fbpx
Mánudagur 25.janúar 2021
Fókus

Katrín sagði frá kynferðisofbeldi og var rekin: „Ég starði út í loftið, uppgefin á sál og líkama“

Björn Þorfinnsson
Mánudaginn 22. október 2018 19:50

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég var búin að gefast upp og ætlaði að skrifa undir starfslokasamninginn. Samning sem mér fannst óréttlátur og í raun meiðandi. Ég gat ekki meira. Þá kom skyndilega upp málið í Orkuveitu Reykjavíkur. Í kjölfar þess ákvað ég að berjast, sama hverjar afleiðingarnar yrðu. Ég settist niður með þrettán ára dóttur minni og fór yfir málið með henni. Ég vil að hlutirnir verði breyttir þegar dóttir mín fer út á vinnumarkað,“ segir Katrín Ingibjörg Kristófersdóttir í samtali við DV.

Katrín segir að henni hafi verið nauðgað af samstarfsmanni hjá Fjársýslu ríkisins í mars í fyrra. Maðurinn þvertekur fyrir að hafa brotið á Katrínu. Málið var ekki kært en Katrín hafði sínar ástæður fyrir því. Maðurinn valdi að tjá sig ekki tjá við DV. Katrín er einstæð tveggja barna móðir og menntaður viðskiptafræðingur. Hún hafði starfað hjá Fjársýslunni í rúmt ár þegar lífi hennar var umturnað. Í kjölfar þess að hún upplýsti yfirmenn sína um hvað hefði gerst var samstarfsmanni hennar gefinn kostur á að segja upp störfum. Í upphafi taldi Katrín að stutt yrði við bakið á henni til að vinna úr áfallinu. En annað átti eftir að koma á daginn. Núna, rúmu einu og hálfu ári síðar er búið að segja henni upp störfum vegna heilsubrests. Henni er boðinn starfslokasamningur sem inniheldur ákvæði um lausnarlaun; ákvæði úr kjarasamningum sem aðeins er beitt þegar starfsfólk á við alvarleg veikindi að stríða og á vart endurkvæmt í vinnu.

Ólögleg uppsögn

Í uppsagnarbréfi Katrínar er ákvörðun Fjársýslu ríkisins meðal annars rökstudd með því að ekki hafi borist andmæli frá Katrínu. Það er rangt. Lögfræðingur FHSS, Félags háskólamenntaðra starfsmanna stjórnarráðsins, sem er aðildarfélag í Bandalagi háskólamanna hjá BHM, stéttarfélagi háskólamenntaðra á vinnumarkaði, fundaði með Kjara- og mannauðssýslu ríkisins og á þeim fundi var ákveðið að Kjara- og mannauðssýsla ríkisins myndi beina þeim tilmælum til Fjársýslunnar að semja við Katrínu. Fjársýsla ríkisins kaus hins vegar að fara ekki eftir þessum ráðleggingum og heldur uppsögninni til streitu.

DV hefur undir höndum uppsagnarbréf Katrínar, sem er dagsett 10. október, þar sem segir orðrétt: „26. september var þér tilkynnt um fyrirhugaða lausn frá störfum vegna langvarandi veikinda og þér veittur andmælaréttur við fyrirhugaða ákvörðun. Þar sem andmæli bárust ekki má af því ráða að þú sért enn óvinnufær vegna veikinda og fyrirséð að svo verði um óákveðinn tíma. Af þeirri ástæðu leysir Fjársýsla ríkisins þig frá störfum frá og með dagsetningu þessa bréfs.“

Katrín hafði sjö daga til að mótmæla þessari ákvörðun og var þeim komið á framfæri í byrjun mánaðarins. Ekki er tekið tillit til þess. DV hefur einnig rætt við samstarfsmenn og fólk sem stendur Katrínu nærri sem hefur staðfest frásögn hennar. Katrínu er lýst sem hörkuduglegri, hún sé afar samviskusöm og metnaðarfull kona sem hafi fyrst mátt þola ofbeldi og svo í kjölfarið hafi yfirmenn brugðist henni. Á þessu eina og hálfa ári hélt Katrín dagbók og skráði samviskusamlega það sem átti sér stað frá því að hún tilkynnti samstarfsmann sinn til yfirmanna og þangað til hún fékk uppsagnarbréfið.

