fbpx
Þriðjudagur 16.apríl 2024
Fókus

Dagur í lífi ljósmóður: „Það er eitthvað svo töfrandi við það að fá að vera hluti af þessari stærstu stund í lífi fólks“

Íris Hauksdóttir
Laugardaginn 23. nóvember 2019 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Helga Reynisdóttir hefur starfað sem ljósmóðir undanfarin fjögur ár en hún hóf störf við aðhlynningu snemma á unglingsaldri og vann lengi vel á Hrafnistu í Hafnafirði.

„Ég var slakur námsmaður og fljótt stimpluð sem tossi en fékk síðar greiningu sem lesblind. Eftir viðeigandi aðstoð fór boltinn lokins að rúlla. Ég kláraði helminginn af stúdentinum á einu ári og eftir það lá leiðin í hjúkrunarfræði og svo í ljósmóðurfræði. Það er nefnilega ekkert mál að læra þegar áhuginn er til staðar og það sannaði sig í háskólanum þegar ég útskrifaðist með fyrstu einkunn úr bæði hjúkrun og ljósmóðurfræði.“

Átröskun á meðgöngu lítið rannsakað efni
Margar ljósmæður hafa lýst því að verða háðar því að upplifa fæðingar og Helga tekur undir það.

„Í fyrstu var ég oft óörugg og jafnvel hrædd enda fylgir starfinu gríðarleg ábyrgð, maður er með lífið í lúkunum – bókstaflega. Eftir því sem tíminn líður og ég finn öruggið vaxa með sjálfri mér skil ég sífellt betur þær ljósmæður sem hafa lýst því sem svo að maður verði háður því að vera viðstaddur fæðingar. Að því sögðu viðurkenni ég fúslega að fyrstu mánuðina var ég á báðum áttum hvort ég gæti þetta yfirhöfuð, hræðslan við að mistakast, yfirsjást eitthvað sem gæti skipt máli var mjög mikil. Heilbrigði fólks hefur áhrif bæði á meðgöngu og fæðingu en á hinn bóginn eru stelpur líka hræddar við að þyngjast. Barnshafandi konur eru í dag eldri, þyngri og veikari en hér áður fyrr. Lokaverkefni mitt var einmitt um átröskun á meðgöngu en þetta er lítið rannsakað efni. Með tilkomu samfélagsmiðla eru konur oft með óraunhæfar væntingar til sjálfra sín, eins sjáum við dæmi um ofþjálfun á meðgöngu sem er ekki góð heldur. Heilbrigð hugsun skiptir gríðarlegu máli en ljósmæður eru einmitt í góðri stöðu til þess að fyrirbyggja, veita fræðslu og hvetja til lífsstílsbreytinga. Ég spyr mína skjólstæðinga gjarnan hvernig fyrirmynd þeir vilji vera fyrir barnið sitt, því vitað er að foreldrar verða þeirra helstu félagsmótunaraðilar og fyrirmyndir. Ætlar þú að borða skyndibita fyrir framan sjónvarpið eða elda heilsusamlegan mat og spjalla um lífið? Þarna hefur fólk níu mánuði til að taka breytingum og ég hvet verðandi foreldra eindregið til þess að nýta sér það, fara í göngutúra eftir kvöldmat og koma inn sundferðum með fjölskyldunni.“

Töfrandi að vera hluti af stærstu stundinni
Gríðarleg aukning hefur orðið á vandamálum á meðgöngu undanfarin ár og sífellt fleiri konur greinast með meðgöngusykursýki svo eitthvað sé nefnt. Oft og tíðum er umönnun fæðandi konu mjög flókin og krefjandi.

