sögðu okkur að fara aftur til Afríku, eða hvaðan sem við komum.“

Teddy ræddi við Fréttablaðið nokkrum dögum eftir árásina og sagði fordóma og ofbeldi hafa aukist á Íslandi.

„Ég fer ekki lengur einn í bæinn af ótta við hvað kunni að gerast,“  sagði Teddy og bætti við á öðrum stað:

„Hlutirnir eru stöðugt að versna og slagsmál eru orðin mun tíðari en áður. En eins og lögreglan meðhöndlar hlutina gefur það fólki til kynna að það sé allt í lagi að stofna til slagsmála við fólk af öðrum kynþætti því afleiðingin sé sama og engin. Mér finnst sem lífi mínu sé ógnað og er kominn á það stig að vilja ekki hringja í lögregluna því það hefur hingað til ekki komið mér til hjálpar. Ég kýs frekar að kalla vini mína til aðstoðar og þegar málin eru komin á það stig getur það leitt til óeirða milli hópa af mismunandi kynþáttum.“

Þá sagði Teddy að vandinn færi stigvaxandi, enda væri ekki haldið rétt á málunum og aðgerðum ekki stjórnað og ef ekkert yrði að gert ætti ofbeldið eftir að fara úr böndunum og að endingu mundi einhver láta lífið í átökunum. „Ég get ekki ímyndað mér að þetta sé það sem íslenska þjóðin vill og því verður að grípa í taumana strax. Ísland á að vera fyrirmynd annarra þjóða þar sem allir eiga að geta lifað saman í sátt og samlyndi. Ég græt innra með mér þegar ég hugsa til strákanna minna því ég vil ekki að þeir séu að lenda í því sama og ég.“

Viðtal Fréttablaðsins frá 2001. Þar sagist Teddy ekki lengur þora að láta sjá sig í miðbænum af ótta við að verða fyrir aðkasti. Ljósmynd/Tímarit.is

Íslendingar fljótir að fara í vörn

Teddy á þrjá syni, 21 árs, 19 ára og 4 ára og tvær dætur, 18 ára og 4 mánaða. Öll búa þau á Íslandi. Hann segir dapurlegt að þurfa að horfa upp á yngsta soninn alast upp í umhverfi þar sem hann á stöðugt á hættu að verða fyrir fordómum og aðkasti.

„Eins og bara á seinasta ári, þávarð ég vitni að því þegar foreldrar íslenskrar stelpu bönnuðu henni að spila fótbolta við son minn. „Ekki tala við svona fólk,“ sögðu þau, beint fyrir framan mig. Það er ofboðslega dapurlegt að þetta sé ennþá svona í dag. Þetta er veruleikinn sem fólk af mínum uppruna þarf að lifa við. Fólk þarf að hætta að vera í afneitun. Það þarf að horfast í augu við það, að það er rasismi á Íslandi. Það þarf að opna umræðuna. Íslendingar eru svo fljótir að fara í vörn og reyna að réttlæta fordóma. Það er ekki heldur hægt að fara fram á að þeir útlendingar sem flytja hingað afneiti sínum uppruna, en að sjálfsögðu á að fara fram á þeir virði lögin, virði menninguna og geri sitt besta til að aðlagast samfélaginu. Útlendingum er ekkert að fara að fækka á Íslandi, eftir 20 ár verða þeir orðnir jafnvel enn stærri hluti af íbúafjöldanum. Þess vegna er svo nauðsynlegt að taka á þessum málum núna.“

Teddy bætir því við að það sé heldur ekki sama hvaðan maður kemur. Svartur maður frá Nígeríu fái til að mynda óblíðari viðtökur en svartur maður frá Bandaríkjunum.

„Mér er umhugað um þá sem hafa ekkert bakland, engan stuðning. Hvernig ætlum við að vernda þá? Hvað með þá krakka sem eru blandaðir (biracial) og eru fæddir og aldir upp á Íslandi? Þetta er eini staðurinn, eina umhverfið sem þau þekkja og þau passa ekki inn í það og eru ekki samþykkt. Hver er þá tilgangurinn með því að lifa?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

8 ára drengur með heilaæxli steig á svið – Sjáðu atriðið sem hreyfði við Simon Cowell

8 ára drengur með heilaæxli steig á svið – Sjáðu atriðið sem hreyfði við Simon Cowell
Fókus
Fyrir 3 dögum

J. Lo loksins laus við slottið – 7 ár í sölu og verðmiðinn lækkaður um milljónir

J. Lo loksins laus við slottið – 7 ár í sölu og verðmiðinn lækkaður um milljónir
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Ég er í dag ekki vitund hrædd við dauðann. Það kom eftir þessa lífsreynslu.“

„Ég er í dag ekki vitund hrædd við dauðann. Það kom eftir þessa lífsreynslu.“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þetta var uppáhalds skyndibiti Elísabetar drottningar

Þetta var uppáhalds skyndibiti Elísabetar drottningar