Leiðin til baka fyrir Katrínu hefur verið löng og ströng. Nú segir hún sögu sína í þeirri von að aðrar konur lendi ekki í sömu martröð. Er það von Katrínar að dreginn verði lærdómur af sögu hennar. Katrín vill réttlæti. Hún vill einnig að stofnunin læri af mistökum sínum og lagfæri þau en líkt og komið hefur fram frá Kjara- og mannauðssýslu ríkisins eru ráðleggingar þeirra algjörlega hundsaðar af yfirmönnum Katrínar.

Happy-hour varð að martröð

Þann 24. mars 2017 ákvað hópur starfsmanna Fjársýslunnar að gera sér glaðan dag á happy-hour á bar nærri vinnustaðnum. Katrín fór sjálfviljug heim með samstarfsmanni sínum. Það hafði gerst áður.

„Við höfðum hist nokkrum sinnum áður, fyrir þetta kvöld. Á þeim tíma hafði ég ekki hugmynd um að hann væri að sofa hjá annarri samstarfskonu minni en frétti nokkru áður að hann ætti kærustu úti á landi. Hann faldi það fyrir öllum vinnufélögum og á samfélagsmiðlum var ekki annað að sjá en að hann væri einhleypur,“ segir Katrín.

Eitt leiddi af öðru þegar heim var komið og Katrín og samstarfsmaður hennar hófu að stunda kynlíf með fullu samþykki Katrínar. Skyndilega breyttist viðmót mannsins að sögn Katrínar og hann gerðist harðhentur og fór langt út fyrir þau mörk sem Katrín gat hugsað sér. Segir Katrín að samstarfsmaðurinn hafi nauðgað henni. Hún ber enn merki líkamlega eftir eftir þessa nótt.

„Ég var gjörsamlega niðurbrotin. Það sem var verst var að ég skammaðist mín svo hrikalega. Að ég skyldi hafa hleypt þessum manni nálægt mér og hunsað viðvörunarbjöllurnar,“ segir Katrín. Hún er því miður vön því að takast á við stór áföll í lífi sínu. Hún missti ung föður sinn og þegar hillti undir lok grunnskólagöngunnar lenti hún í alvarlegu umferðarslysi og var vart hugað líf. Í 10. bekk var henni ekið um í hjólastól og þurfti síðan að læra að ganga upp á nýtt. Fyrir nokkrum árum missti hún síðan bróður sinn úr ofneyslu fíkniefna. „Ég hef alltaf verið sterk og sjálfstæð. Þegar ég hef lent í áföllum þá hef ég í raun sett á mig grímu, látið sem ekkert væri og komist í gegnum hlutina á hnefanum. Í gegnum tíðina hef ég því sett upp margar grímur og ég ætlaði að tækla þetta eins. Láta sem ekkert væri, ekki sýna nein veikleikamerki og aldrei sýna ofbeldismanninum að hann hefði náð að særa mig. Ég ætlaði að fara þetta á reiðinni,“ segir Katrín.

Hún tórði út vikuna en á föstudeginum brotnaði hún niður. Þá sagði hún náinni samstarfskonu frá því hvað hefði gerst. Daginn eftir fór hún upp á Neyðarmóttöku nauðgana í viðtal og skoðun. Það hefur DV fengið staðfest frá lögfræðingi Katrínar.

„Ég var enn með áverka. Ég var í raun viss um að hann hefði eyðilagt eitthvað,“ segir Katrín. Tekin voru sýni og myndir. Að lokum fékk Katrín áverkavottorð. Hún hefur þó ekki enn treyst sér til að kæra manninn og málið því aldrei rannsakað.

Í samráði við sálfræðing Neyðarmóttökunnar ákvað hún að tilkynna um málið til Péturs Ó. Einarssonar, starfsmannastjóra Fjársýslunnar.

