fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fókus

„Ég horfðist í augu við dauðann frá unga aldri“

Tómas Valgeirsson
Þriðjudaginn 10. september 2019 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tónlistarmaður, rithöfundur, líkamsræktarþjálfari, leikari og framleiðandi. Þetta eru aðeins fáeinir titlar sem einkenna fjöllistamanninn sem hefur einnig gegnt störfum sem umboðsmaður „Fjallsins“, Hafþórs Júlíusar Björnssonar, og er þekktur af mörgum sem maðurinn sem flutti ljóð í Iceland Got Talent og tileinkaði það konum. Hann er Sölvi Fannar, enginn annar.

Líkt og fyrri daginn hefur Sölvi mörg járn í eldinum um þessar mundir. Undanfarin ár hefur hann verið búsettur í útjaðri Lundúna, nálægt Kent-sýslu. Þar hefur hann kunnað frábærlega
við sig og reynir að finna stundir á milli krefjandi verkefna til þess að semja ljóð og önnur ritverk. Þá vinnur Sölvi einnig að ýmsum tónlistarverkefnum með föður sínum, Viðari Jónssyni.

Hvað er list og hvað er ekki list?“ spyr Sölvi.

Það er nánast ómögulegt að segja hvað er ekki list. List er einfaldlega eitthvað sem skapar ákveðin hughrif hjá hverjum einstaklingi. „Ég var einmitt búinn að sakna skrifanna og tónlistarinnar mjög mikið, sem ég hafði ekki haft tíma fyrir í eitt og hálft ár. Ég var til dæmis að framleiða tónlistarmyndband við lag sem pabbi minn samdi. Að hlusta á hann syngja kippti alveg í mig, þannig að ég gat ekki annað gert en að henda mér í tónlistina aftur.“

 

Barist við mótlæti og fordóma

Sölvi hefur einnig verið að spreyta sig í framleiðslu víða erlendis og senn mun afraksturinn líta dagsins ljós, eitthvað sem fjöllistamaðurinn er afar spenntur fyrir. Þessa dagana er hann að undirbúa sannsögulega kvikmynd sem fjallar um atburði sem hann segir marga Íslendinga hafa gleymt. Umrædd mynd gerist árið 1920 og segir frá því þegar íshokkílið Fálkanna vann gull á Ólympíuleikunum fyrir hönd Kanada, en lið Fálkanna samanstóð af annarri kynslóð Vestur-Íslendinga.

„Sögupersónurnar eru ungir og mjög efnilegir strákar sem hafa mikinn áhuga á að spila íshokkí. En þeir mæta miklum fordómum í kanadísku þjóðfélagi vegna þess að þeir eru ekki kanadískir,“ segir Sölvi. „Það gekk meira að segja svo langt að þeim var bannað að taka þátt í kanadísku deildunum. Þeirra sigur var gífurlegur af hálfu drengjanna því þeir voru að berjast við svo mikið mótlæti sem útlendingar. Þetta er mögnuð saga.“

Sölvi segir framleiðendur myndarinnar hafa upphaflega haft samband við hann til að leika í myndinni. Eftir að hafa lesið handritið og fallið fyrir sögunni sá hann sig knúinn til að taka virkari þátt í framleiðslunni. Verkefnið er enn á forvinnslustigi og á hug og hjarta Sölva um þessar mundir. „Þetta er komið talsvert vel af stað og lítur vel út. Það er kominn frábær upptökustaður í Manitoba og við erum að kortleggja leiðina þessa dagana. Ég er afar spenntur fyrir þessu.“

Sölvi segir að þrátt fyrir sterka einstaklingshyggju sem einkenni litla Ísland, sé landið í algerum sérflokki í kvikmyndagerð. „Við erum flest þannig uppalin að foreldrarnir eða afi og amma voru að vinna hátt í þrjú störf. Það þótti bara eðlilegt, þannig að það er eðlilegt að við leggjum okkur meira fram,“ segir hann.

