fbpx
Laugardagur 08.nóvember 2025
EyjanFastir pennar

Svarthöfði skrifar: Dans og leikur í Marbella – kennitöluflakk til Möltu?

Svarthöfði
Miðvikudaginn 1. október 2025 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sagt er að Neró keisari hafi dansað, sungið og spilað á fiðlu á meðan Róm brann.

Fréttirnar af falli Play voru slæmar en ekki með öllu óvæntar vegna þess að flugfélagið hefur tapað peningum á hverjum degi frá því að það var stofnað og hefur róið lífróður allt þetta ár. Þó virtist það komið í var eftir að tæpir þrír milljarðar komu inn í skuldabréfaútboði sem lauk fyrir rétt rúmum mánuði.

Hið skyndilega fall Play á mánudaginn virðist hafa komið öllum meira og minna í opna skjöldu. Samgöngustofa, sem hefur eftirlit með starfsemi flugfélaga, kom af fjöllum. Sama virðist gilda um forstjóra og stjórnarformann flugfélagsins.

Svarthöfða rak í rogastans er hann las það í Smartlandi á mbl.is í gærkvöldi að forstjóri Play, Einar Örn Ólafsson, og stjórnarformaður félagsins, Sigurður Kári Kristjánsson, lögmaður og fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, voru í skemmtiferð í Marbella á Spáni í glaum og gleði alla helgina fram á sunnudag, ásamt eiginkonum sínum:

„Smartland hefur heimildir fyrir því að ekkert hafi bent til þess að flugfélagið Play væri á leiðinni í gjaldþrot um helgina. Gleðin hafi verið við völd og fölskvalaus.

Það var ekki fyrr en á sunnudeginum að Einar Örn þurfti að komast til Íslands ásamt Sigurði Kára Kristjánssyni lögmanni og stjórnarformanni Play sem var í ferðinni ásamt eiginkonu sinni.

Aðrir þátttakendur í gleðinni urðu eftir í Marbella þegar Einar Örn og Sigurður Kári fóru til Íslands.“

Samkvæmt Smartlandi eiga Einar Örn og eiginkona hans hús á Marbella, sem er dýrasti staður í Evrópu. Áður fyrr voru Hollywood-stjörnur áberandi meðal íbúa borgarinnar og eru raunar enn, en síðustu árin hefur Marbella orðið uppáhaldsstaður rússneskra ólígarka og arabískra olíufursta sem setja mikinn svip á bæinn.

Svarthöfði veltir því fyrir sér hvað það var sem gerðist um helgina sem varð til þess að forstjórinn og stjórnarformaðurinn þurftu í ofboði að yfirgefa samkvæmið í Marbella og rjúka heim til Íslands til að loka Play. Hvað vissu þeir á sunnudagsmorgni sem lá ekki fyrir á föstudegi? Hver kippti í spottann? Var það bankinn? Skuldabréfaeigendur? Einhver annar?

Það vekur athygli Svarthöfða að í Morgunblaðinu í morgun kennir Einar Örn neikvæðri fjölmiðlaumfjöllun um fall félagsins. Bókunarstaðan hafi hrunið á undanförnum vikum. Varla kom það í ljós á sunnudagsmorgni í Marbella að bókunarstaðan hafði hrunið á nokkrum vikum. Eftir stendur spurningin: Hvað voru forstjórinn og stjórnarformaðurinn að gera í glamúrskemmtireisu í Marbella þegar það lá fyrir að bókunarstaðan var hrunin og Play á leiðinni lóðrétt í þrot? Voru þeir að rækja skyldur sínar við hluthafa félagsins? Hvað með kröfuhafa? Hvað með starfsfólkið? Nú eða viðskiptavinina?

Nú kemur í ljós að fjárfestar í skuldabréfaútboðinu eiga veð í öllum eignum hins íslenska Play, þar með talið dótturfélögum, hugbúnaði, vefsíðum, nafni, merki, hagstæðum leigusamningum – öllum eignum félagsins hverju nafni sem þær nefnast. Þar með eiga þessir kröfuhafar Play Europe á Möltu og fátt stendur því til fyrirstöðu að þeir geti farið í flugrekstur með það félag innan mjög skamms. Fjárfestarnir í skuldabréfaútboðinu í ágúst eru sagðir að uppistöðu vera eigendur félagsins og einhver hópur fjárfesta í kringum forstjórann.

Svarthöfði sér ekki betur en að nú hafi þessi hópur losað sig við Play á Íslandi sem kiknaði undan skuldahlassi upp á um 20 milljarða og fengið í hendurnar Play Europe sem er væntanlega skuldlaust félag, jafnvel mætti ætla að eitthvað af þeim fjármunum sem fengust í skuldabréfaútboðinu hafi runnið inn í það félag, enda lá alltaf fyrir að framtíðarflugrekstur Play yrði í gegnum það en ekki íslenska hlutann. Allar eignir Play á Íslandi fylgja inn í félagið á Möltu og því hægt að hefja flugrekstur undir sama nafni og merki – það þarf ekki einu sinni að mála vélarnar. Play Europe er ekki háð íslenskum kjarasamningum og verður því með mun lægri launakostnað en gamla Play.

Svarthöfði sér ekki betur en að hér sé um að ræða kennitöluflakk af dýrari gerðinni. Það er svo spurning hvort það gengur eftir. Skiptastjórar hljóta að taka það til skoðunar hvort allir gjörningar í kringum skuldabréfaútboðið í ágúst standist eða hvort hægt sé að fá þeim rift. Skiptastjórarnir vinna nefnilega fyrir alla hagaðila Play, ekki bara þá sem nú virðast vera búnir að krækja sér í skuldlaust flugfélag á slikk.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Óttar Guðmundsson skrifar: Gæsalifur og hvítvín

Óttar Guðmundsson skrifar: Gæsalifur og hvítvín
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Glæsilegur dagur íslenskra kvenna – baráttunni fyrir frelsi og réttlæti lýkur aldrei

Svarthöfði skrifar: Glæsilegur dagur íslenskra kvenna – baráttunni fyrir frelsi og réttlæti lýkur aldrei
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Sic transit gloria mundi

Björn Jón skrifar: Sic transit gloria mundi
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Flokkurinn sem er á móti frjálsri fjölmiðlun

Sigmundur Ernir skrifar: Flokkurinn sem er á móti frjálsri fjölmiðlun
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Milljarðafyrirtækin barma sér vegna fjölmiðlastyrks sem ætti ekki að skipta þau neinu máli

Svarthöfði skrifar: Milljarðafyrirtækin barma sér vegna fjölmiðlastyrks sem ætti ekki að skipta þau neinu máli
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Að fortíð skal hyggja, ef frumlegt skal byggja

Björn Jón skrifar: Að fortíð skal hyggja, ef frumlegt skal byggja
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Skortur á skilningi

Þorsteinn Pálsson skrifar: Skortur á skilningi
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Af útlenskum lögum á Íslandi

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Af útlenskum lögum á Íslandi