fbpx
Fimmtudagur 13.ágúst 2020
Fókus

Alma Dögg hefur þurft að þola eltihrelli í átta ár: „Ég má ekkert aumt sjá og mér fannst ég sjá eitthvað aumt í honum“

Íris Hauksdóttir
Miðvikudaginn 9. október 2019 21:00

Alma Dögg, óörugg og hrædd alla daga: „Skilaboðin eru eina leiðin til að fá nálgunarbann." Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Alma Dögg Torfadóttir hefur þurft að þola stöðuga áreitni af hálfu eltihrellis í um átta ára skeið. Þrátt fyrir síendurtekin afskipti lögreglu, nálgunarbönn og vistun á geðdeild heldur maðurinn uppteknum hætti. Hún hefur nú flúið land. Með sögu sinni vill Alma beina sjónum að þeirri sorglegu staðreynd að nálgunarbann er aðeins orð á pappír.

„Þetta byrjaði í desember 2011 en þá var ég nýbúin að kynnast barnsföður mínum,“ segir Alma sem vann á þeim tíma hjá Olís á Akranesi. Maðurinn var fastakúnni þar en fyrirtækið sem hann vann hjá var í viðskiptum við Olís. „Hann krafðist þess alltaf að ég afgreiddi hann sem mér fannst í fyrstu sjálfsagt mál. Ég má ekkert aumt sjá og mér fannst ég sjá eitthvað aumt í honum. Ég var alltaf almennileg við hann og þótti í raun vænt um að einhver héldi svona mikið upp á mig. Svo gerðist það að ég vaknaði einn morguninn með símann fullan af skilaboðum úr númeri sem ég þekkti ekki. Þetta voru löng skilaboð en ég man sérstaklega eftir því að þar stóð „sæta“. Eftir að hafa flett númerinu upp sá ég að þau voru frá honum en ég taldi að hann hefði verið drukkinn þegar hann sendi þau. Viðvera hans á vinnustað mínum jókst svo með hverjum deginum – hvar sem ég var, var hann líka. Skilaboðin urðu dagleg en á þessum tíma bjó ég hjá barnsföður mínum. Fljótlega fórum við að taka eftir bílnum hans fyrir utan íbúðina, þar sat hann og reykti í marga klukkutíma, starandi inn um gluggann. Við pældum lítið í þessu fyrst, en hann tilkynnti svo barnsföður minn til lögreglunnar. Hann vildi meina að ég væri í gíslingu hjá honum og bað um að athugað yrði með mig, enda væri ég konan hans og ætti ekkert að vera þarna. Lögreglan tók ekki mark á þessu enda er hann þekktur fyrir að áreita konur, þó aldrei í jafn langan tíma og mig. Með tímanum varð hann ágengari, sendi mér stöðugt skilaboð og elti mig hvert sem ég fór. Hann var bókstaflega alls staðar þar sem ég var. Í fyrstu vorkenndi ég honum, en eftir því sem hann kom oftar upp í vinnu varð þetta æ óþægilegra. Hann kom ekki endilega til að spjalla, því hann á mjög erfitt með að eiga í samskiptum við mig. Í hvert sinn sem hann reynir að tala við mig titrar hann og grætur.“

Atburðarásin eins og í bíómynd
Í nóvember 2012 fór maðurinn svo að áreita vinkonu Ölmu, senda henni skilaboð og krefjast svara um afskiptaleysi Ölmu. Vinkonan reyndi að gera manninum ljóst að hann væri með þráhyggju og þyrfti að leita sér hjálpar, en hann þvertók fyrir það þótt hann viðurkenndi að ganga stundum oft langt í samskiptunum. Alma á skrásett skilaboð frá júní 2013 til febrúar 2016 þar sem maðurinn reynir sleitulaust að setja sig í samband við hana. Skilaboðin eru ávallt á þá leið að hann sé góður maður og vilji henni vel. „Ég eignaðist son minn 2. apríl 2015 og fyrstu mánuðina eftir fæðingu hans bjó ég hjá foreldrum mínum því ég einfaldlega treysti mér ekki til að búa ein með hann. Á þessum tíma var hann að senda þeim skilaboð í tíma og ótíma en þau ákváðu að segja mér ekki frá því til að koma mér ekki í uppnám. Skilaboðin voru alltaf þau sömu, beiðni hans um að hitta þau og mig til að gera hreint fyrir sínum dyrum. Þegar þau misstu þetta svo óvart út úr sér brást ég hin versta við, enda eru skilaboð eina leiðin fyrir mig til að fá nálgunarbann. Ég sendi honum skilaboð þess efnis að við ættum að funda og loka þessu í eitt skipti fyrir allt. Tveimur dögum síðar hittumst við fjögur í sjoppu á Akranesi. Ég leit á það sem tækifæri til að gera hreint fyrir mínum dyrum því þetta var hið furðulegasta mál. Hver lendir í því að einhver maður fái svona mikla þráhyggju, þetta er eins og bíómynd. Ég gekk þarna á hann og spurði hann hreint út: hef ég einhvern tímann verið með þér? Gefið þér undir fótinn? Gert eitthvað til að ýta undir að þú komir svona fram við mig? Hann svaraði öllu neitandi, talaði bara í hringi, grét, stamaði og svitnaði. Að endingu stóð pabbi á fætur og sagðist ætla að taka í höndina á honum upp á að hann léti dóttur sína í friði. En þetta var bara byrjunin.“