„Kvikmyndabransinn er svo sérkennilegur og það er virkilega gaman að sjá hvað margir íslenskir leikarar og kvikmyndagerðarfólk eru að ná flottum árangri í flottum verkefnum. Þetta er greinilega vaxandi atvinnugrein og gaman að sjá hvað fólk er að átta sig á því hvað Íslendingar eru duglegir í svona umhverfi. Við höfum náð að sanna okkur með því að leggja svona hart að okkur.“


Stöðug endorfínþörf

Sölvi segir það vissulega krefjandi að sinna mörgum störfum í einu en veitir innsýn í sína daglegu rútínu. „Þessi „múltítaskari“ í mér hefur alltaf verið til staðar frá æskuárum. Ef ég er að vinna á evrópskum tíma, þá er ég sofnaður upp úr miðnætti. Ég vakna kannski í kringum sjö og byrja að skipuleggja daginn með verkefnalista. Svo vinn ég vanalega í sex tíma, fer svo á æfingu. Það kemur þó æ oftar fyrir að ég sé að störfum mjög seint,“ segir hann.

„Ég er búinn að skipta vikunni þannig að einn daginn verð ég að gera bara eitt, til að stramma sjálfan mig af. Það fer aðeins of mikill kraftur í ákveðin verkefni, sem étur upp allan tímann. Sem 48 ára maður nenni ég ekki að lenda í einhverri miðaldurskrísu bara vegna þess að ég gat ekki forgangsraðað betur. Mér finnst það erfiðast af öllu, að forgangsraða.“

Þá rifjar Sölvi upp æskuárin og segir það hafa verið óhjákvæmilegt að smitast af listabólunni frá foreldrum sínum. Tónlistargenið fær hann frá föður sínum en leiklistina frá móður sinni. Sölvi fór þó ekki að tengja sköpunargleðina við einhverjar aðgerðir fyrr en hann gekk í kór í grunnskóla. „Ég fann mig svo vel í því að syngja og vinna með heilum hóp af krökkum sem  voru jafn mismunandi og þau voru mörg. Á sama tíma var ég á bólakafi í sjálfsvarnaríþróttum, þar sem ég æfði bæði júdó og karate. Þetta allt hjálpaði mér að halda einhverjum kjarna, þessu fylgdi ákveðin hugleiðsla, þetta sem margir kalla vinnu.“

Sölvi telur sig vera heppinn að hafa komið í góðu lagi út úr sínum uppvaxtarárum. „Þessi endorfínþörf var stöðug, hjá bæði mér og eldri bróður mínum. Við vorum alltaf að bralla einhvern fjanda; klifra upp byggingar og gera eitthvað sem við áttum ekki að gera,“ segir hann og tekur fram að hópíþróttir í æsku hafi verið eitthvað sem hentaði ekki alveg persónuleika hans á þeim tíma. Þar var fótboltinn verstur.

„Ef einhver tæklaði mig þá langaði mig bara að berja hann, með fullri virðingu. Þess vegna leitaði ég í sjálfsvarnirnar til að geta stjórnað sjálfum mér betur. Það hefði verið hægt að fara milliliðalaust með þetta mál ef við hefðum tekið að okkur enskt rúbbí, sem er eitt mest „hardcore“ dæmi sem til er,“ segir Sölvi.

 

Meiri líkur á tilvistarkreppu

Þegar fjöllistamaðurinn er spurður að þeim fórnum sem fylgja störfum hans segist hann hafa tekið þá ákvörðun snemma að eiga gott samband við fjölskylduna, hvernig sem færi. Einnig bætir hann við að ýmislegt hafi breytt hugarfarinu þegar afi hans lést á sínum tíma.

„Ef við lítum á heildarmyndina, þá er sama hvað við gerum í okkar lífi – eftir þúsund ár mun það ekki skipta nokkru máli. Meira að segja eftir hundrað ár mun ekkert skipta máli, sama hversu ör framþróunin er. Þetta er sannleikurinn í lífi okkar. Þegar fólk deyr þá kemur svo oft þessi pæling hjá fólki þar sem sagt er: „Ég átti svo margt ósagt við viðkomandi.“

Með afa var ég í þrjá klukkutíma með honum einum, og hann datt inn og út úr meðvitund, og ég sagði honum allt. Ég sagði honum allt sem ég var svo þakklátur fyrir. Þá fattaði ég sjálfur að við þurfum að passa okkur á því að koma þessu frá okkur,“ segir Sölvi.

