fbpx
Þriðjudagur 26.maí 2020
Fókus

Erfiðast að skilja barnið eftir á spítalanum og ganga tómhent út: „Mér leið eins og ég hefði dáið líka“

Aníta Estíva Harðardóttir
Sunnudaginn 12. maí 2019 19:00

Mynd: Dv/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það er ótrúlegt hvernig hugurinn nær að umturnast hratt. Ég upplifði skrítna tilfinningu um von. Von um að hann myndi allt í einu byrja að anda, von um að hann myndi lifa. En sú tilfinning dvínaði þó þegar fór að líða að kvöldi.“

Þann 25. október á síðasta ári breyttist líf Grétu Rutar Bjarnadóttur og kærasta hennar Ragga á einu augnabliki þegar sonur þeirra Hinrik Leó fæddist andvana eftir tuttugu og átta vikna meðgöngu.

Fyrstu tólf vikurnar voru bara dásamlegar og litli pjakkur hagaði sér þvílíkt vel gagnvart mömmu sinni.“ / Gréta og Ragnar / Mynd: Aðsend

Óvænt en velkomin þungun

Gréta Rut, sem er tuttugu og fjögurra ára gömul, komst að því um miðjan maí á síðasta ári að hún gengi með sitt fyrsta barn.

„Þetta var nokkuð óvænt en á þessum tíma var ég í fullum undirbúningi fyrir Laugavegur Ultra-hlaupið, en auðvitað vorum við alveg byrjuð að spá í barneignir og þetta var sko heldur betur velkomið í líf okkar Ragga,“ segir Gréta í viðtali við DV.

Gréta er mikil útivistarmanneskja sem tekur reglulega þátt í utanvegarhlaupum. Þegar hún komst að óléttunni var hún skráð í 42 kílómetra utanvegarhlaup á Tenerife og ákvað vegna góðrar heilsu á meðgöngunni að halda áfram þátttöku sinni í hlaupinu, en hún breytti þó vegalengdinni í 22 kílómetra.

„Ég hljóp það að sjálfsögðu með vellíðan sem fyrsta markmið. Mér leið mjög vel fyrstu vikurnar og einu einkennin sem ég fann fyrir voru endalaust hungur og þreyta. Ég slapp alveg við ógleði og líkamlega verki þannig að fyrstu tólf vikurnar voru bara dásamlegar og litli pjakkur hagaði sér þvílíkt vel gagnvart mömmu sinni.“

Allt leit vel út í skoðunum þar til heimurinn hrundi

Þann 4. júlí fór Gréta í tólf vikna sónar og kom þar í ljós að litli strákurinn þeirra var í réttri stærð og hnakkaþykktarmælingin kom einnig vel út, það leit því allt út fyrir að vera í góðu lagi.

„Ég var svo ótrúlega þakklát fyrir það hvað þessar fyrstu vikur, sem eru mjög erfiðar hjá mörgum, voru ótrúlega góðar og mig grunaði ekkert hvað var í vændum. Ég var mjög dugleg að hreyfa mig og naut þess í botn að geta verið svona aktíf ólétt. Ég fann aldrei fyrir einkennum sem bentu til þess að eitthvað væri að. Engin blæðing, engir verkir, ekki neitt. Ég byrjaði að finna litlar fiðrildahreyfingar í kringum 18 viku.“

Gréta og Ragnar héldu áfram að vera jákvæð þrátt fyrir erfiðleika / Mynd: Hanna

Í byrjun september fór Gréta svo í tuttugu vikna sónar og þá voru þau alveg róleg og leið virkilega vel. Það var í þessari skoðun sem heimur þeirra átti eftir að umturnast.