„Við hittumst í hljóðeinangruðu fundarherbergi og þar brotnaði ég niður tvisvar sinnum áður en ég gat byrjað að lýsa atburðarásinni,“

segir Katrín. „Þegar ég var búin að létta þessu af mér spurði Pétur hvort ég vildi afsökunarbeiðni frá geranda. Ég hváði, eðlilega, og sagði honum þá skoðun mína að manninum væri ekki stætt lengur á vinnustaðnum. Það væri annaðhvort hann eða ég,“ segir Katrín. Kvaðst starfsmannastjórinn ætla að skoða málið og láta hana vita ef til aðgerða yrði gripið.

Tveir valkostir

Daginn eftir var meintur gerandi kallaður inn á fund til starfsmannastjórans. Þar var honum tjáð að nafnlaus kvörtun um hátterni hans hefði borist. Fékk  hann tvo valkosti. Að sættast á uppsögn eða að farið yrði í hart við hann.  Tilkynnti hann samstarfsmönnum sínum að hann hefði sagt upp sjálfviljugur og að hann ætti einungis eftir að vinna næstu þrjá daga.

„Ég fór að hágráta þegar samstarfskona mín tilkynnti mér hvað hefði gengið á,“ segir Katrín og bætir við:

„Þetta var léttir en að sama skapi varð ég hrædd. Ég vildi ekki vera á staðnum á meðan hann ynni uppsagnarfrestinn og þar sem páskarnir gengu í garð þá sneri ég ekki til vinnu fyrr en um tveimur vikum síðar.“

 „No hard feelings hérna megin“

Þegar Katrín mætti til vinnu eftir páskana beið eftir henni tölvupóstur frá meintum geranda. Katrínu var brugðið þegar hún opnaði hann og fannst óhugnanlegt að lesa skilaboðin.

„Hann hafði sent póstinn bara nokkrum mínútum eftir uppsögnina. Titillinn var „No hard feelings hérna megin“ og í meginmálinu skrifaði hann eingöngu:

„Með þökkum fyrir samstarfið og vináttuna,“

segir Katrín og viðurkennir að henni hafi verið brugðið.

Á þessum tímapunkti var hún þakklát yfirmönnum sínum fyrir að taka fast á málunum. „Metoo-byltingin var ekki hafin og mér fannst ekki sjálfsagt að þetta yrði niðurstaðan. Ég gerði jafnvel ráð fyrir því að ég þyrfti sjálf að hætta,“ segir Katrín. Hún hafi farið nokkru síðar inn á skrifstofu Ingþórs Karls Eiríkssonar fjársýslustjóra til þess að þakka honum fyrir úrvinnsluna en segist hafa fengið yfir sig reiðilestur um að hún þyrfti að gæta að hegðun sinni í vinnunni, hvað hún segði og gerði. Í kjölfarið hafi þessi æðsti yfirmaður hennar orðið kuldalegur og fjarrænn í samskiptum við hana og gætt þess að þau yrðu eins takmörkuð og hægt væri.

Í dagbók sinni um upplifun sína segir Katrín:

„Ingþór horfði á mig og sagði með vanþóknunarsvip „af hverju ætti ég að vilja hafa mann í vinnu sem gerir eitthvað sem að ég fyrirlít!“ Hann hélt svo ræðu yfir mér um það að ég þyrfti að fara að passa mína hegðun. Hvað ég segði og gerði. Ég varð svo kjaftstopp að ég sat bara þarna með tárin í augun og gat ekkert sagt.

Sífellt á sýklalyfjakúrum 

Um miðjan maí fór Katrín að finna fyrir ýmsum líkamlegum óþægindum. Þrýstingsverk í andliti og höfði auk langvarandi sýkinga í augum, nefi og kinnholum. Í fyrstu var talið að hún væri að glíma við einhvers konar ofnæmi. Nú eru læknar á annarri skoðun. Talið er að um afleiðingar áfallastreitu sé að ræða.

