fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fókus

Mikill þrýstingur á Jóhönnu Guðrúnu að sýna meira hold – Átti enga möguleika nema í „stuttum, flegnum kjól“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Föstudaginn 17. maí 2019 08:00

Blái kjóllinn var mjög umdeildur.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Úrslitakeppni Eurovision fer fram næsta laugardagskvöld og eigum við Íslendingar fulltrúa í úrslitum í fyrsta sinn síðan árið 2014. Af því tilefni ákvað DV að kíkja á sögurnar á bak við nokkur af okkar þekktustu Eurovision-lögum í helgarblaðin.

Þrýst á Jóhönnu Guðrúnu að sýna meira hold

Óskar Páll Sveinsson er einn af lagahöfundum Is It True?, þess framlags Íslendinga í Eurovision sem hefur náð hvað bestum árangri. Lagið var hins vegar ekki samið upprunalega fyrir Eurovision.

„Þetta lag fæddist um árið 2005 minnir mig. Á þeim tíma bjó ég í London og var að vinna sem lagahöfundur og upptökustjóri. Ég var með útgáfusamning við Sony London. Þetta vildi þannig til að kunningi minn, sem heitir Chris Neil, er einn af upptökustjórum Celine Dion og hringdi í mig og sagðist vera að vinna plötu með rússneskri söngkonu, Tinatin Japaridze, sem væri sennilega allavega jafngóð og Celine Dion. Ég sperri alltaf eyrun þegar ég heyri eitthvað svona,“ segir Óskar Páll og heldur áfram.

„Hann sagði mér að þau væru að leita að meðhöfundum til að semja lög á plötuna hennar og spurði hvort ég væri ekki til í að semja með henni eitt lag. Þetta var það sem ég var að vinna við á þessum tíma og auðvitað er ekkert skemmtilegra en að vinna með góðum söngvurum. Það er það sem gaf manni alltaf mest – góðar raddir. Það er ekkert sem toppar það.“

Óskar Páll við tökur á Grænlandi.

Lagið samið á nokkrum tímum

Í framhaldinu fór Óskar Páll í hljóðver með fyrrnefndum Chris og söngkonunni og allt small saman.

„Ég var tilbúinn með grunnhugmyndina þegar að þau komu í stúdíóið. Þau kveiktu strax á því sem ég var búinn að gera. Ég var búinn að hnoða deigið, síðan var brauðið bakað og sett smá glassúr ofan á. Við gerðum það í sameiningu og út kom þetta lag, Is It True?“

Textasmíðin gekk eins og í sögu og segir Óskar Páll að fæðing lagsins hafi verið auðveldari en með mörg önnur lög. Þríeykið var mætt í hljóðverið klukkan 11 og var demó af laginu tilbúið klukkan 17.

„Síðan liðu nokkur ár og það bólaði ekkert á þessari plötu hennar. Þá kom á daginn að hún ákvað að hætta við að gefa út plötu því henni bauðst að fara í mjög eftirsótt nám í Columbia-háskóla í New York, með áherslu á samskipti Rússlands og Bandaríkjanna. Þá lá þetta lag uppi í hillu hjá mér. Þegar ég flutti heim til Íslands sá ég auglýsingu fyrir lög í Eurovision. Þá poppaði þetta lag upp í hausinn á mér, en vandamálið við það er það getur nánast enginn sungið þetta almennilega. Mér datt strax Jóhanna Guðrún í hug því ég bara gat ekki ímyndað mér að nokkur önnur söngkona sem ég þekkti gæti ráðið við þetta. Ég spilaði fyrir hana lagið og hún var strax til í þetta.“

Stundin sem rústaði taugakerfinu

Eins og allir vita komst lagið í Söngvakeppnina og bar sigur úr býtum. Það bjuggust hins vegar fáir við því að þetta yrði framlag Íslands árið 2009.

Jóhanna Guðrún í kjólnum umdeilda.

„Þetta lag var aðeins undir radarnum hjá flestum hér heima. Fyrstu viðbrögð hjá nokkrum Eurovision-sérfræðingum voru alls ekki góð. Þeim leist ekkert á að senda svona lítið Eurovision-legt lag í þessa keppni. Út af þessari umræðu fórum við út með mjög litlar væntingar,“ segir Óskar Páll, sem varð þó enn vonminni þegar úrslit undanriðilsins í Eurovision-keppninni í Rússlandi voru kunngjörð. Eins og margir muna var Ísland lesið síðast upp í úrslitin.

„Ég var algjörlega búinn að missa vonina. Ég gleymi seint þegar nafn lagsins var lesið upp. Sú stund algjörlega rústaði taugakerfinu. Þetta var alveg fáránlegt. Það voru svo mörg lög eftir í pottinum sem flestir töldu að væru örugg áfram og okkar lag var ekki eitt af þeim. Það bjóst enginn við að heyra Ísland sem síðasta lag inn,“ segir Óskar Páll, en eftir úrslitakeppnina kom í ljós að Jóhanna Guðrún sigraði í undanriðlinum og eins og flestir vita varð hún í öðru sæti í úrslitakeppninni.

Þrýst á kjólabreytingu

Það var þó ekki bara lagið sem fékk slæma dóma Eurovision-spekinga heldur einnig kjóllinn frægi sem Jóhanna Guðrún klæddist í Rússlandi.

„Fólk annaðhvort elskaði hann eða hataði hann út af lífinu,“ segir Óskar Páll, en vissir aðilar tengdir keppninni þrýstu á Óskar Pál að skipta kjólnum út fyrir eitthvað efnisminna. „Það var meðal annars komið að máli við mig og ýtt á mig um það hvort það ætti ekki að setja hana í stuttan, fleginn kjól. Sýna meira hold. Ég fékk að heyra það frá nokkrum að ég væri klárlega að tapa fjölmörgum stigum með því að hafa hana ekki í flegnari kjól. Ákveðnir aðilar voru algjörlega harðir á því að það þyrfti að sýna meira hold til að komast áfram í keppninni og sögðu klárt að við kæmumst ekki upp úr undankeppninni. Ég fékk að heyra að ég bæri þá ábyrgð á því að við kæmumst ekki upp úr undankeppninni,“ segir Óskar Páll. Hann stóð hins vegar fastur á sínu.

„Mér fannst aldrei góð hugmynd að hafa kjólinn styttri og flegnari. Mér fannst hætta á því að það myndi skyggja á þessa frábæru rödd og lagið. Það má deila um kjólinn, eins og allt annað, en ég tel að hann hafi hjálpað okkur heilmikið.“

Óskar Páll rekur í dag framleiðslufyrirtækið Yoda Film og vinnur að heimildamyndagerð og kynningarmyndböndum. Hann er nú á Vestfjörðum að fylgja Veigu Grétarsdóttur er hún fer á kajak rangsælis í kringum landið. Útkoman verður heimildamynd um ferðalagið sem mun heita Á móti straumnum. Hann er ekki alveg hættur í tónlist og útilokar ekki að taka aftur þátt í Eurovision. Varðandi framlag Íslands í ár, Hatara, segist hann vera hæstánægður með það. „Mér sýnist þeir vera með sitt atriði svo gjörsamlega á hreinu að ég gæti ekki gefið þeim nokkur einustu ráð. Ég styð þá 100 prósent í því sem þeir eru að gera,“ segir Óskar Páll.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Hvalur sprakk í tætlur

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Eva Ruza fer í skóför Felix

Eva Ruza fer í skóför Felix
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu
Fókus
Fyrir 3 dögum

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sonur Elísu og Elíss fæddur

Sonur Elísu og Elíss fæddur
Fókus
Fyrir 4 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“