Tónlistarmaðurinn ástsæli Páll Óskar Hjálmtýsson birtir áhugaverða mynd á Instagram þar sem hann sést taka í hendina á norska krónprinsinum Hákoni.
„Norski krónprinsinn hittir íslensku drottninguna,“ skrifar Páll Óskar og heldur áfram. „Ég tróð upp á hátíðardagskrá í Þjóðleikhúsinu í Osló vegna 100 ára afmælishátíð Norræna félagsins. Þar var fagnað samnorrænu menningarsamstarfi þjóðanna í 100 ár. Allar norðurlandaþjóðirnar sendu sína helstu listamenn á svæðið og ég var sá íslenski. Allir fluttu frumsamið efni á sínu eigin móðurmáli.“
Þá segist Páll Óskar hafa hitt Hákon rétt áður en herlegheitin byrjuðu. Ef marka má færsluna fór vel á með þeim félögum.
„Hákon krónprins Noregs hitti alla listamenninga rétt fyrir show. Hann talaði norsku og ég íslensku og við göntuðumst með hve mikið við skildum hvorn annan. Ég sagði honum að gefa mér þrjá mánuði í Osló og þá gæti ég svarað honum til baka á norsku. Dagskráin var tekin upp og verður sýnd í norska sjónvarpinu í maí… og vonandi bara á RÚV líka?“