fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fókus

Jólabréf Höllu Tómasdóttur til barna hennar: „Standið upp fyrir þá sem eiga sér enga talsmenn, berjist fyrir jafnrétti fyrir alla“

Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 22. desember 2018 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég veit að börnin mín voru hálft í hvoru að vonast til þess að ég myndi sökum anna sleppa jólabréfinu í ár, en jólasiðir eru jólasiðir og með þeirra leyfi deili ég jólabréfinu til þeirra ef aðrir kynnu að hafa gagn og gaman af,“ skrifar Halla Tómasdóttir forstjóri B Team, fyrirlesari og fyrrum framkvæmdastjóri.

Árlega hefur Halla skrifað jólabréf til barna sinna Tómasar Bjarts og Auðar Ínu, sem eru orðin 17 og 15 ára.

Jólin 2016 skrifaði Halla 10 góð ráð fyrir börn sín og þeirra kynslóð, jólin 2017 var jólakveðjan fullorðins og inniheldur góð lífsgildi poppuð upp með vísan í vinsæl dægurlög og í ár hvetur Halla börn sín til að leggja sitt á vogarskálarnar gagnvart þeim áskorunum sem heimurinn stendur frammi yfir og búa til það samfélag sem þau vilja búa í.

Hér fyrir neðan má lesa jólabréfið í heild sinni: 

Elsku Tómas Bjartur og Auður Ína,

Það er komið að þeim tíma ársins þegar ég gerist jólasveinn og gef ykkur góð ráð í skóinn. Þið teljið ykkur mögulega vera orðin of gömul fyrir þessi jólabréf frá mömmu, en ég er því algjörlega ósammála og er spenntari en nokkru sinni að skrifa þetta bréf. Þið hafið nefnilega þroskast svo fallega þetta ævintýraár í ykkar lífi að ég er þess fullviss að fátt er ykkur ofviða. Ég er ákaflega stolt af ykkur og hef ómælda trú á því að þið getið lagt ykkar á vogarskálarnar við að leysa þær fjölmörgu áskoranir sem heimurinn stendur nú frammi fyrir.

Standið vörð um Móður Jörð

Við eigum enga mikilvægari móður, en sjálfa jörðina. Því miður hefur mín kynslóð ekki farið vel með hana. Vísindamenn hafa nú sagt okkur, svo ekki verður um deilt, að við höfum rétt um áratug til þess að breyta hegðun okkar svo munar. Ellegar munu milljónir manna láta lífið, lífríkið verða fyrir óafturkræfum skaða og lífsgæði okkar allra minnka til muna. En þetta þarf ekki að gerast og ég hef trú á því að ykkar kynslóð muni tryggja að við snúum til betri vegar. Þið getið lagt ykkar af mörkum meðal annars með því að vera meðvituð um eigin neyslu en líka með því að vera óhrædd að láta rödd ykkar heyrast. Ykkar framtíð er að veði.

Virðið hvert líf

Engin manneskja er meira virði en önnur. En því miður er misréttið víða svo mikið. Átta efnamenn eiga til dæmis samanlagt meira fé en helmingur mannkyns. Forstjórar stórfyrirtækja greiða sér gjarnan laun sem eru 800 – 1100 sinnum hærri en lægstu laun og segjast á sama tíma ekki geta greitt starfsfólki sínu laun sem duga fyrir lágmarksframfærslu. Þið gangið daglega framhjá fólki sem hefur misst allt sitt og býr nú í vonleysi á götunni, oft vegna þess að það fékk ekki hjálp með sín andlegu veikindi. Börn á flótta undan stríði og loftslagsbreytingum eru tekin frá foreldrum sínum og sett í einhverskonar fangelsi. Það er einfaldlega ekkert eðlilegt við neitt af þessu og ég bind vonir til þess að ykkar kynslóð sjái það betur en sú blinda sem nú er við völd. Verið hugrökk og látið í ykkur heyra og til ykkar taka. Standið upp fyrir þá sem eiga sér enga talsmenn, berjist fyrir jafnrétti fyrir alla og sýnið hverri manneskju virðingu og hlýju.

Axlið ábyrgð

Í flóknum heimi, þar sem margt er brotið, er auðveldast að standa bara á hliðarlínunni. Ég bið ykkur um að gera það ekki. Þar eru alltof margir nú þegar. Komið inn á völlinn og takið þátt í að búa til það samfélag sem ykkur dreymir um. Heimurinn er ykkar og hann þarf á ykkar seiglu, lífsýn og krafti að halda. Veljið að lifa og starfa til góðs og hamingjan mun elta ykkur á röndum.

Hafið gaman

Mögulega eru þetta heldur alvarleg mál, fyrir tvo unglinga að melta, en ég veit að þið ráðið við þau. En mikilvægast af öllu er samt að hafa gaman af þeim verkefnum sem þið takið ykkur fyrir hendur. Lífið mun ávallt færa okkur fullt af áskorunum, við stjórnum því ekki, en við stjórnum okkar eigin viðbrögðum. Veljið gleði, veljið hamingju, verið forsetar í eigin lífi.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki