fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fókus

Sorgir og sigrar Margrétar Hrafns: „Ég sel mig orðið dýrt“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Miðvikudaginn 30. október 2019 20:00

Margrét Hrafnsdóttir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég er búin að fara tvisvar til Harvard, það hefur kostað mig svo mikið að komast á þennan stað. Núna er þetta að snúast við. Núna er ég loksins að fá borgað fyrir vinnuna. Það mátti ekki seinna vera,“ segir Margrét Hrafnsdóttir, kvikmynda- og sjónvarpsþáttaframleiðandi. Margrét er nýjasti gestur hlaðvarpsþáttar dægurmáladeildar DV, föstudagsþáttarins Fókuss. Margrét hefur verið búsett vestan hafs með eiginmanni sínum til þrjátíu ára, Jóni Óttari Ragnarssyni, síðan árið 1992. Hún kom í stutta heimsókn til Íslands nú á dögunum til að fylgja eftir nýjustu mynd sinni, heimildamyndinni House of Cardin, sem sýnd var á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Reykjavík, RIFF. Myndin fjallar um ævi og störf tískumógúlsins Pierre Cardin. Það má í raun segja að myndin hafi verið unnin á mettíma og hálfgert ævintýraverkefni leikstjóranna Todd Hughes og P. David Ebersole.

„Það var þannig leikstjórarnir hafa verið miklir aðdáendur Pierre Cardin í mörg, mörg ár. Fyrir tveimur árum fóru þeir til Parísar að leika sér og sáu allt í einu Pierre Cardin-safn og fóru þar inn. Þeir byrjuðu að tala við fólkið hans og þetta er alveg ótrúlegasta fólk, margir búnir að vera þarna frá því að þeir fengu fyrstu vinnuna, í áratugi. Allt í einu kemur einhver og segir að þeir ættu að hitta sjálfan Pierre Cardin og þeir missa út úr sér að þeir væru alveg til í að gera um hann heimildamynd,“ segir Margrét. Í kjölfarið voru leikstjórarnir kynntir fyrir Pierre Cardin sem spurði þá einfaldlega hvenær þeir gætu byrjað á myndinni. „Af því að hann er orðinn 97 ára hugsuðu þeir: Við þurfum að byrja eins og skot og vinna hratt. Nokkrum dögum seinna hófst þetta allt saman.“

Fyrst um sinn hjálpaði Margrét leikstjórunum sem vinur en fyrir rúmu hálfu ári leituðu þeir svo til hennar eftir meiri hjálp í að finna fjármagn og samstarfsaðila til að fullklára myndina. Margrét lagði sig alla í verkefnið, eins og hennar er von og vísa, og útkoman var þessi heimildamynd sem hefur fengið gríðarlega góða dóma, bæði hér á landi og erlendis. Myndinni var boðið á kvikmyndahátíðina í Feneyjum áður en hún kom á RIFF og þykir það mikill heiður í þessum bransa. Á frumsýningu myndarinnar í Feneyjum stóð fólk upp og ætlaði lófaklappinu aldrei að linna.

„Það gleður mig rosalega mikið. Þetta er ekki bara mynd um einhvern tískumógúl og stóran karl heldur er þetta fullt af innblæstri og gefur fólki ákveðinn tilgang eftir að það horfir á hana.“

Á góðri stundu Margrét ásamt forsetafrúnni Elizu Reid og leikstjórum House of Cardin.

Með fantasambönd

Margrét var rétt skriðin yfir tvítugt þegar hún flutti til Bandaríkjanna með Jóni Óttari. Þar stundaði hún nám í kvikmyndagerð við Columbia College í Los Angeles og Jón Óttar lærði handritagerð. Margrét hóf nám af miklum krafti og átti þar góð tvö og hálft ár. Hún á enn tvær einingar eftir af náminu til að klára það og má rekja það til ráða sem einn kennari hennar gaf henni.

