Gömul smokkaauglýsing frá árinu 1987 hefur gengið í endurnýjun lífdaga á samfélagsmiðlinum Reddit þar sem Íslendingar skemmta sér yfir plakatinu sem hékk upp á veggjum á víð og dreif um landið.
„Smokkurinn er vörn gegn eyðni. Hann má ekki vera neitt feimnismál“, „Ekki deyja úr fáfræði“ og „Baráttan við eyðni er barátta upp á líf og dauða. Taktu enga áhættu,“ stendur á plakatinu, en þeir sem komnir voru á legg á níunda áratug síðustu aldar muna vel hve mikil hræðsla var við sjúkdóminn eyðni. Var því kappkostað við að brýna fyrir Íslendingum að nota getnaðarvarnir í kynlífi, eins og þetta plakat ber merki.
„Enga feimni, annars færðu eyðni,“ skrifar notandinn Vondi, sem væri ansi hressilegt slagorð fyrir herferð sem þessa.
Hins vegar er það myndin af Ómari Ragnarssyni sem vekur mesta athygli Reddit-verja (verja, fattiði?). Á myndinni sést Ómar hissa á svip með fangið fullt af smokkum.
„Þessi mynd af Ómari Ragnarssyni er óþægileg,“ skrifar notandinn Coveout og batti03 bætir við: „Hann og Helgi Björnsson eru langgraðasta fólkið á þessari mynd.“
Anti-Satan skrifar svo: „Þetta voru bara smokkarnir sem Ómar hafði í vasanum.“
Þá vekur myndin af leikaranum Kristjáni Franklín Magnús einnig talsverða athygli, en á henni ber hann tvo smokka á tveimur fingrum.
„Hver er „one in the pink, one in the stink“ gaurinn efst til vinstri?“ spyr notandinn Íslendingurinn í Amsterdam, en enski frasinn vísar í að einn putti fari í píku og einn í rass. Mr. Michael Bay bendir á að þetta sé fyrrnefndur Kristján.
„Sem talaði m.a. fyrir Snúð í Múmínálfunum,“ bætir hann við. „Og átti Rauða torgið, símaklámsveituna,“ skrifar Oswarez. „Hann var líka góður í fyrstu seríu af Ófærð,“ skrifar VilliVillti.