„Þetta felur ekki bara í sér að grípa barnið, oft erum við með konur nánast í gjörgæslu og það krefst mikils. Það kemur líka fyrir að maður lendir í aðstæðum þar sem hver mínúta skiptir máli. Ég hef lært gríðarlega mikið og er orðin býsna fær, en ég á enn eftir að læra heilmargt enda tekur mörg ár að verða góður í þessu, mestu máli skiptir að sækja endurmenntun. Innsæið mitt er líka stöðugt að eflast og ég er með tímanum að verða þokkalega örugg með sjálfa mig,“ segir Helga og bætir við að adrenalínkikk fæðandi móður flæði eflaust að einhverju magni yfir til ljósmóðurinnar enda finni hún kikk í hvert sinn sem barn kemur í heiminn. „Eflaust er þetta sambland af adrenalíni og ástarhormónum fyrir þá einstaklinga sem eru svo heppnir að verða vitni að þessari stundu og þá er eins og maður ánetjist þessari tilfinningu. Svo eru það náttúrlega launin, þau eru frábær,“ segir Helga í kaldhæðnislegum tón. Hún fullyrðir þó að í þau fáu skipti sem hún sé í vaktafríi hlakki hún til að mæta aftur til vinnu. „Það er eitthvað svo töfrandi við það að fá að vera hluti af þessari stærstu stund í lífi fólks. Að geta rétt fram hjálparhönd, hughreyst fjölskyldur og sjá gleðina og ástina skína úr augum fólks þegar það fær barnið sitt í hendurnar er ólýsanleg stund. Ég verð enn klökk í hvert sinn.“

Atburðarásin hefur alltaf áhrif
„Starfið er mjög fjölbreytt og krefjandi og ég veit aldrei hvaða verkefni bíða mín, enginn dagur er eins. Ég er mikið inni hjá skjólstæðingum mínum og mér þykir ofboðslega gaman að kynnast fólki og hjálpa því á þessari stund. Þess utan á ég bestu samstarfsfélaga sem hægt er að óska sér, við erum mjög náinn hópur og eigum það til að kalla hver aðra systur. Það skiptir svo miklu máli því við verðum að geta rætt vel saman í vinnunni um það sem við gerum og verðum vitni að, í því felst viss úrvinnsla. Við erum einnig duglegar að hittast utan vinnu og slá á létta strengi enda erum við flestar mjög miklar félagsverur og léttar á því.“

Helga hefur sankað að sér ótal skemmtilegum minningum úr vinnunni. Hún segir fyrstu fæðinguna enn sem komið er vera þá eftirminnilegustu.

„Ég mun aldrei gleyma fyrstu fæðingunni sem ég varð vitni að. Ég grét meira en faðirinn og að endingu þurfti ljósmóðir að hugga mig. Ég sveif svo á bleiku skýi í margar vikur. Það var þá sem ég vissi að ég yrði að leggja þessa starfsgrein fyrir mig. Það enda þó ekki allar fæðingar vel og vissulega er það sá þáttur sem tekur mest á, ef illa fer, en þetta er aldrei þannig starf að hægt sé að skilja það eftir þegar haldið er heim á leið. Atburðarásin, hvort sem hún er gleðileg eða ekki, hefur einfaldlega of mikil áhrif á mann.“

06.20: Við mælum okkur mót við Helgu á fallegu heimili hennar. Hér er vaknað snemma með það markmið að ná í gott bílastæði við Landspítalann sem er alls ekki auðvelt. Helga búin að mála sig og er rétt í þann mund að gæða sér á léttum morgunmat þegar við komum, en hún áréttar að þegar komið sé í vinnuna viti hún aldrei hvort eða hvenær hún komist næst til að næra sig.

07.15: Við leggjum af stað til að vera á undan mestu umferðinni, takmarkið að finna gott stæði gengur eftir og áfram höldum við inn í daginn. ‬ ‪

07.45: Helga er komin í vinnugallann og leggur af stað inn í daginn, hún fær sér kaffibolla og spjallar við kollega sína, athugar stöðuna og sér á töflu þau verkefni sem henni hefur verið úthlutað þennan morguninn.

08.00: Deildin er nánast full af konum sem flestar eru búnar að fæða og fyrsta verk Helgu er að taka við konu sem er búin að fæða og ætlar að fara beint heim eftir fæðingu. Helga framkvæmir skoðun á nýburanum en hún er sem stendur í námi sem lýtur sérstaklega að þessum verkþætti. Hún hefur samband við barnalækni sem framkvæmir lokaskoðun á barninu og í kjölfarið fær fjölskyldan samþykki fyrir heimför.