„Þetta er stór hluti af því að forgangsraða. Við gleymum því svo oft hve mikilvægt það er sem við gerum öðrum, hvað aðrir hafa gert fyrir okkur, að læra að fyrirgefa og ýmislegt. Við gleymum þessu því við erum of upptekin að hinu dagsdaglega. Því meira sem maður gleymir sér í hinu dagsdaglega, þeim mun meiri líkur eru á því að maður lendi í tilvistarkreppu seinna meir.“

Í tengslum við tilvistarkreppu tekur Sölvi fram að hann sé alveg óhræddur við gráa fiðringinn svokallaða, enn sem komið er. Spurður að því hvort hann óttist eitthvað segir hann blunda í sér óttann um að enda einsamall á eldri árunum. „Ég vil ekki vera einn, en ég þarf ekki að hafa áhyggjur af því. Ég á rosalega góða fjölskyldu og góða að og frábæra kærustu sem hugsar vel um mig og ég um hana. Þetta hrjáir mig ekki að svo stöddu,“ segir Sölvi.

Stærsti ótti margra

Að sögn Sölva Fannars eru karlar og konur nær hvort öðru á sextugsaldrinum en nokkru sinni fyrr á ævi sinni, frá þeim tíma þegar kynþroskaskeiðið hefst. „Það er þessi testósterónframleiðsla hjá karlinum sem hefur meiri áhrif á karlinn en estrógen hefur á konuna. En eftir miðaldurinn fer testósterón að minnka hjá karlinum en þegar kvenhormónið minnkar þá hækkar hlutfallið af testósteróni hjá konunni sem fyrir er. Karlar standa meira jafnfætis konum í kringum sextugt en áður fyrr,“ segir hann.

„Ég held að við upplifum öll miklar breytingar með aldrinum og þegar við göngum í gegnum breytingaskeið er mjög erfitt að sætta sig við að við séum ekki það sem við töldum okkur trú um að við værum. Það er svo auðvelt að gleyma sér og lendingin verður bara harkalegri ef við gleymum okkur of mikið. Fólk spyrnir þá frekar við fótunum þegar kemur að gráa fiðringnum. En ég finn ekki fyrir gráa fiðringnum, en það hefur áhrif að ég hef fínstillt mataræði og æfi sex sinnum í viku. Ég passa vel upp á svefninn og það hjálpar heilmikið til við að halda sér lengur í lagi. Við göngum öll í gegnum hrörnun þangað til við hrökkvum upp af.“

Sölvi tekur fram að hann óttist ekki dauðann. Þetta segir hann ekki vera neitt gamanmál í ljósi þess að dauðinn er stærsti ótti margra. „Ég horfðist í augu við dauðann frá unga aldri. Hann kemur bara þegar hann kemur,“ segir hann og bætir við að honum þyki þægilegt að lifa eftir frægum orðum Gandhi: „Lærðu eins og þú lifir að eilífu en lifðu eins og þú deyir á morgun.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Hvalur sprakk í tætlur

Nýlegt

Hvalur sprakk í tætlur
Fókus
Fyrir 3 dögum

Bríet kom vinkonu sinni rækilega á óvart með nýju hári – „Lít ég ekki út eins og ódýr hóra?“

Bríet kom vinkonu sinni rækilega á óvart með nýju hári – „Lít ég ekki út eins og ódýr hóra?“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Hélt framhjá með tveimur yngri mönnum – Viðbrögð eiginmannsins komu á óvart

Hélt framhjá með tveimur yngri mönnum – Viðbrögð eiginmannsins komu á óvart
Fókus
Fyrir 5 dögum

Markle hneykslar enn á ný – Stal sviðsljósinu og sagði annarri að færa sig

Markle hneykslar enn á ný – Stal sviðsljósinu og sagði annarri að færa sig