„Ég var ótrúlega slök yfir öllu og leið svo vel. En þá hrundi heimurinn. Tvær yndislegar ljósmæður skoðuðu mig og það sást greinilega að þetta var strákur. Þvílíka typpasýningin sem hann bauð upp á. Ég spurði þær hvort að það væri ekki alveg eðlilegt hversu nett ég var miðað við hversu langt ég var gengin en þarna var ég komin rúma 21 viku á leið. Þær urðu eitthvað skrítnar og vildu láta sérfræðing kíkja á mig vegna þess að þeim fannst Hinrik Leó vera heldur smár. Það var enginn sérfræðingur laus svo við fengum annan tíma daginn eftir.“

Óvissan tók frá þeim alla orku

Þrátt fyrir erfiða bið eftir komandi degi ákvað Gréta þó að vera jákvæð og hugsaði hún sem svo að fyrst henni hefði nú þegar liðið svona vel alla meðgönguna að þá hlyti allt að vera í lagi.

„Daginn eftir mættum við í skoðunina og hittum sérfræðing. Hún var alveg frábær og hélt vel utan um okkur allt ferlið. Í þessari skoðun kom í ljós að hann var með alvarlega snemmkomna vaxtarskerðingu sem gat bent til þess að hann væri með litningagalla eða þá að það væri vanstarfsemi í fylgjunni. Við fórum í kjölfarið í flestallar rannsóknir sem hægt var að fara í. Enginn litninga- eða genagalli kom í ljós en síðar kom í ljós að blóðflæðið frá fylgjunni til hans var of lítið. Að bíða eftir niðurstöðunum var algjör kvöl. Óvissa er tilfinning sem getur verið svo nagandi en hún tók alla orku frá okkur Ragga. Það var þvílíkur léttir að heyra að ekki væri um gena- eða litningagalla að ræða en það var samt enn þá þessi óvissa um hvað væri að.“

Í kjölfarið var Gréta í vikulegu eftirliti hjá sérfræðingi þar sem blóðflæðið var mælt ásamt því sem hún hitti ljósmóður í hefðbundinni skoðun einu sinni til tvisvar í viku.

„Í hverri viku bað ég til Guðs um að litli kútur væri búin að stækka. Sem hann gerði með hverri vikunni sem leið, en það fór þó að hægja á vextinum þegar lengra leið á meðgönguna. Við Raggi fórum svo að skoða vökudeildina þar sem okkur var tjáð að litli kútur yrði tekinn með keisara ef hann myndi ná ákveðinni þyngd á 28. viku. Við skoðuðum vökudeildina nokkrum dögum áður en hann dó.“

Gréta var nett alla meðgönguna og það vakti eftirtekt ljósmæðra / Mynd: Aðsend

Vissi að hann væri farinn

Þegar loksins kom að því að Gréta var gengin 28 vikur fór hún í skoðun hjá ljósmóður þar sem mæla átti þyngd Hinriks.

„Það sást engin hjartsláttur. Lífið gjörsamlega hrundi og mér leið eins og ég hefði dáið líka. Þetta fallega og dásamlega líf sem átti að hefjast með komu Hinriks Leós hvarf og ég hvarf með því. Ég bara trúði þessu ekki. Þegar maður fer í sónar þá finnst hjartslátturinn tiltölulega snemma og í öll skipti sem ég hafði farið fannst hann alltaf strax. Ég sá því um leið og sérfræðingurinn var búinn að leita í tæpa mínútu að hann væri farinn. Versta augnablik lífs míns var þegar Sigurlaug, fæðingarlæknirinn, sagði mér að það væri enginn hjartsláttur lengur.“

Eftir skoðunina fékk Gréta töflu sem hjálpa átti legi hennar fyrir fæðingu og daginn eftir átti hún að koma og leggjast inn til þess að fæða andvana barn sitt.

„Áður en Hinrik Leó dó, hugsaði ég oft til þess hversu erfitt það hlyti að vera að fæða andvana barn. Þegar ég svo sjálf þurfti að gera það þá fannst mér það ekki það erfiðasta við þetta allt saman. Það erfiðasta var þegar ég heyrði ekki lengur hjartsláttinn. Auðvitað var fæðingin erfið og þetta var algjör tilfinningarússíbani. Ég var spennt að sjá litla kútinn minn og að fá að halda á honum en samt var hjartað í molum vegna þess að hann var dáinn. Ég kveið fyrir því að fá að halda aðeins einu sinni á honum, eiga aðeins eina stund með honum. Ég upplifði sorg, reiði, gleði, tilhlökkun og svo margar aðrar tilfinningar.“

Það var besta tilfinning í heimi að fá hann í fangið.“ / Mynd: Aðsend

Súrrealískt og sárt að ganga tómhentur frá spítalanum

Fæðingin sjálf gekk vel og hratt fyrir sig en búið var að undirbúa Grétu fyrir það að hún gæti tekið nokkra daga.