10.00: Vaktstjóri tilkynnir Helgu að hún eigi að taka á móti konu sem sé að koma með sjúkrabíl, en grunur leikur á að legvatnið sé farið og ófætt barn hennar með óskorðaðan koll. Helga tekur á móti konunni og staðfestir að konan sé ekki með legvatnsleka. Eftir talsvert, „tender, love and care“, eins og hún segir sjálf, sem og útskýringar fer konan aftur heim. Helga ítrekar að það sé alltaf erfitt að segja konum að þær séu ekki í fæðingu þegar þær mæta á deildina, spenntar og halda að dagurinn í dag sé dagurinn sem barnið þeirra muni koma í heiminn.

11.00: Nokkrar konur hafa hringt á fæðingarvaktina og boðað komu sína, Helga hjálpar til við að yfirfara stofur og fylla á, þannig þær séu tilbúnar. Helga grípur sér snarl með kaffibollanum og segir það nauðsynlegt svo hún festist ekki svöng í yfirsetu.

12.30: Helga tekur við frumbyrju í hörkusótt, það fer ekki á milli mála þegar hún kemur inn, enda eins og einn snillingur sagði, komin í snerlishæð, og þarf að einbeita sér að því að anda sig í gegnum samdráttinn sem hún fær á stigapallinum. Konur í ástandi sem þessu fara yfirleitt beinustu leið inn á fæðingarstofu þótt venjan sé að staðfesta á móttöku hvort kona sé í sótt. Í þessu tilfelli var óhætt að fara beinustu leið inn á fæðingarstofu því hún var komin á lokametra fæðingar. Konan vildi fá glaðloft og komast í bað. Helga varð samstundis að óskum hennar, en hún og hinn verðandi faðir sátu svo hjá konunni og hjálpuðu henni sem best þau gátu við að takast á við þessa hörðu sótt. Helga segist aldrei komast almennilega yfir það hversu mikið kraftaverk líkami kvenna sé. „Það hættir aldrei að koma manni á óvart og er alltaf jafn magnað.“

Konunni var á þessum tímapunkti orðið óglatt svo Helga stökk fram og sótti piparmyntudropa en þeir hjálpa mikið með velgjuna. „Oft þegar konur kasta upp þá grunar mann að það styttist í þetta, ég undirbý herbergið, dreg upp nauðsynleg lyf og kveiki á hitalömpum. Fljótlega byrjar hún að rembast í baðinu og ég hvet hana til að hlusta á líkamann og treysta honum. Eftir mjög svo stutta stund fæðist lítið fullkomið barn í vatninu. ‬‪Foreldrarnir undrandi á þessu öllu saman, en svifu um á bleiku skýi. Það er svo dáleiðandi og dásamlegt að horfa á nýbakaða foreldra dást að litla barninu sínu. Það er engu líkt! Ég fæ oft verki í brosvöðvana á þessarri stund. ‪Þegar fylgjan er fædd færi ég móður og barn upp í rúm, sauma örlítið og aðstoða við fyrstu brjóstagjöfina. Stuttu seinna er komið að vaktaskiptum.“ ‬

16.00: Á leiðinni heim kemur Helga við í fiskbúð enda segir hún það algjöra klassík að vera með soðinn fisk og þrumara á mánudögum. Í kjölfarið sækir hún yngri dóttur sína á leikskólann.

17.30: ‪Þegar heim er komið þarf að sjá til þess að heimalærdómurinn klárist og píanóæfingum sinnt. „Þegar maðurinn minn kemur heim sting ég af á djassballettæfingu, en ég dansa með snilldarhóp frábærra kvenna.‬ ‪Eftir dansinn fer ég heim í sturtu og leggst upp í rúm með námsefni fyrir skólann og dotta fljótlega ofan í bókina.“‬

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

„Maður þarf stundum að standa með sjálfum sér“

„Maður þarf stundum að standa með sjálfum sér“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sigríður lýsir lækningamætti Einars – „Gleymi aldrei svipnum á læknunum þegar þeir skoðuðu nýjar myndir af hnénu“

Sigríður lýsir lækningamætti Einars – „Gleymi aldrei svipnum á læknunum þegar þeir skoðuðu nýjar myndir af hnénu“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Seldist hratt upp á Nick Cave – Aukatónleikar boðaðir

Seldist hratt upp á Nick Cave – Aukatónleikar boðaðir
Fókus
Fyrir 5 dögum

Leikkonan stórglæsileg í nýju myndbandi og kom aðdáendum skemmtilega á óvart

Leikkonan stórglæsileg í nýju myndbandi og kom aðdáendum skemmtilega á óvart