fbpx
Miðvikudagur 28.febrúar 2024
Fókus

Þegar karaoke-æðið greip landsmenn – „Ég fór bara, söng og varð fyrsti Íslandsmeistarinn í karókí“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Sunnudaginn 24. nóvember 2019 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Nýjasta töfratækið á tómstundamarkaðnum heitir Karaoke og á gera hverjum sem er kleift að láta rödd sína hljóma engu miður en rödd hvaða stórsöngvara sem vera skal.“ Svona hófst lýsing á þeim stórviðburði í lok október árið 1990 að japanska sönglistin „karaoke“ var komin til landsins, nánar til tekið á öldurhúsið Ölver, þar sem karókí lifir enn góðu lífi.

Mögnuð uppfinning Fyrsta fréttin um karókígræjuna á Ölveri.

Óvænt heimsundur

Karókí átti aldrei að verða alheimsundur því það var í fyrstu hugsað sem tæki fyrir japanska jakkafatakarla sem hittust eftir vinnu og slökuðu á með drykkjum og söng. „Karaoke“ þýðir á íslensku tóm hljómsveit og var söng jakkafatakarlanna á vinsælum popplögum ætlað að gera þeim kleift að slaka á eftir langan vinnudag. Það skapaðist meira að segja hefð fyrir því þegar fyrirtæki fóru á karókístaði að undirmenn tækju hver sitt lagið til að ganga í augun á yfirmanninum. Þá skipti litlu hvort mennirnir gátu sungið eður ei því það var talin mikil manndómsvígsla að geta staðið með sjálfum sér og sínu lagleysi uppi á sviði og hagað sér eins og heimsins stærsta poppstjarna. Karókí mismunaði því fólki ekki eftir söngrödd og gerði fólki mögulegt að sigra heiminn án þess að halda einum einasta tóni. Þetta aðgengi í bland við góða skemmtun og stuð varð til þess að karókí varð vinsælt um heim allan. Sem og þann draum að menn og konur gætu verið uppgötvuð sem stórstjörnur eftir söng í karókí.

Allt upppantað

Það er vægt til orða tekið að segja að í framhaldinu hafi mikið karókíæði gripið landsmenn. Ekki leið á löngu þar til karókí varð vinsælasta þjóðaríþrótt Íslendinga og Ölver fylltist um hverja helgi af söngelskum landsmönnum. Auðvitað fundum við landsmenn meira að segja íslenskt orð yfir þessa töfragræju sem var einfaldlega „Meðhjálparinn“. Því miður náði það ekki jafnmikilli fótfestu og karókígræjan sjálf.

Æði, æði, æði Karókí varð fljótt mjög vinsælt sport.

„Íslendingar hafa svo gaman af að taka lagið, að einum til tveimur tímum fyrir lokun eru öll lögin upppöntuð hjá okkur. Í Evrópu þurfa skemmtanastjórar að draga fólk upp á svið,“ sagði Magnús Halldórsson, framkvæmdastjóri Ölvers, í viðtali við DV í nóvember árið 1991. Hann sagði að vinsælustu lögin væru diskólög og smellir Franks Sinatra og að nýir söngvarar rækju inn nefið í hverri einustu viku. Þegar þarna var komið sögu var karókí einnig orðin gríðarlega vinsæl afþreying í steggja- og gæsapartíum. Voru starfsmenn Ölvers oft beðnir um að taka karókíflutning verðandi brúðar eða brúðguma upp á „segulbandsspólu sem síðan er leikið af í brúðkaupsveislunni nærstöddum til skemmtunar.“

Elvis lifir

Á þessum tíma, þegar karókí var aðeins ársgamalt á Íslandi, hafði það þá þegar náð sterkri fótfestu hér á landi. Karókíæðið breiddist hratt út fyrir höfuðborgarsvæðið og út á landsbyggðina, þar sem voru haldnar karókíkeppnir um hvippinn og hvappinn. Fyrsta Íslandsmeistaramótið í karókí var síðan haldið í Sjallanum árið 1991. Fyrir það var karókívélin vígð með pomp og prakt þar sem ýmsum fyrirtækjum á Akureyri var boðið í Sjallann til að spreyta sig. Þá var einnig blásið til fjölmiðlakeppni í karókí. Ritstjóri Dags, Bragi V. Bergmann, bar sigur úr býtum með miklum yfirburðum og lýsti blaðið hans, Dagur, sigrinum sem slíkum:

Stuð í Sjallanum Karaoke-keppni í Sjallanum á Akureyri.