„Ég man eftir fæðingunni eins og hún hafi gerst í gær, þrátt fyrir að ég hafi verið á sterkum lyfjum. Ég var með tvær yndislegar ljósmæður sem gerðu fæðinguna eins dásamlega og hægt var miðað við erfiðar aðstæður. Þetta gerðist gríðarlega hratt og þegar hann var að mæta var ég enn fullklædd. Ég dreif mig úr buxunum og litli kútur mætti í heiminn örfáum mínútum seinna. Það var besta tilfinning í heimi að fá hann í fangið. Ég er svo þakklát fyrir það hversu glöð og hamingjusöm ég var að fá hann í fangið, því ég hafði kviðið mikið fyrir því. Ég gleymdi öllu sem var að gerast, brosti og dáðist að því með Ragga hvað hann væri fallegur. Þetta er augnablik sem ég gleymi aldrei og ég hugsa oft á dag um það, þá líður mér vel í hjartanu.“

Réð ekki við sorgina / Mynd: Aðsend

Um hádegisbil daginn eftir fæðinguna voru Gréta og Raggi sammála um það að bæði væru þau tilbúin til þess að kveðja son sinn.

„Þetta var líka eitt af því erfiðasta sem ég hef gert. Að þurfa að skilja barnið sitt eftir á spítalanum og ganga tómhentur út. Það var ótrúlega erfitt að ganga niður stigann af fæðingardeildinni og mæta þar kasóléttum konum sem hamingjan og gleðin skein af. Það var ótrúlega sárt. En svo veit maður aldrei hvað aðrir eru að glíma við, þær geta alveg eins verið að upplifa erfiða meðgöngu, búnar að upplifa missi og svo framvegis. Ég er mjög brosmild manneskja og hlæ gríðarlega mikið, mér finnst voða leiðinlegt að vera leið og sorgmædd, en ég réð ekkert við það á þessum tímapunkti. Það að ganga tómhentur frá spítalanum var súrrealískt og sárt og þeirri stund gleymi ég aldrei.“

Sá sem ræður öllu

Parið nefndi drenginn sinn Hinrik Leó Ragnarsson í höfuðið á frænda hans en nafnið Hinrik þýðir „Sá sem ræður öllu“ og fannst þeim sú lýsing eiga vel við. Leó bættist við því þau segja drenginn sinn hafa barist eins og ljón fyrir lífinu.

Eftir athöfnina var í fyrsta skiptið eftir fæðinguna þar sem mér leið vel. / Mynd: Aðsend

„Þann 2. nóvember vorum við með kistulagningu og fallega athöfn þar sem allir fengu að kveðja Hinrik Leó. Það komu rúmlega 40 manns að kveðja hann og hann snerti mörg líf, við Raggi erum svo rík. Eftir athöfnina var í fyrsta skiptið eftir fæðinguna þar sem mér leið vel. Mér fannst ég loksins geta andað og við Raggi vorum sammála um hversu gott það var fyrir okkur að fá að kveðja Hinna litla. Þetta var falleg og dýrmæt stund.“

Um tveimur mánuðum eftir fæðingu Hinriks fengu Gréta og Raggi niðurstöður úr krufningu og í ljós kom að stór blóðsegi hafði myndast í fylgjunni, í afturhluta hennar sem ekki var hægt að sjá.

