fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fókus

Íslensk kvikmyndagerð í lúppu – Gjörningur eða fjarstýringarflakk?

Tómas Valgeirsson
Laugardaginn 23. nóvember 2019 18:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kvikmyndin Bergmál markar einstaka tilraun á íslenskum fleti og samanstendur af tæplega sextíu senum, eða tæplega sextíu tökum réttara sagt.

Atriðin eru alveg sjálfstæð og ótengd og enginn hefðbundinn „bíóþráður,“ ef svo mætti að orði komast. Öllu heldur skal líta á þetta eins og sketsamynd eða listræna samsuðu af Vine-myndbrotum, nema hér er þemað hvað Ísland getur verið melankólískt eða grátbroslegt í kringum jólatímann. Og hvað náttúra og fólk getur verið annaðhvort unaðslega fallegt eða hin mestu fífl.

Með sinni þriðju kvikmynd í fullri lengd málar Rúnar Rúnarsson upp forvitnilegt og einlægt portrett af íslensku þjóðfélagi með stuttum innlitum, sumum bersýnilega leiknum en öðrum eins og teknum úr heimildaefni. Myndavélin er ávallt kyrrstæð, læst og aldrei er klippt í miðjum senum. Þarna sækir Rúnar grimmt í þá list að gera áhorfandann að flugu á vegg og þykir ekki ólíklegt að Rúnar hafi verið undir miklum áhrifum frá sænska stílistanum Roy Andersson.

Líkt og maður nokkur segir í myndinni sjálfri: „Það kostar ekkert að láta sig dreyma“. Þessi hugsun yfirgnæfir allan þann tilraunakennda gjörning sem myndin er. Vandinn við heildarverkið er sá að þráðurinn er alltof þunnur og heildarhugmyndin fullbreið til að ná einhverri dýpt úr umfjöllunarefninu og þemum þess. Titillinn Bergmál hefur engan tilkomumikinn tilgang nema kannski að sýna hversu hátt glymur í tunnunni, þótt hún og allir sem komu að gerð hennar eigi skilið væna jólagjöf í formi klapps.

Hugmyndin er í grunninn gargandi snilld, en hvað er gert við hana er önnur umræða. Heildarbragur lokaniðurstöðunnar er vissulega athyglisverður en ábótavant og hefur lítið að segja almennt. Þetta kemur allt minna út eins og upplifun eða að hver stök eining sé nauðsynlegur fylgihlutur stærri myndarinnar og meira eins og samansafn uppfyllingarefnis, með stórfínum gullmolum inni á milli. Senan með barnsfæðingunni (í beinni útsendingu, takk fyrir) hittir til að mynda alveg í mark ásamt atriði þar sem við gægjumst inn á vakt Neyðarlínunnar.

Stundum eru þó bútarnir einfaldlega ekkert mikilfenglegri en snöggt innlit í fitnesskeppni eða gæludýr að bregðast við flugeldum. Þetta er fínt myndefni út af fyrir sig, en það er hvorki lífsnauðsynlegt fyrir DNA myndarinnar né fróðleg og gefandi innsýn í íslenskan raunveruleika á hátíðartíma. Hvar er jólastressið? Búðaráfið, matarboðin og tilheyrandi skepnuskapur sem fylgir törninni og tíðarandanum?

Rúnar reiðir sig fullmikið á að áhorfandinn hangi á tengingum senanna við eigið líf og bæti þar af leiðandi allri merkingu við þegar lítill grunnur er þegar til staðar. „Já, djöfull tengi ég þarna,“ eða „Við þekkjum öll einn svona“ virðist vera nærri þeirri nálgun sem sóst er eftir frekar en að gera túlkun og uppfyllingu áhorfandans að bónus. Sjaldan, en þó örsjaldan, koma fyrir kaflar sem lykta af harðri samfélagsádeilu, sem meira hefði mátt vera af – eða kannski tilfinningum sem ristu dýpra og sögðu meira með minna.

Rúnar er alltof mikið á melankólíska grámyglusvæðinu til að fanga betri nærmynd af fegurð og ljótleika lífsins. Í staðinn er bara léttdramatískur hversdagsleikinn uppmálaður. Hann er það afar faglega að sjálfsögðu og sum innlitin eru virkilega grípandi og gætu staðið sjálfsætt sem flottar míkrómyndir. En þú fengir í rauninni jafnmikið út úr því eða að flakka á milli sjónvarpsstöðva í 70 mínútur, sérstaklega ef eina efnið sem er í boði er íslenskar kvikmyndir og þættir.

Eins flott og tilraunin er þá sýnir hún einfaldlega hvernig grámygla íslensks bíós er fast í lúppu, og á færibandi. Stundum laumast inn glettinn húmor og tilþrifarík áhersla á mannlega þáttinn. Oftar blasir þó við risastór skammtur af engu með sykri. Þó kemur fyrir að í góðu lagi sé að dást að glassúr.

En að öllu þessu sögðu, þá þyrfti Ísland virkilega að prófa að gefa út sketsamynd í bíó.

 

Í stuttu máli: 
Hinn bærilegasti samtíningur sundurslitinna atriða, sem eru flest vel gerð og leikin, en sterkari heildarsvipur á þemum og meiri kraftur hefði gert afraksturinn að séríslenskri jólaperlu.

 

Sjáðu þessa ef þú kannt að meta:

Villiljós

Rokk í Reykjavík 

 

New York, I Love You

 

Fíaskó

 

Babies

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Tinna þráir að hitta fjölskyldu sína á Sri Lanka – Þú getur hjálpað henni – Fékk hörmulegar fréttir af blóðmóður sinni

Tinna þráir að hitta fjölskyldu sína á Sri Lanka – Þú getur hjálpað henni – Fékk hörmulegar fréttir af blóðmóður sinni
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sjáðu myndina: Katrín gerði það sama og Davíð – Er þetta gert að ráðum almannatengla?

Sjáðu myndina: Katrín gerði það sama og Davíð – Er þetta gert að ráðum almannatengla?
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ofurskutlan sem enginn veit hvort sé á föstu eða ekki er með skilaboð til einhleypra kvenna

Ofurskutlan sem enginn veit hvort sé á föstu eða ekki er með skilaboð til einhleypra kvenna
Fókus
Fyrir 3 dögum

Hélt framhjá með tveimur yngri mönnum – Viðbrögð eiginmannsins komu á óvart

Hélt framhjá með tveimur yngri mönnum – Viðbrögð eiginmannsins komu á óvart