Þriðjudagur 25.febrúar 2020
Fókus

Hjarðhegðun Íslendinga – 7 eftirminnilegar raðir

Erla Dóra Magnúsdóttir
Fimmtudaginn 22. ágúst 2019 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hjarðhegðun er þekkt fyrirbæri meðal bæði dýra og manna. Henni mætti lýsa með þeim hætti að einstaklingar innan hóps hagi sér með sama hætti, án þess að einhver sérstök stefna hafi verið mótuð í þeim efnum. Dæmi um þetta er að fara út í búð og ætla að velja milli tveggja tegunda af sömu matvörunni. Margir ættu þá til að kippa með þeirri sem minna væri eftir af. Fylgja fjöldanum án allrar gagnrýnnar hugsunar. Einstaklingur hermir eftir öðrum í þeirri trú að hann hafi vitað hvað hann væri að gera, í staðinn fyrir að móta sínar eigin skoðanir.

Íslendingar hafa lengi vel tekið erlendum verslunum fagnandi, en einnig geta ýmis tískufyrirbæri valdið æsingi og jafnvel usla ef varan er auglýst með orðunum „takmarkað upplag“ eða ef mikið hefur farið fyrir auglýsingum á samfélagsmiðlum og annað. Omaggio-vasarnir frægu eru þar gott dæmi, þar sem á gífurlega skömmum tíma voru vasarnir komnir inn á annað hvert heimili.

Hjarðhegðun birtist einnig með eftirminnilegum hætti á nýafstöðnum Ed Sheeran-tónleikum og því ekki úr vegi að rifja upp nokkrar eftirminnilegar biðraðir síðustu ára.

Ed Sheeran 

DV/Eyþór Árnason

Segja má að tónlistarmaðurinn geðþekki, Ed Sheeran, hafi hlotið góðar móttökur hérlendis þegar hann hélt tónleika sína 10. og 11. ágúst síðastliðinn. Löng röð myndaðist fyrir utan Ed Sheeran-verslun sem hafði verið komið fyrir í Kringlunni, og langar raðir mynduðust þegar gestir freistuðu þess að snemminnrita sig á tónleikana og svo inn á tónleikana sjálfa. Þetta var einkum athyglisvert þegar Rúnar Freyr Gíslason benti á að engin skylda væri að innrita sig snemma nema sérstakar ástæður lægu þar að baki, svo sem ef hópur hefði keypt miða sameiginlega en ætlaði sér að mæta hver í sínu lagi. Engu að síður kom gífurlegur fjöldi tónleikagesta og beið í röð eftir snemminnritun, röðin náði langleiðina upp á Suðurlandsbraut.

Seinna um daginn myndaðist svo röð tónleikagesta sem biðu eftir því að vera hleypt inn á tónleikasvæðið. Sú röð náði líklega sögulegri lengd á Íslandi, eða um 1,5 kílómetrum. Röðin náði alla leið að Glæsibæ og sló þar með út röðinni sem myndaðist á Guns n’ Roses-tónleikana á síðasta ári sem náði næstum að Glæsibæ. Hins vegar var alls ekki gert ráð fyrir svona langri röð. Raðirnar áttu að vera þrjár og var það greinilega merkt. Engu að síður stilltu tónleikagestir sér upp í einfalda röð sem bara lengdist og lengdist. Rúnar Freyr sagði í samtali við Vísi að lengd raðarinnar mætti skýra með hjarðhegðun. Fólk hafi farið í ranga röð þrátt fyrir skýrar merkingar. „Þá er fólk þannig að það eltir aðra og heldur að það eigi að gera það sama og hinir.“

Lindex 

Þremur dögum eftir að verslunin Lindex var opnuð í Smáralind þurfti að loka versluninni vegna vöruskorts. Á þessum dögum er talið að verslunin hafi afgreitt rúmlega tíu þúsund viðskiptavini og salan verið fimm sinnum meiri en áætlað hafði verið. Sænskir forsvarsmenn verslunarinnar voru viðstaddir opnunina og sögðust aldrei hafa vitað annað eins, þetta ætti bara ekki að vera hægt. Um stærstu opnun verslunar í sögu keðjunnar var að ræða.