„Ég man ekki hversu marga sýklalyfjakúra ég fór á,“ segir Katrín. „Ég var á sterakúr í um sex vikur og var á alls konar lyfjum. Ég var með hitavellu í marga mánuði og svaf nánast ekkert. Sumarfríinu eyddi ég uppi í sófa sárkvalin.“ Þennan tíma var hún aðframkomin í vinnunni og upplifði mikla vanlíðan. Varð það til þess að hún endurupplifði það sem hafði átt sér stað þegar hún sá nafn mannsins á hinum ýmsu skjölum og tölvupósti sem hún neyddist til að meðhöndla vinnu sinnar vegna.

Í dagbók sinni segir Katrín:

„Ég mætti í vinnuna veik. Enginn af næstu þremur yfirmönnum mínum, Vilhjálmur, Pétur eða Ingþór pældu í því þó að það sæist langar leiðir að ég var fárveik.“

Upplifði ekki stuðning yfirmanna 

Katrín fékk heiftarlegt ofnæmi.

Í lok nóvember fór Katrín í leyfi vegna langtímaveikinda eftir að vinkona hennar hafði í raun sett henni stólinn fyrir dyrnar. „Hún bauð mér í heimsókn og fékk áfall þar sem ég starði út í loftið, gjörsamlega búin, uppgefin á sál og líkama. Í kjölfarið fór ég að reyna að leita mér lækninga,“ segir Katrín.

Að hennar sögn upplifði hún það sterkt að hún hefði ekki stuðning yfirmanna Fjársýslunnar í baráttu sinni. „Það var látið greinilega í ljós með ýmsum athugasemdum. Á árshátíð í Stykkishólmi gekk ég skyndilega frá samræðum til þess að fara að veipa og þá spurði fjársýslustjóri mig hvort mig vantaði athygli núna. Þá bauð móðir mín mér og börnunum í afslöppunarferð til Kanaríeyja um jólin þegar ég var í veikindaleyfi. Þá var skráð á mig orlof og gefið í skyn að ég gæti allt eins mætt til vinnu eins og fara í frí. Það var þó leiðrétt eftir að ég gerði athugasemd við það. Ég get nefnt mörg önnur dæmi,“ segir Katrín.

Neitað um aðstoð við sálfræðikostnað

Í byrjun janúar 2018 hóf Katrín aftur störf hjá Fjársýslunni en þá aðeins í hálfu starfi. Verkefnin höfðu hrannast upp og hún upplifði mikinn þrýsting um meira vinnuframlag en ákveðið hafði verið þegar hún sneri aftur. Skömmu síðar byrjuðu líkamlegu einkennin að láta á sér kræla að nýju og í lok janúar neyddist Katrín til að fara aftur í veikindaleyfi.

Næstu mánuði var Katrín í afar slæmu andlegu ástandi. „Ég var mjög langt niðri en reyndi mitt ýtrasta til þess að ná bata,“ segir hún. Í febrúarlok fékk hún skilaboð þess efnis frá Pétri starfsmannastjóra að hún ætti lítið eftir af veikindarétti sínum. „Ég óskaði eftir því að fá 13 vikur aukalega vegna starfstengds sjúkdóms en því var hafnað. Því var sömuleiðis hafnað að aðstoða mig varðandi kostnað við sálfræðiþjónustu,“ segir Katrín sem fundaði með stéttarfélagi sínu vegna málsins.

Alls var Katrín í launalausu veikindaleyfi í 225 daga. Um sumarið fór hún með vinkonu sinni til Balí og var sú ferð hugsuð til að styrkja hana andlega og ná heilsu á ný. „Skömmu áður höfðu mér borist skilaboð frá Pétri starfsmannastjóra um að ég hefði frest til 1. september til að snúa aftur til vinnu og að það væri ófrávíkjanlegt skilyrði að það yrði 100% starfshlutfall,“ segir Katrín.

Í dagbók Katrínar frá lok janúar 2018 segir:

„Líkamleg einkennin komin á fullt aftur, hiti, þrýstingur í höfði, svefnleysi. Ég fór aftur í veikindaleyfi.“

Í dagbók Katrínar um miðjan mars 2018 segir:

„Verkefnastjórinn minn bað mig að koma við og setja fjarvistartilkynningu á tölvupóstinn minn og ég sagði honum að ég myndi koma við þegar að flestir væru farnir. Þegar að ég ætla svo að fara inn í FJS þá var búið að aftengja aðgangskortið mitt. Verkefnastjórinn minn varð miður sín.“

Martröð í Paradís

Balíferð Breyttist í martröð vegna náttúruhamfara.

