Mánudagur 17.febrúar 2020
Fókus

Átta skjápör með ótrúlegan aldursmun – Má þetta?

Fókus
Laugardaginn 14. september 2019 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í Hollywood, eða réttar sagt heimi fallega og fræga fólksins, skiptir aldursmunur skjápars minna máli en fegurð og neisti á milli leikaranna sem skjáinn prýða. Í gegnum árin hefur það viðgengist furðu lengi að karlpeningurinn eigi að deila hvíta tjaldinu með konu sem er töluvert yngri og hefur þetta lengi þótt vera sjálfsagt mál. Kvikmyndagerðin vestanhafs hefur aðeins tekið á þessu upp á síðkastið en kvikmyndasagan er engu að síður stútfull af undarlegum dæmum þar sem eldri karlmaðurinn gæti gegnt hlutverki föður frekar en elskanda.
Kíkjum á átta dæmi.

 

Denzel Washington og Eva Mendes – 19 ár

Í spennumyndinni Training Day sjást leikararnir Denzel Washington og Eva Mendes stinga saman nefjum. Washington leikur alræmda og gjörspillta lögreglu, þannig að gefið er að ýmislegt í hans fari sé vafasamt. Aftur á móti er það víða þekkt regla – sem meira að segja Baltasar Kormákur sjálfur hefur staðfest – að Denzel fer ekki í rúmið með hvaða leikkonu sem er og segja margar sögur að hann velji mótleikkonur sínar sérstaklega. Það á ekki síst við þegar þær fækka fötum fyrir framan hann, en kannski er 19 ára aldursmunur minna mál þegar Denzel lítur yfirleitt út fyrir að vera tíu árum yngri en hann er í raun.

 

Tom Cruise og Emily Blunt – 20 ár


Það er venjulega undantekning ef stórleikarinn Tom Cruise á sér elskhuga í kvikmyndum sem er á sama aldri og hann. Í vísindaskáldsögunni Edge of Tomorrow fljúga nokkrir neistar á milli hans og bresku leikkonunnar Emily Blunt, sem er talin ein sú hæfileikaríkasta í dag. Hins vegar er það eitthvað við aldursmuninn sem stöðvar umrætt neistaflug og úr verður samspil sem frændsystkin væru sátt við.

 

Johnny Depp og Amber Heard – 23 ár


Straumarnir sem ríkja á milli þeirra Johnny Depp og Amber Heard í kvikmyndinni The Rum Diary eru eldfimir og óumdeilanlegir – þrátt fyrir að styttra sé á milli aldurs hennar og dóttur Depps en leikaranna beggja. Þessi mikli losti sem komst til skila á skjánum gæti verið ástæðan fyrir því að parið tók upp á því að stinga saman nefjum þegar tökuvélarnar voru hættar að rúlla og leiddi það síðar meir til hjónabands. Ekki fór þó ástarævintýrið alveg eftir væntingum þeirra en skilnaður þeirra var eitt stærsta fréttafóður slúðurmiðla síðustu árin. Leikkonan ásakaði Depp um að hafa beitt hana ofbeldi meðan á sambandinu stóð en þá stefndi leikarinn Heard fyrir ófrægingu og ærumeiðingar og krafðist 50 milljóna Bandaríkjadala í bætur. Mikið getur ástin verið ljúf.

 

Harrison Ford og Anne Heche – 27 ár


Það muna sjálfsagt ekki allir eftir rómantísku ævintýramyndinni Six Days, Seven Nights, þar sem þau Harrison Ford og Anne Heche sneru saman bökum. Uppskriftin er sígild (eða dæmigerð); þau hata hvort annað í fyrstu en hægt og rólega fer rómantíkin að skína á milli þeirra. Aldursmunurinn stöðvar ekkert í þessu. Þetta er þó ekki langt frá tölunni hjá Ford og eiginkonu hans, leikkonunni Calistu Flockheart.