Bauhaus 

Bauhaus var opnuð í maí 2012. Brá verslunin á það ráð að hafa sérstaka opnunarhátíð áður en dyrnar voru formlega opnaðar. Mikil örtröð myndaðist fyrir  utan verslunina og öll sex hundruð bílastæðin á svæðinu voru upptekin þegar hátíðin byrjaði. Framkvæmdastjóri Bauhaus taldi að um 5–6 þúsund manns hefðu verið á svæðinu.

H&M Smáralind 

Fyrsti viðskiptavinurinn stillti sér upp í röð rúmlega sólarhring fyrir opnunina. Rétt fyrir opnunina náði röðin út úr Smáralindinni. H&M kom til móts við eftirvæntinguna og þegar dyrnar voru opnaðar streymdi starfsfólk verslunarinnar út og tók dansspor, gestum til mikillar kátínu.

Søstrene Grene 

Árið 2016 stilltu margir Íslendingar sér upp í röð fyrir utan verslunina Søstrene Grene til að freista þess að festa kaup á forláta hillum. Að sögn sjónarvotta lá nánast við slagsmálum í Kringlunni þegar viðskiptavinir kepptust við að hrifsa til sín hillurnar. Sömu hillur fóru aftur í sölu nokkrum mánuðum síðar og náði röðin þá út fyrir Kringluna. Þetta er ekki eina varan sem hefur valdið usla í Søstrene Grene en mikill æsingur á til að grípa um sig þegar nýjar vörulínur fara í sölu.

Dunkin‘ Donuts

Kleinuhringjakeðjan Dunkin‘ Donuts opnaði útibú á Íslandi með pomp og prakt á Laugavegi árið 2015. Ævintýrið varð skammlíft og var versluninni lokað snemma á þessu ári. Stór fjöldi fólks safnaðist saman fyrir opnunina 2015, sumir biðu jafnvel heila nótt til að eiga möguleika á veglegum vinningi, fríir kleinuhringir í heilt ár.

Húrra 

Þónokkrir Íslendingar gátu ekki setið á sér þegar von var á Yeezy-strigaskóm úr smiðju Kanye West. Vongóðir viðskiptavinir tjölduðu jafnvel fyrir utan verslunina Húrra til að tryggja sér par af skónum sem komu í takmörkuðu upplagi. Hátt í hundrað manns biðu í röð þegar verslunin var opnuð.

 

Hér má sjá röð þeirra sem hugðust snemminnrita sig á Ed Sheeran-tónleikana. Síðar um daginn myndaðist svo aftur röð væntanlegra tónleikagesta sem náði lengst alla leið að Glæsibæ. Mynd/Eyþór Árnason
Íslendingar eru velkunnugir biðröðum. Svo kunnugir að jafnvel mætti álykta að í röðum sé skemmtilegt að vera.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 5 dögum

Daði fær stuðning úr óvæntri átt – Sjáðu hvað Russell Crowe sagði um lagið

Daði fær stuðning úr óvæntri átt – Sjáðu hvað Russell Crowe sagði um lagið
Fókus
Fyrir 6 dögum

Gunnar Júlíusson er listamaður mánaðarins í Bókasafni Garðabæjar – „Ég hef gaman af ýktri tjáningu“

Gunnar Júlíusson er listamaður mánaðarins í Bókasafni Garðabæjar – „Ég hef gaman af ýktri tjáningu“
Fókus
Fyrir 1 viku

Kolbeinn Karl afhjúpar hvernig best er að kaupa fasteign – Svona eignast þú íbúð

Kolbeinn Karl afhjúpar hvernig best er að kaupa fasteign – Svona eignast þú íbúð
Fókus
Fyrir 1 viku

Ágústa miður sín yfir viðbjóðslegum rasisma í Ikea: „Vá hvað þetta var ljót stelpa“

Ágústa miður sín yfir viðbjóðslegum rasisma í Ikea: „Vá hvað þetta var ljót stelpa“