fbpx
Mánudagur 09.september 2024
Fókus

Heiða Björg: „Krakkarnir forðuðust hann og sögðu að hann myndi örugglega deyja“

Kristinn H. Guðnason
Mánudaginn 7. maí 2018 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir rösku ári síðan var Heiða Björg Hilmisdóttir lítt þekktur borgarfulltrúi en nú er hún orðin einn umtalaðasti femínisti landsins og varaformaður Samfylkingarinnar. Kristinn hjá DV heimsótti Heiðu og ræddi við hana um stjórnmálin, #metoo-byltinguna, æsku í fátækt og son hennar, Hilmi, sem greindist yngstur Íslendinga með MS-taugasjúkdóminn.

 

Fátæk börn biðja ekki um neitt

Heiða fæddist árið 1971 og ólst upp á Akureyri frá tveggja ára aldri, elsta barn hjónanna Hilmis Helgasonar og Lovísu Snorradóttur, sem hún lýsir sem strangheiðarlegu og duglegu verkafólki. Hún eignaðist þrjú yngri systkini og það kenndi henni ábyrgð og mótaði æskuna þar sem hún tók að sér alls kyns verkefni innan heimilisins. Heiða þurfti að vera sterk.

„Ég fór í gegnum mjög erfitt skeið með mömmu og pabba frá tíu ára aldri þegar þau voru að kaupa sér húsnæði og voru gríðarlega blönk. Það var ekki til neinn peningur á heimilinu en við fengum lambakjöt frá ömmu og afa sem bjuggu í sveitinni og fisk frá frænda mínum. Það varð að passa upp á hverja einustu krónu. Við gerðum ekki mikið utan heimilisins en foreldrar mínur eru meistarar að gera mikið úr litlu. Þau settur okkur börnin alltaf í forgang.“

Hvaða áhrif hafði þetta á ykkur systkinin?

„Systkini mín voru það lítil að þetta fékk ekki mikið á þau en ég tók þetta mikið inn á mig. Til dæmis hætti ég að biðja um hluti, sem eru mjög algeng viðbrögð hjá börnum í þessari stöðu. Fátæk börn biðja ekki um neitt. Þetta hafði líka áhrif langt fram á fullorðinsaldurinn, til dæmis hversu sparsöm ég var, en ég áttaði mig ekki strax á hversu mikil áhrif þetta hafði á mig.“

Strax í æsku sá hún hversu miklu máli hið norræna velferðarkerfi skipti og lýsir hún sér sem skilgetnu afkvæmi þess. Vegna kerfisins hafði Heiða tök á því að mennta sig og ná að fóta sig sem einstæð móðir þegar að því kom.

„Við fórum aldrei neitt, gerðum aldrei neitt og ég átti eiginlega engin föt.“

Nútímavæddi Landspítalaeldhúsið

Sem barn var Heiða ákveðin í að verða næringarráðgjafi og eftir útskrift úr Verkmenntaskólanum á Akureyri hélt hún til Gautaborgar til að læra næringarrekstrarfræði. Þegar hún sneri heim frá Svíþjóð 29 ára gömul tók hún við stjórn eldhúsa Landspítalans þar sem hún starfaði í fjórtán ár. Auk þess skrifaði hún greinar um mat og gaf út matreiðslubækur. Heiða segir að það hafi verið mjög flókið verkefni að taka við þessu stærsta eldhúsi landsins sem var þá að miklu leyti úrelt. Það voru eldhús í mörgum húsum spítalans víða um borgina og sum í slæmu ástandi.

„Við vorum að loka á stöðum eins og St. Jósefsspítala og Gunnarsholti sem voru rótgrónir staðir með sál. Þetta var því ekkert auðvelt sem stjórnandi. En framleiðslueldhúsin sem við lokuðum voru illa tækjum búin og engir peningar til að uppfæra þau. Í staðinn nútímavæddum við aðaleldhúsið á gamla Landspítalanum.“

Heiða bætti tækjabúnað og hugbúnað eldhússins til muna og það fór að framleiða mat fyrir allar deildir spítalans. Hún skildi fleira eftir sig á spítalanum því áður en hún hætti árið 2014 kom hún því til leiðar að sjúklingar hefðu val um fisk, kjöt eða grænmetisfæði.