Skilaboðin mín eina vörn
Áttaðir þú þig strax á að skilaboðin væru þín eina vörn?

„Já, ég gerði það, bæði ég, vinkonur mínar, barnsfaðir og foreldrar vorum öll búin að fara til lögreglunnar og tilkynna hann. Það eina sem ég hafði var að ég hafði haldið skilaboðunum. Mig langaði alltaf að blokka hann, en þá hefði ég ekki þetta mál sem ég hef núna. Ég blokkaði hann á öllum samfélagsmiðlum, en hélt í smáskilaboðin. Hann er samt óþreytandi að búa til nýja aðganga og senda mér vinabeiðnir,“ segir Alma og sýnir dæmi um fimm mismunandi Facebook-reikninga.
„Hann vill svo mikið leiðrétta að hann sé ekki eltihrellir og sé ekki að áreita mig, en gerir sér ekki grein fyrir því að þetta er að áreita. Hann talar jafnframt mikið um að hann vilji skaða sig og hefur reynt það ítrekað. Í kjölfarið hefur hann verið vistaður á geðdeild. Á einum tímapunkti kom lögreglan á Akranesi þeirri spurningu frá honum til mín hvort ég væri opin fyrir því að tala við hans geðlækni svo hann gæti útskýrt stöðuna fyrir mér á fagmáli. Ég samþykkti það enda vil ég gera allt sem í mínu valdi stendur til að loka þessu á sem skynsamlegastan hátt. Ég fékk þó aldrei símtalið frá geðlækninum.“

Mynd: Eyþór Árnason

Sprautaður niður
Árið 2017 segir Alma hafa reynst henni sérstaklega erfitt. Hún var þá flutt frá barnsföður sínum og bjó ásamt syni sínum á nýjum stað. Fljótlega fór kunnuglegur bíll að sjást ítrekað fyrir framan blokkina. „Ég gekk á alla íbúa í blokkinni og spurði hvort einhver væri að umgangast þennan mann, en enginn kannaðist við það. Kvöld eitt var ég svo að koma heim frá foreldrum mínum og sá bílinn hans á stæðinu, ég athugaði ekki hvort hann væri í bílnum en seinna um kvöldið fór ég aftur út. Ég keyrði af stað og sá strax að hann elti mig. Þegar ég svo stoppaði í lúgusjoppu steig hann út úr bílnum sínum, gekk að bílnum mínum og staðnæmdist fyrir framan bílrúðuna eins og til að ógna mér. Ég brunaði heim og beið við eldhúsgluggann. Ég þurfti ekki að bíða lengi því hann var mættur á stæðið skömmu síðar. Ég rauk út og sagði honum að snáfa burt en hann sagðist vera að koma til að hitta vin sinn sem byggi í blokkinni. Hann ruddist fram úr mér og upp á efri hæðina þar sem meintur vinur átti heima. Ég hringdi í kjölfarið í mömmu sem kom strax ásamt bræðrum mínum, við hringdum svo saman á lögregluna sem kom líka. Við fórum öll upp og manninum brá mjög að sjá okkur, svo mikið að hann læsti sig inni hjá manninum sem þar bjó. Að endingu þurfti að kalla til lækni sem sprautaði manninn niður. Síðar um nóttina drakk hann svo ofan í lyfin og endaði með að ónáða bæði lögreglu og Neyðarlínuna.“