„Það er að þakka, eða kenna, besta prófessor skólans, sem ég var búin að ná á eintal í bekknum og spurði: Hvernig lærir maður að vera framleiðandi hérna? Hann horfði á mig og sagði: Það er ekki hægt að kenna þetta. Þú nærð í efni sem er spennandi, vonandi. Þú þarft að eiga efni til að vera leiðandi framleiðandi og síðan þarftu að laða að því gott fólk til að vinna að því. Gott fólk laðar síðan fjármagnið að og svo þarftu að halda þessum boltum öllum á lofti þangað til þetta græna ljós kviknar. Svo sagði hann: Það er bara þannig með Hollywood-framleiðendur að þeir þurfa að vera fjárhagslega sterkir. Það er þessi fræga setning, sem er líklegast sönn að mörgu leyti: „There are no poor producers in Hollywood“. Ég hafði haft ákveðinn styrk fjárhagslega en umfram allt bara þor og það að geta tengt mig vel við fólk til að stækka sem framleiðandi. Það hefur skilað sér ótrúlega vel. Ég er með fantasambönd og ansi mörg „element“ sem geta fjármagnað kvikmyndir í dag. Það hefur ekki komið af sjálfu sér. Þetta er alveg rosaleg vinna.“

14 ára þrautaganga

Til marks um þrotlausa vinnu og þrautseigju þá fer Margrét loksins í tökur á kvikmyndinni Kill the Poet í janúar á næsta ári, en myndin hefur verið í fjórtán ár í vinnslu og fjallar um samband Steins Steinars við listakonurnar Louisu Matthíasdóttur og Nínu Tryggvadóttur. Hjónin Margrét og Jón Óttar eru framleiðendur myndarinnar. Margrét segir vegferð verkefnisins vera lyginni líkast.

„Það er alveg ótrúleg saga en hún er að fá mjög farsælan endi. Þetta er í raun saga sem við bíðum eftir því að segja. Þetta er ástarsaga um þessa listamenn sem munu endurskapa seinni heimsstyrjöldina,“ segir Margrét og fer yfir þrautagönguna, sem virtist endalaus. „Fyrst tók þetta engan tíma. Þetta gekk bara hratt, eins og í sögu frá 2006 til janúar 2008. Þá vorum við búin að fjármagna meira og minna á pappírum tíu milljóna dollara mynd og þá var enn þá þessi stóri markaður fyrir DVD, sem var mjög gjöfull myndum sem þessum. Svo fann ég einhverja breytingu á fjárfestum og bankanum okkar í febrúar, mars, apríl 2008 en var samt vongóð um að við næðum að komast í gang. Svo bara skall þetta bankahrun á. Það byrjaði allt að þorna upp í kerfinu um sumarið. Ég sá fram á að þetta væri ekki að ganga upp. Við ákváðum að bíða og sjá hvað setur.“

Í framhaldinu ákváðu þau hjónin að minnka myndina, skera niður um helming og byrja aftur. Þá kom Harvey Weinstein, sem nú bíður dóms fyrir kynferðislega áreitni og ofbeldi, inn sem bjargvættur og tók myndina upp á arma sína. Margrét og Jón Óttar náðu því að fjármagna erlenda hlutann af myndinni og sóttu um styrk á Íslandi, en fengu höfnun.

„Þá urðum við svolítið fúl út í Ísland. Við vorum búin að hafa mikið fyrir þessu aftur. Þá ákváðum við að setja þetta á ís,“ segir Margrét. „Svo jafnaði það sig og við héldum af stað í leiðangurinn aftur og hann hefur verið tiltölulega hraður. Núna erum við að sigla Titanic í höfn og byrja tökur í lok janúar.“

Varði Weinstein í fyrstu

Lánsöm „Ég hef kynnst sterkum mönnum sem hafa virt það að ég er ákveðin og framsækin og dugleg og látið mig í friði á annan hátt.“

Í þessu ferli hitti Margrét Harvey Weinstein tvisvar sinnum og þekkir ekki þá hlið á honum að hann misbeiti valdi sínu og stöðu, eins og fjöldi kvenna hefur opnað sig um.