 

 

Gat ekki raðað fótboltaspilunum

Heiða er gift Hrannari Birni Arnarssyni, framkvæmdastjóra þingflokks jafnaðarmanna í Norðurlandaráði, og eiga þau fjögur börn, Særós Mist, Hilmi Jökul, Sólkötlu Þöll og Ísold Emblu Ögn. Hilmir, fæddur 1998, greindist með taugasjúkdóminn MS þegar hann var aðeins ellefu ára gamall, yngstur Íslendinga, og einkenni sjúkdómsins komu ákaflega hratt fram. Fyrstu einkennin voru þau að hann fékk doða hér og þar á líkamanum, líkt og hann væri staðdeyfður, en fjölskyldan taldi að þetta væri einungis einhver veirusýking. Heiða segist hafa verið undrandi þegar sjúkdómurinn lét á sér kræla:

„Einn daginn kallar hann á mig þegar hann var að raða fótboltaspilunum sínum í möppu og sagðist ekki geta haldið á þeim. Ég hélt að þetta gæti ekki verið satt en svo sá ég að spilin runnu úr höndunum á honum. Hann náði ekki gripinu. Síðan gerðist þetta mjög hratt á tveimur dögum. Hann fór úr því að vera frískur strákur í strák sem gat ekki gengið.“

Hilmir var sendur í ítarlegar rannsóknir á spítala og vegna hraða sjúkdómseinkenna lék grunur á að um heilaæxli væri að ræða. Svo var ekki, heldur sáust bólgur í heilanum. Þremur mánuðum síðar fékk Hilmir annað alvarlegt kast og þá fékk hann greiningu með MS.

Hvernig varð þér við að fá þessa greiningu?

„Mér brá alveg svakalega. Ég vissi eiginlega ekkert um þennan sjúkdóm. Þegar ég fór að gúggla fann ég ekkert nema hræðilegar upplýsingar eins og að þeir sem greindust yrðu komnir í hjólastól fyrir fertugt. Hvernig átti ég að segja barninu mínu það? En eins hræðilegt og það var að fá þessar fréttir þá var tímabilið eftir það miklu erfiðara.“

MS er mjög misalvarlegur sjúkdómur en í tilfelli Hilmis var hann mjög ágengur. Heiða segir að hann hafi lent í miklum erfiðleikum og það hafi verið erfitt að fylgja honum í gegnum þetta. Hilmir missti mátt, var sífellt þreyttur, gat stundum ekki talað eða náð sambandi við fólk og vissi jafnvel ekki hvar hann var.

„Hann fór úr því að vera frískur strákur í strák sem gat ekki gengið.“

Vinirnir sneru við honum bakinu

Það sem reyndist honum sérstaklega erfitt var félagslega staðan. Hilmir og vinir hans æfðu fótbolta og voru búnir að ákveða að verða saman atvinnumenn hjá Arsenal.

„Þegar þú ert ellefu ára er það algjörlega raunhæft markmið í þínum huga,“ segir Heiða og brosir. „En hann datt fyrst í B lið, síðan C og þurfti loks alveg að hætta á mjög skömmum tíma. Hann missti líka úr skóla og fór frá því að vera með tíu bestu í bekknum í tíu lökustu á einu ári. Hann missti tökin á lífinu.“

Krakkar geta verið grimmir, sérstaklega þegar einhver er öðruvísi í hópnum. Hilmir fékk að kenna á þessu um leið og sjúkdómurinn fór að hafa áhrif á hann og vinirnir sneru við honum bakinu en fyrir þennan tíma hafði hann verið félagslega sterkur. Hilmir fór með skólahjúkrunarfræðingi í alla bekki skólans þar sem krökkunum var sagt frá sjúkdómnum og einkennum hans en hann fékk samt takmarkaðan skilning frá bekkjarsystkinum sínum. Hann lenti í mikilli stríðni og útilokun, hreinu og kláru einelti sem reyndist allri fjölskyldunni erfitt og ekki síður vinkonum hans sem reyndu að standa með honum.

