fbpx
Þriðjudagur 16.apríl 2024
Fókus

Hvað er það við Jordan Peterson sem heillar fólk upp úr skónum?: „Hann segir hluti sem þörf er á að segja“

Margrét Gústavsdóttir
Miðvikudaginn 16. maí 2018 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Taktu til í herberginu þínu! Vertu eins og humar!

– Hvaða rugl er þetta eiginlega? Ef þú hefur aldrei heyrt um Jordan Peterson og kenningar hans þá hljóma þessir frasar eins og algjör vitleysa enda er fullorðið fólk flest með íbúðir en ekki herbergi og til hvers í ósköpunum ætti maður að vilja vera eins og humar?

Gunnlaugur var fljótur að fatta Jordan Peterson og fá hann til Íslands.

Þessu er í raun ekki hægt að svara í stuttu máli og í raun er best að láta Jordan Peterson um það sjálfan, til dæmis með því að lesa bókina Tólf lífsreglur, mótefni við glundroða, – eða með því að kíkja á YouTube hvar hann sló í raun fyrst í gegn með fyrirlestrum sínum. Á örfáum mánuðum hefur þessi umdeildi kanadíski sálfræðiprófessor og rithöfundur rokið upp stjörnuhimininn, svo hátt að sumir hafa kallað hann fyrsta hugsuðinn sem nær rokkstjörnu status á netinu.

Þegar Gunnlaugur Jónsson, framkvæmdastjóri, kynntist kenningum Petersons var hann fljótur að átta sig á að þarna væri spennandi maður á ferð. Eitt leiddi af öðru og innan tíðar var hann búinn að skipule+65ggja komu Petersons til Íslands, en hann verður með fyrirlestra í Hörpu 4. og 5. júní nk.

Fyrst um sinn reiknaðir þú með að það þyrfti minni sal í Hörpu, fjótlega kom í ljós að hann dugði ekki til og nú er að seljast upp á auka fyrirlestur. Hvað heldur þú að hafi kveikt á þessum mikla áhuga á manninum?

„Já, þetta er merkilegt. Ég vonaðist eftir því að ná kannski 200 manns á fyrirlesturinn en svo seldist upp í 300 manna sal, og svo aftur í allt Silfurbergið sem tekur 800 manns. Þá bættum við við aukaviðburði sem er að seljast upp á en það segir okkur að um hálft prósent þjóðarinnar mun mæta til að hlusta á hann,“ segir Gunnlaugur glaður í bragði.

„Ég held að vinsældir hans megi rekja til þess að hann segir hluti sem þörf er á að segja. Ég er ekki viss um að hann hefði orðið svona frægur á skömmum tíma fyrir tíu eða tuttugu árum. Pólitískur rétttrúnaður er kominn út í dálitlar öfgar og það hefur myndast veruleg þörf á að rétta þetta af. Jordan Peterson gerir það líka svo vel, því hann er hófstilltur og sanngjarn og hefur rannsakað og barist gegn öfgakenningum. Hann er því miklu meiri ógn við rétttrúnaðinn en einstaklingar sem auðveldara væri að rægja með stimplum sem öfgamenn. Nútímatækni tvinnast líka inn í þetta. Það kemur í ljós að fjöldi fólks horfir á Youtube og sér þar efni sem kannski hefur ekki verið áberandi á Íslandi. Og svo má líka nefna að tímasetningin er góð. Peterson gaf út bókina 12 lífsreglur, mótefni við glundroða, sem er á toppi metsölulista og var t.d. í frægu viðtali við Cathy Newman í Bretlandi í byrjun árs, en við byrjuðum að selja miða og kynna hann hér í lok síðasta árs.“

Nú virðast margir álykta sem svo að Peterson setji karla skör ofar en konur og skiljanlega fer þetta í taugarnar á fólki. Hvernig heldur þú að standi á því að fólk sé svo gjarnt á að túlka skoðanir hans með neikvæðum kynjagleraugum?

„Ég held að það sé einfaldlega gert til að rægja hann og hans skoðanir. Það er látið eins og hann sé neikvæður gagnvart hópum fólks til þess að þurfa ekki að takast á við skoðanir hans. Og að einhverju leyti virkar það gagnvart þessum hópum, t.d. hjá femínistum sem fá þessar ranghugmyndir frá öðrum femínistum og hlusta þá ekki á hann sjálfan,“ segir Gunnlaugur og bætir við að kenningarnar nái nú samt sem áður í gegn:

„Fólk sem hlustar á hann áttar sig fljótt á að þetta er allt saman rógur. Hann hefur verið kallaður Hitler en stór hluti af starfi hans hefur gengið út á að rannsaka sálfræði öfgakenninga eins og nasisma í því skyni að berjast gegn þeim. Þannig að áróðurinn gegn honum virkar ekki og beinlínis gerir þá sem lepja svona vitleysu upp ómerka. Eða eins og Lilja prinsessa sagði í Stjörnustríði við Tjörva stórmoffa:

„Því fastar sem þið herðið gripið, þeim mun fleiri sólkerfi munu sleppa á milli fingra ykkar.“

Því meira sem sagt er ósatt um hann, því minna mark er tekið á þeim sem þannig tala,“ segir hann og rekur um leið ástæðu þess að Peterson á sér marga aðdáendur meðal karla meðal annars til þess að karlar séu almennt iðnari við að hlusta á fyrirlestra á Youtube:

„Kynjamunurinn í aðdáendahópnum hefur minnkað að undanförnu, kannski vegna þess að hann gaf bókina út og varð frægari í öðrum fjölmiðlum. Mér skilst að konur séu duglegri að lesa bækur en karlar. Og Peterson á sannarlega marga kvenaðdáendur sem tala um að boðskapur hans og lífsráð hjálpi þeim alls ekki síður en körlum. Þegar maður hugsar um það, þá er það alveg rétt. Ég hef t.d. lesið bókina hans, 12 lífsreglur, og get ekki fyrir nokkra muni séð hvers vegna hún ætti síður að eiga erindi og vera hrífandi fyrir konur.“

Finnst þér sem áhrifa af kenningum Petersons gæti víða í samfélaginu?

„Ég er alltaf að rekast á fólk sem hefur hlustað mikið á hann, já. Boðskapur hans er fyrst og fremst að fólk eigi að taka til í sínu eigin lífi. Áhrifin eru þannig ekki mjög áberandi fyrst en því fleiri sem taka til í lífi sínu, þeim mun meiri  verða áhrifin. Þjóðfélagið hefur jú gott af því að sem flestir axli ábyrgð á lífi sínu og smiti út frá sér.“

Hér má sjá Jordan Peterson í stuði að fjalla um tenginguna milli greindarvísitölu og atvinnulífsins:

Finnst þér áherslur hans hafa breyst eitthvað eftir að hann skaust svona hratt upp a stjörnuhimininn?

„Ekki í megindráttum. Maður sér hann samt laga röksemdafærslurnar sínar pínulítið með tímanum. Það er styrkleiki, finnst mér. Hann er bara að leita að sannleikanum og það oft í flóknum og erfiðum málum. Þannig að það er eðlilegt að skoðanir manns þróist eitthvað.“

Eru einhverjir fyrirlesarar eða rithöfundar sem hafa haft svipaðar kenningar í frammi, og ef svo, hvaða fólk er það?

„Já. Margt sem Peterson fjallar um eru ekki einu sinni hans kenningar, heldur kenningar og vísindarannsóknir annarra. Ég myndi vilja nefna t.d. Jonathan Haidt, sem talar um persónuleikamismun á milli fólks með mismunandi stjórnmálaskoðanir. Nassim Taleb sem fjallar um þekkingu og sannleik sem felst t.d. í trúarbrögðum, þótt sögur trúarbragðanna þurfi ekki að vera bókstaflega sannar. Roger Scruton sem er á svipaðri línu í fagurfræði og heimspeki. Thomas Sowell, sem er mjög vel að sér um stöðu kynjanna og minnihlutahópa og hefur verið kallaður mesti hugsuður nútímans (en hann er sjálfur svartur á hörund). Af öðrum sem hafa fjallað um sálfræði Jungs og erkitýpur, má nefna, fyrir utan Jung sjálfan, Erich Neumann og Joseph Campbell. Peterson vísar oft til Jean Piaget og fleiri sálfræðinga. Viktor Frankl talaði líka mikið um ábyrgð í bók sinni Leitin að tilgangi lífsins. Og ástæðan fyrir því að ég hreifst fljótt af boðskap Petersons er meðal annars sú að ég skrifaði sjálfur bók um efnið sem kom út fyrir sex árum, þar sem finna má svipaða tóna og hjá honum.“

Hvað hafa selst margir miðar á fyrirlestrana?

„Þetta verða um 1700 miðar í allt, eða eins og ég sagði áður, um hálft prósent þjóðarinnar og nú styttist óðum í að það seljist upp á seinni fyrirlesturinn 5. júní. Miðana má finna á harpa.is. Þannig að ef fólk hefur áhuga þá er um að gera að drífa sig að kaupa miða. Jordan Peterson er sennilega áhrifamesti hugsuður í heimi í dag og frægð hans er enn að aukast.“

Mun hann árita bókina sína í Hörpunni?

„Já, sennilega fyrir fyrri fyrirlesturinn, 4. júní og eftir þann seinni, 5. júní. Hún verður komin út á íslensku.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Helsta ráð eftirsóttu karlkyns klámstjörnunnar

Helsta ráð eftirsóttu karlkyns klámstjörnunnar
Fókus
Fyrir 4 dögum

Einkaþjálfari tekinn á teppið fyrir framkomu sína – Birti sjálf myndbandið sem kom upp um hana

Einkaþjálfari tekinn á teppið fyrir framkomu sína – Birti sjálf myndbandið sem kom upp um hana
Fókus
Fyrir 5 dögum

Edda Lovísa um áhrifin sem það hafði á sambandið þegar hún og kærastinn hættu að horfa á klám

Edda Lovísa um áhrifin sem það hafði á sambandið þegar hún og kærastinn hættu að horfa á klám
Fókus
Fyrir 5 dögum

Barkley skaut fast á sólmyrkvaáhorfendur – „Ég ætla ekki að sitja úti eins og hálfviti og bíða eftir myrkrinu“

Barkley skaut fast á sólmyrkvaáhorfendur – „Ég ætla ekki að sitja úti eins og hálfviti og bíða eftir myrkrinu“