„Hann tók Kill the Poet upp á sína arma og fyrir það er ég óendanlega þakklát. Ég byrjaði aðeins að verja hann þegar þessar ásakanir komu upp á yfirborðið. Þetta var ekki á allra vitorði en augljóslega á vitorði þeirra sem höfðu unnið náið með honum og lengi. Það er alveg á hreinu. Ég segi bara í raun og veru um hann: Því miður náði hann sér ekki í hjálp fyrir mörgum árum síðan. Það er til lækning við kynlífsfíkn. Ég vil meina að kynlífsfíkn hafi ekkert með kynlíf að gera. Hann er bara fárveikur. Þessar lýsingar þessara kvenna, það fer um mann sem kvenmaður að heyra þetta. Mér finnst það mikil synd að þessi mikil hæfileikamaður í þessu fagi eigi við svona mikinn vanda að stríða. Maður er þakklátur Gwyneth Paltrow, Angelinu Jolie og þessum konum sem þorðu að koma fram og segja sína sögu og gerðu það það vel að hann er núna fyrir rétti.“

Ásakanir á hendur Weinstein komu upp í tengslum við metoo-byltinguna. Margrét segir byltinguna hafa verið af því góða.

„Ég hef verið einstaklega lánsöm. Ég hef kynnst sterkum mönnum sem hafa virt það að ég er ákveðin og framsækin og dugleg og látið mig í friði á annan hátt. Enda kannski búin að vera harðgift í þrjátíu ár og því leiðinlegur kvenkostur að fara eftir þannig séð en ég hef lent í karlmönnum, sem betur fer ekki oft. Það gerist þegar maður er aðeins viðkvæmari, yngri og þegar maður styrkist þá breytist margt. Maður setur bara mörk og lendir ekki illa í því. Ég held að þessi bylting hafi verið af hinu góða. Ef það er eitthvað eitt sem ég þyrfti að segja að hefði komið út úr þessari byltingu þá er það að það er meira af sterkum kvenpersónum og meira af sjónvarpsþáttum og kvikmyndum gert af konum, sem var gríðarlegur skortur á. Þetta nýtur gríðarlegra vinsælda, eins og við vitum. Þannig að þetta bara þurfti að gerast,“ segir Margrét. Hún telur sig hafa þurft að vinna harðar í sínu fagi til að ná frama út af því að hún er kona.

„Ég vil meina að ég hafi haft miklu meira fyrir því að hafa verið framleiðandi í gegnum Ísland á Kill the Poet sem kona en karlmaður. Ég er að gera stórt verkefni, tvöfalt „budget“ á við íslenska mynd og ég hef ekki fengið eina krónu sem framleiðandi úr neinum ríkissjóðum eða styrk. Ég er nokkuð viss að ef ég væri karlmaður þá hefði mér verið hjálpað hraðar og oftar og meira. Í Hollywood eru ekki margar konur framleiðendur, þótt það sé alltaf að aukast og bætast í hópinn, sem betur fer. En þetta er töff bransi og ekki fyrir aukvisa að vera í honum.“

Lífið er ótrúlega einfalt

Margrét og Jón Óttar giftu sig í Palm Springs árið 1996 og bjuggu síðan í Los Angeles í um sextán ár. Nú hafa þau snúið aftur til Palm Springs, nánar tiltekið Palm Desert, þar sem þau hafa verið búsett síðastliðin fimm ár. Varðandi daglega lífið segir Margrét það ekki einkennast af glamúr – þvert á móti.