„Hann var ekki hafður með í leikjum, hlutirnir hans voru skemmdir, úlpan hans færð á milli snaga og alls kyns skrítnir hlutir. Krakkarnir forðuðust hann og sögðu að hann myndi örugglega deyja.“

Heiða leitaði til samtakanna Einstök börn og þar heyrði hún sömu sögu frá öðrum foreldrum barna með langvinna sjúkdóma. Börnin voru almennt að lenda í einelti og útilokun.

Hvernig fannst þér kerfið taka á þessu?

„Að eiga hann hefur einnig verið eins og krefjandi háskólanám þar sem ég hef þurft að læra á kerfið. Hann var til dæmis hjá mörgum læknum, geðlækni, húðlækni, heimilislækni og taugalækni, en þeir töluðu saman. Langholtsskóli tók ágætlega á hans málum en stuðningurinn sem hann fékk í framhaldsskóla var alls ekki nægur. Það sem mér fannst erfiðast var þó að sjá hvernig við sem foreldrasamfélag brugðumst. Við verðum að passa upp á að öllum sé boðið í afmæli og tala við börnin okkar þegar þau byrja allt í einu að hætta að umgangast einhvern vin.“

Hilmir er tvítugur í dag, hvernig þróuðust hans mál?

„Félagslega staðan skánaði þegar hann eltist og hann eignaðist vini úr yngri árgöngum. Þá komu sumir gamlir vinir tilbaka. En hann er öryrki í dag og hefur enn ekki náð að fóta sig í lífinu, en ég hef trú á honum.“

 

Vildi hafa bein áhrif

Foreldrar Heiðu voru flokksbundnir Alþýðubandalagsmenn og mikið rætt um stjórnmál á heimilinu. Heiða segist alla tíð hafa verið vinstrisinnuð en hún gekk þó ekki í neina ungliðahreyfingu og fór ekki að beita sér í flokkapólitík fyrr en á fullorðinsaldri. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, borgarstjóri og utanríkisráðherra, var ástæðan fyrir því að Heiða gekk í Samfylkinguna. Þar sá hún sterkan leiðtoga sem hún gat tengt við. Upp frá því fór hún að mæta á kvennafundi hjá flokknum og varð loks formaður kvennahreyfingarinnar en hún sá samt ekki fyrir sér feril í stjórnmálum.

Fyrir sveitarstjórnarkosningarnar árið 2014 var í gangi herferð til að fá konur til að bjóða sig fram og Heiða fann sig knúna til að taka slaginn. Gerði hún það vegna eigin reynslu sem fátækt barn, foreldri veiks barns, stjórnandi á fjölmenningarlegum vinnustað og síðast en ekki síst kona. Heiða segir með ákveðnum tón:

„Mér fannst ójafnréttið óþolandi. Þessi kynbundni launamunur og kynbundna ofbeldi. Þegar ég var yngri hélt ég að þetta myndi lagast af sjálfu sér, það væri almenn skynsemi. En ég var komin yfir fertugt og sá að ástandið hafði lítið skánað. Einhverjir verða að vinna fyrir þessum málum og ég ákvað því að gefa kost á mér.“

Heiða endaði í sjötta sæti í forvali Samfylkingarinnar og varð því varaborgarfulltrúi eftir kosningarnar. Þegar Björk Vilhelmsdóttir hætti í borgarstjórn varð Heiða borgarfulltrúi og fékk leyfi frá stöðunni á Landspítalanum.

Af hverju borgarmálin frekar en landsmálin?

„Það sem skiptir íbúana mestu máli er ákveðið í sveitarstjórnum. Allt umhverfið sem fólk býr í dag frá degi eins og skólarnir, þjónustan við eldri borgara, almenningssamgöngurnar, íþróttafélögin og fleira. Ég sá fyrir mér að geta haft meiri bein áhrif á líf fólks. Það hentar mér að skipuleggja, framfylgja málum og ég vil sjá breytingar.“

Hvað var það sem þú vildir koma til leiðar?