„Hann bræddi salinn með Elvisslagaranum It’s now or never. Hörðustu aðdáendur hrópuðu „Elvis lifir“ enda náði Bragi bæði viðeigandi trega og krafti í túlkun sinni og sviðsframkoman var lífleg. Hann tók síðan I can’t help falling in love with you sem uppklappslag og Elvis-aðdáendur sungu með. Fyrir þessa frammistöðu fékk hann farandbikar og góðgæti frá Kolbeini Gíslasyni, fulltrúa Sjallans.“

Fyrsti Íslandsmeistarinn

En aftur að fyrsta Íslandsmeistaramótinu í karókí. Það var engin önnur en Inga Sæland sem fór þar með sigur af hólmi, en eins og flestir vita situr hún nú á Alþingi fyrir Flokk fólksins. Skákaði Inga sextíu öðrum keppendum á mótinu.

„Maðurinn minn fyrrverandi var í námi á Akureyri og við fluttum þangað með alla krakkana. Ég var heimavinnandi húsmóðir og vann hálfan daginn á sólbaðsstofu. Mig langaði að gera eitthvað meira því mér leiðist hversdagsleikinn. Einn daginn sá ég auglýsingu um söngvarakeppni og að það þyrfti að skrá sig til leiks það kvöld, sem ég og gerði,“ sagði Inga um aðdraganda keppninnar í viðtali við Vísi árið 2017. Í viðtalinu játaði hún að hún hafði ekki hugmynd um hvað karókí væri þegar hún skráði sig til leiks.

Óvæntur sigurvegari Inga Sæland, fyrsti Íslandsmeistari í karaoke.

„Fyrsta sem ég spurði um var hvaða hljómsveit væri að spila og hvaða lag ég gæti sungið. Þá fékk ég þau svör að ég gæti valið á milli tíu þúsund laga. Ha? hváði ég þá. Hvers konar hljómsveit er það. […] Ég skildi ekkert hvað ég var að gera. Ég fór bara, söng og varð fyrsti Íslandsmeistarinn í karókí.“

Í framhaldinu festi Inga kaup á karókígræjum sem hún ferðaðist með á ýmsar skemmtanir og vakti fyrir það mikla athygli. Þó að karókí væri búið að slá rækilega í gegn voru enn einhverjir sem skildu ekki þessa nýju tækni.

„Margir halda að karókí sé bara diskótek og á einni skemmtun sem ég var á góndi fólk forviða á mig þegar ég fór að syngja. Einnig kemur það mörgum á óvart hvað ég er með fjölbreytt lagaval og get spilað og sungið lög fyrir alla aldurshópa,““ sagði Inga í viðtali við Dag árið 1992.

Flakkari Inga keypti sér farandgræju og skemmti fólki.

Heimsfrægur í karókí

Það má segja að árið 1991 hafi verið gullár karókí á Íslandi. Íslendingar brugðust hratt og örugglega við og þetta ár kom fyrsta, íslenska karókíhljómplatan út. Platan hét Syngdu með og var gefin út af Skífunni. „Og nú getur hvaða Jón Jónsson sem er sungið heima í stofu með gömul og góð lög, eins og Eina ósk og Skólaball, með upprunalegum undirleik án þess að hinar stjörnurnar trufli,“ var sagt um plötuna í kynningu á henni í Tímanum árið 1991.

Syngdu með Fyrsta íslenska karaoke-platan.

Íslendingar létu sér ekki nægja að þenja raddböndin á Íslandi heldur héldu nokkrir Íslendingar út á stóra karókíkeppni í Newcastle í Bretlandi. Bjarni Arason sigraði í karókíkeppni útvarpsstöðvanna á Íslandi og fékk í framhaldinu að keppa í Newcastle ásamt fyrrnefndri Ingu Sæland. Bjarni söng My Way með Frank Sinatra og svo fór að hann bar sigur úr býtum í Bretlandi. Var það mál manna að Inga hefði endað í öðru sæti, þótt önnur sæti en það fyrsta hafi aldrei verið gefin upp. Bjarni Ara var hæstánægður með sigurinn í keppninni, en á þessum tíma hafði hann dregið sig aðeins úr tónlistarbransanum á Íslandi.

„Það er náttúrlega allt öðruvísi en að syngja á sviði en mjög skemmtilegt. Þá uppgötvast ágætis söngvaraefni í karókí,“ sagði hann í viðtali við DV. Það var ferðaskrifstofan Alísa sem stóð fyrir vinsælum karókíferðum til Newcastle á þessu gullaldartímabili japönsku sönglistarinnar.

