fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fókus

Kvöldstund með Nick Cave – Hreinsandi samtal um barnamissi og dýpri skilningur: „Þá hrundu tárin niður kinnarnar“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Þriðjudaginn 3. september 2019 21:30

Nick Cave við píanóið. Mynd: Getty Images

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég gleymi því aldrei þegar ég heyrði fyrst í Nick Cave. Eldri systir mín fór á tónlistarhátíð erlendis þegar ég var fjórtán ára og sneri tvíelfd til baka með geisladisk í farteskinu. Hún hafði heillast af atriði á hátíðinni sem hét Nick Cave and the Bad Seeds, sem þá voru að kynna nýjustu plötu sína, The Murder Ballads. Hún var svo uppnumin að hún keypti diskinn. Hennar fyrsta verk við heimkomuna var að draga mig inn í græntuskumálaða herbergið sitt, loka hurðinni, setja glænýjan geisladiskinn í græjurnar og ýta á „play“. Ég varð að hlusta á þetta meistaraverk, sagði hún. Ég gaf þessu séns, eins og öllu öðru sem systir mín kynnti mig fyrir.

Ég man ekkert sérstaklega eftir fyrsta lagi plötunnar, Song of Joy, en síðan kom lag númer tvö – Stagger Lee. Ég man enn þá tilfinninguna þegar það kom á fóninn. Það var líkt og ég væri slegin í gólfið og gæti ekki staðið upp, þó mig langaði helst að öskra og hoppa og garga og tryllast. Ég hafði bara aldrei heyrt svona lagatexta. Svona listilega vel samda lagatexta sem voru allt í senn; fyndnir, hræðilegir, magnaðir og töfrandi. Krafturinn í þessu lagi gerði mig orðlausa.

Mörgum geisladiskum seinna og þónokkrum tónleikum með Nick Cave var ég mætt í Hörpu síðasta laugardagskvöld á tónleika sem var lýst sem samtali við sjálfan meistarann Nick Cave. Dagana fyrir tónleikana var ég í sífellu að rifja upp samband mitt við Nick Cave í gegnum tíðina. Ég gerði það í hljóði, enda þráhyggja mín gagnvart þessum tiltekna tónlistarmanni á mörkunum að vera sjúkleg. Ég sá hann fyrst árið 2002 á Hótel Íslandi. Þá tók ég mér frí í vinnu í tvo klukkutíma til að bíða í heillangri röð eftir miðum fyrir mig og systur mína. Á sjálfan tónleikadaginn biðum við síðan í aðra þrjá tíma í röð fyrir utan Hótel Ísland og ruddumst svo inn eins og óðir úlfar þegar dyrnar opnuðu – sem varð til þess að við náðum fullkomnum sætum fremst uppi á svölum. Beint fyrir miðju. Með sjálft átrúnaðargoðið í sjónlínu. Ég starði á hann allan tímann og klappaði hann svo kröftulega upp að ég bíð þess aldrei bætur. En það var allt þess virði.

Nick Cave mátti ekki deyja á Íslandi!

Nokkrum árum síðar sá hann á Hróarskeldu með hliðarverkefnið Grinderman. Það var allt öðruvísi upplifun en á rólegheitatónleikunum á hótelinu á Íslandi. Það var hrátt og brjálað og geðveikt. Það var allt sem ég hafði vonað að það yrði og meira til. Það var sérstaklega ljúft að njóta töfra listamannsins fremst við Orange-sviðið vegna þess að árið áður hafði ég misst af honum í Reykjavík. En ég missti aldeilis ekki af honum á tónlistarhátíðinni ATP á Ásbrú árið 2013. Það er um margt eftirminnilegustu tónleikarnir því í miðjum klíðum hrundi hann af sviðinu. Ég fraus og það eina sem ég hugsaði var að ég gæti aldrei lifað með því ef sjálfur Nick Cave myndi deyja á Íslandi. Það mátti ekki gerast! Sem betur fer reis hann upp aftur og þessir tónleikar á Ásbrú urðu allt sem tónleikarnir á Hótel Íslandi og tónleikarnir á Hróarskeldu voru ekki.

Ég bara byrjaði að gráta

Því velti ég mikið fyrir mér áður en ég steig inn í Eldborgarsal Hörpu á laugardagskvöldið hverju ég ætti von á. Ætti ég í raun eitthvað eftir? Gat hann gefið lífi mínu meiri lífsfyllingu en hann hafði nú þegar gert aftur og aftur og aftur? Þeirri spurningu var í raun svarað um leið og ljósin voru slökkt og fyrstu tónarnir úr píanóinu hljómuðu. Nick Cave opnaði tónleikana á The Ship Song af plötunni The Good Son frá árinu 1990. Það kom eitthvað yfir mig. Ég bara byrjaði að gráta. Ég grét svo tárin runnu niður kinnarnar. Textinn við The Ship Song hefur alltaf verið í sérstöku eftirlæti hjá mér en þarna greip mig svo yfirþyrmandi tilfinning af alsælu að ég gat ekki ráðið við mig. Þarna vorum ég og Nick Cave sameinuð á ný í sama sal. Þó á milli okkar væru mörg hundruð manns leið mér samt eins og við værum einu tvær manneskjurnar í rýminu. Þetta hljómar eins og ég sé korter í að verða eltihrellir mannsins, en þetta er satt.

