fbpx
Miðvikudagur 16.júlí 2025
EyjanFastir pennar

Nína Richter skrifar: Andlitin sem enginn man

Eyjan
Föstudaginn 13. júní 2025 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þrjú hundruð mis-merkilegar ljósmyndir voru afrakstur sjö daga ferðar til Búdapest. Tásumyndir úr heilsulind, af morgunverði á hótelinu, sögufrægum byggingum og veggjalist. Myndir af mér og manninum mínum.

Beint á móti hótelinu okkar í gamla gyðingahverfinu var fornmunaverslun. Veggir, loft og gólf þakin óþægilega persónulegum munum í bland við þráðlausa heimasíma frá 1998 í upprunalegum umbúðum. En líka skírteini sem vottaði kennsluréttindi á fjórða áratugnum og þakkarvottur fyrir herþjónustu, innbundinn í leður. Þreyttar sleifar sem einhvern tímann hrærðu í kvöldmat fyrir svanga maga, bústnar englastyttur, minjagripir úr Spánarferð sem enginn man eftir lengur.

Hjartað í versluninni sló þó í stórum og skítugum plastkössum sem höfðu að geyma mörg kíló af gömlum ljósmyndum af smábörnum með mjólkurtennur, feimnum fullorðnum, fjölskyldum og útskriftarárgöngum. Andlit án texta, án nafna. Þarna var aðeins augnaráð og órætt samhengi. Þessi verslun var ekki flóamarkaður sem minnti á sturlað neyslusamfélag heldur var hann minnisvarði um eitthvað sárt og sammannlegt. Hér var undiraldan söguleg arfleifð landsins. Nasistar myrtu hálfa milljón ungverskra gyðinga í seinni heimsstyrjöld. Hundruð þúsunda borgarbúa flúðu ofsóknir á sjötta áratugnum. Hatrið var oft ansi nálægt því að sigra.

Í huganum spurði ég hvert einasta andlit hvort að það hefði tilheyrt þessum hörmungum og hvað þeim myndi finnast um að hafa endað í þessum kassa, til sölu á hundrað og fimmtíu forintur. Eða kannski var þetta fólk sem átti ágætis líf og var jafnvel enn á lífi. Ég tók mynd af myndunum. Varð aftur sú sem varðveitti, hluti af ósýnilegri minningakeðju. Ég varðveitti þó lítið annað en sjálfa mig og mínar eigin tilfinningar eins og nútímakona með aðalpersónuveiki. Það var í besta falli vemmilegt að hugsunin um andlitin væru spegill fyrir mínar eigin hugleiðingar um dauða, menningu og tímann. Þetta fólk átti betra skilið en að verða tannhjól í sjálfhverfri vangaveltu. En á sama tíma var það óhjákvæmilegt. Hugsunin var hugsuð.

Við erum hætt að prenta myndir og búa til fjölskyldualbúm. Öll mín persónulega heimildaskráning um ástir og örlög fer fram á stafrænum miðlum.

Það verður því sennilega enginn stafrænn ljósmyndakassi sem starir til baka á ferðamenn framtíðarinnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Steindautt samband

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Steindautt samband
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Skortur á manngildishugsjón

Björn Jón skrifar: Skortur á manngildishugsjón
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Margur verður af aurum api

Óttar Guðmundsson skrifar: Margur verður af aurum api
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Nína Richter skrifar: Fólkið sem notar internetið í vinnunni

Nína Richter skrifar: Fólkið sem notar internetið í vinnunni
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum
Enn eru fornmenn á ferð
EyjanFastir pennar
14.06.2025

Óttar Guðmundsson skrifar: Ofbeldi í nánum samböndum

Óttar Guðmundsson skrifar: Ofbeldi í nánum samböndum
EyjanFastir pennar
12.06.2025

Svarthöfði skrifar: Froðusnakkar, orð að sönnu – stjórnarandstaðan velur sér nafn

Svarthöfði skrifar: Froðusnakkar, orð að sönnu – stjórnarandstaðan velur sér nafn