fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fókus

Fyrirsætan Arna Bára hjálpar Spánverjum í neyð: „Ástandið skelfilegra en fólk getur ímyndað sér“

Íris Hauksdóttir
Mánudaginn 30. september 2019 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tvö ár eru nú síðan Arna Bára Karlsdóttir, fyrirsæta flutti frá Íslandi en hún býr í dag á Spáni ásamt eiginmanni sínum, Heiðari Árnasyni, og þremur börnum. Arna unir hag sínum vel og segir að Ísland hafi aldrei verið rétti staðurinn fyrir sig.

Tildrög þess að Arna flutti frá Íslandi var barátta hennar við Fæðingarorlofssjóð, en hún á þrjá unga syni með stuttu millibili. „Við fluttum fyrst til Svíþjóðar í júní árið 2017 en þá var ég alveg komin með nóg af Fæðingarorlofssjóði Íslands sem vildi bókstaflega ekkert fyrir mig gera. Ég hafði þá sótt síendurtekið um orlof og látið bókarann minn afhenda þeim öll gögn sem þurfti en það var ekkert hlustað. Mjög löng og skrítin saga en í grunninn bara fáránleg því ég átti svo sannarlega rétt á fæðingarorlofi þar sem ég hafði starfað sem launþegi hjá sama fyrirtæki í fjögur ár. Lífið í Svíþjóð var æðislega ljúft, við bjuggum þar í smábæ sem var algjör paradís. Húsið okkar var risastórt en það eina sem vantaði var nánd við okkar nánustu fjölskyldu. Þar sem stór hluti af fjölskyldunni minni og mannsins míns er búsett á suðausturhluta Spánar ákváðum við að endingu að flytja hingað út og sjáum ekki eftir því. Lífið hér er æðislegt út í gegn, allir svo rólegir og koma fallega fram. Ég elska hvað fólkið hér er hjálpsamt og vill allt fyrir mann gera. Svo er líka rosalega ódýrt að lifa heilsusamlegu lífi hér og njóta þess að vera til.“

Spurð hvernig drengjunum hafi gengið að aðlagast lífi í nýju landi segir Arna þá blómstra hver á sinn hátt. „Þeir eru á aldrinum tveggja til sjö ára og hafa á sinni stuttu ævi flutt til þriggja landa. Þeir eru því vanir flakki og hafa aðlagast rosalega hratt. Ég hef lagt ríka áherslu á að ala þá upp sem sjálfstæða og sterka einstaklinga. Ég vil síður hafa þá of mömmu- og pabbasjúka þótt þeir elski okkur auðvitað út af lífinu, og við þá. En þeir hafa það æðislegt hér, leikskólinn er frábær og skólinn er mjög öruggur. Það má enginn sækja börnin nema eftir skólatíma og fólk er beðið um að framvísa skilríkjum ef starfsfólkið þekkir ekki til. Mér finnst þetta jákvætt fyrirkomulag og mjög ólíkt því sem tíðkast á Íslandi.“

Á haus í hjálparstarfi

En þótt lífið sé ljúft í sólinni dundu nýverið yfir miklar hörmungar því úrhellisrigning og flóð hafa leikið íbúa Costa Blanca-strandlengjunnar grátt. Hamfarirnar hafa valdið gríðarlegu tjóni þar sem sex eru látnir og þúsundir íbúa svæðisins hafa þurft að yfirgefa heimili sín. Arna Bára hefur ekki látið sitt eftir liggja og vinnur í dag hörðum höndum við að hjálpa þeim sem orðið hafa fyrir miklum skaða. „Ég er búin að vera á haus í hjálparstarfinu hér því mig langar að gera góða hluti, en ástandið hér er virkilega slæmt. Yfir níu þúsund hús eru ónýt og yfir 2.700 bílar fljóta um í einum hrærigraut. Á þessari stundu hafa sex manneskjur fundist látnar og ef að líkum lætur munu fleiri finnast á næstu dögum.

Þetta er mesta flóð síðan mælingar hófust og hafa meðal annars þrjár ár flætt yfir bakka sína og stíflugarðar brostið. Borgin Alicante og Valencia-hérað hafa orðið verst úti, þar ríkir mikið öngþveiti og fólk er varað við að vera utandyra sökum flóðahættu. Fjöldi fólks hefur jafnframt slasast við björgunaraðgerðir, þar af nokkir lögreglumenn. Það hefur því orðið mikil röskun á daglegu lífi og skólahald legið niðri síðan 12. september þegar úrhellið hófst, almenningssamgöngur liggja sömuleiðis enn víða niðri.“