Og þannig leið mér í raun alla tónleikana – eins og þetta væru bara ég og hann. Þó áhorfendur í salnum kepptust við að spyrja hann spurninga, sem flestar voru frábærar á sinn hátt, þá voru þetta bara ég og hann. Og ég bara hlustaði, enda datt mér ekkert í hug sem mig langaði að vita. Mig langaði bara að heyra hann tala – um allt og ekkert, missi og meðferð, lagasmíðar og hatur hans á íþróttum. Bara allt.

Meikaði loksins sens

Það hljómar kannski skringilega, en þetta var mjög andleg upplifun fyrir mig – nánast trúarleg. Það er svo margt sem situr í mér eftir þessa tónleika, en það stærsta er í raun að þarna, fyrst þarna, áttaði ég mig almennilega á því af hverju ég elska hann og dýrka svona mikið. Það er fullt af tónlistarmönnum sem ég er hrifin af og hef unun að tónlist þeirra, en ást mín á Nick Cave hefur ávallt verið á einhverju öðru stigi sem ég hef ekki beint geta fest fingur á. Í gegnum spurningarnar og svör í Hörpu náði hann að útskýra það fyrir mér án þess að ég í raun gerði mér grein fyrir því fyrr en í dag, þremur dögum síðar.

Nick Cave sagði nefnilega að hann væri alls enginn tónlistarmaður. Hann væri gjörsamlega týndur í samtölum við tónlistarmenn og fylltist af svokölluðu „imposter syndrome“, eða blekkingarheilkenni. Honum finndist hann alls ekki eiga heima meðal þeirra og væri í raun að villa á sér heimildir. Því væri frægð sem tónlistarmaður algjörlega óverðskulduð. Hann væri fyrst og fremst textahöfundur og alls ekki ljóðskáld. Hann setur saman orð sem honum finnst hljóma vel. Orð sem hann ímyndar sér að myndu hljóma vel þegar hann syngur þau. Tónlistin kemur svo bara að sjálfu sér. Þá meikaði þetta allt sens. Það eru einmitt textarnir hans sem gera mig agndofa. Svo endalaust mörg orð sem hann hefur límt saman í setningar sem koma mér á óvart, gagntaka mig og fylla mig undrun. Tónlistin hefur aldrei verið aðalatriðið, en það er þetta samspil orða og tónlistar sem sí og æ kýla mig kalda í gólfið. Kalla fram alls konar tilfinningar sem ég vissi ekki einu sinni að væru til. Láta mig hugsa, láta mig efast, láta mig elska, leyfa mér að þroskast en fyrst og fremst – hafa ávallt fyllt mig þeirri tilfinningu að ég sé ekki utangátta, að ég passi einhvers staðar inn.

Nick Cave nefnilega talaði um það á tónleikunum í Hörpu að hann hefði átt afskaplega þægilega og góða barnæsku. Hann kemur frá góðu heimili í smábæ í Ástralíu og minnist æsku sinnar með hlýju. Það var hins vegar alltaf eitthvað sem plagaði hann. Einhver tilfinning um að hann passaði ekki almennilega þarna inn. Að eitthvað væri aflaga. Það tengdi ég mjög sterkt við og skil mjög vel hve óþægilegt það er að hafa ekki undan neinu að kvarta en samt finnast eins og maður passi ekki almennilega í það mót og það líf sem manni var gefið.

Sorgarferli og sektarkennd

Það var unun að hlusta á Nick Cave tala um þetta allt og svo margt annað þessa kvöldstund. Hann er algjörlega laus við hroka eða yfirlæti. Fluggáfaður, vel upplýstur og rökfastur. Öruggur en samt óöruggur. Lét manni líða eins og það væri auðvelt að nálgast hann.

Hann talaði einnig mikið um dauða sonar síns, sem féll fram af bjargbrún í heimabæ fjölskyldunnar árið 2015. Ég býst við því að margir aðdáendur í salnum hafi viljað spyrja hann um þann missi en ekki kunnað við það. Því opnaði Nick Cave sjálfur á það í ótengdum spurningum. Margar spurningarnar eftir það snerust á einhvern hátt um þennan missi og hann talaði á svo einlægan hátt um þennan harmleik að það opnaði á frekari pælingar um sorgarferlið. Ég hef í raun aldrei heyrt neinn tala um barnamissi á svo opinskáan hátt. Allt sem bærist um í huga foreldra á slíkri stundu og sektarkenndina sem fylgir. Þessar pælingar voru mjög hreinsandi á sinn hátt og þó það sé erfitt að velta fyrir sér sorginni og afleiðingum hennar þá er hollt að líta inn á við og það er ofboðslega gefandi að hlusta á mann sem maður lítur svona mikið upp til tala um tilfinningar og hugsanir sem eru óþægilegar. Viðurkenna sinn eigin breiskleika en jafnframt tala um hvernig hann tekst á við sorgina.

