„Þegar dóttir mín fæddist heyrði hún lagið Glósóli á fyrsta hálftíma ævi sinnar og síðan þegar sonur minn fæddist heyrði hann Hoppípolla á fyrsta klukkutímanum. Það var ómetanlegt. Þess vegna lét ég flúra nöfn barnanna minna og texta þessara laga á hálsinn á mér,“ segir Madison Van Bennekom frá Ástralíu sem skilgreinir sig sem aðdáanda Sigur Rósar númer 1. Madison tók þá ákvörðun að láta flúra sig með minnismerkjum og textabrotum hljómsveitarinnar. Til stendur að bæta við fleirum.
Fyrstu kynni Madison af hljómsveitinni var árið 2008 á tónlistarhátíðinni Splendour in the Grass í Ástralíu. „Ég var að skoða þau númer sem voru á leið til Ástralíu og ég man eftir að hafa séð undarlega útihúfu á einni ljósmynd bandsins, sem leit næstum því út eins og álfahúfa. Eftir því sem ég kynnti mér Sigur Rós meira varð ég alveg dolfallinn. Þetta varð fljótt að þeirri hljómsveit sem ég hlakkaði mest til að sjá á þeirri tónlistarhátíð og ég felli yfirleitt tár þegar ég hlusta á Jónsa, hvernig hann nær tónhæðinni og nær að halda henni í heila eilífð,“ segir Madison og bætir við að ekki hafi orðið úr þeirri tónleikaheimsókn vegna ófyrirsjáanlegra atburða. Það þótti honum miður og þráir hann að sjá þá einn daginn á sviði.
„Ég reyndi að sjá Jónsa og félaga á annarri Splendour-hátíð í Woodford og kíkja á bandið. Það gekk heldur ekki eftir. Þetta er einhver bölvun. Í hvert skipti sem þeir eru að spila í Ástralíu enda ég í einhverri klípu og næ aldrei að sjá þá út af einhverju drama í mínu lífi. Það eru margar hæðir og lægðir í mínu lífi og Sigur Rós er það sem ég gríp til, hvort sem ég er sæll eða sár. Sigur Rós er minn friður.“
Madison tekur fram að lagið Glósóli hafi verið spilað í brúðkaupi hans og var það annar kveikiþráðurinn að því að fá texta lagsins flúraðan á búkinn. „Það stendur einnig til þess að fá mynd af umslagi Takk einhvers staðar á líkamann. Ég vil líka fá textann við Hoppípolla flúrað hinum megin á skrokkinn á næstunni.
Ég er nokkuð viss um að ég hafi hlustað á Sigur Rós á hverjum einasta degi síðastliðin tíu ár. Ég hef horft á öll tónlistarmyndböndin þeirra. Það er ekkert við þessa hljómsveit sem ég kann ekki að meta, jafnvel þótt ég skilji ekki textana og nái ekki mörgum hljómunum tekst mér að koma með eigin túlkun og tilfinningar í hvert lag og mér finnst það betra þannig. Ég get fundið hvaða leið sem er til að tengjast því sem ég elska.“
Að sögn aðdáandans er varla til betri tilfinning en að skella laginu Olsen Olsen í gang á YouTube og fylgjast með áhorfendum í tónlistarmyndbandinu. „Það er eitthvað svo fallegt að sjá svona margt fólk, sem veit varla hvað það er að horfa á, en það finnur samt leið til þess að njóta sín með svona fallegri hljómsveit, líðandi eins og það sé einhvers staðar úti í eyðilandi,“ segir hann.
Madison segist tvímælalaust ætla að spila lagið Festival ef hann eignast annað barn og segir að það sé fullkomið lag fyrir tilefnið þegar nýr einstaklingur er boðinn velkominn í heiminn, „sérstaklega minn heim,“ bætir hann við.