fbpx
Föstudagur 18.júlí 2025
EyjanFastir pennar

Óttar Guðmundsson skrifar: Margur verður af aurum api

Eyjan
Laugardaginn 21. júní 2025 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðný Böðvarsdóttir, ekkja Hvamm-Sturlu, fór ásamt ástmanni sínum Ara sterka Þorgilssyni í rómantíska skemmtiferð til Noregs í lok 12. aldar. Þau bárust mikið á enda voru auraráðin góð. Guðný og Ari voru nefnilega að eyða föðurarfi Snorra Sturlusonar sem hann fékk ekki greiddan við lát föður síns. Þessi Noregsferð hjónaleysanna endaði þó ákaflega illa.

Það er gömul saga og ný að fólki finnst ákaflega gaman að eyða annarra manna peningum. Þingmenn hafa skattfé almennings til ráðstöfunar og finnst sérlega skemmtilegt að veifa skúffupeningum framan í heiminn. Íslenska utanríkisþjónustan keypti á dögunum 363 fm íbúð í Osló fyrir 750 milljónir. Ríkmannleg umsvif utanríkisþjónustunnar á húsnæðismarkaði eru reyndar annáluð eins og allir vita sem hafa skoðað sendiherrabústaðinn í Berlín.

Dómsmálaráðherra leysti mál vararíkissaksóknara með því að setja hann á lögbundin eftirlaun í 9-10 ár án vinnuframlags. Þessi gjörningur kostar skattborgara landsins hátt í hálfan milljarð. Það vefst þó ekki fyrir stjórnmálamönnum landsins enda kemur hann ekki úr þeirra vasa.

Á hverju ári úthluta þingmenn íslenskum ríkisborgararétti til nokkurra útvalinna einstaklinga fram hjá eðlilegu stjórnkerfi. Íslenskt ríkisfang er mikils virði enda fylgir því ferðafrelsi og aðild að umfangsmikilli samtryggingu. Þingmenn umgangast þessi réttindi af fullkominni léttúð og deila út íslenskum vegabréfum eins og gjafaáskrift að Heimildinni. Enginn veit í raun hvaða reglum fylgt er en þarna eru stjórnmálamenn að útdeila miklum fjármunum að eigin geðþótta.

Ara Þorgilssyni varð hált á því að eyða erfðafé Snorra frænda míns enda kunni hann sér ekki hóf fremur en íslenskir pólitíkusar. Hann færðist allt of mikið í fang í aflraunakeppni með heimamönnum. Þeir höfðu rangt við og Ari stóð skyndilega einn undir ofurþunga heils siglutrés. Þetta varð hans bani svo að þessi rómantíska skemmtiferð þeirra hjónaleysa fékk dapurlegan endi. Margur verður af aurum api, stendur í Hávamálum. Það má heimfæra bæði á Ara sterka og þekkta stjórnmálamenn sem veifa kreditkortum þjóðarinnar framan í heiminn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Steindautt samband

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Steindautt samband
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Skortur á manngildishugsjón

Björn Jón skrifar: Skortur á manngildishugsjón
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Nína Richter skrifar: Fólkið sem notar internetið í vinnunni

Nína Richter skrifar: Fólkið sem notar internetið í vinnunni
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Enn eru fornmenn á ferð

Enn eru fornmenn á ferð
EyjanFastir pennar
13.06.2025

Nína Richter skrifar: Andlitin sem enginn man

Nína Richter skrifar: Andlitin sem enginn man
EyjanFastir pennar
12.06.2025

Svarthöfði skrifar: Froðusnakkar, orð að sönnu – stjórnarandstaðan velur sér nafn

Svarthöfði skrifar: Froðusnakkar, orð að sönnu – stjórnarandstaðan velur sér nafn