„Þetta er eitthvað sem gerist gríðarlega sjaldan og við vorum bara virkilega óheppin. Heilbrigðisstarfsfólkið var allt til mikillar fyrirmyndar og ég held í alvöru að það sé sérstakt fólk sem er valið í svona verkefni. Læknarnir og ljósmæðurnar sem við hittum í þessu ferli voru öll svo dásamleg að ég kem því varla í orð. Björk og Steinunn ljósmæður voru mest með okkur og ég held að án þeirra hefði fæðing Hinna litla ekki orðið svona ástrík og góð. Ég er þeim öllum ævinlega þakklát fyrir það.“

Vinir og fjölskylda er það sem skiptir öllu máli.“ / Mynd: Aðsend

Áfallið kenndi þeim mikið

Í dag er Gréta í svokölluðum missishóp á vegum Landspítalans ásamt öðrum foreldrum sem upplifað hafa það að missa barn og hún telur það virkilega gott.

„Það er alltaf gott að tala við fólk sem hefur lent í sambærilegum aðstæðum. Við Raggi erum líka svo ótrúlega heppin með vini og fjölskyldur og eftir fæðinguna var íbúðin okkar eins og lítil blómabúð. Fólk kom með mat og kökur handa okkur og stjanaði við okkur. Þetta áfall hefur kennt okkur svo margt en ég hugsa svo allt öðruvísi um lífið núna en ég gerði áður fyrr. Vinir og fjölskylda er það sem skiptir öllu máli og það að standa sig vel í skóla eða hlaupi er bara bónus og algjör forréttindi. Stóru vandamálin áður fyrr eru líka orðin að engum vandamálum sem er ofboðslega gott.“

Eftir fæðinguna fór Gréta of fljótt af stað, en hún mætti í skólann um fimm dögum síðar. Hún fann þó eftir nokkur skipti að hún þurfti að byrja aftur í litlum skrefum og henni tókst fljótlega að hefja nám af fullum krafti.

„Ég gerði þetta í litlum skrefum og notaði námið til þess að reyna að dreifa huganum, þótt hann væri alltaf hjá Hinna litla. Ég byrjaði aðeins of snemma að hreyfa mig af krafti sem leiddi til þess að sár eftir fylgjuna í leginu rifnaði og ég varð mjög veik. Þá tók ég mér tveggja vikna hvíld og hóf svo að hreyfa mig aftur í litlum skrefum í átt að venjulegu lífi. Ég finn það með hverjum mánuði sem líður að ég er að verða sterkari andlega og líkamlega og ég er alveg viss að um eftir nokkra mánuði þá verð ég sterkasta útgáfan af sjálfri mér, af því að þetta hefur kennt mér svo mikið. Við Raggi vorum sterk heild áður en við lentum í þessu og í dag erum við orðin enn sterkari saman. Hann hefur verið minn stærsti klettur í lífinu og ég hans. Ég er svo þakklát fyrir það.“

Hinrik Leó kenndi foreldrum sínum margt. / Mynd: Aðsend

Gleym-mér-ei gaf þeim dýrmætustu gjöfina

Segir Gréta að enginn eigi að þurfa að undirbúa sig fyrir aðstæður sem þessar í lífinu og áður en hún missti Hinrik þá vissi hún varla hvað félagið Gleym-mér-ei var.

„Ég hafði heyrt af því en vissi ekki nákvæmlega um hvað starfsemin snerist. En um klukkutíma eftir að Hinni litli fæddist kom Björk ljósmóðir með Gleym-mér-ei kassa til okkar. Í honum voru ýmsir hlutir eins og minningabækur, bangsar, armbönd, leiðbeiningar fyrir sorgarferlið, kertastjaki og box fyrir hárið á krílinu ásamt fleiru. Þetta gerði svo mikið fyrir okkur og við gátum í raun hugsað aðeins út í það hvernig við ætluðum að halda utan um minningarnar um hann og stundirnar okkar með honum. Það dýrmætasta sem Gleym-mér-ei gaf okkur var nóttin með Hinna litla. Þær höfðu útbúið kælivöggu og þökk sé henni þá gátum við haft Hinrik Leó hjá okkur í eina nótt. Það var ofboðslega dýrmætt og notalegt að fá að hafa hann í eina nótt. Ég gat hvílt mig með honum og fékk að hafa hann í ró og næði. Þetta eru hlutir sem hafa hjálpað okkur Ragga gríðarlega í þessu sorgarferli en án Gleym-mér-ei væri minning mín um þessa reynslu alveg örugglega ekki eins falleg og hlý og hún er. Þetta eru alveg ofboðslega dýrmæt samtök sem veita syrgjandi foreldrum mikla hjálp.“

Gréta tók þá ákvörðun að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu í sumar þar sem hún mun hlaupa fyrir hönd Gleym-mér-ei.

