fbpx
Laugardagur 25.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vestræn gildi andspænis lögmáli frumskógarins

Eyjan
Fimmtudaginn 9. janúar 2025 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stundum gerist eitthvað það í einu Norðurlandanna sem hristir upp í hugsunum okkar og minnir á hversu örlög okkar allra sem löndin byggja eru í raun samofin. Þannig varð mér við þegar ég las fréttirnar um að forseti Bandaríkjanna vildi kaupa Grænland. Þær voru ekki aðeins fjarstæðukenndar heldur fannst mér þær stríða gegn samnorrænum gildum og þannig snerta Ísland á vissan hátt.“

Þetta er tilvitnun í grein, sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir núverandi utanríkisráðherra birti í Jyllands-Posten haustið 2019.

Þar hvatti hún norræna stjórnmálamenn af þessu gefna tilefni til að ræða hvernig Norðurlönd gætu styrkt samstöðu um norræn og vestræn gildi. Ekki aðeins á vettvangi Norðurlandaráðs heldur líka innan Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins.

Frumskógarlögmálið

Nú er Trump farinn af stað á nýjan leik með margfalt meiri þunga en fyrir fimm árum.

Vandinn liggur ekki í hefðbundinni togstreitu milli bandalagsríkja, sem leysa má eftir venjuhelguðum diplómatískum leiðum. Hann er miklu dýpri.

Boðskapur Trumps er: „Ameríka fyrst.“ Að baki þeim orðum gæti að vísu búið sama einlægni og í hvatningarorðum ungmennafélaganna í árdaga síðustu aldar: „Íslandi allt.“ En veruleikinn er annar.

Kjörinn forseti Bandaríkjanna er í raun að segja að héðan í frá gildi efnahagslegir og hernaðarlegir yfirburðir í samskiptum við önnur ríki. Með öðrum orðum: Lögmál frumskógarins gengur fyrir stofnanalegri umgjörð alþjóðlegrar samvinnu um varnir og viðskipti.

Flóknari mynd

Áhrif alþjóðlegra stórfyrirtækja gera þessa mynd enn flóknari. Mörg þeirra hafa miklu ríkari völd en flest þjóðríki.

Samvinna þjóðríkja er eina leið þeirra til að verja lýðræðið. Það hefur Evrópusambandið til að mynda gert með samræmdum aðgerðum í loftslagsmálum, með því að verja neytendur gegn einokun og einstaklinga gegn ógnum við persónulega friðhelgi.

Þetta eru verkefni sem jafnvel stærstu ríki Evrópu ráða ekki við ein síns liðs.

Eftir að ákveðið var að blanda hagsmunum Musks, ríkasta manns heims, og alþjóðlegu fyrirtækjaveldi hans inn í æðstu stjórn Bandaríkjanna er ljóst að hefðbundin samskipti þjóðríkja verða enn flóknari.

Nýr veruleiki

Trump boðar tollastríð gegn Kína, Mexíkó og Kanada, hefur fullveldi Kanada í flimtingum, sækir fastar eftir yfirráðum í Grænlandi, hótar tollastríði við Evrópu og reynir að sundra samstöðu Evrópu um vestræn gildi.

Musk beitir ólýðræðislegum stórveldisáhrifum og lýðræðislegu valdi sem hluti af stjórnkerfi Bandaríkjanna til að hafa áhrif á innanríkismál í ýmsum Evrópuríkjum. Hann vill ráða því hver er kanslari Þýskalands og hver gegnir stöðu forsætisráðherra Stóra-Bretlands.

Pútín hefur sínar aðferðir til að hafa áhrif á kosningar í lýðræðisríkjum. Musk gerir það sama.

Pútín vill ná yfirráðum í Úkraínu með hervaldi. Trump vill kaupa yfirráð í Grænlandi með peningum. Gjörólík aðferðarfræði. En að baki býr sams konar virðing fyrir sjálfsákvörðunarrétti minni þjóða.

Klípan

Klípan er í því fólgin að kjörinn forseti Bandaríkjanna deilir ekki pólitískum, menningarlegum og siðferðilegum gildum með þorra Evrópuríkja. Mismunandi tilbrigði af „Ameríka fyrst“ stefnunni hafa svo skotið rótum víða í Evrópu.

Á sama tíma er og verður Evrópa háð Bandaríkjunum bæði á sviðum viðskipta og varna. Samskiptin við Bandaríkin verða því áfram mikilvæg fyrir Ísland eins og önnur norræn og evrópsk ríki. En þverstæðan er sú að þau verða líkari samskiptum við alræðisríki.

Reiptogið um vestræn gildi stendur ekki bara milli lýðræðisríkja og alræðisríkja. Sá reipdráttur er einnig innbyrðis í lýðræðisríkjunum og á milli þeirra. Fyrir vikið er styrkur hornsteina vestrænna gilda, Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins, minni en áður var.

Viðbrögðin

Viðbrögðin eiga ekki að felast í vantrú á þessi bandalög. Þvert á móti er mikilvægt að styrkja stöðu okkar innan þeirra beggja.

Norðurlönd og norræn gildi eru sterkari innan Atlantshafsbandalagsins eftir inngöngu Svía og Finna. Þau yrðu á sama hátt sterkari innan Evrópusambandsins ef Norðmenn og Íslendingar gerðust fullgildir aðilar.

Aðstæður hafa breyst. Það kallar á ný viðbrögð. Norðurlönd þurfa að sameina krafta sína í stærra samhengi í varðstöðu um norræn og vestræn gildi, frjáls viðskipti og frelsi einstaklinganna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Óttar Guðmundsson skrifar: Þrengslin í bænum

Óttar Guðmundsson skrifar: Þrengslin í bænum
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Þankar um aga og uppeldi

Björn Jón skrifar: Þankar um aga og uppeldi
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótauppgjör

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótauppgjör
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Góðavondafólkið

Steinunn Ólína skrifar: Góðavondafólkið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótaávarp

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótaávarp
EyjanFastir pennar
07.12.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Furðulegt kosningakerfi

Óttar Guðmundsson skrifar: Furðulegt kosningakerfi
EyjanFastir pennar
06.12.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?