Nálgunarbannið ítrekað brotið
Alma hefur ekki tölu á þeim sálfræðimeðferðum sem hún hefur þurft að sækja í kjölfar áreitninnar en stóran hluta ársins dvaldi hún hjá Kvíðameðferðarstöðinni. Hún segir síður en svo hlaupið að því að fá nálgunarbann í gegn en það tókst henni loks í árslok 2017. „Ég vann á þessum tíma í bænum en bjó á Akranesi. Ég fór að taka eftir bílnum hans við Hvalfjarðargöngin, Reykjavíkurmegin, þar sem hann beið eftir mér á hverjum morgni og elti mig svo. Ég náði því í eitt skipti á myndband þegar hann brunaði á eftir bílnum mínum. Staðreyndin er sú að maður verður að hafa allar svona sannanir svo eitthvað sé gert í málinu. Á afmælisdaginn minn, 16. október, fékk ég nálgunarbann, en ekki fyrir son minn. Maðurinn þarf að halda sig í fimmtíu metra fjarlægð frá mér og má ekki hafa samband við mig með neinum hætti. Ég hef tvisvar fengið svona nálgunarbann á hann en hann hefur brotið það í bæði skiptin.“
Ári síðar flutti Alma til Reykjavíkur með þáverandi kærasta og bjó með honum ásamt sonum þeirra úr fyrri samböndum. „Þarna var hann aðeins farinn að hægja á sér í skilaboðunum og ég hafði ekki séð hann lengi, sem var mikill léttir. Dag nokkurn var ég svo að ganga heim með strákana okkar úr leikskólanum þegar ég sé bíl keyra löturhægt fram hjá. Hann var kominn á nýjan bíl sem var ástæða þess að ég hafði ekki orðið vör við hann fyrr, en ég var ekki nógu fljót að kippa símanum upp og taka mynd. Ég mundi þó bílnúmerið og tilkynnti strax til lögreglu. Þarna helltist hræðslan yfir mig, hann vissi hvar ég átti heima og á hvaða leikskóla strákurinn minn var. Ég hafði skipt um símanúmer og reynt allt til að fela slóð mína en foreldrar verða auðvitað að vera með skráð lögheimili fyrir börnin sín, sem auðvelt er að fletta upp í Þjóðskrá. Í kjölfarið sýndi ég starfsfólki leikskólans myndir af honum og nú þarf starfsmaður að ganga hring í kringum leiksvæðið áður en sonur minn fer í útiveru. Það er svo hræðileg tilfinning að hafa engin völd, það skiptir engu máli hvar ég er, hann er alltaf nálægt mér.“

Mynd: Eyþór Árnason

Svefnrofalömun og taugaáfall
Þrátt fyrir að vera með neyðarhnapp á sér daglega og nýtt nálgunarbann segir Alma hræðsluna alltaf hafa yfirhöndina. „Ég get ekki lýst því hversu erfitt það er að vera stöðugt að líta um öxl. Dagurinn byrjar með kvíðahnút því ég er svo hrædd við að skilja son minn eftir á leikskólanum. Eins get ég ekki verið í margmenni og á mjög erfitt með svefn. Í byrjun þessa árs fékk ég svo fyrsta alvöru taugaáfallið. Ég hafði þá ekkert sofið í þrjá sólarhringa. Ég var komin með svefnrofalömun sem lýsir sér þannig að maður vaknar og upplifir sig alveg lamaða. Mér fannst ég alltaf heyra fótatak og tilfinningin sem hellist yfir er, „ég get ekki varið barnið mitt“. Ég vissi að hann var alltaf í kringum mig, hann hékk í stigaganginum á næturnar og sendi mér stöðug skilaboð.“
Alma segist þó ekki hafa gert sér grein fyrir að um taugaáfall væri að ræða en hún endaði á bráðamóttöku með morfín í æð. „Ég fann svo hræðilega til í öllum líkamanum og læknarnir sendu mig í heilaskanna. Ég var með svo rosalegar bólgur. Þetta lýsir sér í raun eins og ofsakvíðakast, maður grætur bara og skilur ekki af hverju maður er að gráta. Ég hef verið á kvíðastillandi lyfjum síðan 2015 og því fannst mér óskiljanlegt að ég væri að fá svona stórt kvíðakast, en í miðju taugaáfalli ertu ekki í neinni tengingu við raunveruleikann.“

Andlega hliðin í rúst
Og Alma segir það hafa verið þung skref að ganga inn á geðdeild og biðja um hjálp. „Það er erfitt að vera móðir sem er ekki með hausinn í réttu ásigkomulagi vegna óstjórnlegs ótta um að það sé maður þarna úti sem vilji gera okkur mein. Það var ekki fyrr en ég byrjaði með fyrrverandi kærustu minni að ég fór loksins að geta sofið. Ég vissi að þótt ég myndi vakna í lömunarástandi myndi hún geta hjálpað okkur. Það var svo erfitt að vita að ég gæti ekki farið ein með son minn vegna hans. Og þrátt fyrir að hann hafi ekki sýnt mér ógnandi hegðun er það þannig með flesta á einhverju rófi að það klikkar eitthvað í hausnum og eftir átta ár er það augljóslega það næsta sem gerist. Það versta er að upplifa hvað nálgunarbann hefur lítið að segja. Þegar hann brýtur það er hann boðaður í skýrslutöku og ekkert meira. Þótt hann hafi aldrei meitt mig hefur hann rústað andlegu hliðinni en það skiptir engu máli því það sjást engir áverkar á mér. Ég er föst í einhverjum kassa sem ég kemst ekki úr og ég er logandi hrædd í honum. Það felst engin vörn í því að sveifla nálgunarbanni og eftir það er gæsluvarðhald en til að komast þangað verður hann að ganga í skrokk á mér. Ef lögregla, geðlæknir og sálfræðingar geta ekki hjálpað, hver getur það þá? Að því sögðu er ég ákaflega þakklát fyrir allt sem lögreglan hefur gert til að hjálpa mér, en það er sorgleg staðreynd að lögin bjóða ekki upp á betri vörn en þetta.“

