Orðið „eltihrellir“ er yfirleitt skilgreint sem manneskja sem eltir og fylgist með annarri manneskju á ákveðnu tímabili. Þetta er því tegund af áreitni sem oftast hefur þann tilgang að valda ótta. Margir Íslendingar, og ekki síst þeir þekktu, hafa upplifað svona ofbeldi í einu formi eða öðru. Hér eru fimm dæmi.
Björk
Maður að nafni Ricardo Lopez varð hugfanginn af tónlistarkonunni Björk og lét hana ekki í friði árið 1996. Lopez reyndi að senda Björk bréfasprengju en breska lögreglan náði að stöðva hann í tæka tíð. Tilfelli Bjarkar þótti með því versta sem þekktist, en eltihrellirinn framdi sjálfsvíg skömmu eftir að hann náðist.
Eivør
Söngkonan Eivør Pálsdóttir sótti um nálgunarbann á íslenskan mann sem átti að hafa elt hana í um þrjú ár. Málið gekk meira að segja svo langt að maðurinn flutti til Færeyja og tjaldaði í garðinum hjá henni í dágóðan tíma. Hermt er að maðurinn hafi sagt að umboðskona Eivarar væri eina fyrirstaðan í sambandi þeirra.
Malín Brand
Fjölmiðlakonan Malín Brand tjáði sig um eltihrella í Fréttatímanum árið 2011. Malín var stödd með hópi íslenskra og tyrkneskra blaðamanna í tengslum við umsóknir landanna að ESB. Einn þeirra sem var í forsvari fyrir tyrkneska hópinn tilkynnti henni að Guð vildi að hún yrði konan hans. Í kjölfarið réðst maðurinn á hana og var Malín marin á kjálka, handleggjum og fótleggjum. Hún var flutt á annað hotel í kjölfarið.
Áslaug Arna
Þingkonan Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir var áreitt á netinu af bandarískum manni oft á dag í margar vikur. Maðurinn bjó til Youtube-myndband þar sem hann spurði margra persónulegra spurninga. Hann hringdi og sendi henni talskilaboð mörgum sinnum á dag. Þegar Áslaug reiddist skipti maðurinn skapi og fór að kalla hana ýmsum illum nöfnum.
Halldór Laxness
Nóbelskáldið Halldór Laxness upplifði sinn skerf af áreitni aðdáenda sinna. Á ákveðnum tímapunkti þurfti að hafa samband við allar leigubílastöðvar í Reykjavík og segja leigubílstjórum að aka vinsamlegast ekki ölvuðum mönnum upp að Gljúfrasteini, heimili skáldsins, ef þeir óskuðu eftir því.