„Þegar ég var í framboði kom það skýrt fram að ég vildi stofna ofbeldisvarnarnefnd þar sem forvarnir gegn hvers kyns ofbeldi væru teknar fast fyrir á hinu pólitíska borði. Sérstaklega gegn konum og börnum því að það er algengasta ofbeldið. Í öðru lagi fannst mér vanta stefnu í lýðheilsumálum innan borgarinnar. Þetta hefur gengið eftir og við erum nú að móta matarstefnu og heilsueflingu innan hverfanna þar sem við tengjum saman allar stofnanir. Í þriðja lagi eru það velferðarmálin og þessi mannlegi þáttur sem oft vantar upp á, það þarf að einfalda kerfin og færa þjónustuna nær einstaklingunum. Við hugum ekki að andlega þættinum og hvað fólk er að ganga í gegnum.“

„Upp hafa vaknað gamlir draugar feðraveldisins sem eru á móti konum því að þeir telja að jafnrétti sé slæmt fyrir karla.“

Kona sagði börn Heiðu með ljót nöfn

Heiða hikar þegar hún er spurð hvað hafi reynst erfiðast á þessum tíma en segir loks:

„Að stíga inn í þann veruleika að allir mega segja allt um mig. Ég er alls ekki viðkvæm fyrir gagnrýni á mín verk eða skoðanir en þegar fólk úthrópar mig sem hálfvita, fávita, þjóf og svo framvegis þá finnst mér það enn þá erfitt. Bæði fólk sem ég mæti á götunni, fólk sem skrifar á samfélagsmiðla og jafnvel innan borgarstjórnar. Það kom eitt sinn fyrir að borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins kallaði okkur fasista. Við sem tökum það skref að taka þátt í stjórnmálum erum venjulegir íbúar og þetta breytir okkur ekki sem manneskjum.“

Þetta var svo sem ekki nýtt fyrir fjölskyldunni því að Hrannar hafði starfað í stjórnmálum um nokkurt skeið og var til dæmis aðstoðarmaður Jóhönnu Sigurðardóttur í tíð hennar sem forsætisráðherra. Heiða og Hrannar ræddu sérstaklega við börnin sín um þetta því að upphrópanirnar og rógurinn snerta þau einnig.

„Í eitt skipti sá ég að kona var að básúna um það að börnin mín hétu ljótum nöfnum. Þau sjá svona athugasemdir á netinu og við verðum að læra að takast á við þetta.“

Heiða segist hafa náð að brynja sig að einhverju leyti fyrir þessu og upphrópanir fái mismikið á hana.

„Sérstaklega eftir #metoo-bylgjuna þar sem upp hafa vaknað gamlir draugar feðraveldisins sem eru á móti konum því að þeir telja að jafnrétti sé slæmt fyrir karla, afstaða sem ég skil engan veginn. Ég tek það ekki nærri mér. En við þurfum að breyta umræðunni til að gott og öflugt fólk sé viljugt til að taka það skref að stíga inn í stjórnmálin.“

 

#metoo fæddist á fimm dögum

Heiða var kjörinn varaformaður í Samfylkingunni í febrúarmánuði árið 2017 en var þó enn tiltölulega lítið þekkt á landsvísu. Í nóvember síðastliðnum var nafn hennar hins vegar á allra vörum þegar hún leiddi fyrstu #metoo-byltinguna þar sem konur í stjórnmálum sögðu sögur sínar af mismunun, áreitni og ofbeldi.

Heiða fylgdist líkt og aðrir vel með frægum leikkonum í Hollywood sem sögðu frá ofbeldi framleiðandans Harvey Weinstein og annarra manna. Þá bauð aðstoðarmaður borgarstjórans í Stokkhólmi henni inn í sænskan #metoo-hóp og hún sá að þær ætluðu að gera sínar sögur opinberar. Hún vissi hvernig landið lá á Íslandi og einnig að margir gerðu sér ekki grein fyrir hversu útbreidd mismununin og ofbeldið var.