 

Woody Allen og Mariel Hemingway – 31 ár

Ef eitthvað hefur verið gegnumgangandi í kvikmyndum leikstjórans Woodys Allen, þá er það hefð kvikmyndagerðarmannsins og leikarans að sækja í yngri konur. Í raunheimi hefur sambærileg fantasía oft átt sér stað, en trúlega er versta bíóbrotið framið með kvikmyndinni Manhattan, sem er af mörgum talin ein besta mynd Allen. Í þessari mynd leikur Allen rithöfund á fimmtugsaldri sem byrjar að slá sér upp með sautján ára gömlum nema, sem leikinn er af Mariel Hemingway. Ekki bætti úr skák þegar leikstjórinn fór að daðra á hvíta tjaldinu við leikkonuna Miru Sorvino í Mighty Aphrodite frá árinu 1995, þegar hann var nýskriðinn á sjötugsaldurinn en hún aðeins 28 ára. Woody, þó!

 

Colin Firth og Emma Stone – 28 ár


Enn og aftur er Woody Allen að verki, þótt hann sé ekki sjálfur í aðalhlutverki. Í myndinni Magic in the Moonlight frá 2014 eru ýmsir straumar á milli leikaranna Colins Firth og Emmu Stone. Þetta virkar blásaklaust við fyrstu sýn, þangað til áhorfandinn er minntur á þá litlu staðreynd að Firth var 53 ára meðan á tökum stóð en Emma 25 ára. Tunglsljósið hefur væntanlega þessi áhrif, ef eitthvað er að marka titil myndarinnar.

 

Sean Connery og Catherine Zeta-Jones – 39 ár

Fyrrverandi Bond-leikarinn Sean Connery var 69 ára þegar hann lék meistaraþjóf sem mætir jafningja sínum, sem reynist vera Catherine Zeta-Jones. Kvikmyndin sem um ræðir heitir Entrapment en við tökur hennar var Zeta-Jones nýorðin þrítug. Sennilega skrifast þetta á ómældan sjarma Connery, eða í það minnsta er áhorfendum talin trú um að það sé málið. Aldursmunurinn virðist þó ekki koma í veg fyrir þá stöðugu, kynferðislegu spennu sem ríkir á milli persónanna. Hver segir svo að aldur sé ekki afstæður?

 

Frank Langella og Lauren Ambrose – 40 ár


Það hefur lengi verið gömul hefð í kvikmyndum vestanhafs að rithöfundar leiti að elskhuga sem er töluvert yngri. Í kvikmyndinni Starting Out in the Evening fer Frank Langella með hlutverk eins slíks og hefur hann samband við útskriftarnema sem er heilum fjórum áratugum yngri en hann í sögunni. Þetta er líka munurinn á milli aldurs þeirra Langella og leikkonunnar Lauren Ambrose. Verkið dæmir sig sjálft.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 2 dögum

Úr glamúr í grimma fortíð: „Ein mesta hryllingstilfinning sem ég hef upplifað“

Úr glamúr í grimma fortíð: „Ein mesta hryllingstilfinning sem ég hef upplifað“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Veðrið gengur niður en tístin halda áfram: „OK – ég játa. Keypti brauð í Krónunni í gær. Hvar borga ég sekt?“

Veðrið gengur niður en tístin halda áfram: „OK – ég játa. Keypti brauð í Krónunni í gær. Hvar borga ég sekt?“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Nýja Bond-lagið afhjúpað

Nýja Bond-lagið afhjúpað
Fókus
Fyrir 2 dögum

Rósa segir edrúmennskuna bestu gjöf sem hún gat gefið sér: „Að vera komin á geðdeild inn og út um tvítugt var mikið áfall“

Rósa segir edrúmennskuna bestu gjöf sem hún gat gefið sér: „Að vera komin á geðdeild inn og út um tvítugt var mikið áfall“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jöklar í Listasal Mosfellsbæjar

Jöklar í Listasal Mosfellsbæjar
Fókus
Fyrir 4 dögum

Ellý mátar brúðarkjóla – Staðráðin í einu á stóra daginn: „Allt annað er aukaatriði“

Ellý mátar brúðarkjóla – Staðráðin í einu á stóra daginn: „Allt annað er aukaatriði“