„Ég ætla að hlaupa fyrir Hinrik og alla hina fallegu englana sem hafa kvatt þennan heim allt of snemma. Gleym-mér-ei hjálpaði okkur í gegnum aðstæður sem enginn á að þurfa að búa sig undir í lífinu og ég er þeim ævinlega þakklát fyrir það.“

Hægt er að heita á Grétu og styrkja Gleym-mér-ei samtökin með því að smella hér. 

Ljóð samið af vinkonu Grétu:

Hinrik Leó

 

Sofðu, sofðu ljúfurinn minn

Englar vaki yfir þér

Því ég minnist þín í dag

Sem og á morgun

 

Þú komst svo hljótt

Tímabilið sem leið of fljótt

Allt þitt er vel geymt

Aldrei verður þér gleymt

 

Hve sárt við söknum þín

Ég fæ þig, fæ þig í fangið til mín

Pínulítill svo nýr

Svo fallegur, mjúkur og hlýr

 

Þótt þú snemma kvaddir

Þá mömmuhjartað gladdir

Þú leggur litlar hendur yfir sárin

Og þerrar burt öll tárin

 

Birti mín sál er ég sá þig fyrst

En mundu þú hefur engan misst

Því við erum hér

Mamma og pabbi eru hjá þér

 

Þú brosandi gefur mér ráð

Fótspor þín fylgja mér alla daga

Eftir langar dimmar nætur

Eftir erfiða morgna þú rífur mig á fætur

 

Hve indælt það verður þig aftur að sjá

Legg mitt litla ljónshjarta bringuna á

Litlu tærnar þær gleðja mig

Krafturinn er vafinn í kringum þig

 

Fyrir allt sem okkur varstu

Gleði og stolt okkur gafstu

 

Sameinast seinna hópurinn

Við hittumst að lokum aftur

Öll saman litli minn

Ég, þú og pabbi þinn

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 3 dögum

Andstæðingur Fjallsins gerði 100 uppsetur á hverjum degi í mánuð og þetta gerðist

Andstæðingur Fjallsins gerði 100 uppsetur á hverjum degi í mánuð og þetta gerðist
Fókus
Fyrir 4 dögum

Yngsta móðir Íslands slær í gegn á TikTok

Yngsta móðir Íslands slær í gegn á TikTok
Fókus
Fyrir 4 dögum

Gagnrýnandi The Spectator lofsyngur frammistöðu Arndísar: „Hin íslenska Frances McDormand“

Gagnrýnandi The Spectator lofsyngur frammistöðu Arndísar: „Hin íslenska Frances McDormand“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vísindamenn vilja útrýma handabandinu og þetta eru ástæðurnar

Vísindamenn vilja útrýma handabandinu og þetta eru ástæðurnar
Fókus
Fyrir 6 dögum

Borgarfulltrúi Pírata skartar nýju húðflúri

Borgarfulltrúi Pírata skartar nýju húðflúri
Fókus
Fyrir 6 dögum

Eitt glæsilegasta sumarhús landsins til sölu

Eitt glæsilegasta sumarhús landsins til sölu
Fókus
Fyrir 1 viku

Vikan á Instagram: „Ekkert fokking photoshop eða filter“

Vikan á Instagram: „Ekkert fokking photoshop eða filter“
Fókus
Fyrir 1 viku

Lífsháski: Stórkostleg reynsla að frjósa næstum í hel

Lífsháski: Stórkostleg reynsla að frjósa næstum í hel