Því ákvað Heiða einn föstudaginn að stofna hóp fyrir íslenskar stjórnmálakonur, sem hún segir hafa verið mikla áhættu en viðbrögðin komu henni mjög á óvart.

„Þetta var eins og flóðbylgja. Konurnar og sögurnar hrúguðust inn í hópinn, hundruð talsins, úr öllum flokkum, frá hægri til vinstri, ungar og gamlar, og á þriðjudeginum vorum við komnar í Kastljós. Það var mjög mikill órói í samfélaginu og ég fann að sumir kollegar mínir urðu órólegir. Ég þekki karla sem hafa hluti á samviskunni og margir lásu allar sögurnar til að leita að sér.“

Heiða er augljóslega snortin þegar hún lýsir traustinu sem hún fékk en hún sá um að taka við sögunum og taka persónugreinanlegar upplýsingar úr þeim fyrir birtingu.

„Trúnaðurinn og traustið sem ég fékk frá konum úr öðrum flokkum fannst mér sérstaklega aðdáunarverður. Þarna ríkti algjör samstaða. En ég sá líka margar sögur, kannski frá ólíkum tímum og landshlutum, sem voru nákvæmlega eins. Þarna er ákveðið mynstur sem skapast og ekki endilega auðvelt að breyta því. Við vissum að við vorum að taka áhættu og því hittumst við nokkrar konur úr ólíkum flokkum og ræddum saman fyrir þennan Kastljósþátt. Við vissum alveg að framtakið var ekki líklegt til að afla okkur vinsælda innan flokkanna.“

Heiða segir að það hefði verið hægt að nafngreina karlana í sögunum en þá hefði umræðan hvarfast um þá og þeirra mál. Birtingin hefði litið út sem persónuleg árás á þá menn. En byltingin var gerð til þess að opna umræðuna og breyta hugsunarhætti fólks almennt.

„Ég veit hins vegar að ákveðnir menn hafa misst sinn sess innan flokka vegna sagnanna og oft voru ólíkar konur að tala um sama mann. Sögurnar voru auðvitað misalvarlegar og sumir hafa gagnrýnt framtakið fyrir að blanda þessu öllu saman. En sögurnar eru allar alvarlegar og þær sýna hvernig valdastrúktúrinn er í samfélaginu. Þetta er allt birtingarmynd af sama vandamáli, það er að sumir telja sig hafa völd yfir öðru fólki og beita þessum meðulum til þess. Mismunun, áreitni og ofbeldi. Valdamiklir karlar hafa alltaf haft rétt yfir konum öldum saman og því þarf að breyta. Vissulega eru til dæmi um hið gagnstæða en þau tilvik eru í miklum minnihluta.“

 

Hræðilegar sögur heimilisofbeldis

Eftir að stjórnmálakonurnar stigu fram fylgdu listakonur, síðan prófessorar, dómarar, prestar og fleiri stéttir. En raddir verkakvenna heyrðust ekki. Þessu vildi Heiða og samstarfskonur hennar breyta og því hefur orkan undanfarna mánuði farið í að aðstoða þær. Í dag eru hóparnir orðnir 33 talsins en Heiða segir að sumar konur, til dæmis í viðskiptalífinu, hafi ekki enn treyst sér til að segja sínar sögur. Heiðu er mikið niðri fyrir þegar hún segir:

„Nú er ég að skila af mér hópi sem fjallar um heimilis- og fjölskylduofbeldi og þetta er búið að vera mjög þungt og erfitt. Þegar ég var byrjuð hugsaði ég að kannski þyrfti einhver sem væri sérmenntaður í þessum málum að taka við þessu. Margar af þessum sögum eru svo hræðilegar og þetta getur endað mjög illa. Konur eru í langmestri hættu heima hjá sér.“

Hefur þú sjálf orðið fyrir ofbeldi?