„Lífið mitt er ótrúlega „döll“ og einfalt. Ég vakna yfirleitt fimm á morgnana. Ég segi ekki að ég rjúki á fætur alveg strax heldur byrja á því að skoða tölvupóst og pæla aðeins í hlutunum. Svo fer ég af stað, byrja að hreyfa mig aðeins og fylgjast með því sem er að gerast. Síðan byrjar dagurinn. Ég vinn mikið og er að vinna að mörgum skapandi verkefnum þessa dagana. Við förum á veitingastaði og mjög mikið í bíó. Við horfum mikið á bíó og sjónvarpsseríur í dag. Við förum í göngutúr á kvöldin og tennis og snemma að sofa. Þetta er ótrúlega glatað,“ segir hún og hlær. Lykillinn að farsælu hjónabandi þeirra Jóns Óttars felst að miklu leyti í því hve óhrædd Margrét hefur verið að leita sér sálfræðihjálpar í gegnum tíðina. „Mín skoðun er sú að við erum með ranghugmyndir um hjónabönd af því að ég held að við gerum of miklar kröfur á hinn aðilann og höldum oft að það sem við fáum næst sé miklu betra. Ég er mikið fyrir það að fólk sé í þerapíu, fyrst fyrir sjálft sig, því allar breytingar sem verða á lífi manns gerast innra með manni. Ég hitti mjög ung alveg stórkostlegan sálfræðing sem breytti lífi mínu. Ég fór í meðferð mjög ung, hætti að drekka ung og fór svo í þerapíu. Það var alveg stórkostlegt. Ég vildi að allir gerðu það. Flestir bera þetta fram á fimmtugsaldur og allt í einu byrja hlutir að springa.“

Hvernig á að vinna Donald Trump?

Margrét er einnig rammpólitísk og hefur stutt vel fjárhagslega við bakið á Demókrataflokknum.

„Ég fylgi eftir minni ástríðu og hugsjónum og reyni að taka þátt í að skapa betri heim,“ segir hún og styrkir nú Joe Biden, Elizabeth Warren og Kamölu Harris í aðdraganda forsetakosninga í Bandaríkjunum á næsta ári. „Ég held því fram að þetta verði sögulegustu kosningar okkar samtíma. Hvernig á að vinna Donald Trump eða takast á við þetta fyrirbrigði? Hann brýtur öll lögmál og er að mörgu leyti siðblindur stjórnandi og leiðtogi og hefur kannski tekið því hlutverki mjög skringilega. Við erum vön því að vandi fylgi vegsemd hverri. Þarna kemur allt í einu maður sem brýtur öll lögmál. Hann er dóni og hann vandar sig ekki og hann gerir þetta sannarlega með sínu nefi og hefur sinn stíl. Ég held að hann verði ekki endurkjörinn. Ekki nema Rússar taki yfir og það er auðvitað hætta á því, því þeir eru ekki hættir. Þeir eru alls staðar. Það er eitthvað sem sagan mun segja mjög vel frá síðar en það ber öllum saman um það að þeir hafi haft mikil áhrif.“

Sorgir og sigrar

Margréti er tíðrætt um hve erfiður kvikmyndagerðarbransinn er. Þá liggur beinast við að spyrja af hverju hún hafi enst svona lengi í honum?

„Uppeldi mitt og uppvöxtur bjó mig undir þessa göngu. Það sem ekki drepur mann herðir mann. Það alveg sama hvaða verkefni við fáum í lífinu, það er alltaf einhver þroskaganga. Okkur líður alltaf mjög vel þegar við komumst út úr einhverjum erfiðum kafla. Þá hugsar maður: Þetta bjó mig undir þetta, og svo styrkjumst við öll á lífsins göngu. Ég er orðin þetta sterk á þessari göngu og er þakklát fyrir þessi erfiðu verkefni sem hafa orðið á vegi mínum, eins og verða á vegi okkar allra. Það er enginn undanskilinn því að lenda í ýmsu,“ segir Margrét og telur þau hjónin hafa haldið einkalífi sínu fyrir sig þrátt fyrir að hafa verið í sviðsljósinu í öll þessi ár. „Þegar við höfum gengið í gegnum hluti höfum við miðlað. Ég held að það sé gott að miðla því að það eru sigrar eins og sorgir og ekkert síður sorgir en sigrar í lífsgöngu alls fólks sem reynir að fara á eftir draumum sínum og vekur þar af leiðandi einhverja eftirtekt. En ég held samt að sem betur fer þá vitum við ekkert í raun hvað gengur á. „Be kind for everyone is fighting a hard battle.“ Ég held að þetta sé ótrúlega góð lífsspeki. Ég held að við séum of gagnrýnin á fólk án þess að vita í hverju það stendur.“