Balíferð Katrínar, sem átti að vera eins konar upphaf að betri heilsu hennar, breyttist þó í martröð. Vinkonurnar voru staddar nærri Lombok-eyju þegar afar öflugur jarðskjálfti, 7 á Richterkvarða, gekk yfir. Þak hótelsins sem þær dvöldu á hrundi niður og allt var á tjá og tundri. „Þetta var algjör hryllingur. Eyðileggingin var algjör og við sáum lík fólks borin fram hjá okkur,“ segir Katrín.

Þegar heim var komið óskaði hún eftir því að fá að hefja störf aftur 1. október enda hefði áfallið ytra haft slæm áhrif á heilsu hennar. Það kom ekki til greina af hálfu Fjársýslunnar og það þrátt fyrir að trúnaðarlæknir stofnunarinnar hefði metið Katrínu með fjölþætta áfallastreitu og að hún væri engan veginn hæf til þess að vinna 100% vinnu. „Í kjölfarið hringdi starfsmannastjórinn í mig og bað mig afsökunar á því hvernig hann hefði meðhöndlað mín mál.“

Í dagbók Katrínar frá 5. september 2018 segir:

„Hitti Teit trúnaðarlækni sem sagði að ég væri klárlega ekki starfshæf. Ég væri augljóslega með fjölþætta áfallastreitu (c-ptsd) […] Hann sagði að honum þætti þetta mál mjög furðulegt. Starfsmenn væru ekki settir á lausnarlaun nema að þeir væru dauðvona eða væru að fara á örorku. Þeir starfsmenn sem færu á lausnarlaun væru merktir óstarfhæfir í kerfum hjá ríkinu og ég myndi aldrei aftur fá starf sem ríkisstarfsmaður. […] Honum fannst mjög óeðlileg krafa að ég kæmi í 100% starf eftir svona langa fjarvist og sagði að eðlilegast væri að leyfa mér að koma í hlutastarf.“

Katrín segir: „Hann sagðist ætla að leggja tvennt til við Pétur. Að annaðhvort fengi ég að koma inn í hlutastarf eins og eðlilegt væri eða að gerður yrði við mig almennilegur starfslokasamningur. Hann spurði mig tvisvar sinnum hvort að Pétur þekkti þau smáatriði sem ég sagði honum og ég játti því.“

Fyrir framtíðina „Ég vil að hlutirnir verði breyttir þegar dóttir mín fer út á vinnumarkað.”

Katrín segir að læknirinn hafi rætt við Pétur sem hafi áttað sig á að hann hefði gert mistök. Bætir Katrín við að í kjölfarið hefði Pétur boðið henni starfslokasamning og meðmælabréf frá stofnuninni. „Ég var nálægt því að ganga að þessu tilboði. En ég er fegin að ég gerði það ekki því að ég hefði aldrei orðið sátt við sjálfa mig. Mér var nauðgað af samstarfsmanni mínum og taldi að ég fengi stuðning yfirmanna stofnunarinnar. Þess í stað fann ég kyrfilega fyrir því að það var talið að ég væri með vesen og að ég væri að svíkjast um.“

Eins og bent hefur verið á hafa mörg mistök verið gerð á þeim tíma frá því að Katrín tilkynnti meint ofbeldi til yfirmanna. Fjársýslunni hefur verið bent á af lækni og síðan af Kjara- og mannauðssýslu hver væru hin réttu mannúðlegu skref, fyrir utan að andmælaréttur hennar er ekki tekinn til greina.

Enn er mögulegt að grípa inn í. Það getur Pétur sjálfur gert sem og ráðuneytið sé vilji til þess. Katrín hefur þurft að leggja út mikla fjármuni vegna veikinda sinna. Sálfræðihjálp hefur hún ekki fengið. Þegar Katrín hitti blaðamenn í fyrsta sinn var hún spurð hvort hún treysti sér til að segja sögu sína undir nafni og mynd. „Ég vil ekki vera einhver nafnlaus kona út í bæ. Þá missir umfjöllunin marks,“ svaraði Katrín. Leið Katrínar til baka hefur verið þyrnum stráð.