„Já, en ég hef enga þörf fyrir að ræða mín mál en ég hef unnið úr því og notað kraftinn til að standa með þolendum ofbeldis því að ég veit að það er ofboðslega erfitt að komast yfir þetta. En það er hægt og að tala um það er fyrsta skrefið.“ Heiða heldur áfram og segir: „Við þurfum að fræða fólk um þetta og koma vitneskjunni inn í skólana. Margt sem unglingar eru að horfa á í dag, til dæmis í myndböndum og klámmyndum, er ekkert annað en hreinræktað kynferðisofbeldi en þeir halda að þetta sé eðlilegt. Lögreglan hefur til dæmis sagt að strákar sem hafa verið handteknir fyrir að nauðga ungum stelpum virðast ekki gera sér grein fyrir því að þeir hafi framið glæp.“

Hverju hefur #metoo-byltingin skilað?

„Hún hefur skilað miklu nú þegar. Fólk er meðvitaðra um vandamálið, lögum hefur verið breytt og ýmsar samþykktir og aðgerðir í borginni farið í gegn. En þetta er algjörlega í okkar höndum og við verðum að sjá til hvort alvöru breytingar verði á samfélaginu.“

Sumum hefur sárnað að allir karlar séu settir undir sama hatt og gerðir ábyrgir. Hvað segir þú við því?

„Allt samfélagið er ábyrgt. Það er enginn að segja að karlar séu vondir og konur góðar. Það eru til konur sem eru stækustu varðhundar feðraveldisins og öflugir femínistar sem eru karlar. Í þessu samfélagi hafa karlar aftur á móti völd yfir konum. Þessu verðum við að breyta og flestir karlar eru sammála því. #metoo er áskorun kvenna til karla um að breyta samfélaginu því við gerum það ekki einar.“

„Það hefur aldrei verið skortur á karlmönnum og karlkyns viðhorfum í pólitík.“

Stríð við Karlalistann

Allt stefnir í að framboð til borgarstjórnar verði sautján talsins og eitt þeirra virðist sprottið af reiði í garð Heiðu Bjargar og Höllu Gunnarsdóttur, ráðgjafa Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, vegna ummæla inni í lokuðum Facebook-hóp um forsvarsmenn svokallaðra feðrahreyfinga sem berjast fyrir réttindum umgengnisforeldra. Karlalistinn heitir framboðið og Gunnar Kristinn Þórðarson stjórnsýslufræðingur fer þar fremstur í flokki og hann hefur deilt hart á Heiðu. Hún virðist gáttuð þegar framboðið ber á góma.

„Ég skil ekki hvernig þetta framboð varð til og finnst það sorglegt að karlar fari í slíka vörn fyrir réttindi feðra að þeir þurfa að ráðast á konur og rægja nafngreindar konur hvar sem þeir kona. Það hefur aldrei verið skortur á karlmönnum og karlkyns viðhorfum í pólitík. Konur hafa aldrei verið í meirihluta á Alþingi og í pólitík, aldrei. Þeir halda ábyggilega að þeir fái einhverja athygli út á þessa þráhyggju af mér og Höllu. Þeir hafa kallað það aðför að feðrahreyfingum að ég hafi sett „like“ við einhver ummæli í lokuðum hópi en mér finnst það ansi langt seilst.“

Heiða segist hafa fulla samúð með umgengnisforeldrum og þeim sem verða fyrir tálmunum en fráleitt að fólk geti notað þetta sem vopn gegn femínistum. Þetta séu tveir algjörlega ólíkir hlutir.

„Börn eiga að sjálfsögðu rétt á að þekkja foreldra sína en ef að barnið er í hættu þá verðum við að horfa á hlutina út frá réttindum þess og ég trúi þolendum þegar þeir segja frá. Femínisminn gengur út frá að jafna rétt kynjanna, líka inni á heimilunum og það á við eftir skilnað líka. Ég hefði haldið að við og forsvarsmenn umgengnisforeldra værum bandamenn í þessari baráttu og nær væri að beina kröftum okkar fyrst og fremst í að koma í veg fyrir hvers kyns ofbeldi gegn börnum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Fær borgað fyrir að borða – Opnar sig um skuggahliðarnar

Fær borgað fyrir að borða – Opnar sig um skuggahliðarnar
Fókus
Fyrir 2 dögum

Stórleikari hótaði að berja mann og annan um síðustu helgi

Stórleikari hótaði að berja mann og annan um síðustu helgi