Útilokar ekki framboð Margrét er rammpólitísk. Mynd: Eyþór Árnason

Útilokar ekki framboð

Framundan hjá Margréti er verkefni með ítölskum leikstjóra með Gerard Depardieu í aðalhlutverki og endurgerð á erlendri kvikmynd sem verður gríðarstórt verkefni. Margrét getur tjáð sig um hvorugt verkefnið, en þau verða kynnt innan skamms. Eftir þrotlausa vinnu síðustu ár er hún loksins að uppskera og segist ekki ætla að taka að sér gæluverkefni sem hún þurfi að borga með í bráð.

„Ég sel mig orðið dýrt. Það verður þannig framvegis. Góðgerðarstarfsemi er lokið í bili eftir Kill the Poet. Það er búið að kosta okkur tugi milljóna að komast á þennan stað en færum við ekki fórnir þegar þarf? Ég held að allir athafnamenn, allir einstaklingar sem hafa sett eitthvað á stofn sem þeir hafa haft trú á og þurft að borga með sér og vinna mikið og fá minna borgað á meðan þeir eru að koma því á koppinn, sjái svo afraksturinn, það er alltaf eins. Það breytist aldrei. Maður leggur á sig þegar manni finnst það þess virði. Einhverra hluta vegna fannst okkur hjónunum það þess virði, að þrátt fyrir bankahrun og þá vitleysu sem var hér í gangi í kringum það, og kannski er enn þá,“ segir hún. Hún útilokar ekki að flytja aftur til Íslands, en sér það ekki gerast í nánustu framtíð. Varðandi hennar aðra ástríðu í lífinu, pólitíkina, gæti hún vel hugsað sér að spreyta sig á þeim starfsvettvangi einhvern tímann.

„Nú vil ég vera framleiðandi. Nú vil ég hjálpa stjórnmálamönnum og -konum að vinna að góðum málefnum. Ég hef haft mikið fyrir því að komast á þennan stað. Það eru bæði sjónvarps- og kvikmyndaverkefni sem bíða. En kannski eftir það. Ég held að viska áranna hjálpi þér sem stjórnmálamaður. Ungir stjórnmálamenn eru góðir en færustu stjórnmálamenn samtímans og sögunnar voru oft 55 ára og langt yfir það. Það virðist oft vanta hér í pólitík, visku áranna og reynslu í bland við ungt fólk. Það þarf að vera blanda.“

Hægt er að hlusta á viðtalið við Margréti í heild sinni hér fyrir neðan:

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“
Fókus
Í gær

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sjáðu senuna sem er sögð sú fyndnasta í Saturday Night Live frá upphafi – Enginn náði að halda andliti

Sjáðu senuna sem er sögð sú fyndnasta í Saturday Night Live frá upphafi – Enginn náði að halda andliti
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs
Fókus
Fyrir 4 dögum

Tinna er líklega búin að finna móður sína – „Ég þarf að vera tilbúin til að fara út til þegar kallið kemur“

Tinna er líklega búin að finna móður sína – „Ég þarf að vera tilbúin til að fara út til þegar kallið kemur“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Einn dáðasti leikarinn á leið í hnapphelduna eftir að unnustan fór á skeljarnar

Einn dáðasti leikarinn á leið í hnapphelduna eftir að unnustan fór á skeljarnar