Eina leiðin að flýja land
Alma segir fæsta gera sér í hugarlund alvarleika málsins fyrr en þeir upplifi áreitnina sem umlykur hennar daglega líf. „Fólk trúir sjaldnast hversu alvarlegt þetta er og þannig var það með fyrrverandi kærustuna mína. Henni brá rosalega að upplifa þetta beint og tók í kjölfarið svolítið við keflinu. Hún hefur verið með hann á línunni meira og minna síðan og hefur reynst mér rosalegur stuðningur. Hann óskaði eftir því að við hittumst á geðdeild, þar sem hann var vistaður, ásamt sálfræðingi. Ég samþykkti það til að reyna að hjálpa honum. Manni sem er búinn að eyðileggja líf mitt reyni ég að hjálpa. Ég krafðist þess að fá annað hvort að taka upp fundinn eða sálfræðingurinn myndi skila mér greinargerð sem var samþykkt. Sálfræðingurinn útskýrði fyrir manninum að hann þyrfti að hætta þessum samskiptum við mig og ég lofaði að reyna bæta mannorð hans á Akranesi. Við tókumst í hendur upp á það, en sjö tímum síðar sendi hann næstu skilaboð. Ég sá aldrei þessa greinargerð.“
Að endingu var Alma send í veikindaleyfi frá vinnu og sér hún ekki fram á að verða hæf til vinnu í náinni framtíð. Hún hefur nú flúið land ásamt syni sínum og gefur af augljósum ástæðum ekki upp núverandi aðsetur sitt. „Ég er svo andlega búin á því að ég get ekki unnið. Síðustu mánuðir hafa verið mjög erfiðir en eftir átta ár við að reyna hjálpa honum ætti ég kannski frekar að fara hugsa um sjálfa mig. Eflaust þarf ég að fara í gegnum aðra áfallahjálp til að reyna að hætta að vera meðvirk með eltihrellinum mínum. Með því að stíga fram og segja sögu mína langar mig að aðstoða stelpur í svipuðum sporum. Ég veit hvaða skref þarf að taka og hvernig útbúa skal skýrslur, því þetta er allt sem maður þarf að standa í sjálfur. Þetta er eitthvað sem ég brenn fyrir og í framtíðinni mun ég nýta þessa reynslu til að hjálpa öðrum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Fókus
Fyrir 3 dögum

Einn virtasti fjölmiðill heims fjallar um íslenska fasteign – Metin á 108 miljónir

Einn virtasti fjölmiðill heims fjallar um íslenska fasteign – Metin á 108 miljónir
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sakamál: Neyðaróp um kvöld

Sakamál: Neyðaróp um kvöld
Fókus
Fyrir 5 dögum

Stjörnuspá vikunnar – „Veðrið speglast í þér og ég held að það sé rigning mest alla vikuna“

Stjörnuspá vikunnar – „Veðrið speglast í þér og ég held að það sé rigning mest alla vikuna“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Daði Freyr tekur Jaja Ding Dong „í fyrsta og eina skiptið“

Daði Freyr tekur Jaja Ding Dong „í fyrsta og eina skiptið“
Fókus
Fyrir 1 viku

Bríet komin með kærasta – Nældi sér í gítarleikara Kaleo

Bríet komin með kærasta – Nældi sér í gítarleikara Kaleo
Fókus
Fyrir 1 viku

Óttaðist að enda sem versta martröð súkkulaðinuddarans

Óttaðist að enda sem versta martröð súkkulaðinuddarans
Fókus
Fyrir 1 viku

Vikan á Instagram: „Var að læra að taka bossa speglamynd 24 ára“

Vikan á Instagram: „Var að læra að taka bossa speglamynd 24 ára“
Fókus
Fyrir 1 viku

Svala Björgvins einhleyp á ný

Svala Björgvins einhleyp á ný