Hennar markmið er einfalt. Hún segir sögu sína til að draga úr líkum á því að aðrar konur lendi í svipaðri aðstöðu. Að kerfið styðji við bakið á þolendum og dragi lærdóm af þeim mistökum sem hafa verið gerð. Nú er kerfið í hlutverki ofbeldismannsins. Katrín segir:

„Ég er enn í lausu lofti. Yfirmenn mínir, sem að mínu mati hafa beitt mig andlegu ofbeldi undanfarna 18 mánuði, stjórna samningum og vilja knýja mig til þess að undirrita samning um starfslok sem mér finnst óásættanlegur. Það hefur verið illa staðið að mínum málum og ég vona að saga mín verði til þess að alvarleg mál sem þessi verði meðhöndluð af fagmennsku og hlýju. Ég vil að hlutirnir séu breyttir þegar 13 ára dóttir mín fer út á vinnumarkaðinn.“

Svar Péturs

DV óskaði eftir viðbrögðum frá Fjársýslu ríkisins vegna málsins. DV sendi Pétri Ó Einarssyni 13 spurningar. Var Pétur spurður hvort rétt hefði verið tekið á málinu og hvort hægt hefði verið að gera betur. Af hverju ekki væri tekið mark á trúnaðarlækni og af hverju ekki væri farið eftir ráðleggingum frá Kjara- og mannauðssýslu ríkisins. Svar Péturs var eftirfarandi:

„Fjársýsla ríkisins getur ekki lögum samkvæmt fjallað um málefni einstakra starfsmanna sinna, en vill koma eftirfarandi á framfæri vegna fyrirspurnar blaðamanns DV. Stofnunin starfar eftir þeim lögum, reglum og stefnu sem sett er. Í stefnu Fjársýslunnar segir meðal annars að starfsmenn sýni samstarfsfólki sínu kurteisi og virðingu í samskiptum þar sem einelti og kynferðisleg áreitni er undir engum kringumstæðum umborin á vinnustöðum stofnunarinnar. Stefnu Fjársýslunnar varðandi einelti og kynferðislegt ofbeldi má sjá á heimasíðu hennar.

Fjársýslan hefur ætíð reynt að bregðast við og styðja starfsfólk sitt vegna áfalla sem þeir [sic] verða fyrir utan vinnustað og hafa bein áhrif á starfsmanninn. Fjársýslan virðir og fer eftir sem áður fram með góðu fordæmi þegar kemur að kjarasamningum starfsmanna ríkisins.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Áströlsk sjónvarpsstjarna setti netið á hliðina – Er kjóllinn blár eða hvítur?

Áströlsk sjónvarpsstjarna setti netið á hliðina – Er kjóllinn blár eða hvítur?
Fókus
Fyrir 2 dögum

Marta María og Páll Winkel setja glæsihýsið á sölu fyrir 120 milljónir

Marta María og Páll Winkel setja glæsihýsið á sölu fyrir 120 milljónir
Fókus
Fyrir 4 dögum

Kennir Elon Musk um að hún sé sífellt að keyra yfir kettina sína – „Þú skuldar mér nokkra ketti“

Kennir Elon Musk um að hún sé sífellt að keyra yfir kettina sína – „Þú skuldar mér nokkra ketti“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Hildur Lilliendahl gerir lítið úr klæðaburði Sunnevu Einars – „Viltu klæða þig, barn“

Hildur Lilliendahl gerir lítið úr klæðaburði Sunnevu Einars – „Viltu klæða þig, barn“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Íbúar „kynlífshúss“ segja að Covid sé að eyðileggja orgíurnar

Íbúar „kynlífshúss“ segja að Covid sé að eyðileggja orgíurnar
Fókus
Fyrir 5 dögum

Algeng lygi úr svefnherberginu sem „er skaðleg konum“

Algeng lygi úr svefnherberginu sem „er skaðleg konum“