fbpx
Laugardagur 11.maí 2024
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Afleiðing veltuhraða á ráðherrastóli

Eyjan
Fimmtudaginn 15. febrúar 2024 06:00

Grein Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur og dómsmálaráðherrar frá 2013: Hanna Birna Kristjánsdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Ólöf Nordal, Sigríður Andersen, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Jón Gunnarsson og Guðrún Hafsteinsdóttir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dómsmálin hafa verið á höndum þingflokks sjálfstæðismanna frá árinu 2013. Á þessum ellefu árum hafa átta ráðherrar gegnt embættinu, þarf af sjö sjálfstæðismenn. Í rúma þrjá mánuði árið 2014 fól þingflokkur þeirra forsætisráðherra úr Framsókn að fara með málaflokkinn samhliða.

Þetta er ótrúlegur veltuhraði á einum ráðherrastóli. Á næsta ellefu ára tímabili þar á undan sátu fjórir dómsmálaráðherrar.

Viðhorfsbreyting

Framkvæmd laga og réttar er ein helsta frumskylda ríkisvaldsins. Dómsmálaráðuneytið er þannig þungamiðja í stjórn ríkisins án þess að lítið sé gert úr pólitísku mikilvægi annarra ráðuneyta.

Erfitt er að draga aðra ályktun en þá að pólitíska matið á vægi réttarvörslukerfisins sé öfugt hlutfall við ráðherraveltuhraðann.

Þetta mat á mikilvægi stöðugleika og stjórnfestu í dómsmálum lýsir mikilli viðhorfsbreytingu þegar litið er til þess, að á lýðveldistímabilinu frá 1944 og fram til 2013 sátu sjö þingmenn á vegum Sjálfstæðisflokksins á stóli dómsmálaráðherra samtals í 37 ár.

Afleiðingar

Ég hygg að afar slæma stöðu réttarvörslukerfisins megi skrifa á reikning þeirrar lausungar, sem oftast fylgir miklum ráðherraveltuhraða, fremur en hæfi þeirra, sem setið hafa stólinn.

Núverandi dómsmálaráðherra segir að algjört stjórnleysi ríki í innflytjendamálum eftir ellefu ára samfellda setu samflokksmanna.

Forveri núverandi dómsmálaráðherra hefur tekið enn dýpra í árinni. Hann hefur jafnframt talið að  öryggi borgaranna hafi veikst alvarlega fyrir þá sök að ekki skuli hafa tekist að lögfesta sambærilegar rannsóknarheimildir lögreglu og tíðkast í grannríkjunum.

Ólögmæt skipun dómara í Landsrétt setti nýtt dómstig í uppnám um langa hríð. Málsmeðferðartími fyrir dómstólum hefur svo verið að lengjast þrátt fyrir nýtt dómstig og verulega aukinn kostnað. Langur málsmeðferðartími veikir það réttlæti sem dómstólarnir eiga að tryggja.

Svört skýrsla

Nýlega birti Ríkisendurskoðun svarta skýrslu um stöðu fangelsismála.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar segir í Morgunblaðsgrein síðasta mánudag að hin hliðin á því að fangelsisdómar fyrnast sé sú að niðurstaða dómstóla sé ekki virt. Það er mjög alvarleg staða í réttarríki.

Dómsmálaráðherra sagði í svari við fyrirspurn þingmannsins að tæplega tvö ár líði að meðaltali frá því að dómur fellur og þar til afplánun hefst. Þetta er neyðarástand.

Ráðherrann upplýsir enn fremur að á síðasta áratug hafi 31 dómur fyrir ofbeldisbrot fyrnst og meira að segja fjórir dómar fyrir kynferðisbrot.

Pólitískt áhugaleysi

Í Morgunblaðsgrein sinni í síðustu viku dregur Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir fram alvarlegar tölulegar staðreyndir um mannafla lögreglunnar. Einkum hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu verið vanrækt þótt hún fái til meðferðar allt að 80 prósent allra hegningarlagabrota í landinu.

Þingmaðurinn bendir á að frá stofnun embættis lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu 2007 hafi lögreglumönnum fækkað um 12 prósent á sama tíma og íbúafjöldinn hefur vaxið um 25 prósent.

Í sjónvarpsfréttum sama dag vakti lögreglustjórinn á Akureyri athygli á sambærilegri hnignun þar.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir segir enn fremur í grein sinni að svo fámenn lögregla geti ekki veitt íbúum það öryggi sem ætlast má til og lögreglumenn búi ekki heldur við öruggt starfsumhverfi eins og nýleg dæmi sýna.

Það er einnig umhugsunarefni að fjöldi lögreglumanna á hverja 100 þúsund íbúa var árið 2020 næstlægstur á Íslandi í samanburði 32. Evrópuríkja.

Verkin tala

Allar þessar tölulegu staðreyndir eru til marks um alvarlegt pólitískt áhugaleysi eða kæruleysi og vanmat á mikilvægi réttarvörslukerfisins.

Í þessu efnum eins og öðrum eru það verkin sem tala en ekki orðin.

Skyndileg vanþóknun á eigin stjórnleysi í innflytjendamálum er ekki trúverðug í ljósi þessarar löngu vanrækslu í málefnum réttargæslunnar almennt.

Forgangsröðun

Vitaskuld snýst þetta um peninga.

Í því samhengi er rétt að hafa í huga að engir hafa hneykslast meir á útþenslu ríkiskerfisins og óhóflegri fjölgun opinberra starfsmanna en þingmenn sjálfstæðismanna. Þversögnin er sú að þeir bera sjálfir ábyrgð á þeirri þróun og telja sig líka hafa haft full efni á henni.

Hin hliðin á þessum þversögnum sýnir glöggt hversu neðarlega þeir hafa sett réttarvörsluna í forgangsröðun sinni síðustu ellefu ár. Hvers vegna gekk annað fyrir?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvað ætti forseti að gera?

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvað ætti forseti að gera?
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Trausti rúinn og reistur til valda

Sigmundur Ernir skrifar: Trausti rúinn og reistur til valda
EyjanFastir pennar
04.04.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp
EyjanFastir pennar
31.03.2024

Björn Jón skrifar: Að sigra dauðann

Björn Jón skrifar: Að sigra dauðann
EyjanFastir pennar
24.03.2024

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Örlæti andans

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Örlæti andans
EyjanFastir pennar
23.03.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Hægrimenn óttast sköpunarkraftinn

Sigmundur Ernir skrifar: Hægrimenn óttast sköpunarkraftinn