Karókípartí, -keppnir og -kvöld dúkkuðu upp um allar koppagrundir. Allir sem vettlingi gátu valdið spreyttu sig í karókí á fyrri hluta tíunda áratugar síðustu aldar. Karókí var tekið með trompi, eins og svo margar nýjungar sem rekur að ströndum Íslands. Raftækjaverslanir og vídeóleigur sáu sér leik á borði og brátt var farið að selja handhægar karókígræjur til einstaklinga og vídeóleigur buðu upp á leigu á slíkum græjum í heimahús.

Látúnsbarkinn Bjarni Ara var duglegur í karaoke.

SingStar til bjargar

Um miðbik áratugarins fór þó aðeins að halla undan karókífætinum og nýjabrumið farið af þessari einstöku uppfinningu. Var því oft haldið fram að karókí væri hallærislegt og úrelt, aðeins nokkrum árum eftir að það kom fyrst til landsins og dvínuðu vinsældirnar mjög. Hins vegar héldu fyrirtæki, útvarpsstöðvar og landsliðið í karókí áfram að blása til karókíkvölda og -keppna víðs vegar um landið þannig að sportið dó aldrei út. Árið 2004 setti Playstation síðan tölvuleikinn SingStar á markað sem virkaði eins og nútíma karókívél. Tölvuleikurinn varð gríðarlega vinsæll á Íslandi og voru haldin SingStar-teiti víðs vegar um bæ og borg. Og hvað gerist þegar partíið er búið en gesti þyrstir enn í söng? Jú, þá var haldið í karókí. Það má því segja að SingStar hafi verið öflug driffjöður í endurkomu karókímenningar á Íslandi.

Þótt karókí sé ekki með vinsælustu íþróttunum lengur hér á landi þá lifir það samt góðu lífi, bæði á Ölveri sem og í heimahúsum þar sem tækninni fleygir fram og lítið mál að standa fyrir karókíkeppni heima í stofu. Hvort að karókí deyi einhvern tímann endanlega er erfitt að spá um en ljóst er að þetta sport hefur skreytt skemmtanalíf Íslendinga mörgum litfjöðrum.

Hressileg auglýsing Videóljónið með tilboð á karókígræjuleigu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Fimmta ásökunin gegn P. Diddy lögð fram fyrir dómi – Að þessu sinni frá karlmanni sem segir rapparann hafa byrlað sér ólyfjan

Fimmta ásökunin gegn P. Diddy lögð fram fyrir dómi – Að þessu sinni frá karlmanni sem segir rapparann hafa byrlað sér ólyfjan
Fókus
Í gær

Skildi eftir 1,4 milljónir í þjórfé – Agndofa þegar þau komust að ástæðunni

Skildi eftir 1,4 milljónir í þjórfé – Agndofa þegar þau komust að ástæðunni
Fókus
Í gær

Afhjúpar ástæðuna fyrir sambandsslitunum árið 2003

Afhjúpar ástæðuna fyrir sambandsslitunum árið 2003
Fókus
Í gær

Ragnhildur segir okkur þurfa að hætta þessari hegðun – „Lítillækkandi og niðurlægjandi“

Ragnhildur segir okkur þurfa að hætta þessari hegðun – „Lítillækkandi og niðurlægjandi“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Áhorfendur hneykslaðir á „ógnvekjandi“ útliti Simon Cowell

Áhorfendur hneykslaðir á „ógnvekjandi“ útliti Simon Cowell
Fókus
Fyrir 2 dögum

„Sumar stelpur sem voru andstyggilegar hafa reynt að adda mér á Facebook og ég hef orðið mjög hissa“

„Sumar stelpur sem voru andstyggilegar hafa reynt að adda mér á Facebook og ég hef orðið mjög hissa“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Unni sárnaði skilaboð sem hún fékk – „Ef þú snýrð dæminu við, myndirðu segja þetta við manneskju í yfirþyngd?“

Unni sárnaði skilaboð sem hún fékk – „Ef þú snýrð dæminu við, myndirðu segja þetta við manneskju í yfirþyngd?“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Flytur heiminum vafasama útgáfu af Íslandssögunni – Var Ísland nærri því að verða alfarið án kvenna?

Flytur heiminum vafasama útgáfu af Íslandssögunni – Var Ísland nærri því að verða alfarið án kvenna?