Forsætisráðherrann flaug yfir svæðið í herþyrlu

Arna nefnir sem dæmi að rigning í þorpinu Gaianes hafi á fyrstu sólarhringum úrhellisins mælst um 490 millimetrar en til samanburðar er úrkomumet á Íslandi 83 millimetrar. Það er því ljóst að mikil vinna er fram undan til að meta tjón og lagfæra skemmdir sem orðið hafa af völdum flóðsins. „Þegar Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, heimsótti Orihuela nú fyrir skömmu, ferðaðist með herþyrlu því aðgengið er ekkert. Hann sendi frá sér yfirlýsingu þar sem fram kom að ástandið væri skelfilegra en fólk gæti gert sér í hugarlund.“

Spurð hvar fjölskyldan hefði verið stödd þegar ósköpin dundu yfir segir Arna þau ótrúlega heppin að hafa sloppið ómeidd. „Við vorum stödd í Orihuela til að sækja um landvistarleyfi á lögreglustöðinni þegar þetta byrjaði allt saman. Það var eins og hellt væri úr fötu, bókstaflega, og við brunuðum eins hratt og við gátum út úr bænum. Göturnar voru fljótar að fyllast af vatni svo við urðum að keyra uppi á gangstétt. Við vorum auðvitað logandi hrædd með börnin okkar í bílnum. Þegar heim var komið forum við ekki út úr húsi í þrjá daga. Ég get ekki þakkað nægilega fyrir það að hafa sloppið ómeidd og með allt okkar óskemmt, en þess þá heldur finnur maður þörfina til að hjálpa þeim sem voru ekki svo heppnir á allan mögulegan hátt. Við erum í æðislegum hópi á Facebook, Íslendingar á Spáni, þar sem við í sameiningu finnum leiðir til að veita fólki í neyð hjálparhönd.“

Vatnið farið að lykta

Guðmundur Guðmundsson, forsprakki hópsins, staðfestir að ástandið sé verra en fólk geri sér grein fyrir. „Í bænum Los Alcázares, sunnan við Torrevieja við Mar Menor-lónið, varð til að mynda mikið tjón þar sem flæddi inn í bílakjallara og skólar skemmdust mikið,“ segir Guðmundur og heldur áfram. „Börnin í bænum skortir því skóladót en íbúa vantar í raun allar helstu nauðsynjar hvort sem það er matur eða klósettpappír. Bæjarfélagið brást fljótt við og hefur nú sett upp söfnunaraðstöðu þar sem fólk og fyrirtæki koma með vörur, mat, drykki, fatnað, hreinlætisvörur og fleira. Sjálfboðaliðar standa vaktina ásamt lögreglu og hermönnum sem sjá um að safna og fylla bíla af nauðsynjavörum fyrir fólk sem hefur verið fast og ekki komist neitt. Bara á meðan við vorum þarna kom fólk fótgangandi úr margra kílómetra fjarlægð, skítugt og blautt upp að mitti eftir að hafa þurft að vaða í flóðinu með börnin sín á herðunum til að sækja vörur. Þetta var alveg skelfileg sjón. Við náðum tali af bæjarstjóranum í Los Alcazares og spurðum hann nokkurra spurninga. Hann sagði okkur að ástandið væri skelfilegt og vatnshæðin víða allt að tveir metrar. Ekki bætir úr að borgin er enn í sárum síðan síðasta flóð lék bæinn grátt, en þá þurftu tæplega fimm hundruð manns að yfirgefa heimili sín og ríflega hundrað sem enn eru heimilislausir í kjölfar þess. Þrátt fyrir að rigningin sé á enda er óvíst hvort hún muni taka sig upp aftur og vatnshæðin hefur haldist óbreytt í langan tíma. Vatnið er farið að lykta illa og því óhætt að segja að hér ríki algjört neyðarástand og mikil þörf á að aðstoða sem flesta, bæði með hlutum, mat og fjárframlögum.“ Fyrir Íslendinga sem vilja leggja sitt af mörkum bendir Guðmundur á að hægt sé að leggja frjáls fjárframlög inn á Rauða krossinn á Spáni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Forsetaframbjóðandinn sem gerðist miðill – Hannes lætur efasemdaraddirnar sem vind um eyru þjóta

Forsetaframbjóðandinn sem gerðist miðill – Hannes lætur efasemdaraddirnar sem vind um eyru þjóta
Fókus
Fyrir 2 dögum

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Kanye West ætlar í klámið

Kanye West ætlar í klámið
Fókus
Fyrir 2 dögum

Leitar sér hjálpar vegna Ozempic notkunar eftir ákall áhyggjufullra aðdáenda

Leitar sér hjálpar vegna Ozempic notkunar eftir ákall áhyggjufullra aðdáenda