Annað sem mér fannst mjög áhugavert var umræðan um fyrrnefndu plötuna The Murder Ballads. Vissulega man ég að við fyrstu hlustun fannst mér hún nokkuð dökk og drungaleg. Morð, misþyrmingar og nauðganir. En þegar ég hlustaði dýpra og lengur þá er The Murder Ballads fyrst og fremst þétt plata, með mjög skýrar vísanir og þemu og langt frá því að vera dauði og drungi. Hún er falleg, hjartnæm, hræðileg, óvænt og allt þar á milli. Nick Cave hefur vissulega verið sveipaður einhvers konar skikkju af þeim sem ekki þekkja hann. Að hann syngi bara um hörmungar og dauða – sé í raun með hann á heilanum. Það var unun að hlusta á hann fara yfir þann misskilning og útskýra sín yrkisefni, sem eru jafn misjöfn og þau eru mörg.

Takk

Á tónleikamiðanum stóð að ég mætti búast við því að tónleikarnir yrðu rúmlega tveir og hálfur tími. Þeir enduðu hins vegar í tæpum þremur og hálfum tíma, án hlés. Samt þyrsti mig í meira þegar tónleikarnir voru búnar en var jafnframt mjög fullnægð. Skrýtin tilfinning. Síðan þeim lauk hef ég spilað þá aftur og aftur í hausnum á mér. Alltaf finn ég eitthvað nýtt sem ég brosi að. Tónlistin var hins vegar ekki ný og var ég búin að heyra flestöll lögin áður á tónleikum. Samt fengu þau nýja merkingu og búning í þessu samhengi, sem var allt annað en fyrr. Ég hef aldrei áður grátið á Nick Cave tónleikum. Ég hef vissulega verið hrærð og uppnumin en aldrei fellt tár. Á þessum tónleikum felldi ég margoft tár, þá ekki síst yfir lokalaginu Skeleton Tree af samnefndri plötu sem var tekin upp rétt eftir andlát sonar Nick Cave. Eins og hann lýsti svo vel var platan bara beinagrind af plötu því hann var í engu ástandi til að vera í stúdíói mitt í fjölskylduharmleiknum. Þó lögin hafi verið samin fyrir dauðsfallið voru þau tekin upp eftir það, sem litaði alla plötuna. Það sem var hversdagslegt var allt í einu litað af ólýsanlegri sorg. Það kristallaðist í lokalaginu er Nick Cave hamraði á píanóið. Allt í einu fengu textabútar eins og „In the window, a candle. Well, maybe you can see”, allt aðra og dýpri merkingu. Þá hrundu tárin niður kinnarnar og hjartað fylltist af samúð í garð manns sem ég þekki ekki neitt þó ég þekki hann svo vel.

Ég er fegin að þurfa ekki að gefa Nick Cave stjörnur fyrir þessa upplifun því það væri ómögulegt. Við systurnar höfum oft velt því fyrir okkur hvort hann væri í raun mennskur. Snilligáfa hans ber okkur oft ofurliði og það er erfitt að trúa því að hann sé í raun af þessari jörðu. En hann er það. Í gegnum þessa tónleika fékk ég það staðfest. En ég fékk það jafnframt staðfest að Nick Cave getur alltaf gefið mér eitthvað meira – eitthvað dýpra. Tónleikahringnum mínum með honum var að einhverju leyti lokið þetta kvöld en samband okkar heldur áfram að þróast. Þangað til næst vil ég bara segja: Takk fyrir textana. Takk fyrir að leyfa mér að kíkja inn í hausinn á þér. Takk fyrir að halda mér forvitinni. Takk.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki
Fókus
Í gær

Hún segir þetta vera „náttúrulegt Ozempic“ og margir eiga það nú þegar í eldhússkápnum

Hún segir þetta vera „náttúrulegt Ozempic“ og margir eiga það nú þegar í eldhússkápnum
Fókus
Fyrir 3 dögum

Hjónabandsráðgjafi segir þetta merkið um að sambandið sé búið

Hjónabandsráðgjafi segir þetta merkið um að sambandið sé búið
Fókus
Fyrir 3 dögum

Snorri vissi varla hvaðan á sig stóð veðrið þegar Sigmundur Davíð og Bergþór bönkuðu upp á

Snorri vissi varla hvaðan á sig stóð veðrið þegar Sigmundur Davíð og Bergþór bönkuðu upp á
Fókus
Fyrir 5 dögum

Bankarnir í Þýskalandi hata hana – Þetta er ástæðan

Bankarnir í Þýskalandi hata hana – Þetta er ástæðan
Fókus
Fyrir 5 dögum

Aðdáendur Taylor Swift halda ekki vatni eftir nýjasta uppátæki hennar

Aðdáendur Taylor Swift halda ekki vatni eftir nýjasta uppátæki hennar